Bekkjarfundir

utileikirapril 006 copy
Mynd úr starfi Húsabakkaskóla í Svarfaðardal þar sem bekkjarfundir voru fastur liður í starfi skólans.

Þegar ég byrjaði að kenna í grunnskóla lærði ég fljótlega að starf umsjónarkennarans var meira en að miðla efni bókarinnar til nemenda. Eitt af bjargráðum mínum þá var að draga fram lítið hefti á norsku sem ég hafði fengið í vettvangsnámi þegar ég var í kennaranáminu í Noregi. Þann vetur sem ég prófaði hvort og þá hvernig ráðin í heftinu virkuðu með nemendahópnum skráði ég hjá mér hvernig ég hagaði fundunum og hvað ég myndi gera á annan veg.

Seinna setti ég svo saman hefti sem ég gaf út og lét prenta í Víkurprenti á Dalvík. Það var árið 2005. Heftið hefur síðan verið prentað nokkrum sinnum og í flutningunum um daginn „fann“ ég bunka af heftunum. Það er nokkuð síðan ég hef sent einhverjum heftið útprentað svo ég ákvað að nú væri sennilega kominn tími til þess að það yrði aðgengilegt öllum hérna á Bara byrja.

Hérna fyrir neðan getur þú nálgast heftið og prentað það út eða hlaðið því niður á tækið þitt. Gangi þér sem allra best á bekkjarfundunum. Af reynslunni veit ég að þeir eru algjört fyrirtak.

Lestraráhuginn

Þrennt hefur orðið til þess að undanfarna daga hef ég hugsað um lestur og lestraráhuga. Í fyrsta lagi eru það niðurstöður PISA 2018, í öðru lagi viðburður Ævars Þórs rithöfundar með meiru sem ég mætti á og svo í þriðja lagi færsla Herdísar Magneu Hübner grunnskólakennara á Ísafirði sem hún birti á Facebook og kallar Písa krísu:

Pistill Herdísar rifjaði upp fyrir mér eigið lestraruppeldi. Eins og Herdís nefnir var lestur þá afþreying. Afþreying eins og að fara út að leika, fara í sund með vinum og upp á dal á skíði. Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég las mikið af þýddum barnabókum sem voru ekki allar miklar gæðabókmenntir og að húsakostur bæjarbókasafnsins á Ísafirði var ekki sérstaklega aðlaðandi; háaloft Sundlaugarinnar. Við krakkarnir máttum líka alls ekki hanga þar. Bókavörðurinn, Kitti á Garðsstöðum, sá til þess að við stöldruðum ekki lengi við. Í minningunni virðist það líka hafa verið alveg ljóst að í verklýsingu bókavarðarins var ekki sérstakur kafli sem fjallaði um að það væri í hans verkahring að ráðleggja börnum við bókaval eða að ota að þeim einstökum bókaflokkum eða höfundum.

Sundhöllin á Ísafirði

Þetta aðgengi virtist samt ekki trufla lestraráhugann. Ég kom mér upp sérstakri áætlun um hvaða bækur og heilu hillurnar ég vildi lesa og í hvaða röð. Lestur var eðlilegur og fastur liður daglegs lífs. Líka á sumrin. Þá vorum við í vist; pössuðum börn. Og við vorum ekki gamlar þegar okkur var treyst fyrir ungum börnum, allan daginn. Við söfnuðumst saman á skólalóðinni við grunnskólann því þar var steinveggur og slétt malbik sem gerði okkur mögulegt að fara í boltaleikinn „að verpa eggjum“. Við hittumst líka á „efri róló“ því hann var miðsvæðis. Þar gátu barnapíurnar bæði úr efri og neðri bænum hist. Ég man að þar gátum við haldið eins konar bókaklúbb í gula stóra sandkassanum. Þar bárum við bókstarflega saman bækur okkar. Hvað við vorum að lesa og hvort okkur þótti þær góðar eða ekki. Og þetta lestrarsamfélag var án afskipta fullorðinna. Okkar eiginn lestur og okkar eigið frumkvæði. Áhuginn var drifkrafturinn.

Hvaðan áhuginn kom er örugglega hægt að rannsaka. Og hefur eflaust verið gert. Ugglaust má ætla að einn þátturinn sé að við höfðum svo sem ekki marga aðra kosti til afþreyingar. Það sem ég vil taka með mér úr pistli Herdísar og eigin lestraruppeldi er lestraráhuginn; án hans getur lestur varla orðið meira en leiðinleg kvöð. Þess vegna þarf að finna leiðirnar og trixin sem kveikja áhugann. Bæði heima og í skólanum.

