Hrákaka Höllu með volgri aðalbláberjasósu

img_2326

Í berjamó undir Hraundranganum.

Ég hef áður sagt frá því að á kennarastofum skiptast kennarar ekki bara á upplýsingum um nám og kennslu heldur líka og ekki síður á uppskriftum. Þessa uppskrift fékk ég á kennarastofunni fyrir nokkrum árum og hef gert hana all nokkrum sinnum með góðum árangri. Síðast gerði ég hana í gær þegar saumaklúbburinn minn kom í síðdegiskaffi og spjall. Þá bar ég í fyrsta skiptið fram með henni volga bláberjasósu úr frosnum aðalbláberjum sem tínd voru undir Hraundranganum í Öxnadal. Svo var auðvitað líka með henni þeyttur rjómi. Aðalbláberjasósan var algert fyrirtak með þessari köku og framvegis verður kakan ekki borin öðruvísi fram.

1 bolli döðlur

1 bolli sveskjur

1/2 bolli valhnetur

1/2 bolli pekanhnetur

(eða bara einn bolli af annarri hvorri sortinni)

1 banani

1 bolli (ekki endilega það allra fínasta) kókosmjöl

Safi úr hálfri sítrónu (eða límónu)

1 tsk vanilluduft

1/3 tsk salt

2 msk kókosolía (fljótandi, ég velgi hana í örbylgjuofninum)

1 msk góð matarolía

1 msk vatn

Ofan á kökuna: 150 g gott dökkt brætt súkkulaði og 1 msk matarolía. Súkkulaðið bræði ég yfir vatnsbaði og bæti olíunni svo saman við.

Döðlur, sveskjur og hnetur eru saxaðar smátt og bananinn er stappaður og öllu er hrært saman í skál. Kókosmjölinu er bætt saman við. Síðan er öðru hráefni blandað saman við. Þetta er sett í ca 22 cm kökuform með bökunarpappír og þappað vel. Geymt í kæliskáp þar til hún er orðin köld í gegn (ca 2 tíma). Þá er hún losuð úr forminu, sett á kökudisk og súkkulaðið sett yfir hana. Sett aftur inn í ísskáp þar til súkkulaðið hefur stirðnað.

Borin fram með þeyttum rjóma og volgri aðalbláberjasósu sem gerð er með því að hita frosin aðalbláber.

Berjasíróp

Rifsberjasíróp með myntu og tímían

Rifsberjasíróp með myntu og tímían

Í fyrra þegar ég gerði berjahlaup úr öllum sólberjunum, hrútaberjunum og rifsberjunum fannst mér sóun að henda hratinu. Mér datt þá í hug að búa til berjasíróp og nota hratið til að fá berjabragðið. Það tókst vel en ég þurfti að hafa svolítið fyrir því að fá litlar flöskur undir það. Ég fékk að lokum tómar litlar hvítvínsflöskur hjá veitingasala á Akureyri sem var feginn að losna við þær úr „ruslinu“ hjá sér. Hann sagði að flöskurnar væru óvenju margar hjá sér í þetta skiptið því nokkrir kvennahópar hefðu verið í bænum og konurnar hefður verið sérstaklega þyrstar á búðarápinu. Ég bý enn að þessum birgðum.

Sírópið var svo notað á pönnukökur, vöfflur, sem sósa útá ís og skyr, á eftirrétti eins og ostakökur og til að bragðbæta sósur og te. Ég setti það líka saman við olíu og balsamikedik og setti yfir salat. Ég hef einnig notað það til að setja sódavatnið í sparibúning.

Í gær var ég svo í Tiger að sækja mér kerti og servíettur til að lífga uppá húmið. Þar rakst ég á litlar sætar flöskur með smellutappa. Ég tók nokkrar með mér því ég ætlaði að gera rifsberjahlaup seinni partinn og ég gæti allt eins gert örlítið af sírópi úr því ég hefði fengið svona sætar flöskur.

Í gær setti ég 1 lítra af vatni og 500 g af hrásykri í pott. Þegar sykurinn var uppleystur í vatninu setti ég um það bil 1 kg af hrati úti sykurvatnið. Þetta lét ég sjóða í 10 mínútur. Svo sigtaði ég hratið frá og setti löginn aftur í pott, lét suðuna koma upp og sauð aftur í 15 mínútur. Það gerði ég til að þykkja sírópið. Úr þessu varð um það bil 1,5 lítri af sírópi. Auðvitað þarf ég ekki að gera svona mikið síróp en með þessu móti get ég gefið vinum mínum með mér. Og eins og Gunna frænka segir þá tekur því ekki að skíta út eldhúsið fyrir eitthvert smotterí.

Venjulega læt ég magn af sykri, vatni og berjum ráðast af berjum og aðstæðum hverju sinni. En þumalputtareglan er sú að noti ég hvítan sykur þá hef ég sama magn og af sykri og vatni. En ef ég nota hrásykur nota ég helmingi minna af sykri en vatni. Hratið er ekki svo nauið með. Ég sé venjulega á pottinum hvenær nóg er komið.

