Búa til kvikmynd í Google Photos

1200x630bb

Það getur verið gaman að miðla myndum úr verkefni, viðburðum eða deila minningum með stuttri kvikmynd. Það eru til nokkrar leiðir til þess og ein þeirra er að nota Google Photos. Í appinu á símanum eða Ipadinum er það gert á mjög einfaldan hátt. Og það besta er að það er mjög fljótlegt og skemmtilegt. Til viðbótar kemur að eins og í öðrum verkfærum Google getur kvikmyndagerðin verði samvinnuverkefni eins margra og velja að vinna saman.

 1. Opnaðu Google Photos appið og skráðu þig inn á reikninginn sem afritar myndirnar úr tækjunum þínum.
 2. Smelltu á Hjálpari sem er í stikunni neðst á skjánum. Það er líka hægt að nota flýtileiðina og smella á punktana þrjá sem eru efst vinstra megin á skjánum og velja þar Búa til nýtt – kvikmynd.
 3. Í Hjálpari veldu „Búa til nýtt“ og veldu síðan Kvikmynd, sem er grænn hnappur efst á skjánum.
 4. Þá birtast á skjánum margs konar sniðmát að kvikmyndum. Sú fremsta er merkt með plús og það er hún sem valin er þegar á að búa til kvikmynd úr myndunum sem þú átt inni á Google Photos svæðinu þínu. Í hinum valmyndunum styttir appið þér leið í ákveðunum þemum.
 5. Þegar búið er að smella á plúsinn sýnir appið þér allar myndirnar á svæðinu þínu. Það eina sem þú þarft að gera er að velja þér myndir og myndbönd í kvikmyndina þína með því að merkja við þær í litla hringinn sem er efst í vinstra horninu á hverri mynd.
 6. Þegar þú hefur valið allar myndirnar og myndböndin sem þú ætlar að hafa í kvikmyndinni þinni þá smellir þú á Búa til í hægra horninu á skjánum.Photo Google Photos 2
 7. Þá býr appið til kvikmyndina fyrir þig og opnar svo fyrir þig glugga þar sem þú getur unnið í kvikmyndinni þinni með því að klippa til myndbönd, stytta eða lengja tímann sem þau eða myndirnar eru í kvikmyndinni. Það er gerir þú með því að færa til litlu hvítu stikuna sem er við hverja mynd.
 8. Með því að smella á punktana þrjá sem eru við hverja mynd getur þú bætt við myndum eða myndböndum, tvöfaldað myndina sem er fyrir aftan punktana eða fjarlægt hana úr kvikmyndinni þinni.
 9. Þegar þú smellir á punktana þrjá við myndband bætast við tveir möguleikar. Annar er val um að sýna allt myndbandið í kvikmyndinni eða bara valinn hluta og hinn er að taka hljóðið sem fylgir myndbandinu út af því eða að leyfa því að vera áfram inni í kvikmyndinni.
 10. Með því að þrýsta fingrinum á myndina eða gráa svæðið í kringum myndina getur þú fært hana til í kvikmyndinni þinni.
 11. Fyrir neðan kvikmyndina þína er nóta.  Með því að smella á hana velur þú tónlistana sem þú vilt að verði leikin undir í kvikmyndinni þinni. Þú getur valið að setja tónlist úr eigin safni, tónlist sem appið býður uppá og einnig að hafa enga tónlist. Í appinnu er tónlistin flokkuð eftir þemunum, dramatískt, raftónlist, íhugult, rokkað og hresst. Undir hverju þema eru nokkrir lagabútar sem hægt er að velja um.
 12. Þegar þú hefur lokið við kvikmyndina smellir þú á vista sem er ofarlega í vinstra horninu á skjánum þínum. Þá vistast kvikmyndin þín á Google Photos svæðinu þínu. Þegar þú smellir á vista birtist mynd með stiku neðst á skjánum þar sem þér býðst
  1. að deila kvikmyndinni þinni,
  2. að vinna meira í henni,
  3.  að setja inn upplýsingar um hana
  4. að henda henni.

Þá er ekkert annað eftir en að horfa á kvikmyndina sína og dreifa henni til annarra svo þeir geti líka fengið að njóta hennar.

Gangi þér vel.

ps. Það er ekkert mál að fara aftur inn í kvikmyndina þína í gegnum Google Photos appið þitt eftir að þú hefur vistað hana og vinna meira í henni ef þér líkar ekki útkoman.

