Einn smellur og allt er á einum stað

Í netnámi vetrarins hef ég lagt mig fram um að námsefnið og annað sem skiptir máli sé sem aðgengilegast fyrir nemendur þannig að þau eigi auðvelt með að fá yfirsýn og viti án mikillar fyrirhafnar hvað sé efst á baugi eða næst á döfinni innan námskeiðanna sem ég hef haft umsjón með.

Háskóli Íslands hefur í vetur innleitt námsumsjónarkerfið Canvas og að mínu mati er óhætt að segja að það hafi verið gert þannig að kennarar eigi alltaf aðgang að stuðningi og leiðbeiningum, ýmist innan kerfisins með því að skoða myndbönd eða með því að biðja um aðstoð á hefðbundinn máta með tölvupóstum eða netfundum.

Canvas hefur marga möguleika í netnámi sem hægt er að nýta til samstarfs nemenda og miðlunar á efni en á meðan verið er að læra á það allra nauðsynlegasta eins og að setja upp námskeið, miðla fyrirlestrum, koma skilaboðum til nemenda og að stilla verkefnin af er varla hægt að kynna sér möguleikana á því að tengja það við önnur forrit eða vefsvæði. Ég hlakka til næsta vetrar og að fá þá tíma og tækifæri til að kanna fleira sem Canvas hefur upp á að bjóða.

Haustið 2019 kynntist ég vefsvæðinu og smáforritinu Wakelet þegar ég var að safna saman tístum með ákveðnu myllumerki. Í vetur fór ég svo að skoða það betur og möguleikana á að nota það í skipulagi á kennslu og hvernig það væri hægt að tengja það við Canvas. Ég sá að það hefur ótal skemmtilega möguleika; ekki bara vegna þess hversu aðgengilegt það er heldur líka hve auðvelt er að nota það í samstarfi og verkefnavinnu nemenda.

Halda áfram að lesa

#12dagaTwitter, miðlun og söfnun hugmynda

Um þessar mundir stendur Sif Sindradóttir fyrir viðburðinum #12dagaTwitter á mikróblogginu og samfélagsmiðlinum Twitter. Með framtakinu hvetur hún þau sem starfa við menntastofnanir og sem vilja að deila með öðrum ákveðnu efni, pælingum, áformum og fleiru úr skólastarfi. Um er að ræða eitt tíst á dag í tólf daga og er þetta í þriðja sinn sem hún stendur fyrir þessu framtaki. Mér sýnist á öllu að í ár ætli óvenju margir að vera með.

Þó að framtak af þessu tagi láti lítið yfir sér þá gætir áhrifa þess víða og er hvatning til skólafólks til að skoða hvað það er í starfi sínu sem það vill deila með öðrum. Ég held líka að það séu ekki bara þeir sem tísta sem séu að fylgjast með samtalinu á #12dagaTwitter heldur eigi framtakið sér marga „þögla“ þátttakendur sem lesa og vonandi nýta sér eitthvað af því sem þarna er deilt.

Halda áfram að lesa

Að læra saman og hvert af öðru

Í síðustu viku sat ég málþing verkefnisins Gerum gott betra í Hofi á Akureyri. Á málþinginu sögðu þrír iðjuþjálfar og einn þroskaþjálfi, sem allar starfa við stoðþjónustu í þremur grunnskólum við Eyjafjörð, frá reynslu sinni og þekkingu af því að rýna í eigin starfshætti á síðasta skólaári. Á þær hlustuðu tæplega 90 manns. Þær miðluðu svo glærunum sínum einnig á vefsvæði málþingsins. Þannig deildu þær hugmyndum sínum, þekkingu og reynslu með enn fleirum en þeirra sem hlustuðu á þær í Hofi þennan eftirmiðdag.