Í gær átti ég smávegis eftir af myntu úti í garði og einnig tímían. Í tvær flöskur setti ég grein af myntu og svo setti ég grein af tímían í nokkrar. Í þrjár flöskur fór ómengað rifsberjasíróp. Það var yndislegur ilmur sem kom uppúr flöskunum þegar ég hellti sjóðheitu sírópinu yfir kryddjurtirnar. Þá datt mér í hug að gaman væri að setja blóðberg útí hrútaberjasíróp. Það verður með í næstu lögun. En kryddsírópið hugsa ég mér að nota með kjöti og út á salat. Ég smakkaði það í teskeið í morgun og það er gómsætt, sérstaklega tímíansírópið.

Þeir sem vilja vera nákvæmir og ekki gera mikið magn í einu geta prófað uppskrift Sigurveigar Káradóttur úr bókinni Sultur allt árið:

300 g bláber

200 ml vatn

200 g sykur

1 vanillustöng

Allt sett í pott og látið malla við vægan hita í 10 mínútur. Þá er blöndunni rennt í gegnum sigti og sigtað vel svo eins mikill safi náist úr berjunum og mögulegt er. Vökvinn er aftur settur í pott og hitaður að suðu. Þá er sírópinu rennt í krukku eða flösku.

Í sveppamó

Lerkisveppir

Lerkisveppir

Fyrir nokkrum árum byrjaði ég að tína sveppi. Enda eru aðstæður hér á Þelamörkinni til þess einstaklega góðar, skógar og mólendi við túnfótinn. Síðan í fyrra hef ég stutt mig við bókina Matsveppir í náttúru Íslands eftir Ásu Margréti Ásgrímsdóttir.

Í ár er mikið af sveppum og því um að gera að fara í sveppamó á meðan ég bíð eftir því að berin verði sæt og góð.

Fyrir þá sem vilja byrja á sveppatínslu setti ég saman glærusýningu á Prezi um sveppatínsluna á Mörkinni. Við vinnslu sýningarinnar lærði ég á Prezi og einnig á nokkra fídusa í myndvinnslu í Iphoto.

Ég studdist við bókina hennar Ásu Margrétar og eigin reynslu.

Með því að smella hér getur þú skoðað sýninguna.

Og með því að smella hérna getur þú skoðað uppskrift að skógarsveppasúpunni af Mörkinni.

 

Pestó

Image

Uppistaðan í rauðu pestó

Ég veit ekki hvernær ég kynntist pestó en eins og hjá fleirum er það orðið sjálfsagður hluti af því sem naslað er á Mörkinni. Oftast er það notað sem álegg eða viðbit á brauð en líka út á gott pasta; bæði út á heitt pasta og í kalt pastasalat.

Það eru til allnokkrar útgáfur af pestó. Sú sem er vinsælust hér á bæ er sú rauða (kallað Rauða hættan) og einnig hið hefðbundna græna basilikkupestó og líka klettasalatspestó. Þó ég eigi uppskrift að hundasúrupestó hefur ekki enn orðið úr því að ég búi það til.

Uppistaðan í pestó er auðvitað basil og besta bragðið fæst þegar næst að fá ferskt basil úr eldhúsglugganum. Síðan þarf í það furuhnetur eða möndlur (helst hýðislausar), parmesanost, hvítlauk og ólífuolíu. Í rauða pestóið bætast svo sólþurkkaðir tómatar.

Þó pestó hafi upprunalega verið búið til í morteli þá er venjan nú á dögum að nota matvinnsluvélar. Ég nota gamla múlínexið. Ég á enga eiginlega uppskrift að pestói en reyni að miða við það sem er hér fyrir neðan. Bæti því sem mér finnst vanta í uppskriftina hverju sinni til að fá „rétta“ áferð, þykkt eða bragð.

Grænt pestó I

2 lúkur af basil blöðum

25 g ristaðar furuhnetur

2 hvítlauksrif

75 g nýrifinn parmesanostur

Góð ólífuolía (ca 0,5-1 dl.) þar til maukið hefur fengið þá áferð og þykkt sem vill. Örlítið af salti (osturinn er saltur svo það þarf ekki mikið) og malaður svartur pipar og sítrónusafi.

Setjið basilblöðin, furuhneturnar og hvítlaukinn í matvinnsluvél. Setjið maukið í skál, rífið ostinn yfir og blandið ólífuolíunni saman við. Saltið og piprið eftir smekk.

Grænt pestó II (frá Önnu Rósu Bjarnadóttur vinkonu minni)

150 g kasjúhnetur sem hafa verið aðeins ristaðar í ofni

Safi úr einni sítrónu

2 hvítlauksgeirar

2 dl ólífuolía

2 tsk maldon salt eða auðvitað saltið af Reykjanesi við Djúp

1,5 búnt af ferskri baskilikku

Allt er sett í matvinnsluvél þar til það er orðið að mauki.

