Hugmyndasprengjan á Snæfellsnesinu I

IMG_7373

Þátttakendur á Makerý gerðu orðaský með því að skrifa orð sem lýstu helginni. Á því er ljóst að helgin var bæði fróðleg og skemmtileg.

Um síðustu helgi var ég svo lánsöm að fá að vera þátttakandi í viðburðinum Makery á Snæfellsnesi. Viðburðurinn byggði á kynningu á Makery hugmyndafræðinni. Kynningin samanstóð af skólaheimsóknum, fyrirlestrum, verkefnum og vinnusmiðjum. Hún stóð yfir frá föstudegsmorgni til hádegis á sunnudegi. Að kynningunni stóðu konur sem kenna sig við Vexahópinn. Þær eru:

  • Anna María Þorkelsdóttir, Kennsluráðgjafi Hörðuvallaskóla
  • Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, UT kennslufulltrúi Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar
  • Erla Stefáns, verkefnastjóri Mixtúru margmiðlunarvers Reykjavíkurborgar
  • Hildur Rudolfsdóttir, UT kennsluráðgjafi Garðaskóla Garðabæ
  • Hugrún Elísdóttir, UT verkefnastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar
  • Rósa Harðardóttir, skólasafnskennari og UT Verkefnastjóri Selásskóla
  • Þorbjörg Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar

Föstudagurinn 28. september

Snillismiðjan hennar Hullu

Dagurinn hófst kaffispjalli á kennarastofu Grunnskóla Grundarfjarðar áður en haldið var í rútuferð til Ólafsvíkur. Þar heimsóttum við snillismiðjuna sem Hugrún (Hulla) hefur sett upp. Smiðjan er í skúr á skólalóðinni og hún varð þannig til að það átti að rífa skúrinn en Hulla fékk að halda honum með það að markmiði að setja þar upp snillismiðju.

Hulla hefur komið sér og snillinni vel fyrir í skúrnum. Þar er alls kyns efniviður ásamt nokkuð af tækni sem nýtast í starfi smiðjunnar. Hulla sýndi okkur dæmi um verkefni sem nemendur hafa og geta unnið í smiðjunni. Þar á meðal voru þrívíð verkefni sem voru senur í ritunarverkefnum nemenda. Eitt þeirra var meira að segja með möguleikum til að hreyfa fígúrurnar í senunni. Einnig sagði hún okkur frá verkefni sem var unnið í samstarfi við samtökin Sole Hope. Í því tóku nemendur þátt í að safna gallabuxum sem voru klipptar niður í snið af skóm sem voru svo saumaðir handa börnum í Uganda. þar borast lirfur í iljar barnanna ef þau ganga berfætt. Sem þau að öllu jöfnu gera vegna þess að þau eða foreldrar þeirra hafa ekki efni á því að kaupa skó eða þá að skór eru ekki aðgengilegir í nágrenni þeirra.

 

This slideshow requires JavaScript.

Í snillismiðjunni er augljóst að þar fær sköpunargleði bæði nemenda og kennara að  njóta sín og þar er hugvitið líka virkjað. Það verður gaman að fylgjast með notkun smiðjunnar og þróun hennar í framtíðinni.

Áður en við yfirgáfum snillismiðju Hullu sýndi Hildur okkur tvö myndbönd sem skýrðu tengsl hugmyndafræði Makerý og hugarfars vaxtar. Því næst var hópnum skipt í þriggja manna hópa sem fengu það verkefni að búa til brú úr spaghettílengjum og sykurpúðum. Brúin átti að geta haldið pleymókarli og staðið á milli tveggja borða. Í þessu verkefni fékk hugvit og sköpunargleði þátttakenda að njóta sín ásamt keppnisskapinu því kosið var um vinningshafa.

 

Heimsókn í Lýsuhólsskóla

Eftir hádegisverð á veitingastað í Ólafsvík var okkur ekið í Lýsuhólsskóla. Á Lýsuhóli er löng hefð fyrir samþættingu námsgreina og verkefnavinnu sem tengist nærumhverfi nemenda. Það var Haukur Þórðason kennari við skólann sem tók á móti hópnum. Hann sagði t.d. frá verkefninu Stubbalækjarvirkjun sem er virkjun á skólalóðinni. Þar er líka gróðurhús sem nýtur góðs af virkjuninni. Þegar við vorum í heimsókninni voru spínatplöntur í gróðurhúsinu. Þeim var sáð í ágúst og voru um það bil að verða tilbúnar í salat í skólanum.

Haukur sýndi okkur líka verkefni sem nemendur hafa unnið í átthagafræði. Þá söfnuðu nemendur m.a. örnefnum, þjóðsögum og munnmælasögum sem tengjast átthögum þeirra. Eitt verkefnið var líka að búa til líkön af þremur mismunandi fjárréttum í sveitinni. Hægt er að kynnast átthagafræðinni í Grunnskóla Snæfellsbæjar betur með því að skoða heimasíðu þess.

Að lokum fengum við að kynnast því hvernig Haukur vinnur aðrar minni uppfinningar með nemendum eins og hönnun á lömpum og forritun á diskóljósum sem eru í notkun á samkomum nemenda.

Á því sem við sáum í heimsókninni í Lýsuhólsskóla er það ljóst að það er ekki fjölmennið sem skapar fjölbreytnina heldur hugarfar þeirra sem starfa við skólann til starfsins. Verkefni nemenda bera þess merki að þeir fá merkingarbært nám sem er vel tengt við nærumhverfi þeirra og gerir gagn í daglegu starfi skólans og nemenda.

Þessum viðburðaríka degi lauk svo með sameiginlegri máltíð þátttakenda. Í næsta pistli verður svo greint frá því sem eftir var af dagskrá helgarinnar.

