Janúarsúpa

IMG_5286

Jannúarsúpan góða

Um þessar mundir eru margir að skoða hvað þeir láta ofan í sig og sumir eru alltaf í þeim pælingum. Ég er þar á meðal enda hef ég komist að því að ekki á allur matur vel við skrokkinn. Um síðustu helgi gerði ég grænmetissúpu sem er það sem kallað er í þessu húsi súpa „án alls“. Súpuna gerði ég úr grænmetinu sem til var til í ísskápnum og til að geta endurtekið leikinn fannst mér rétt að skrá hana hérna og jafnframt að leyfa öðrum að prófa. Og af því magnið er skráð eftir minni er auðvelt að þróa þessa uppskrift í hvaða átt sem hentar.

Súpan hefði dugað fyrir sex manns og af því við erum bara tvö í húsi þá á ég súpuskammta í fyrsti sem ég get tekið með mér í nesti.

 • 2 msk kókosolía
 • 1-2 tsk gott karrý
 • 5-6 stönglar af brokkolí, skornir í hæfilega bita
 • Hálf sæt kartafla, skorin í litla teninga
 • 5 gulrætur, skornar í bita
 • 1 laukur saxaður
 • 2 pressuð hvítlauksrif
 • 4-5 þurrkaðar chiliflögur
 • 2 vænar tsk af góðum grænmetiskrafti sem er án gers
 • 0,5 lítri vatn
 • 1 ds kókosmjólk
 • Salt og pipar eftir smekk
 • Saxað ferskt kóriander til að dreifa ofan á súpuna þegar hún er borin fram

Hitið kókosolíuna í potti og hitið karrýið í olíunni. Mýkið svo grænmetið í olínunni og bætið hvítlauknum og chiliflögunum útí. Setjið svo vatnið og grænmetiskraftinn útí og látið sjóða í 10-15 mínútur. Bætið þá kókostmjólkinni útí, saltið og piprið að smekkt. Hitið að suðumörkum. Berið fram með söxuðum kóriander.

Þeir sem vilja geta sett súpuna í blandarann og maukað hana. Daginn sem ég eldaði súpuna borðaði ég hana með öllum bitunum en áður en ég frysti hana setti ég hana í blandarann. Hún er alls ekki verri þannig.

Verði ykkur að góðu.

Birt í Matarstúss | Merkt , | Færðu inn athugasemd

Sagan af jólamáltíðinni og deilihagkerfinu

Ég hafði lofað sjálfri mér að vera ekkert að pæla í rafræna heiminum í jólafríinu, bara að nýta mér gæði hans. En á meðan ég undirbjó jólamáltíðina gat ég ekki annað en leitt hugann að því hve möguleikum okkar til margra hluta hefur fjölgað og hvernig þeir hafa breyst með tilkomu hans. Gott dæmi er að leiðum til að deila þekkingu og reynslu hefur fjölgað til muna.

Einn þessara möguleika eru allar uppskriftasíðurnar. Ef mér dettur í hug að búa eitthvað til í eldhúsinu eða hef spurningu um matargerð dettur mér oftast fyrst af öllu í hug að leita að uppskriftinni eða svarinu á netinu. Þannig var það á jóladag þegar til stóð að elda kalkún fjarri eigin eldhúsi og áhöldum. Ég hef oft áður eldað kalkún og gert það á mismunandi vegu og með misgóðum árangri en þegar til átti að taka mundi ég engan veginn hvað skipti máli. Ég mundi þó að síðast hafði ég farið eftir leiðbeiningum læknisins í eldhúsinu og árangurinn hafði verið góður. Við kalkúnauppskriftina hans er líka langur umræðuþráður þar sem fólk deilir hvert með öðru reynslu sinni af kalkúnaeldun. Ég renndi yfir það allt saman og valdi úr því sem mér leist best á og setti í samhengi við upprunalegu uppskrift læknisins og hvernig mig minnti að ég hefði gert þetta síðast. Úr þessu varð hin besta máltíð sem byggðist á eigin reynslu og minni mínu af kalkúnaeldun, skráningu læknisins og ráðleggingum félaga hans af blogginu.

Á meðan ég nostraði við kalkúninn leiddi ég hugann að því hvernig mikið af skólafólki nýtir sér rafræna heiminn til starfsþróunar. Alls kyns hópar eru til á Facebook. Þeir eru ýmist um sértækt efni og aðferðir eða kennslugreinar. Það er líka hægt er að fylgja eða spyrja fólk eða myllumerki á Twitter eða jafnvel að lesa reglulega blogg eða greinar um skilgreind málefni. Til viðbótar eru myndbönd með fyrirlestrum og spjallþættir á hlaðvörpum um menntamál á netinu.