 

Grænt pestó III

2-3 lúkur af klettasalati

0,5 lúka af basilblöðum

25 g ristaðar furuhnetur

1 hvítlauksrif

75 g rifinn parmesanostur

Góð ólífuolía (ca 0,5-1 dl.) þar til maukið hefur fengið þá áferð og þykkt sem vill. Örlítið af salti (osturinn er saltur svo það þarf ekki mikið) og malaður svartur pipar og sítrónusafi.

Setjið klettasalatið, basilblöðin, furuhneturnar og hvítlaukinn í matvinnsluvél. Setjið maukið í skál, rífið ostinn yfir og blandið ólífuolíunni saman við. Saltið og piprið eftir smekk.

Rauða hættan (hættulega gott, maður hættir ekki fyrr  en allt er búið)

1 krukka af sólþurrkuðum tómötum (veiða tómatna uppúr og setja olíuna til hliðar)

1,5 lúka af basil blöðum

2-2,5 lúkur af ristuðum furuhnetum (fara samt varlega með magnið því bragðið á þeim má ekki yfirgnæfa tómat-, basil- og parmesanbragðið). Sumir nota hýðislausar möndlur í rautt pestó og það er í lagi. Mér finnast furuhneturnar samt betri.

1 hvítlauksrif

50-75 g (eftir smekk) nýrifinn parmesanostur

Olían af tómötunum. Örlítið af salti (osturinn er saltur svo það þarf ekki mikið) og nýmalaður svartur pipar. Setjið tómatana, basilblöðin, furuhneturnar og hvítlaukinn í matvinnsluvél (eða hakkavélina). Setjið maukið í skál, rífið ostinn yfir og blandið olíunni saman við. Saltið og piprið eftir smekk. Ef olían af tómötunum dugar ekki til að fá þá þykkt bæti ég góðri ólífuolíu saman við maukið.

Hundasúrupestó

Í matreiðsluþættinum Á bak við eldavélina í fréttabréfi Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá því í maí 2010 gefur kona að nafni Bolette upp uppskrift að hundasúrupestó. Til gamans læt ég þessa uppskrift fylgja með því á henni sést og einnig hinum hér að ofan að uppistaðan í maukinu er oftast sú sama og það er um að gera að leyfa hugmyndafluginu og bragðlaukunum að ráða við pestógerðina.

80 g hundasúrur, graslaukur, fíflablöð, steinselja eða annað grænt sem til er í húsinu eða garðinum

25 g furuhnetur

1 hvítlauksgeiri

salt

ólífuolía

3 msk ferskur rifinn parmesanostur

Setjið það græna, hnetur, hvítlauk og salt í matvinnsluvél þannig að það saxist smátt. Bætið olíu út í þangað til að ykkur finnst það mátulega lint. Bætið ostinum við í lokin.

 

Fjallagrasabrauðið

fjallagrosEin af dillum mínum er að geta ekki gengið framhjá fjallagrasaþúfu án þess að fara fingrum um hana og velta fyrir mér hvort ég eigi nokkuð nóg af grösum heima. Oftast rata nokkur grös ofan í vasa minn eða poka. Þegar heim er komið þarf að hreinsa grösin, þurrka þau og ég geymi þau í glerkrukkum sem ég merki fundarstað þeirra og ártali.

Bestu grösin finnast mér auðvitað grösin frá Hornströndum. Það eru engar ýkjur að þau grös eru stærri og kraftmeiri en þau sem ég rekst á nærri byggð. Það sé ég greinilega þegar ég ber þau saman önnur grös úr merktu krukkunum!

Helst nota ég fjallagrösin í bakstur og í morgun hrærði ég í fjallagrasabrauð. Upphaflegu uppskriftina fékk ég hjá Lillu á Hnjúki í Skíðadal en ég hef aðeins lagað uppskriftina að því sem mér þykir best.

Fjallagrasabrauð

2 bollar fínt speltmjöl

2 bollar gróft speltmjöl (eða íslenskt malað bygg)

2 msk hrásykur (eða hunang)

2 tsk vínsteinslyftiduft (allt í lagi að nota það venjulega)

1/2 tsk natron

1/2 dl kúmen (má steyta það ef tími er til)

1/2 dl sesamfræ

4,5 dl mjólk (það má líka setja bara 2,5 dl. á móti 2 dl af AB mjólk)

um það bil 1 bolli af bleyttum fjallagrösum

0,5-1 tsk af Reykjanessaltinu góða (þá fæst líka bragð af Ísafjarðardjúpinu  í brauðið)

Allt sett í skál og hrært vel saman. Ekki hræra mikið því speltbrauðin verða seig ef maður hamast mikið í deiginu. Deiginu er skipt í 2 lítil form og brauðin eru bökuð neðst í ofni í 1 klst við 190°C. Ekki er mælt með því að nota blástur.