 

Birt í Starfsþróun | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Sagt frá og miðlað með Clips

Það eru til mörg verkfæri fyrir snjalltæki til að skrá og miðla sögum og frásögnum. Eitt af þeim er smáforritið Clips. Í vikunni var ég á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar. Sá viðburður er í sjálfu sér merkilegur í hvert sinn og vel þess virði að hann sé skráður og sögunni sé miðlað sem best og víðast. Ein leið til þess er að safna myndum og stuttum myndböndum og skeyta saman í smáforritinu Clips. Clips gefur nefnilega möguleika á að setja inn á endanlega myndbandið m.a. texta, tákn, að vinna með myndirnar og myndböndin og setja á myndirnar filtera. Það er líka hægt að setja tónlist við myndbandið bæði úr eigin safni og safni um það bil 70 titla sem fylgja forritinu. Clips er til fyrir Iphone og Ipada.

clips

Clips er til fyrir Iphone og Ipad

Á síðustu lokahátíð Upplestrarkeppninnar hafði ég gleymt að taka myndavél skólans með mér á hátíðina svo ég þurfti að nota símann minn til að taka myndirnar. Þegar ég ætlaði að fara að dæla þeim úr símanum inn á heimasíðu og  þaðan á Facebooksíðu skólans og skrá við hverja mynd nafn og skóla upplesaranna datt mér í hug að það væri kannski skemmtilegra að skoða nokk svo einhæft myndefni í litlu myndbandi þannig að ég setti myndirnar sem ég tók saman í Clips og til að lífga upp á myndbandið bætti ég við myndum með texta sem ég bjó til í smáforritinu Canva og setti í lokin inn tónlist úr tónlistarsafni forritsins.

Mér finnst einn af kostunum við Clips vera, að það er auðvelt að vinna með það bæði eftir viðburði og líka að safna inn á myndbandið beint inn á forritið á meðan á viðburðinum stendur. Þannig verður sagan sem myndbandið segir til nánast í „beinni útsendingu“ eða í hita leiksins (þó að því sé miðlað eftir á). En áður en myndbandinu er miðlað er hægt að setja inn í það fleiri myndir (t.d. frá öðrumm), tákn eða annað sem auðgar söguna sem myndbandið á að segja. Forritið gefur möguleika á að miðla myndbandinu beint úr forritinu án þess að það þurfi að vista það á tækinu og miðla því þaðan. Mér finnst þægilegast að miðla myndböndunum frá Youtube rás skólans eða minni eigin.

Á meðan ég var að setja saman myndirnar frá Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fékk ég áminningu í tölvupósti um að kona sem ég fylgist með má blogginu hennar hefði verið að birta pistil um það hvernig hún notar Clips. Í pistli hennar eru mörg hagnýt ráð um notkun appsins sem ég mæli með að rennt sé yfir hann áður en hafist er handa. Með því er hægt að varast ýmsa örðugleika í byrjun.

Ég hef notað Clips m.a. til að segja sögu úr hversdagslífinu. Dæmi um það er þegar Árni Heiðar ömmustrákur bakaði piparkökur fyrir síðustu jól. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema þegar myndirnar sem af þvi eru teknar eru settar saman á skemmtilegan hátt.

 

Oftast hef ég notað Clips í tengslum við vinnuna, bæði þegar ég hef verið á námskeiðum t.d. UTÍS2017, í vinnu með félögum mínum í Skólastjórafélagi Íslands og í skólanum (dæmi frá foreldrakynningu, dæmi úr skólalífinu) núna síðast eftir lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar.

 

Ég get sem sagt mælt með Clips og ég veit að ég á eftir að nota meira og næst er að æfa mig betur í því að safna myndum og myndbrotum beint inn á forritið af því mest hef ég notað það til að setja saman myndbönd með myndum úr myndasafninu á símanum.

Leiðbeiningar frá Imore.com um notkun Clips.

Myndbönd á Youtube um notkun Clips.

Birt í Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , | Færðu inn athugasemd

Taka upp, geyma og dreifa hljóðskrám

Ég hef áður skráð hvernig hægt er að taka upp hljóðskrár, vista þær og deila þeim. Í þeirri færslu er notast við símann eða Ipadinn og app til að taka upp. Hljóðskrárnar eru síðan vistaðar á Google Drive og dreift þaðan t.d. með QR kóðum.

Á menntabúðum á Ólafsfirði í fyrra var mér bent á vefsvæðið Vocaroo þar sem hægt er að taka upp, geyma og dreifa hljóðskrám. Kennarinn sem sýndi okkur þetta sagðist nota það  í tungumálakennslu þegar nemendur  væru að æfa samtöl. Kennarinn sagði að kosturinn væri að nemendur sendu henni slóð á hljóðupptökuna eða deildu henni með samnemendum t.d. í gegnum hóp á Facebook eða Google Classroom. Kennarar geta auðvitað líka notað Vocaroo til að senda nemendum eða öðrum munnleg fyrirmæli eða skilaboð.

Það sem þarf að hafa í huga er, að Vocaroo er ekki varanleg geymsla á hljóðupptökum. Á hjálparsíðu vefsvæðisins segir að það megi búast við því að upptakan sé horfin eftir nokkra mánuði. Ef á að geyma upptökuna er mælt með því að upptökunni sé hlaðið niður á tölvuna eða annað svæði til varanlegrar geymslu.

Ég prófaði Vocaroo í vikunni og það er mjög einfalt. Hérna fyrir neðan er myndband sem sýnir hversu einfalt það er í notkun.

 

 

 

Birt í Starfsþróun | Merkt , , , , , | Færðu inn athugasemd

Finna eigin leið og samvinna

Um þessar mundir vinnur Reykjavíkurborg að því að gera sér menntastefnu til ársins 2030. Til þessa verks hefur borgin fengið til sín m.a. Pasi Sahlberg. Á dögunum komu hann og Andy Hargreaves til landsins og þeir voru meðal annars með fyrirlestra í Hörpunni. Viðburðinum var streymt á netinu og einnig er upptakan öllum aðgengileg.

Morgunsárið í dag notaði ég til að hlusta á þá félaga segja frá rannsóknum sínum og setja niðurstöður þeirra í samhengi við aðstæður víða í heiminum og það sem skiptir máli í skólastarfi.

Sem fyrr benti Pashi Sahlberg á að þrátt fyrir að útkoma okkar á Pisa sé ekki eins og við vildum hafa hana besta er margt sem vert er að efla enn frekar. Hann hvatti fundarmenn til að finna íslensku leiðina í menntakerfinu en ekki að apa upp leiðir annarra þjóða.

 

IMG_2602.png

Að mati Pasi Sahlberg ættu þetta að vera áherslur menntunar nú á dögum.

Andy Hargreaves sagði frá rannsóknum sínum og annarra á því hvað skilar árangri þegar bæta á árangur í skólastarfi og jafnvel í heilu menntakerfunum. Hann lagði áherslu á að fundnar séu skýrar leiðir til samvinnu og samstarfs í skólastarfi og að hugsað væri uppá nýtt hvernig litið er á samstarf til þess að læra hver af öðrum. Með öðrum orðum, breytingar geta ekki orðið nema lögð sé áhersla á að byggja upp lærdómssamfélag fagmanna.

IMG_2603.png

Að byggja upp lærdómssamfélag fagmanna er flókið ferli en áskorun sem borgar sig í betri menntun nemenda. Það sýna rannsóknir Andy Hargreaves og fleiri.

Það er reynsla mín að lærdómssamfélag verður ekki til af sjálfu sér. Til þess þarf viljann til að koma því á fót og drifkraft þátttakenda svo það skili árangri og það gerist sannarlega ekki á einu skólaári. Það þarf að gefa sér tíma til að koma því á fót og gefa rými til þess að ræða faglegan ávinning af því og einnig að skoða með þátttakendum hvernig til hefur tekist; bæði afrakstur þess og aðferðir við að koma því á fót. Í því ferli er nauðsynlegt að þátttakendur hafi á færi sínu aðferðir til að skoða vinnu sína og ræða hana við samstarfsfólk og stuðningskerfi. Til þess að það megi verða þarf að hreyfa verulega við þægindaramma allra sem að vinnunni koma og ég velti fyrir mér miðað við umræðuna undanfarna daga hvort umhverfið og traustið séu til staðar til að hægt verði að leggja upp í ferðalagið sem ný menntastefna verður.

IMG_2604.png

Lokaorð Andy Hargreaves eru góð hvatning fyrir næstu skref.

Upptökuna frá viðburðinum má skoða á vef Skóla- og frístundsviðs Reykjavíkurborgar.

Birt í skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , | 2 athugasemdir

Á hraðstefnumóti

keep-calm-and-speed-date-14

Í vetur hef ég tekið þátt í fjórum hraðstefnumótum. Þau hafa verið um öpp eða vefsvæði sem hafa gagnast í leik og starfi. Nú síðast á föstudaginn með kollegum mínum á fundi þar sem við ræddum m.a. mögulegar leiðir í eigin starfsþróun og annarra starfsmanna skóla. Hin hraðstefnumótin hafa verið á menntabúðum #eymennt og á #Utís2017.

Hópurinn á föstudaginn var ekki stór, 20 manns en það sem gerðist á hraðstefnumótinu sýndi mér aftur að hraðstefnumót er einföld og öflug leið til að virkja þátttakendur og vekja þá til að miðla því sem þeir hafa gert og hefur reynst þeim vel. Á föstudaginn varð t.d. að gefa a.m.k. 20 mínútur í dagskránni til að gefa fundarmönnum færi á að klára að ræða málin. Hjá mjög mörgum hafði kviknað hugmynd sem þurfti annað hvort að miðla eða ræða. Það sýndi mér að hraðstefnumót er fyrirtaks aðferð til að kveikja virkni þátttakenda og miðlun reynslu þeirra á milli.

Hraðstefnumótið gengur þannig fyrir sig að einhverjir úr hópnum taka að sér að vera með tveggja mínútna kynningu á appi sem hefur gagnast þeim vel. Hver og einn þeirra kemur sér fyrir aftan við borð sem búið er að raða í hring (það er líka hægt að hafa þau í einni röð ef plássið leyfir ekki hring). Aðrir þátttakendur skipta sér í hópa og hver hópur kemur sér fyrir framan við eitt af borðunum. Svo hefst leikurinn. Hver kynnir heldur sína tveggja mínútna kynningu og þegar mínúturnar tvær eru liðnar færa hóparnir sig á næsta borð og þannig koll af kolli þar til allir hóparnir hafa komið við á öllum borðunum.

Það er gott að vita fyrirfram hvaða öpp verða kynnt svo hægt sé að prenta út blað með nafninu á appinu og mynd af því. Það auðveldar þeim sem eru á kynningunni að „glósa“ með því að taka mynd af blaðinu. Það þarf líka að hafa tímavörð, annað hvort að varpa tímavaka úr appi upp á tjald eða að einhver í hópnum tekur að sér að fylgjast með tímanum og láta hópinn vita hvenær á að færa sig á milli borða.

Hraðstefnumót eru að mínu mati fljótvirk og árangursrík leið til að kynnast því sem aðrir hafa nýtt sér. Hraðstefnumótið þarf ekki endilega að vera um öpp, það má þess vegna vera um kennsluaðferð eða eitthvað enn afmarkaðra og hæglega er hægt að nýta kennarafund í hraðstefnumót.

Birt í skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Janúarsúpa

IMG_5286

Jannúarsúpan góða

Um þessar mundir eru margir að skoða hvað þeir láta ofan í sig og sumir eru alltaf í þeim pælingum. Ég er þar á meðal enda hef ég komist að því að ekki á allur matur vel við skrokkinn. Um síðustu helgi gerði ég grænmetissúpu sem er það sem kallað er í þessu húsi súpa „án alls“. Súpuna gerði ég úr grænmetinu sem til var til í ísskápnum og til að geta endurtekið leikinn fannst mér rétt að skrá hana hérna og jafnframt að leyfa öðrum að prófa. Og af því magnið er skráð eftir minni er auðvelt að þróa þessa uppskrift í hvaða átt sem hentar.

Súpan hefði dugað fyrir sex manns og af því við erum bara tvö í húsi þá á ég súpuskammta í fyrsti sem ég get tekið með mér í nesti.

 • 2 msk kókosolía
 • 1-2 tsk gott karrý
 • 5-6 stönglar af brokkolí, skornir í hæfilega bita
 • Hálf sæt kartafla, skorin í litla teninga
 • 5 gulrætur, skornar í bita
 • 1 laukur saxaður
 • 2 pressuð hvítlauksrif
 • 4-5 þurrkaðar chiliflögur
 • 2 vænar tsk af góðum grænmetiskrafti sem er án gers
 • 0,5 lítri vatn
 • 1 ds kókosmjólk
 • Salt og pipar eftir smekk
 • Saxað ferskt kóriander til að dreifa ofan á súpuna þegar hún er borin fram

Hitið kókosolíuna í potti og hitið karrýið í olíunni. Mýkið svo grænmetið í olínunni og bætið hvítlauknum og chiliflögunum útí. Setjið svo vatnið og grænmetiskraftinn útí og látið sjóða í 10-15 mínútur. Bætið þá kókostmjólkinni útí, saltið og piprið að smekkt. Hitið að suðumörkum. Berið fram með söxuðum kóriander.

Þeir sem vilja geta sett súpuna í blandarann og maukað hana. Daginn sem ég eldaði súpuna borðaði ég hana með öllum bitunum en áður en ég frysti hana setti ég hana í blandarann. Hún er alls ekki verri þannig.

Verði ykkur að góðu.

Birt í Matarstúss | Merkt , | Færðu inn athugasemd

Sagan af jólamáltíðinni og deilihagkerfinu

Ég hafði lofað sjálfri mér að vera ekkert að pæla í rafræna heiminum í jólafríinu, bara að nýta mér gæði hans. En á meðan ég undirbjó jólamáltíðina gat ég ekki annað en leitt hugann að því hve möguleikum okkar til margra hluta hefur fjölgað og hvernig þeir hafa breyst með tilkomu hans. Gott dæmi er að leiðum til að deila þekkingu og reynslu hefur fjölgað til muna.

Einn þessara möguleika eru allar uppskriftasíðurnar. Ef mér dettur í hug að búa eitthvað til í eldhúsinu eða hef spurningu um matargerð dettur mér oftast fyrst af öllu í hug að leita að uppskriftinni eða svarinu á netinu. Þannig var það á jóladag þegar til stóð að elda kalkún fjarri eigin eldhúsi og áhöldum. Ég hef oft áður eldað kalkún og gert það á mismunandi vegu og með misgóðum árangri en þegar til átti að taka mundi ég engan veginn hvað skipti máli. Ég mundi þó að síðast hafði ég farið eftir leiðbeiningum læknisins í eldhúsinu og árangurinn hafði verið góður. Við kalkúnauppskriftina hans er líka langur umræðuþráður þar sem fólk deilir hvert með öðru reynslu sinni af kalkúnaeldun. Ég renndi yfir það allt saman og valdi úr því sem mér leist best á og setti í samhengi við upprunalegu uppskrift læknisins og hvernig mig minnti að ég hefði gert þetta síðast. Úr þessu varð hin besta máltíð sem byggðist á eigin reynslu og minni mínu af kalkúnaeldun, skráningu læknisins og ráðleggingum félaga hans af blogginu.

Á meðan ég nostraði við kalkúninn leiddi ég hugann að því hvernig mikið af skólafólki nýtir sér rafræna heiminn til starfsþróunar. Alls kyns hópar eru til á Facebook. Þeir eru ýmist um sértækt efni og aðferðir eða kennslugreinar. Það er líka hægt er að fylgja eða spyrja fólk eða myllumerki á Twitter eða jafnvel að lesa reglulega blogg eða greinar um skilgreind málefni. Til viðbótar eru myndbönd með fyrirlestrum og spjallþættir á hlaðvörpum um menntamál á netinu.

Niðurstaða mín er ævinlega sú sama. Það búa nefnilega allir yfir reynslu og þekkingu sem þeir geta deilt með öðrum og nú er hægt að velta upp álitamálum við fleiri en nokkru sinni áður. Nú á tíðum einskorðast það ekki aðeins við kennarastofuna, frímínútur eða kennarafundatíma heldur miklu fremur við fleiri sem fást við það sama og búa hvar sem er í heiminum. Það besta er að það er hægt að gera á hvaða tíma sem er. Og það er ekki bara þannig að þeir sem skrá og/eða taka þátt í umræðum á rauntíma græða á því sem fram fer, heldur og sér í lagi þeir sem lesa, máta við eigin reynslu og búa síðan til eitthvað nýtt úr því sem deilt var og rætt. Það sannar dæmið um ljúffenga kalkúninn svo ekki verður um villst.

IMG_5050

Kalkúnnin klár og gestir virða fyrir sér og ræða gæði veitinganna.

 

Birt í Matarstúss, Starfsþróun | Merkt | Færðu inn athugasemd