Niðurstaða mín er ævinlega sú sama. Það búa nefnilega allir yfir reynslu og þekkingu sem þeir geta deilt með öðrum og nú er hægt að velta upp álitamálum við fleiri en nokkru sinni áður. Nú á tíðum einskorðast það ekki aðeins við kennarastofuna, frímínútur eða kennarafundatíma heldur miklu fremur við fleiri sem fást við það sama og búa hvar sem er í heiminum. Það besta er að það er hægt að gera á hvaða tíma sem er. Og það er ekki bara þannig að þeir sem skrá og/eða taka þátt í umræðum á rauntíma græða á því sem fram fer, heldur og sér í lagi þeir sem lesa, máta við eigin reynslu og búa síðan til eitthvað nýtt úr því sem deilt var og rætt. Það sannar dæmið um ljúffenga kalkúninn svo ekki verður um villst.

IMG_5050

Kalkúnnin klár og gestir virða fyrir sér og ræða gæði veitinganna.

 

Birt í Matarstúss, Starfsþróun | Merkt | Færðu inn athugasemd

Forritun er frábær

kodinn-1

Kóðinn 1.0 er dæmi um verkefni þar sem tilbúið efni á vef sem kennarar og nemendur geta nýtt sér án mikilliar fyrirhafnar.

Það er ekki langt síðan ég beindi athyglinni að möguleikum forritunar í skólastarfi. Ég hafði fram að því sannfært mig um að hún væri ekkert fyrir mig, hún væri miklu fremur fyrir þá sem eitthvað vissu um hana og gætu þannig miðlað vitneskju sinni. En ég hef komist að því eftir að ég fór að leggja við hlustir að forritun er fyrir alla. Málið er úr hvaða átt maður nálgast hana og vill skilja hana. Ég hafði auðvitað kynnst Micro bit og kóðanum í fyrra og líka kúlukörlunum Sphero og átt skemmtilegar stundir í að koma þeim gaurum réttar leiðir á brautum. Ég hafði líka kynnst Osmo Coding og smáforritinu Box Island. Svo hef ég fengið að prófa að forrita smádróna og koma þeim rétta leið í loftinu og inn til lendingar á um það bil hárréttum stöðum. En það var ekki nóg til að ég kveikti á perunni og langaði til að prófa.

Á síðasta UTís sagði Margrét Þóra kennari í Brekkuskóla frá vefsvæðinu code.org ,  hún fullyrti að maður þyrfti ekkert að vita um forritun til að geta farið með nemendum í verkefnin sem þar eru. Ég trúði henni tæpast því ég veit hvers hún er megnug. Það sem hún sagði hafði samt þau áhrif að í menntabúðum #Eymenntar í síðasta mánuði fór ég á menntabúð þar sem við fengum að skoða fyrirbærið nánar og ræddum kostina og ég lærði að Code.org:

 •  er ókeypis og án áreitis auglýsinga
 • er á mörgum tungumálum, þ.m.t. íslensku
 • er einfalt í notkun, bæði fyrir nemendur og kennara
 • er með urmul verkefna sem eru fyrir allan aldur svo það borgar sig fyrir kennarann að þekkja til þeirra og getustigs hvers þeirra
 • er þægilegt því þar er auðvelt að fylgjast með framvindu verkefna hjá nemendum
 • er með einfalt innskráningarkerfi sem miðað er við aldur og getu nemenda
 • gerir ráð fyrir aldursblönduðum hópum
 • er sett upp þannig að kennarinn getur bæði stýrt (sett fyrir) og gefið nemendum lausan tauminn
 • gefur möguleika á samvinnu nemenda, þ.e.a.s. reiknar ekki með því að hvert og eitt barn sé með tæki
 • gefur möguleika á forritunarverkefnum án tölva eða spjaldtölva
 • er einu sinni á ári með sérstaka forritunarviku sem heitir Hour of Code þar sem hægt er að spreyta sig á forritunarákorunum
 • er lifandi vefsvæði í stöðugri þróun

Og ég fékk bakteríuna

Það þurfti ekki meira til í bili en þessa menntabúð svo að ég settist niður og kynnti mér málið betur og opnaði ömmuskóla um stundarsaktir og æfði mig á barnabörnum og afa þeirra. Ég auglýsti svo meðal kennara Þelamerkurskóla eftir námshópum til láns og fékk þrjá hópa lánaða. Ég skráði alla hópana inn svo hver og einn nemandi ætti aðgang og hægt væri að fylgjast með framvindu þeirra. Nemendur í fyrsta og öðrum bekk unnu saman tvö og tvö í áskorun Box Island í Hour of Code og fengu fyrirmælin hennar Jennie Magiera þegar maður leiðbeinir samnemendum. Þeim nægði að vísu að halda sig bara við fyrstu fyrirmælin.