Meira um Maker Space

Fleiri en 60 hugmyndir að Maker Space verkefnum

Frétt frá skóla í Edmonton þar sem hugmyndafræðin er nýtt í starfi skólans

 

Á kvennaþingi II

34308594_10212071924529656_2049852624680779776_nÁ sunnudagskvöldinu eftir ferðina til Essasouria var hægt að skrá sig inn á ráðstefnuna og sækja gögn hennar. Þar fannst mér gaman að sjá að starfsfólk ráðstefnunnar var með spjaldtölvur þar sem við skráðum okkur inn. Umfram hefðbundnar aðferðir við innskráningu var þetta fljótleg aðferð sem notaði engan pappír. Þar fyrir utan fylgdi ráðstefnunni app þar sem ráðstefnugestir gátu haldið utan um dagskrá, glósur og annað sem skipti máli á ráðstefnunni auk þess sem þaðan var hægt að deila ljósmyndum og hugmyndum á samfélagsmiðla.

SI_3rd EI World Women's Conference Marrakesh

Halda áfram að lesa

Á kvennaþingi I

Um mánaðamótin janúar og febrúar fór ég ásamt fimm forystukonum innan KÍ á þriðja kvennaþing Alþjóðasamtaka kennara (EI) sem Kennarasamband Íslands er aðili að. Konurnar fimm eru Guðbjörg Ragnarsdóttir þáverandi varaformaður FG, Guðríður Arnardóttir formaður FF, Fjóla Þorvaldsdóttir þáverandi varaformaður FL, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir forkona jafnréttisnefndar KÍ og Ingibjörg Kristleifsdóttir þáverandi formaður FSL.

Halda áfram að lesa

Sagan af jólamáltíðinni og deilihagkerfinu

Ég hafði lofað sjálfri mér að vera ekkert að pæla í rafræna heiminum í jólafríinu, bara að nýta mér gæði hans. En á meðan ég undirbjó jólamáltíðina gat ég ekki annað en leitt hugann að því hve möguleikum okkar til margra hluta hefur fjölgað og hvernig þeir hafa breyst með tilkomu hans. Gott dæmi er að leiðum til að deila þekkingu og reynslu hefur fjölgað til muna.

Einn þessara möguleika eru allar uppskriftasíðurnar. Ef mér dettur í hug að búa eitthvað til í eldhúsinu eða hef spurningu um matargerð dettur mér oftast fyrst af öllu í hug að leita að uppskriftinni eða svarinu á netinu. Þannig var það á jóladag þegar til stóð að elda kalkún fjarri eigin eldhúsi og áhöldum. Ég hef oft áður eldað kalkún og gert það á mismunandi vegu og með misgóðum árangri en þegar til átti að taka mundi ég engan veginn hvað skipti máli. Ég mundi þó að síðast hafði ég farið eftir leiðbeiningum læknisins í eldhúsinu og árangurinn hafði verið góður. Við kalkúnauppskriftina hans er líka langur umræðuþráður þar sem fólk deilir hvert með öðru reynslu sinni af kalkúnaeldun. Ég renndi yfir það allt saman og valdi úr því sem mér leist best á og setti í samhengi við upprunalegu uppskrift læknisins og hvernig mig minnti að ég hefði gert þetta síðast. Úr þessu varð hin besta máltíð sem byggðist á eigin reynslu og minni mínu af kalkúnaeldun, skráningu læknisins og ráðleggingum félaga hans af blogginu.

Halda áfram að lesa

Google fyrir skráningu og miðlun

_76118263_photo

Ég þreytist seint á því að segja að tölvur og ný tækni gefi okkur fleiri tækifæri en áður til skráningar og miðlunar. Nýlega æfði ég mig vel í að nota verkfæri Google til að skrá og síðar að miðla til annarra námsferð og lærdómi af henni. Það var auðveldara en mig grunaði að nota þessi verkfæri. Það var auðvelt af því það sparaði tíma bæði á meðan á skráningu stóð og í eftirvinnslu upplýsinganna sem urðu til í ferðinni. Síðast en ekki síst er auðvelt að miðla lærdómnum þegar búið er að taka hann saman. Í æfingunni var notast við Google Drive, Google Photos, Google Docs, Google Sites og Google Drawings.

Halda áfram að lesa

Alltaf gagn og gaman

UTÍS2017 Mentimeter

Frá kynningu á Mentimeter á hraðstefnumóti á UTís2017

Nú er þriðja UTÍS atburðinum lokið,  UTÍs2017, og eins og tvö fyrri skipti var lítill vandi að hafa bæði gagn og gaman af því sem var á dagskránni. Það var líka gaman að hitta kunningja og að sjá ný andlit í hópnum. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá að það fjölgaði í hópi skólastjórnenda sem sækja UTís.

Dagskráin var fjölbreytt; vinnustofur, fyrirlestur, kynningar, örverkjur, menntabúðir og hraðstefnumót að ógleymdum samverustundunum með nýjum og gömlum vinum. Segja má að á UTís kraumi grasrótin og þar fari fram starfsþróun í hverju skoti allan sólarhringinn á meðan á viðburðinum stendur, því þarna kemur saman fólk sem brennur fyrir viðfangsefninu og hefur mörgu að miðla. Margir af þeim sem sækja UTís eru einyrkjar í starfi sínu og draga vagninn á eigin vinnustað þess vegna er UTís því næring bæði fyrir þá persónulega og einnig fyrir skólana sem þeir starfa við, vegna þess að þeir koma til baka faglega endurnærðir og hafa stækkað tengslanet sitt svo um munar.

Halda áfram að lesa