Fræðimaðurinn og fyrirlesarinn Andy Hargreaves var aðalfyrirlesarinn á nýafstaðinni námstefnu Skólastjórafélags Íslands. Á vinnustofunni sem hann hélt benti hann gestum hennar á notagildi samfélagsmiðla í starfsþróun og nefndi Twitter sérstaklega. Fyrir námstefnu SÍ sagðist hann hafa sett færslu inn á Twitter reikninginn sinn og lagt spurningu fyrir fygljendur sína og ávarpað sérstaklega þá sem hann vissi að höfðu nokkra vitneskju vegna rannsókna sinna og skrifa um málefnið:

Á aðeins 4 dögum fékk hann meira en 40 svör og úr þeim spann hann svo erindi sitt og umræðuefni sem hann lagði fyrir gesti vinnustofunnar. Með þessu móti safnaði hann og nýtti raungögn úr daglegu lífi skólastjórnenda víðs vegar úr heiminum. Þannig varð auðveldara en ella fyrir gesti vinnustofunnar að taka þátt í umræðum, setja sig í spor kollega, segja frá eigin starfi og læra af reynsu þeirra.

Ég tek undir með Andy Hargreaves að Twitter er öflugur miðill til starfsþróunar. Þar er mjög auðvelt að að læra með öðrum og af öðrum. Ég hef reynt að miða við að Twitter aðganginn minn noti ég aðeins til að fylgjast með og miðla efni sem fjalla um menntamál. Það geri ég með því að fylgja kennurum og öðrum sem láta sig menntamál varða og einnig fylgi ég ákveðnum myllumerkjum sem segja frá einstökum viðburðum eða málefnum. Myllumerkið #menntaspjall er eitt þeirra. Það nota kennarar til að deila efni og reynslu í skólastarfi og einnig til að spjalla um álitamál.

Á áðurnefndri námstefnu Skólastjórafélags Íslands voru námstefnugestir hvattir til að nota myllumerkið #skólastjórnun til að tísta frá námstefnunni. En skólastjórnendur hafa tíst frá námstefnum sínum frá árinu 2013 og með hverju árinu bætast fleiri tístarar í hópinn. Með því er búinn til vettvangur þar sem gestir námstefnanna glósa saman og á rauntíma deila þeir lærdómi sínum einnig með þeim sem ekki eru staðnum. Ég verð seint leið á að benda á þessa mikilvægu kosti Twitter og myllumerkja.

Í gegnum tíðina hafa verið til nokkur verkfæri sem halda utan um myllumerki og annað efni á vefnum. Storify var eitt þeirra en í maí í fyrra var það tekið af markaðnum. Wakelet er nú það verkfæri sem flestir nýta sér m.a. til gera samantektir byggðar á myllumerkjum og öðrum færslum um viðburði og málefni. Ég notaði þetta verkfæri í fyrsta skiptið eftir námstefnu SÍ um daginn og sé ekki betur en að það sé einfalt og þægilegt í notkun.

Einnig sýnist mér að Wakelet hafi fleiri möguleika en Storify hafði. Það er fljótlegt að setja það þannig upp að hægt sé að búa sér til eigin glósubók eða geymslustað fyrir hlekki, myndir og fleira um málefni eða viðburði. Þannig ætti það að geta líka nýst í skólastarfi – enda er í deilingarmöguleikum Wakelet gert ráð fyrir að hægt sé að deila efni þaðan beint á Google Classroom.

Rafræn starfsþróun, hvort sem hún er á samfélagsmiðlum eða annars staðar á netinu, er kærkomin viðbót við aðra möguleika til starfsþróunar. Helstu kostir hennar eru að hana er hægt að stunda hvar sem er, hvenær sem er, einn eða með öðrum og út frá áhuga og þörfum hvers og eins hverju sinni. Og umfram allt stækkar hún tengslanet þeirra sem hana stunda og með þátttöku í henni leggur hver og einn sitt af mörkum bæði til eigin starfsþróunar og annarra. Það er sannarlega starfsþróun sem jöfnum höndum tekur mið af menntun sem nýtist í samtímanum og einnig til framtíðar.