 1. Ekki snerta tækin hjá þeim sem þú leiðbeinir. Hafðu hendur fyrir aftan bak.
 2. Sýndu hlýlega framkomu.
 3. Farðu hægt yfir leiðbeiningarnar. Teldu upp að 3 áður en þú gefur næstu leiðbeiningar.

Það var gaman að fylgjast með nemendum reyna við áskorunina, ræða saman og hjálpast að við að finna lausnir. Tíminn leið hratt og allir unnu af áhuga.

Nemendur í áttunda og níunda bekk fóru svo í Minecraft verkefni Hour of Code og unnu hvert á einu tæki, annað hvort á Chrome Books vélum eða IPödum, allt eftir því hvað þeim þótti best sjálfum. Eins og gengur voru nokkrir nemendur sem þurftu meiri hvatningu en aðrir og verkefnið höfðaði mismikið til nemenda. Þeir sem komust hraðast í gegnum verkefnin aðstoðuðu þá sem síður komust áfram. Að lokum fór svo að allir komust áfram og sumir héldu áfram með verkefnin þegar heim var komið.

Nemendur í fimmta og sjötta bekk fengu sama verkefni og áttundi og níundi bekkur. Allir unnu á Chrome books vélum skólans og komust strax vel af stað og hjálpuðu hver öðrum. Allir unnu af áhuga og elju ásamt því að hjálpast að. Daginn eftir heyrði ég nemendur svo bera saman bækur sínar eftir að þeir höfðu unnið að verkefninu heima hjá sér.

Áhugi og gleði nemenda smitaði svo kennara þriðja og fjórða bekkjar þannig að ég settist niður með þeim og þær fiktuðu sig í gegnum skráningarkerfi Code.org, skráðu námshópinn inn og skipulögðu hvernig þær ætluðu bara að byrja með sínum nemendum.

Ég vona að við læknumst ekki af þessari bakteríu því hún er hvetjandi, skemmtileg og fræðandi.

Birt í Bara byrja, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , , | Færðu inn athugasemd

Rafræn fréttabréf

Skólar og stofnanir sem vilja miðla starfi sínu og koma upplýsingum á framfæri hafa núorðið fleiri leiðir til þess en áður. Ein þeirra er að senda út fréttabréf á rafrænan hátt og innan þeirrar leiðar eru enn fleiri möguleikar. Ég hef nýtt mér fjórar leiðir til að senda rafræn fréttabréf:

download

Það er vandi að velja sér miðil sem bæði þjónar því sem á að miðla og viðtakendum.

 

 1. Tackk sem var vefkerfi þar sem hægt var að búa til fréttabréf, tilkynningar og auglýsingar á einfaldan og smekklegan hátt. Það góða við Tackk-ið var að neðan við það var hægt að hafa spjallþræði um efni Tackk-sins. Tackk er því miður ekki lengur aðgengilegt því það er orðið gjaldþrota. Hugmyndin var góð og vona ég að hún verði endurvakin.
 2. Google Sites er vel hægt að nýta til að búa til fréttabréf með því að búa til síðu með engum undirsíðum og dreifa hlekk hennar í gegnum eigið tölvupóstkerfi og í gegnum aðra miðla. Google Sites er ókeypis og einfalt í notkun og lítur vel út í öllum tækjum, á tölvuskjám, símum og töflum. Nýjasti fídusinn gerir það einfaldara og fallegra en áður að setja inn hlekki af öðrum síðum og miðlum þannig að þeir birtast á Google Síðunni eins og þær líta út í sínu upprunalega kerfi. Það kemur t.d. vel út ef í fréttabréfinu á að vekja athygli á frétt af heimasíðu skólans.
 3. Mad Mimi er vefkerfi þar sem auðvelt er að búa til, dreifa í tölvupósti og fylgjast með fréttabréfum og auglýsingum. Það er bæði hægt að vera með ókeypis og keyptan aðgang. Mér hefur dugað í gegnum tíðina að vera með ókeypis aðganginn. Takmarkanirnar liggja í hve margar myndir er hægt að vista á vinnusvæðinu og hve mörgum er hægt að senda bréfin í gegnum vefkerfið með tölvupósti.
 4. Smore er það sem ég nota mest um þessar mundir. Það er einfalt að búa til, miðla og það virkar vel með t.d. Google Forms (fyrir t.d. skráningar á viðburði). Og fyrir þá sem það vilja að fylgjast með lesningu fréttabréfanna. Umfram allt finnst mér það fallegt og það lítur vel út í öllum tækjum. Það er bæði hægt að vera með frían aðgang og keyptan aðgang. Helsti munurinn liggur í fjölda bakgrunna á fréttabréfið og fjölda þeirra sem hægt er að senda fréttabréfið með tölvupósti í gegnum vefkerfið. Smore er með sérstakan skólaaðgang sem gefur möguleika á að gefa fleirum en einum aðgang að sama svæði, þannig að fleiri en einn geta nýtt sömu áskrift.