Ævar Þór rithöfundur með meiru.

Ég rakst á eina þeirra á síðasta sunnudag. Þá stóð Ævar Þór rithöfundur með meiru fyrir viðburði (Bókapartýi) í Bókaverslun Eymundssonar á Akureyri og þangað átti ég erindi. Þegar ég kom inn í bókabúðina var þar þröng á þingi í öðrum enda búðarinnar. Þar voru á milli 50 og 60 börn og nokkrir fullorðnir. Það sem vakti mesta athygli mína var fjöldi drengja í hópnum. Fljótt á litið sýndist mér að 80% þeirra sem þarna voru vera drengir. Viðburðurinn innihélt happdrætti, ókeypis bókamerki og plakat, upplestur úr nýjustu bók Ævars og áritun hans í eigin bækur. Það fór ekki fram hjá mér að krakkarnir voru fullir eftirvæntingar og aðdáunar. Á meðan Ævar las upp var dauðaþögn í hópnum og allir fylgdust með af einlægum áhuga. Lestraráhuga, sem hafði dregið áheyrendur á viðburðinn.

Eftir þennan viðburð velti ég fyrir mér hvað það væri sem hefði kveikt lestraráhuga þessara áheyrenda og þá sérstaklega allra drengjanna sem voru í hópnum. Er það innihald bókanna hans Ævars og uppbygging þeirra? Er það Ævar sjálfur og hvernig hann kemur efni sínu á framfæri? Eða er það af því hann birtist börnunum í fleiri hlutverkum en sem rithöfundur? Er það hvernig hann kemur fram við börnin og talar við þau á viðburðum sínum? Eða er það kannski bara allt þetta? Alla vega þá finnst mér að ef við meinum eitthvað með því að vilja vekja lestraráhuga barna og ungmenna þarf að finna út úr því hvað kveikir þennan áhuga og frumkvæði til að mæta á viðburð sem þennan.

Af eigin reynslu af æfingum við hlaup veit ég að mér fer ekkert fram án þess að hafa markmið og áætlun sem er samin af mér reyndari hlaupara. Ég hef líka lært að ég næ ekki markmiðinu ef ég fylgi ekki áætluninni. Á hlaupaferlinum hef ég farið frá því að komast varla 200 m án þess að hvíla mig til þess (þegar best lét) að hlaupa heilt maraþon. Markmiðin sem ég set með hverri áætlun eru mismunandi og þess vegna eru æfingarnar ekki alltaf eins. Stundum er það hreinlega að auka úthaldið og stundum er æfingunum ætlað að auka hraðann. Ég viðurkenni að ég er ekki alltaf uppfulll af áhuga og hlaupagleði þegar ég þarf að hafa mig á æfingar. En ég hef komið mér upp alls konar trixum til að vekja áhugann á að koma mér út fyrir þröskuldinn. Erfiðasta skrefið er nefnilega alltaf það fyrsta; að hafa mig af stað og hlusta ekki á eigin fyrirstöður og afsakanir. Fyrsta skrefið er nefnilega mikilvægasta skrefið af því um leið og ég er komin út fyrir hússins dyr er veðrið eða dagsformið oftast betra en ég reyni yfirleitt að telja mér trú um að það sé áður en ég held af stað.

Ég nefni hlaupareynsluna af því fyrsta skrefið í því að breyta kennsluháttum eða leiðum til að auka lestraráhuga er að skoða umhverfið. Hvað gerum við til að vekja áhugann? Hvað vitum við að hægt er að gera til að kveikja lestraráhuga? Hverjir eru að gera þetta vel? Og af hverju? Ég er sannfærð um að þegar það hefur verið kortlagt þá er þetta eins og þegar ég er komin á eigin hlaupaæfingu – þetta er auðveldara og einfaldara en við höldum.

Reynslan hefur kennt mér að fyrsta skrefið er nefnilega bara að byrja og síðan að halda sig við efnið.

Ps. þetta gerðum við t.d. í Húsabakkaskóla um árið til að vekja lestraráhugann. Kannski má nota eitthvað af þeim trixum aftur.

Samstarf er lykilorðið

Námsleyfi hefur m.a. þann kost að hægt er að opna „jólaverkstæðið“ á miðjum degi og hlusta líka á fræðslufund í beinni. Og að fara í kaffi þegar manni sýnist.

Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að minnast á niðurstöður PISA en mér fannst ég ætti að taka saman það sem mér fannst markverðast af því sem ég náði að fylgjast með í gær. Ég fylgdist með streymi frá Stakkahlíðinni þar sem fræðimenn Menntavísindasviðs HÍ fóru yfir niðurstöðurnar. Samstarf Menntamálastofnunar og Menntavísindasviðs HÍ þykir mér til fyrirmyndar við úrvinnslu og kynningu á niðurstöðum. Ég leyfi mér í því sambandi að benda á grein Önnu Kristínar Sigurðardóttur PISA – hvað svo? Nokkur leiðarstef um innleiðingu menntaumbóta sem birtist í Netlu fyrir skömmu. Eftir lestur hennar, innlegg annarra fræðimenna í gær og að hafa hlustað á menntamálaráðherra í Kastljósinu ræða áform sín til úrbóta finnst mér samstarf vera lykilorð til þess að við munum geta náð því að nýta niðurstöður PISA til framfara; fyrir menntakerfið, samfélagið og ekki síst börnin.

Það ætti að vera okkur þekkt að það stoðar lítið að benda hvert á annað til að finna sökudólg eða sökudólga fyrir slökum niðurstöðum (the blame culture). Samstarf Menntamálastofnunar og Menntavísindasviðs HÍ gæti orðið okkur fyrirmynd um framhaldið. Enda heyrðist mér menntamálaráðherra tala fyrir samstarfi í Kastljósinu í gær. Þegar storminn um spælinguna yfir því að niðurstöðurnar bötnuðu ekki milli fyrirlagna (þrátt fyrir Hvítbókina) lægir, finnst mér að það muni verða fróðlegt að fylgjast með því hverjir eða hvaða stofnun það verður sem mun hafa frumkvæði að samstarfinu og hverjar verði svo áherslurnar við að koma markmiðum ráðuneytis til framkvæmda. Verður það ráðuneytið sem hefur frumkvæðið, og þá hvernig? Verður það Kennarasamband Íslands, fræðasamfélagið eða Heimili og skóli? Eftir Hvítbókina og fyrirliggjandi niðurstöður er margt í samfélaginu okkar og umhverfi menntakerfisins sem gefur okkur möguleika á að gera hlutina allt öðruvísi en við höfum nokkru sinni gert áður. Þar liggja hin fjölmörgu og skemmtilegu tækifæri okkar til úrbóta.

Í framhaldinu ætla ég alla vega að hafa fernt mér til leiðsagnar:

  1. PISA er afmörkuð mæling en það á auðvitað að taka mark á henni. Samanber það sem Alma Harris benti á í viðtali í gær og Kennaraháskólanum í Swansea í Wales fannst rétt að halda til haga á Twitter.

2. „Styrkleikarnir verða ekki veikari þó bent sé á veikleikana“ – orð Önnu Kristínar Sigurðardóttur á kynningarfundinum í gær. Það er mat mitt að við getum nýtt hvoru tveggja til að gera gott skólastarf enn betra.

3. Jöfnuðinn í skólakerfinu okkar þarf að vernda og hlú að.

Við höfum talið jöfnuð í menntakerfinu vera okkar aðalsmerki. Styðja þessar niðurstöður það? Og er þetta ásættanlegt?

4. Grein sem birtist á Connected Principals í morgun, Learning to learn boynd the test minnti mig á að árangurinn á ekki endilega að vera markmiðið heldur miklu fremur ferlið að því hvernig við náum betri árangri – og hvaða árangri viljum við ná? Viljum við endilega verða betri í því sem kastljósinu var beint að í gær? Hverju viljum við breyta og hvað viljum við vernda?

Til þess þarf samstarf og áður en það hefst þarf samtal milli stofnana og samtaka. Öðruvísi mun okkur ekki takast að nýta okkur alþjóðlegar mælingar til að gera gott starf skólanna í öllum landshlutum enn betra.

Ps. Og ekki gleyma að spyrja börnin. Þau vita vel hvað og hvernig þau þurfa og vilja læra.

Og svo allt hitt á #utís2019

Í því sem ég hef áður tekið saman um Utís2019 segir frá fyrirlestrum og vinnustofum. En Utís er miklu meira en það því þar eru aðrir dagskrárliðir sem gera þennan viðburð öðruvísi en önnur starfsþróunartilboð sem ég hef tekið þátt í. Í þeim hluta dagskrárinnar er gert ráð fyrir að þeir sem mæta taki þátt og eigi frumkvæði að því sem er í boði. Þannig koma gróskan og auðurinn í hópnum auðveldlega í ljós. Í þessum viðburðum sést líka hvernig gróskan getur vaxið þegar þátttakendur deila reynslu sinni og þekkingu hver með öðrum. Þessir dagskrárliðir eru:

  • Menntabúðir
  • Apphraðstefnumót
  • Appsmakk
  • Hópefli
  • Skólaheimsókn í Árskóla
Halda áfram að lesa

Vinnustofurnar á Utís2019

Á utís2019 þótti mér erfitt að velja mér vinnustofur af því úrvalið var mikið og gott. 16 vinnustofur voru í boði í tveimur lotum. Í þeirri fyrri valdi ég að fara til Mari Venturino og læra af henni hvernig hún nýtir Google Slides með nemendum til að þjálfa þá í að skoða fleiri en eina hlið á málefnum sem þeir skoða í skólanum og annars staðar.

Lykilorðin sem drógu mig á þessa vinnustofu voru samskipti, gagnrýnin hugsun og Google Slides.

Í vinnustofunni sýndi Mari okkur hvernig hún hefur nýtt Google Slides þannig að nemendur vinna allir í sama skjalinu án þess að vera „allir á sama stað“ og rugla í færslum hvers annars. Hver og einn nemandi hefur eina glæru í skjalinu til umráða og fær eitt málefni til að kynna sér vel og setja fram staðhæfingu um málefnið. Inn á glæruna setja nemendur svo rök með og á móti staðhæfingunni. Samhliða þessu verkefni æfa nemendur einnig færni sína í notkun verkfæra Google Slides. Í stað þess að nýta tímann í að nemendur kynni hverja glæruna á fætur annarri og hún meti svo hvern og einn hefur Mari beðið nemendur um að meta hver um sig einn bekkjarfélaga. Hún lét okkur prófa þetta með því að við hoppuðum upp um eina glæru frá þeirri glæru sem við vorum að vinna í og mátum þá glæru út frá ramma sem Mari deildi með okkur.

Halda áfram að lesa

Fyrirlestrar Utís2019 – lærdómur og áform

Eftir hvern utís-viðburð hef ég tekið saman lærdóminn minn og áform um hvað ég ætla að gera við þann lærdóm. Í gegnum tíðina hef ég fundið út að eigin starfsþróun verði ekki að veruleika fyrr en nýi lærdómurinn er þróaður í daglegu starfi og þá helst með öðrum.

Sameiginlegir fyrirlestrar voru fleiri á Utís2019 en á þeim Utís-viðburðum sem ég hef áður tekið þátt í. Það er í sjálfu sér í lagi þar sem mér sýnist þeim ætlað að ydda boðskap viðburðarins; að kennsluhættir sem taka mið af samfélagi 20. (eða jafnvel 19.) aldarinnar duga ekki lengur ef búa á nemendur skólanna undir „líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun“. Aðalsmerki Utís hefur fram til þessa verið að fólk kemur saman til að deila hvert með öðru, prófa ný verkfæri og aðferðir og fikta sig áfram. Það hefur fram til þessa verið mér dýrmætur tími. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort þeir sem á annað borð sækja um á Utís og komast að, þurfi á því að halda að heyra boðskapinn oftar en einu sinni. Allir fyrirlestrarinir sem ég hlustaði á voru vel settir fram; áheyrilegir og þeim fylgdu fallegar glærur. Og mér finnst oftast bæði skemmtilegt og fróðlegt að heyra boðskapinn settan í annað samhengi en ég hef áður heyrt eða lesið. En ég er ekki tilbúin til þess að það gerist mikið oftar en þrisvar sinnum á kostnað tímans sem ég gæti öðru leyti nýtt með kollegum í verklegar æfingar og aðrar pælingar. Þess vegna fundust mér þessir þrír fyrirlestrar alveg mátulega langir, áheyrilegir og fallega fram settir.

Halda áfram að lesa