Google fyrir skráningu og miðlun

_76118263_photo

Ég þreytist seint á því að segja að tölvur og ný tækni gefi okkur fleiri tækifæri en áður til skráningar og miðlunar. Nýlega æfði ég mig vel í að nota verkfæri Google til að skrá og síðar miðla til annarra námsferð og lærdómi af henni. Það var auðveldara en mig grunaði að nota þessi verkfæri. Það var auðvelt af því það sparaði tíma bæði á meðan á skráningu stóð og í eftirvinnslu upplýsinganna sem urðu til í ferðinni. Síðast en ekki síst er auðvelt að miðla lærdómnum þegar búið er að taka hann saman. Í æfingunni var notast við Google Drive, Google Photos, Google Docs, Google Sites og Google Drawings.

Áður en haldið var af stað í ferðina

 • var gerð mappa á Google Drive til að safna saman gögnum ferðarinnar og henni dreift á ferðafélagana þannig að allir gætu sett í hana gögn sem skiptu þá, ferðina og úrvinnslu hennar máli.
 • var gerð grind að heimasíðu í Google Sites og henni var deilt meðal ferðafélaga þannig að allir gætu unnið í síðunni jafnóðum og/eða þegar hentaði hverjum og einum. Inn á síðuna voru líka sett öll gögn sem áttu við ferðina og markmið hennar. Þar sem námsferðin sem um ræðir var styrkt af Erasmus+ þá hafði hún skýr markmið svo auðvelt var að búa til síður og undirsíður áður en haldið var af stað.
 • var gert sameiginlegt albúm á Google Photos þar sem myndum allra sem voru í ferðinni var safnað saman.

Á meðan á ferðinni og skólaheimsókninni stóð

 • skráði hver og einn hjá sér minnispunkta á þann hátt sem hann kaus að gera.
 • tóku allir myndir og auðvitað notuðu þeir símana sína til þess.

Í lok hvers dags ferðarinnar

 • hlóð hver og einn inn myndum dagsins á sameiginlega albúmið á Google Photos og inn á albúið var skráður texti með dagskrá dagsins og ef á þurfti að halda voru settar skýringar eða minnispunktar við einstakar myndir í athugsemdir við þá mynd sem þurfti að útskýra eða leggja sérstaklega á minnið.
  • Þannig varð myndasafnið sameiginleg dagbók ferðarinnar.
 • var búið til sameiginlegt skjal í Google Docs með lærdómi dagsins og hvernig væri hægt að miðla honum. Einnig var lærdómurinn speglaður í markmiðum ferðarinnar og úr urðu þemu sem breyttu smám saman grind heimsíðunar sem átti að verða skýrsla ferðarinnar. Og af því grindin var unnin áður en haldið var af stað var auðvelt að breyta henni jafnóðum og setja inn viðeigandi punkta og myndir til útskýringar.
  • Þannig varð grindin að skýrslu ferðarinnar til jafnóðum og upplýsingarnar söfnuðust saman.

Eftir að heim var komið

 • var auðvelt og alls ekki tímafrekt að flytja texta úr sameiginlega skjali hvers dags á heimasíðuna sem þegar var komin með þemun úr lærdómi ferðarinnar.
 • var auðvelt að tengja myndir og minnispunkta inn á heimasíðuna.
 • var auðvelt að búa til líkan sem skipti máli fyrir framsetningu í Google Drawings og setja inn á heimasíðuna
 • var auðvelt að koma skjölum sem ekki fengust rafrænt fyrir á heimsíðunni með því að nota símann til að skanna þau og flytja yfir á Google Drive og setja þaðan inn á heimasíðuna.
 • verður auðvelt að miðla lærdómnum með því að dreifa heimasíðunni eða einstökum hlekkjum úr síðum hennar sem skipta máli hverju sinni.
 • sparaðist tími hjá öllum ferðafélögunum við úrvinnslu því hver og einn gat, þegar hann hafði tíma til, kíkt inn á síðuna og sett inn á hana það sem skipti máli og einnig sagt skoðun sína á sameiginlegu minnis-skjali þar sem hægt var að setja inn punkta varðandi úrvinnsluna. Það sparði okkur öllum fundatíma.
 • sparast tími hjá öllum ferðafélögunum þegar kemur að kynningum á ferðinni; í stað þess að hver og einn búi sér til glærukynningar fyrir eigin kynningar verður heimasíðan, í heild eða að hluta, notuð fyrir kynningar.

Það er niðurstaða mín að vefverkfæri Google auðvelduðu mér og ferðafélögum mínum skráningu, úrvinnslu og kynningu námsferðarinnar. Ég sé líka fyrir mér að það sé lítill vandi að setja sams konar ferli upp þegar nemendur vinna að verkefni þar sem þeir afla sér gagna og greina frá niðurstöðum sínum.

Sem fyrr er það bara að byrja og prófa sig áfram. Afraksturinn verður sýndur síðar.

 

 

Birt í Bara byrja, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , , , , | Færðu inn athugasemd

Alltaf gagn og gaman

UTÍS2017 Mentimeter

Frá kynningu á Mentimeter á hraðstefnumóti á UTís2017

Nú er þriðja UTÍS atburðinum lokið,  UTÍs2017, og eins og tvö fyrri skipti var lítill vandi að hafa bæði gagn og gaman af því sem var á dagskránni. Það var líka gaman að hitta kunningja og að sjá ný andlit í hópnum. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá að það fjölgaði í hópi skólastjórnenda sem sækja UTís.

Dagskráin var fjölbreytt; vinnustofur, fyrirlestur, kynningar, örverkjur, menntabúðir og hraðstefnumót að ógleymdum samverustundunum með nýjum og gömlum vinum. Segja má að á UTís kraumi grasrótin og þar fari fram starfsþróun í hverju skoti allan sólarhringinn á meðan á viðburðinum stendur, því þarna kemur saman fólk sem brennur fyrir viðfangsefninu og hefur mörgu að miðla. Margir af þeim sem sækja UTís eru einyrkjar í starfi sínu og draga vagninn á eigin vinnustað þess vegna er UTís því næring bæði fyrir þá persónulega og einnig fyrir skólana sem þeir starfa við, vegna þess að þeir koma til baka faglega endurnærðir og hafa stækkað tengslanet sitt svo um munar.

Í ár valdi ég mér að setja dagskrá mína saman þannig að ég kynntist bæði því sem ég hef áhuga á, Google verkfærunum og einnig að kynnast því sem ég veit ekkert um, forritun og græjur í makerspace. Svo prófaði ég að taka þátt í hraðstefnumóti við vefverkfæri og smáforrit með því að kynna verkfæri sem ég sjálf held uppá, Mentimeter.

IMG_4526.jpg

Á Makerspace

Ég kynntist:

 • Nýju fólki; high five vin minn og klessuvininn hafði ég ekki hitt áður og svo vann ég að lausn verkefna með fólki sem ég hafði ekki valið mér að vinna með. Það er mér alltaf áskorun.
 • Nýrri leið til að búa til spurningaleik fyrir nemendur þar sem hver getur svarað og unnið á eigin hraða.
 • MakerSpace hugmyndafræðinni og leysti verkefni með leiðnilímbandi, lítilli ljósaperu, pappír, saumaði með leiðniþræði, leysti vandamál einhvers sem ekki gat beygt fingur sína og bjó til geimverupöddu sem bæði var með ljós á fálmurum og gat hreyft sig. Við það notaði ég dót sem heitir Little Bits.
 • Fleiri viðbótum við Google verkfærin og Chrome vafrann og í viðbót leiðbeiningar í Google Sites umhverfinu.
 • Leiðum til að kenna forritun hjá nemendum 4-10 ára og rökstuðningi fyrir því af hverju á að kenna börnum forritun: Svo þau skilji og geti nýtt sér tæknina svo að tæknin notfæri sér ekki þau.
 • Enn betur ýmsu í Google Docs, Forms og Sheets.
 • Hugmyndafræði og skipulagi Snilldarstunda
 • Hraðstefnumóti við verkfæri og smáforrit
IMG_4544 (1)

Það verða bara allir að eiga Little Bits

Ljóst er að ég

 • ætla að halda áfram að nota verkfæri Google og æfast í að nota það sem þar býðst
 • þarf að finna meiri peninga og kaupa meira dót fyrir skólann
 • ætla að huga að skipulagi stundatöflu svo gefist rými fyrir snilldarstundir og makerspace
 • ætla að kynna mér betur
 • verð læra að nota 360 gráðu myndavélina sem ég fékk í verðlaun
 • mun setja hraðstefnumót við vefverkfæri og smáforrit á dagskrá menntabúða #Eymenntar

UTís2017 staðfesti fyrir mér þá staðreynd að kennsla er skapandi frumkvöðlastarf og að samkoma eins og UTís nærir betur en önnur starfsþróunartilboð fagmennsku kennara ásamt því að efla tengslanet þeirra sem sækja samkomuna. Það verður seint fullþakkað.

Birt í Á ferð og flugi, Bara byrja, Starfsþróun, skólastjórnun | Merkt , , , | Færðu inn athugasemd

Það sem ekki var sagt

img_2017

Úr fyrirlestri á Google Summit í janúar 2017

Í gær sagði ég frá því hvernig ég hressti uppá gamla og gelda glærukynningu með nokkrum stælum og fiffum sem ég hef lært í haust en í þeirri frásögn er bara talið upp hvað var gert við kynninguna en minna sagt frá því hvernig allt saman gekk eða hvað gekk ekki sem skyldi.

Á heildina litið gekk kynningin vel og var það auðvitað vegna þess að flestir þátttakendur tóku breytingunum vel en það skal viðurkennast að ég var ekki fullkomlega örugg þegar ég byrjaði kynninguna. Í upphafi hennar var það nokkuð hjákátlegt að benda fólkinu á að þau gætu náð í glærurnar á netið með því að slá inn slóð í vafrann sinn eða skanna QR kóða þegar fæstir mættu með tölvur eða Ipada á kynninguna. Hugmyndin var að þannig gætu þátttakendur glósað og nýtt sér strax það sem þar var. Skólastjórinn sem var á staðnum hljóp til og sótti Ipada nemenda og dreifði til þeirra sem vildu nýta sér þennan möguleika. Flestir voru líka með snjallsíma sem þeir nýttu að einhverju leyti.

Þegar kom að því að nýta rafræna spjallborðið í hópaumræðunum var það þannig að aðeins einn úr hverjum hópi skráði sig inn á svæðið og skráði fyrir hina eða hópinn. Ég hafði séð fyrir mér að allir skráðu sig inn og fylgdust með. Það kom að vísu ekki að sök því spjallinu var varpað upp á vegg og nýttist þannig til umræðna.

Þrátt fyrir að ég væri með gamalt efni sem ég vissi nákvæmlega hvað tæki langan tíma að miðla þá fór það svo að þegar öll virkni þátttakenda var komin inn í kynninguna var þetta of mikið efni fyrir þann tíma sem venjulega tók mig að messa boðskapinn ein. Eintalið tekur auðvitað styttri tíma en samtalið! Ég hefði getað verið með hópinn í klukkustund í viðbót. Það var merkilegt að uppgötva það eftir að hafa staðist tímamörk með þetta efni í árafjöld. Efni kynningarinnar í nýja búningnum þarf því augljóslega að kjarna betur ef hún verður aftur notuð með sama sniði.

Mér telst til að samtals hafi þátttakendur verið um 25. Af þeim voru sex sem tóku þátt í síðustu æfingunni; það er að taka sjálfa sig upp og segja frá því hvað þeir lærðu og hvað þeir ætluðu að gera við það. Sennilega hefur þar áhrif að það verkefni var bæði ögrandi og tæknilega flókið. Það þarf meiri tíma en gafst í þetta skiptið og ekki endilega í blálokin á kynningunni þegar flestir eru komnir með hugann við annað.

Næst þarf ég sem sagt að skoða vel hvernig innihaldið er kjarnað betur og segja þátttakendum frá því fyrirfram að reiknað sé með því að þeir noti tölvur sínar eða snjalltæki í kynningunni.

Þetta var nefnilega bara byrjunin.

 

 

 

 

Birt í Bara byrja, Starfsþróun | Merkt | Færðu inn athugasemd

Stælar og fiff í kynningum

bekkjarfundir

Mynd úr myndasafni mínu um bekkjarfundi. Tekin fyrir utan Húsabakkaskóla.

Á dögunum var ég með upprifjun á lykilatriðum bekkjarfunda fyrir kennarahóp sem ég hafði áður hitt með sama efni fyrir nokkrum árum. Í fórum mínum á ég glærusafn um bekkjarfundi sem rekur sig 12 ár aftur í tímann og ýkjulaust hef ég farið að minnsta kosti 100 sinnum í gegnum þessar glærur með mismunandi hópum. Þegar ég tók þessar glærur fram til að undirbúa mig fyrir upprifjunina með síðasta hóp notaði ég tækifærið til að poppa gamla power point safnið aðeins upp og notaði það sem ég hafði lært í haust af Zachary Walker, Anitu Chen og Jennie Magiera.

 1. Ég byrjaði á því að færa glærurnar yfir í Google Slides af því þar hef ég ákveðið að hafa gögnin mín þó ég kunni minna á stælana og fiffin í Slides en Power Point. Það fór ekki allt í klessu eins og áður því nú sér gervigreindin í Slides um að aðlaga stærðina á glærunum á milli verkfæra. Það sparaði mér tíma því ég þurfti þá ekki að föndra við að aðlaga textann og uppsetninguna að Slides. Það hafði ég nefnilega þurft að gera áður.
 2. Svo tók ég Zachary Walker mér til fyrirmyndar:
  • Ég setti reglulega inn hreyfingu svo kennararnir sætu ekki kyrrir allan tímann. Ég litakóðaði glærurnar þannig að hópurinn vissi að þegar glæran var með bleikum bakgrunni þá mátti eiga von á þeirra þátttöku með hreyfingu og samtali.
  • Ég hafði í huga að góð kennslustund er þar sem nemendur vinna meira en kennarinn.
  • Í hreyfingunni var líka æfing með upprifjun á því sem ég hafði verið að fara yfir. Við rifjuðum sama atriðið upp oftar en einu sinni með mismunandi aðferðum.
  • Ég setti tímavaka með tónlist í glærurnar til að halda okkur við efnið.
  • Ég setti samtöl tveggja eða fleiri inn í kynninguna og í einu þeirra gátu þáttakandur skilað niðurstöðum inn á rafrænt spjallborð. Niðurstöðurnar var svo hægt að nota til að ræða eða tengja við það sem á eftir kom. Reynsla þeirra sem voru í salnum var þannig tekin með í efni dagsins.
  • Í lok kynningarinnar setti ég verkefni þar sem þátttakendur áttu að nota símana sína eða Ipada til að taka sjálfa sig upp og segja frá því sem þeir lærðu og hvað þeir ætluðu að gera við það með nemendum (Takeaway). Ég notaði Flip Grid til að safna myndböndunum saman.
 3. Síðan notaði ég stæla og fiff í glærunum sem Anita Chen hafði kennt okkur á vinnubúðum um Google í Þelamerkurskóla um daginn:
  • Ég lét mynd ná yfir alla glæruna svo boðskapurinn kæmist til skila og vekti til umhugsunar.
  • Ég sullaði ekki með margar leturgerðir eða bakgrunna í kynningunni en uppsetningarnar voru mismunandi eftir því hvort á glærunum voru fyrirmæli eða boðskapur.
  • Ég náði að hafa svartan bakgrunn með hvítum stöfum með ákveðnum skilaboðum og svo birtist mynd sem undirstrikaði skilaboðin næst þegar ég smellti á músina. Mér og kennrunum sem voru á kynningunni fannst það svo töff að við horfðum þrisvar sinnum á þetta!
  • Ég setti upp einfalt skjal á Docs sem allir þátttakendur höfðu aðgang að og gátu sett inn spurningar um bekkjarfundi og fengið svör við þeim; frá einhverjum úr hópi þátttakenda, frá mér eða með umræðum allra sem voru í stofunni. Bara þetta eina einfalda fiff gefur geldri glærukynningu mikið líf því hún gefur þátttakendum sem annars rétta ekki upp hönd, tækifæri til að spyrja og jafnframt gefur þetta fiff möguleika á að efni sem brennur á þátttakendum verði tekið til umræðu og gefur fleirum en fyrirlesara tækifæri til að svara spurningum um efnið.
  • Ég notaði viðbótina við Chrome vafrann sem Anita sýndi okkur til að dreifa vefslóðum og QR kóðum til þátttakenda.
 4. Á meðan ég tók glærusafnið í gegn hafði ég í huga boðskap Jennie Magiera frá fyrirlestri hennar á námstefnu SÍ um daginn: það hafa allir frá einhverju að segja. Það var auðvelt að setja það í samhengi við áherslur Zachary um hreyfingu, fjölbreytni, upprifjun og samtal. Það kemur nefnilega enginn galtómur á kynningar eins og þessar, allra síst kennarar sem hafa setið sams konar kynningar áður!
 5. Á menntabúðum #Eymennt hafði ég einu sinni lært á Adobe Sparks. Ég tók nokkrar af gömlu glærunum þar sem nemendur sögðu sjálfir frá eigin reynslu af bekkjarfundum og bjó til myndband úr þeim. Í lok kynningar er meira hressandi að horfa á myndband með tónlist og texta en á hreyfingarlausan texta á glæru. Næst bæti ég myndum af bekkjarfundum inn í myndbandið.
 6. Ég nýtti mér að á tölvunni og í símanum er ég með verkfæri sem leyfir mér að nota símann sem fjarstýringu á glærusýninguna. Helgi Hrafn frumburður minn og tæknilegur ráðgjafi hjálpaði mér að finna það á sínum tíma. Fjarstýringin gefur mér möguleika á að hreyfa mig um rýmið og ræða við þátttakendur í stofunni.
 7. Í lok kynningarinnar söfnuðumst við saman í hring og gerðum eina „bekkjarfundaæfingu“. Hún safnaði hugsunum okkar saman og var dæmi um æfingu sem kennarar gátu farið með inn í kennslustofuna á næsta bekkjarfund.

Þó það hafi tekið mig meiri tíma en ég áformaði að laga gamla glærukynningu var það vel þess virði. Ég sá að mér tókst að virkja þátttakendur meira en áður og af þeim sem gerðu myndbönd í lokin sá ég að mér hafði tekist að koma innihaldinu til skila þannig að alla vega þeir geta nýtt sér það með nemendum.

Niðurstaðan er, að gamlar og löngu geldar glærusýningar er vel hægt að poppa upp með örlítið af stælum og nokkrum nýjum fiffum. Það er bara að byrja á því.

 

Birt í Á ferð og flugi, Bara byrja, Starfsþróun | Merkt , , , , , | Ein athugasemd

Það merkilegasta

Það varð eins og mig grunaði. Í síðustu skráningu gleymdi ég að minnast á það sem sennilega er það merkilegasta af því sem kom fram í fyrirlestrum Zachary Walker í síðustu viku. Þegar ég fletti í gegnum myndirnar af glærum hans með samstarfsfólki mínu voru þar nokkrar glærur þar sem hann bendir á og ræðir hvað hafi breyst með tilkomu tækninnar og samfélagsmiðlanna og hvaða áhrif þessar breytingar hafi á skólastarf. Það er auðvitað það merkilegasta.

Í fyrsta lagi gefa nýir miðlar og  ný tækni okkur fleiri möguleika en áður til skráningar og miðlunar. Í öðru lagi auðvelda þau aðgengi að meiri upplýsingum en nokkurn tímann áður. Hvoru tveggja hafa áhrif á skólastarf og þarf að taka tillit til við skipulag náms og kennslu.

Að mati Zachary þurfa nám og kennsla fyrst og fremst að viðurkenna að snjalltæki og samfélagsmiðlar séu hluti af veruleikanum í skólanum eins og utan hans. Skólastarf sem það gerir þarf svo að miðast við að nemendur læri að nýta og meta trúverðugleika upplýsinganna sem gefast á veraldarvefnum. Námið þarf einnig að taka mið af því að nemendur hafi tækifæri til að nýta upplýsingarnar til að búa til úr þeim eigin verk sem þeir geta birt öðrum.

Snjalltæki og samfélagsmiðlar. Nýjar áskoranir í skólastarfi

Búið til eftir fyrirlestur ZW í Hörpunni 5. okt. 2017. IÁ

Helstu áskoranir í skólastarfi sem viðurkennir snjalltæki og samfélagsmiðla í starfi sínu eru því að mati Zachary eftirfarandi:

 • Það er óraunhæft að takmarka það sem nemendur lesa og nýta sér við það sem kennarinn veit og kann og stendur í bókinni.
 • Það verður að kenna nemendum að leggja mat á efnið sem þeir afla sér á netmiðlum. Sjá spurningar sem Zachary kennir fimmtu bekkingingum að spyrja til að meta trúverðugleika efnis þegar þeir sækja það af veraldarvefnum.
 • Verkefni nemenda þurfa að gefa svigrúm til sköpunar.
 • Námið þarf að gera ráð fyrir því að kenna nemendum að birta verk sín á viðeigandi og ábyrgan hátt.

Niðurstaðan er því að skólastarf getur ekki horft framhjá því að snjalltæki og samfélagsmiðlar eru komnir til að vera; bæði innan og utan skólans. Frekar en að velta fyrir sér hvort snjalltæki eigi að vera í skólanum eða ekki er spurningin miklu fremur hvernig skólafólk ætlar að bregðast við nýjum áskorunum og tækifærum sem gefast með tilkomu þeirra.

 

Birt í Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , , | 4 athugasemdir

My takeaways

Eins og víða hefur komið fram hélt Dr. Zachary Walker erindi og vinnustofur í Reykjavík í síðustu viku. Ég var svo lánsöm að hafa tækifæri til að taka þátt í hvoru tveggja. Fyrirlestrar hans voru tveir og einnig voru tvær vinnustofur. Of yfirgripsmikið yrði að segja frá öllu því nýja sem hann sýndi og kenndi þessa daga. Í þessum pistli skrái ég það sem mér finnst standa uppúr nú þegar ég hef náð að melta áhrifin í tvo daga.

Byrja ekki bíða!

Vertu fyrirmynd

Zachary sagði að ef kennarar og skólastjórnendur vildu einhverjar breytingar þyrftu þeir ekki bíða eftir því að annað í umhverfinu breyttist til að hefjast handa við að breyta umgjörð skólastarfs eða kennsluháttum. Hver og einn stjórnandi eða kennari eiga að geta byrjað hjá sjálfum sér vegna þess að skólastjórnendur og kennarar hafa meira vald til breytinga en þeir halda eða vilja kannast við.

Sjálfur sýndi Zachary hvernig hann hefur innleitt hugmyndir sínar með því að byggja fyrirlestrana og vinnustofurnar upp eins og kennslustundir sínar í skólanum.

12 viðmið í námi og kennslu

Bæði á fyrirlestrunum og í vinnustofunum hamraði Zachary á 12 viðmiðum sem hann notar við skipulagningu náms og kennslu. Hann lét þátttakendur m.a. þylja þau upp hver fyrir öðrum og leika sér með hugtökin í klappleikjum. Þannig sýndi hann okkur hvernig var hægt að koma mörgum viðmiðanna (virkja skilningarvitin, tónlistin, hreyfingin, að hlæja og vinna með öðrum) fyrir í t.d. einum leik. Hérna fyrir neðan setti ég viðmiðin inn í Padlet. Þau skiptast í tvo flokka, annars vegar það sem þarf til að vekja starfsemi heilans og koma honum í gang og hins vegar hvað kennsluaðferðin/pedagógían þarf að taka tillit til svo kennslustundin komi að gagni.

Made with Padlet

Ný verkfæri

Ég kynntist tveimur nýjum verkfærum sem hægt er að nota svo nemendur geti nýtt eigin tæki í skólanum. Þessi verkfærin gefa m.a. fleirum en þeim sem þora að tala í kennslustundum vettvang til að tjá sig og er hægt að nota á marga vegu hvenær sem er í lærdómsferli; eins og við að kanna hvað nemendur vita nú þegar um viðfangsefni, í heimanám, til að tékka af framvindu námsins og til að spyrja í lok dags hvað nemendur hafi lært í dag eða í kennslustundinni.

Annað verkfærið er vefsvæði þar sem hægt er að gera kannanir og fá svörun strax. Það heitir Mentimeter og svipar til Poll Everywhere sem ég hafði nýlega kynnst. Hitt verkfærið er TodaysMeet þar sem þátttakendur geta sagt skoðun sína, sagt frá fyrri þekkingu á nýju efni eða þulið upp hvað þeir hafa lært af því sem lá fyrir. Einnig sýndi hann okkur hvað hann notar til að setja tímavaka inn í glærurnar sínar.

Og margt fleira

Zachary fór líka yfir viðmið og reglur sem hann notar í kennslustofunni þegar nemendur eru að vinna í snjalltækjunum, hann sýndi okkur og við ræddum marga möguleika á því að nota myndir og myndbönd í námi og kennslu. Hann benti á að það mikilvægasta er að nota þau tæki og tækni sem við notum frá degi til dags í stað þess kennarar og nemendur hlaði niður alls kyns smáforritum og sérhæfðum vefsvæðum. En það allra mikilvægasta er svo auðvitað að láta tæknina ekki vera aðalatriðið heldur námið og kennsluna.

My Takeaways – hvernig nýtist þetta svo?

 1. Ég er enn sannfærðari að það skiptir máli að halda áfram að þróa rafræna kennsluhætti sem taka mið af þeirri tækni sem nemendur handfjatla utan skólans.
 2. Ég lærði á ný verkfæri sem ég þegar hef sett inn í glærukynningu sem ég þarf að nota í næstu viku.
 3. Ég er þegar farin að setja upp námskeið fyrir kennara um efni sem ég hef kennt margoft áður en næst ætla ég að prófa að hafa viðmiðin 12 til hliðsjónar og taka fyrirlestra og vinnustofur Zachary mér til fyrirmyndar.
 4. Fleira á svo eflaust eftir að koma í ljós seinna.
 • Ég safnaði myndunum sem ég tók þessa tvo daga í þetta albúm.
 • Tístunum frá fyrirlestrunum í Hörpunni safnaði ég hérna.
 • Upptöku af fyrirlestrinum í Hörpunni og glærum Zachary er hægt að skoða hérna.

 

 

 

Birt í Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Merkt , , | Færðu inn athugasemd

Ekki bara bé-in 4

Á haustin er hefð fyrir því að kalla foreldra til funda í skólunum og kynna fyrir þeim vetrarstarfið. Fundirnir hafa gjarnan verið á kvöldin og krydduð með fræðsluerindum sem varða uppeldi og menntun. Mæting hefur verið misjöfn á þessa fundi; foreldrar yngstu barnanna hafa oftast verið áhugasamastir og svo hefur fækkað í foreldrahópnum eftir því sem nemendur verða eldri. Flestir skólar hafa reynt að setja kynningarnar í nýja búninga sem höfða til foreldra og fundið nýjar tímasetningar sem henta uppteknum barnafjölskyldum.

Ég hef áður skrifað um það hvernig grunnskólalög og aðalnámskrá fjalla um skyldur skólans í að hafa frumkvæði til að virkja hlutdeild og og þátttöku foreldra í námi barna sinna.

Á kennarafundi í Þelamerkurskóla um daginn var námsefniskynning haustsins til umræðu. Þá benti einn kennarinn á að honum fyndist skemmtilegast að vera boðaður í skólann þegar hann gæti hitt börnin sín í skólanum og séð þau að störfum. Annar bætti við að það væri kannski tímabært að bjóða foreldrum í skólann og fá nemendur til að kynna fyrir þeim hvernig tölvur og tækni væru nýtt í námi barnanna: Þetta er löngu hætt að vera bara bé-in fjögur; barn, bók, blýantur og borð. En þannig þekkja flestir foreldrar skólastarf af eigin reynslu.

Úr varð var að bjóða til opinna kennslustunda í kringum hádegið og bjóða foreldrum í súpu og námskynningu en í skólanum er hefð fyrir námskynningum sem heita súpa og samtal. Í opnu kennslustundunum ætluðu kennarar að fá nemendur til að vera með kynningar á nýju námsumhverfi þeirra sem tekur mið af því að nýta rafræna kennsluhætti.

Í gær voru svo opnu kennslustundirnar. Dagskráin byrjaði á því að skólastjóri kynnti hugmyndir og framkvæmd skólans í notkun rafrænna kennsluhátta, síðan höfðu foreldrar tækifæri til að spjalla saman yfir súpu og brauði og svo tóku nemendur við. Um allan skóla voru litlir hópar nemenda með tæki, spil, bækur og dót sem þeir notuðu til að sýna og segja foreldrum frá starfi sínu.

Með þessu fyrirkomulagi tókst ekki bara að búa til aðstæður þar sem foreldrar sáu börnin sín við leik og störf heldur voru nemendur virkjaðir til þátttöku og gátu sýnt færni sína og þekkingu á tækjum og námsefni. Það er alltaf góð tilfinning þegar hægt er að slá margar flugur í einu höggi.

Í anda dagsins var gerð myndræn framsetning á deginum í forritinu Clips og það birt foreldrum á heimasíðu skólans, Facebooksíðu hans og sent heim til foreldra í tölvupósti með þökkum fyrir komuna.

Birt í skólastjórnun | Merkt , | Færðu inn athugasemd