Í opna hópnum á Facebook sem heitir Upplýsingatækni í skólastarfi var um daginn spurt um leiðir til að búa til og senda rafræn fréttabréf og þar voru eftirfarandi leiðir nefndar:

Það mikilvægasta við val á miðlinum er að gera sér grein fyrir því hverju hann á að bæta við þá miðla sem nú þegar eru nýttir til að koma fréttum og tilkynningum til skila til viðtakenda. Hverju og hverjum á hann að þjóna og hvernig gerir hann það best? Það er misjafnt hvað hver og einn þeirra gerir og hverju maður vill koma á framfæri hverju sinni umfram þá miðla sem þegar eru til staðar. Það þarf líka að hafa í huga að flest þeirra fréttabréfakerfa sem búin eru til sem slík eru gerð fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem vilja selja vörur sínar. Sumt af því sem þar er virkar fyrir skóla og annað ekki.  Þess vegna er um að gera að kynna sér nokkra þessara miðla eða að líta vel á möguleika þess sem nú þegar er verið að nota í skólanum.

Gangi ykkur vel.

Birt í skólastjórnun | Merkt , , , , | Færðu inn athugasemd

Google aðstoðar við útikertasölu

G Suite Portfolio Final 1

Það er reynsla mín að það sé vel þess virði að leggja sig fram um að skilja hvernig verkfæri Google vinna saman.

Verkefni skólastjóra fámennra skóla eru fjölbreytt. Þar á meðal er aðstoð við söfnun í ferðasjóð. Í þeirri vinnu sem annarri spara rafrænir starfshættir Google (G Suite) mér mikla vinnu og utanumhald á alls kyns pappírum, tölvupóstum og skilaboðum á mörgum miðlum. Dæmi um það er sala ferðasjóðs nemenda á útikertum og móttaka pantana og greiðslna fyrir þá sölu:
 1. Könnun í Google Forms tekur við pöntunum og safnar saman netföngum þeirra sem leggja inn pantanir. Það er auðvelt að dreifa hlekk könnunarinnar (eða Qr kóða hennar) bæði í tölvupósti og á samfélagsmiðlum.
 2. Ef skólinn er með G Suite þá er einfalt og fljótlegt (tekur tvær mínutur) að búa til netfang söfnunarinnar eða einstakrar sölu sem tekur við tilkynningum um greiðslur.
 3. Viðbótin Form Limiter lokar könnuninni þegar við hættum að taka við pöntunum (bara muna muninn á AM og PM). Ég þarf ekki að muna að loka henni á hádegi á sunnudegi og foreldrar geta treyst því að þetta sé fjöldinn sem á að panta.
 4. Af því pantanaformið safnaði saman netföngum þeirra sem pöntuðu gæti ég notað viðbótina Yet Anotoher Mail Merge til að senda „persónulegan fjöldapóst“ til þeirra sem ekki hafa gengið frá greiðslunni þegar kertin koma. Netföngin eru nefnilega aðgengileg á Google Sheets og þaðan er auðvelt að tengja þau við tölvupóstinn.
Já, hvernig var þetta áður en skólinn fór í G Suite? Ég vil ekki muna það því ég kann betur við Google lífið.
Birt í Bara byrja, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Google fyrir skráningu og miðlun

_76118263_photo

Ég þreytist seint á því að segja að tölvur og ný tækni gefi okkur fleiri tækifæri en áður til skráningar og miðlunar. Nýlega æfði ég mig vel í að nota verkfæri Google til að skrá og síðar miðla til annarra námsferð og lærdómi af henni. Það var auðveldara en mig grunaði að nota þessi verkfæri. Það var auðvelt af því það sparaði tíma bæði á meðan á skráningu stóð og í eftirvinnslu upplýsinganna sem urðu til í ferðinni. Síðast en ekki síst er auðvelt að miðla lærdómnum þegar búið er að taka hann saman. Í æfingunni var notast við Google Drive, Google Photos, Google Docs, Google Sites og Google Drawings.

Áður en haldið var af stað í ferðina

 • var gerð mappa á Google Drive til að safna saman gögnum ferðarinnar og henni dreift á ferðafélagana þannig að allir gætu sett í hana gögn sem skiptu þá, ferðina og úrvinnslu hennar máli.
 • var gerð grind að heimasíðu í Google Sites og henni var deilt meðal ferðafélaga þannig að allir gætu unnið í síðunni jafnóðum og/eða þegar hentaði hverjum og einum. Inn á síðuna voru líka sett öll gögn sem áttu við ferðina og markmið hennar. Þar sem námsferðin sem um ræðir var styrkt af Erasmus+ þá hafði hún skýr markmið svo auðvelt var að búa til síður og undirsíður áður en haldið var af stað.
 • var gert sameiginlegt albúm á Google Photos þar sem myndum allra sem voru í ferðinni var safnað saman.

Á meðan á ferðinni og skólaheimsókninni stóð

 • skráði hver og einn hjá sér minnispunkta á þann hátt sem hann kaus að gera.
 • tóku allir myndir og auðvitað notuðu þeir símana sína til þess.

Í lok hvers dags ferðarinnar

 • hlóð hver og einn inn myndum dagsins á sameiginlega albúmið á Google Photos og inn á albúið var skráður texti með dagskrá dagsins og ef á þurfti að halda voru settar skýringar eða minnispunktar við einstakar myndir í athugsemdir við þá mynd sem þurfti að útskýra eða leggja sérstaklega á minnið.
  • Þannig varð myndasafnið sameiginleg dagbók ferðarinnar.
 • var búið til sameiginlegt skjal í Google Docs með lærdómi dagsins og hvernig væri hægt að miðla honum. Einnig var lærdómurinn speglaður í markmiðum ferðarinnar og úr urðu þemu sem breyttu smám saman grind heimsíðunar sem átti að verða skýrsla ferðarinnar. Og af því grindin var unnin áður en haldið var af stað var auðvelt að breyta henni jafnóðum og setja inn viðeigandi punkta og myndir til útskýringar.
  • Þannig varð grindin að skýrslu ferðarinnar til jafnóðum og upplýsingarnar söfnuðust saman.

Eftir að heim var komið

 • var auðvelt og alls ekki tímafrekt að flytja texta úr sameiginlega skjali hvers dags á heimasíðuna sem þegar var komin með þemun úr lærdómi ferðarinnar.
 • var auðvelt að tengja myndir og minnispunkta inn á heimasíðuna.
 • var auðvelt að búa til líkan sem skipti máli fyrir framsetningu í Google Drawings og setja inn á heimasíðuna
 • var auðvelt að koma skjölum sem ekki fengust rafrænt fyrir á heimsíðunni með því að nota símann til að skanna þau og flytja yfir á Google Drive og setja þaðan inn á heimasíðuna.
 • verður auðvelt að miðla lærdómnum með því að dreifa heimasíðunni eða einstökum hlekkjum úr síðum hennar sem skipta máli hverju sinni.
 • sparaðist tími hjá öllum ferðafélögunum við úrvinnslu því hver og einn gat, þegar hann hafði tíma til, kíkt inn á síðuna og sett inn á hana það sem skipti máli og einnig sagt skoðun sína á sameiginlegu minnis-skjali þar sem hægt var að setja inn punkta varðandi úrvinnsluna. Það sparði okkur öllum fundatíma.
 • sparast tími hjá öllum ferðafélögunum þegar kemur að kynningum á ferðinni; í stað þess að hver og einn búi sér til glærukynningar fyrir eigin kynningar verður heimasíðan, í heild eða að hluta, notuð fyrir kynningar.

Það er niðurstaða mín að vefverkfæri Google auðvelduðu mér og ferðafélögum mínum skráningu, úrvinnslu og kynningu námsferðarinnar. Ég sé líka fyrir mér að það sé lítill vandi að setja sams konar ferli upp þegar nemendur vinna að verkefni þar sem þeir afla sér gagna og greina frá niðurstöðum sínum.

Sem fyrr er það bara að byrja og prófa sig áfram. Afraksturinn verður sýndur síðar.

 

 

Birt í Bara byrja, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Alltaf gagn og gaman

UTÍS2017 Mentimeter

Frá kynningu á Mentimeter á hraðstefnumóti á UTís2017

Nú er þriðja UTÍS atburðinum lokið,  UTÍs2017, og eins og tvö fyrri skipti var lítill vandi að hafa bæði gagn og gaman af því sem var á dagskránni. Það var líka gaman að hitta kunningja og að sjá ný andlit í hópnum. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá að það fjölgaði í hópi skólastjórnenda sem sækja UTís.

Dagskráin var fjölbreytt; vinnustofur, fyrirlestur, kynningar, örverkjur, menntabúðir og hraðstefnumót að ógleymdum samverustundunum með nýjum og gömlum vinum. Segja má að á UTís kraumi grasrótin og þar fari fram starfsþróun í hverju skoti allan sólarhringinn á meðan á viðburðinum stendur, því þarna kemur saman fólk sem brennur fyrir viðfangsefninu og hefur mörgu að miðla. Margir af þeim sem sækja UTís eru einyrkjar í starfi sínu og draga vagninn á eigin vinnustað þess vegna er UTís því næring bæði fyrir þá persónulega og einnig fyrir skólana sem þeir starfa við, vegna þess að þeir koma til baka faglega endurnærðir og hafa stækkað tengslanet sitt svo um munar.

Í ár valdi ég mér að setja dagskrá mína saman þannig að ég kynntist bæði því sem ég hef áhuga á, Google verkfærunum og einnig að kynnast því sem ég veit ekkert um, forritun og græjur í makerspace. Svo prófaði ég að taka þátt í hraðstefnumóti við vefverkfæri og smáforrit með því að kynna verkfæri sem ég sjálf held uppá, Mentimeter.

IMG_4526.jpg

Á Makerspace

Ég kynntist:

 • Nýju fólki; high five vin minn og klessuvininn hafði ég ekki hitt áður og svo vann ég að lausn verkefna með fólki sem ég hafði ekki valið mér að vinna með. Það er mér alltaf áskorun.
 • Nýrri leið til að búa til spurningaleik fyrir nemendur þar sem hver getur svarað og unnið á eigin hraða.
 • MakerSpace hugmyndafræðinni og leysti verkefni með leiðnilímbandi, lítilli ljósaperu, pappír, saumaði með leiðniþræði, leysti vandamál einhvers sem ekki gat beygt fingur sína og bjó til geimverupöddu sem bæði var með ljós á fálmurum og gat hreyft sig. Við það notaði ég dót sem heitir Little Bits.
 • Fleiri viðbótum við Google verkfærin og Chrome vafrann og í viðbót leiðbeiningar í Google Sites umhverfinu.
 • Leiðum til að kenna forritun hjá nemendum 4-10 ára og rökstuðningi fyrir því af hverju á að kenna börnum forritun: Svo þau skilji og geti nýtt sér tæknina svo að tæknin notfæri sér ekki þau.
 • Enn betur ýmsu í Google Docs, Forms og Sheets.
 • Hugmyndafræði og skipulagi Snilldarstunda
 • Hraðstefnumóti við verkfæri og smáforrit
IMG_4544 (1)

Það verða bara allir að eiga Little Bits

Ljóst er að ég

 • ætla að halda áfram að nota verkfæri Google og æfast í að nota það sem þar býðst
 • þarf að finna meiri peninga og kaupa meira dót fyrir skólann
 • ætla að huga að skipulagi stundatöflu svo gefist rými fyrir snilldarstundir og makerspace
 • ætla að kynna mér betur
 • verð læra að nota 360 gráðu myndavélina sem ég fékk í verðlaun
 • mun setja hraðstefnumót við vefverkfæri og smáforrit á dagskrá menntabúða #Eymenntar

UTís2017 staðfesti fyrir mér þá staðreynd að kennsla er skapandi frumkvöðlastarf og að samkoma eins og UTís nærir betur en önnur starfsþróunartilboð fagmennsku kennara ásamt því að efla tengslanet þeirra sem sækja samkomuna. Það verður seint fullþakkað.

Birt í Á ferð og flugi, Bara byrja, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd