Fyrirlestrar Utís2019 – lærdómur og áform

Eftir hvern utís-viðburð hef ég tekið saman lærdóminn minn og áform um hvað ég ætla að gera við þann lærdóm. Í gegnum tíðina hef ég fundið út að eigin starfsþróun verði ekki að veruleika fyrr en nýi lærdómurinn er þróaður í daglegu starfi og þá helst með öðrum.

Sameiginlegir fyrirlestrar voru fleiri á Utís2019 en á þeim Utís-viðburðum sem ég hef áður tekið þátt í. Það er í sjálfu sér í lagi þar sem mér sýnist þeim ætlað að ydda boðskap viðburðarins; að kennsluhættir sem taka mið af samfélagi 20. (eða jafnvel 19.) aldarinnar duga ekki lengur ef búa á nemendur skólanna undir „líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun“. Aðalsmerki Utís hefur fram til þessa verið að fólk kemur saman til að deila hvert með öðru, prófa ný verkfæri og aðferðir og fikta sig áfram. Það hefur fram til þessa verið mér dýrmætur tími. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort þeir sem á annað borð sækja um á Utís og komast að, þurfi á því að halda að heyra boðskapinn oftar en einu sinni. Allir fyrirlestrarinir sem ég hlustaði á voru vel settir fram; áheyrilegir og þeim fylgdu fallegar glærur. Og mér finnst oftast bæði skemmtilegt og fróðlegt að heyra boðskapinn settan í annað samhengi en ég hef áður heyrt eða lesið. En ég er ekki tilbúin til þess að það gerist mikið oftar en þrisvar sinnum á kostnað tímans sem ég gæti öðru leyti nýtt með kollegum í verklegar æfingar og aðrar pælingar. Þess vegna fundust mér þessir þrír fyrirlestrar alveg mátulega langir, áheyrilegir og fallega fram settir.

School people – Jeffrey Heil

Jeffrey Heil sótti fyrirsögn fyrirlestrarins, School People, í samtal sem hann átti við mömmu sína þegar hann spurði hana af hverju hún tæki það ekki meira nærri sér að frændi þeirra hætti í framhalsskóla: Oh, Jeffrey, you know, in our family we are not school people.

Í erindi sínu velti hann fyrir sér hverjir séu eiginlega „school people“. Eru það þeir sem komast í gegnum námið sem þar hefur verið í boði og nefndi hann hið hefðbundna bóknám og staðreyndalærdóm. Eða einhverjir aðrir? Hann spurði einnig að því hvort það ætti ekki að vera þannig að öllum gæfist tími og tækifæri til að læra í skólanum? Því til áréttingar spann hann erindi sitt í kringum staðhæfinguna að allir geti lært og hafi áhuga á því að læra. Hann nefndi að það væri ekki víst að einhæfir kennsluhættir sem miða við bókalærdóm og ritgerðarskrif henti öllum nemendum. Máli sínu til áréttingar sýndi hann dæmi um börn og ungmenni sem elska að læra með því að nýta sér t.d. myndbönd á YouTube til að æfa ákveðna færni eða hæfni. Þau sögðu að í skólanum væri ekki hægt að læra á þennan hátt; það væri ekki hægt að stoppa, spóla til baka, skoða betur og æfa aftur og aftur. Í skólanum væru miðlarnir aðrir og beðið um annars konar frammistöðu.

Jeffrey brýndi fyrir ráðstefnugestum að skoða vel hvaða viðhorf stýrðu vali þeirra á kennsluháttum. Hann spurði, af hverju ertu kennari og hvaða skilaboð eru á „hurðinni að þinni skólastofu“? Are you a conductor or are you a gatekeeper?

Í lokin á erindi sínu ræddi Jeffrey um notkun gagna í skólastarfi. Hann lagði áherslu á að hann væri í sjálfu sér ekki á móti gögnum til að meta árangur skólastarfs en lagði áherslu á að áður farið væri að safna gögnum þyrfti að ákveða til hvers ætti að nota þau af því að gögnin fá ekki tilgang fyrr en þau fá andilit (nemenda) og innihald; þ.e. fyrir hverja er verið að safna gögnum og hvernig á að nota þau til framfara?

Og lokaorð Jeffrey Heil voru:

Champions of Change – Micah Shippee

Micah Shippee ræddi í sínu erindi um breytingar; breytingar á samfélaginu og hvaða breytingar skiptu máli svo skólastarf gæti talist efla menntun til framtíðar. Hann byrjaði á því að virkja áheyrendur með því að spyrja þá hversu nýungagjarnir þeir teldu sig vera. Það gerði hann með því að sýna þeim myndir af verkfærum og fyrirbærum og merkja hjá sér á skalanum 1-5 hversu vel þeim líkaði það sem hann sýndi. Niðurstaðan var að það er ekki nóg að vera nýjungagjarn það þarf líka að vera hægt að nýta nýjungarnar á þágu menntunar og að fá aðra með sér í lið til að nýta allar nýjungarnar. Micah sýndi svo myndband sem Mark Van Vugt sýndi á ESHA ráðstefnunni árið 2012 um mikilvægi þess að rækta og hlúa að fyrstu fylgjendum nýrra hugmynda. Þeim sem þora að stíga út úr hópnum/vananum og með þátttöku sinni hvetja frumkvöðla til dáða. Því næst sýndi hann kúrfu Everett Rogers um hópaskiptingu við innleiðingu á nýrri tækni. Rogers byggði kúrfuna sína á 600 samantektum af næstum 600 rannsóknum á útbreiðslu nýjunga á margvíslegum sviðumi. Shippee lagði þannig út frá henni að ef tekst að hlúa að fyrstu fylgjendum nýrra hugmynda þannig að þeir geti haft áhrif á meirihlutann sem er fyrri til er björninn að hluta til unninn því að þá fjölgar þeim hratt sem nýta ný verkfæri og/eða hugmyndir (Sjá athugasemd og útskýringar frá Tryggva Thyer sem fylgir þessari færslu).

Micah áréttaði síðan að stór og alþjóðleg fyrirtæki leggi ekkert sérstaklega áherslu á að ráða til sín fólk með langa skólagöngu að baki heldur sé einnig leitað að öðrum eiginleikum eins og frumkvæði, sköpun, samvinnu- og samskiptahæfni og hæfni til að tileinka sér nýja hluti. Hann setti fram áhugaverða mynd sem sýnir hvaða þættir námsumhverfisins hafi áhrif á námsárangur: þekking, færni, umhverfi og áhugahvöt. Micah vildi meina að þegar þessir þættir eru ekki í jafnvægi í námsumhverfi nemenda er ekki öruggt að þeim fari fram eða að þeir læri það sem gæti nýst þeim.

Í lokakafla erindisins sýndi Micah brot úr myndböndum sem sýna hvernig vélmenni vinna störf sem fyrir nokkrum árum voru unnin af fólki; taka saman pantanir (Amazon), aka bílum og sporvögnum og alls kyns flokkunarstörf. Niðurstaða erindis hans var að skólastarf þurfi í auknu mæli að leggja áherslu á að taka mið af því að nemendur eiga eftir að sinna æ fleiri störfum sem reyna á það sem tölvur og vélar geta ekki enn gert; gagnrýna hugsun, sköpun, nýjungagirni og samskiptafærni, jafnvel við fólk sem við aldrei hittum eða sjáum! Af því þannig er veröldin nú þegar orðin.

The Imminent Shift – Heather Lister

Heather Lister hóf erindi sitt á því að velta fyrir sér hvernig samfélagið skilgreindi árangur og hvaða skilaboð „markaðurinn“ sendi neytendum um hvað þyrfti að kaupa og gera til að ná árangri. Í þeirri umfjöllun dró hún sérstaklega fram hvernig bóka- og smáforritaútgefendur beina markaðssetningu sinni að foreldrum. Hún nefndi Baby University og Lifelong Kindergarten þar sem markaðssetning menntunar byrjar snemma og otað er að foreldrum að börn þeirra „missi af lestinni“ ef ekki er byrjað nógu snemma að æfa þau í að „ná árangri“.

Heather velti síðan upp spurninginnu hvort það gæti verið að „uppfinningum“ fari fækkandi í framtíðinn; hvort að öld hinna byltingarkenndu uppfinninga gæti verið liðin?. Í því sambandi spurði hún áheyrendur svo að því hvora uppfinninguna þau myndu alls ekki vilja vera án, pípulagna eða snjallsíma? Og að velta síðan fyrir sér hvor uppfinningin hefði verið meiri bylting á þeim tíma sem hún var fundin upp.

Heather ræddi síðan mikilvægi sköpunar í menntun nútímans en varaði jafnframt við því hvernig skólinn og samfélagið nálguðust „kennslu í sköpun“. Hún sagði að um leið og sköpun væri orðin lykilorð í námi og menntun væri markaðurinn fljótur að taka við sér en skapandi skólastarf væri ekki hægt að kaupa né setja upp í gátlista sem merkt er við þegar öllum atriðum á listanum væri lokið. Það væri öllu fremur hvernig kennarar skipuleggja námið og einstök verkefni sem gerir skólastarf skapandi og krefjandi fyrir nemendur þannig að þeir nái framförum/árangri. Hún benti á að skapandi og óhefðbundið skólastarf væri flókið og jafnvel erfitt en áréttaði að stundum væri það rétta og það erfiða það sama og það rétta. Og við áheyrendur utís2019 væri bara hægt að segja: So keep going!

Áform

Eftir að hafa skoðað glósurnar frá fyrirlestrunum get ég ekki annað en áformað að halda áfram að styðja við skólastarf sem leggur áherslu á menntun til framtíðar og að vera gagnrýnin á markaðssetningu þess sem „telst“ styðja við þá menntun.

Gárur á tjörninni

Reglulega rifjast upp fyrir mér myndlíking sem dr. Sigrún Júlísdóttir sagði mér af fyrir löngu. Myndlíkingin varðaði breytingastjórnun. Hún sagði að það sýndi sig að ef fólk vildi breyta einhverju þá mætti velta fyrir sér hvort væri betra að kasta mörgum smáum steinum í lygna tjörn eða að kasta einum stórum steini til að fá fram breytingu. Þeir smáu eru fleiri og gárur þeirra snertast og eru lengur á leiðinni að landi. Út frá þeim stóra gusast og slettist hratt í allar áttir. Þó að litlu steinarnir séu margir og smáir þá snertast gárur þeirra og þótt gárurnar þeirra fari hægt yfir þá ná þær líka landi eins og þær sem eru stærri og fara hraðar. Munurinn er að þær stærri hafa ekki hitt aðrar gárur á leiðinni að landi og þess vegna ekki orðið fyrir áhrifum annarra.

Falleg og lygn tjörn í bænum Celebration á Florída en þar dvaldi ég í fyrra þegar #Utís2018 fór fram. Þá lofaði ég mér að ef hægt væri kæmi það ekki fyrir aftur.

Báðar aðferðirnar hafa hreyft við lygnunni hvor á sinn hátt og það má svo velta fyrir sér hvor þeirra muni geta skilað vænlegum árangir þegar til lengri tíma er litið.

Eftir að hafa tekið þátt í #Utís2019 um helgina fannst mér myndlíking Sigrúnar eiga vel við Utís-viðburðina sem ég hef tekið þátt í. Þar safnar Ingvi Hrannar Ómarsson frumkvöðull saman mörgum steinum sem hann kallar, landsliðið í menntun. Þeir sem þangað koma eru tilbúnir til að deila þekkingu sinni og reynslu hver með öðrum og einnig eftir viðburðinn. Þannig tekst Utís á hverju ári að gára mennta-tjörnina á Íslandi svo enn fleiri fái að njóta þess sem þar fer fram.


Þó að lygnan og stillan séu oftast bæði þægilegar og fallegar þá gagnast hvorug þeirra til breytinga. Af fyrirlestrunum og vinnustofum á #Utís2019 og fleiri viðburðum sem fjalla um menntun til framtíðar er ljóst að mennta-tjörnin á Íslandi og víðar þurfa að gárast til að þær geti veitt nemendum menntun sem dugar þeim sjálfum og samfélagi þeirra til framtíðar. Og til þess þarf sannarlega marga steina. Þess vegna finnst mér gott að Utís skuli á hverju ári stækka. Hver smásteinn sem Ingvi Hrannar velur til þátttöku er þyngdar sinnar virði í gulli þegar kemur að því breyta kennsluháttum þannig að þeir nýtist við skólastarf sem á að gagnast til að breyta nútíðinni og einnig til framtíðar.

Skilvirkir samvinnufundir

Í einni skólaheimsókninni í Kanada (í St. André Bessette Catholic School) fékk ég tækifæri til að sitja fund og fræðslu sem Kurtis Hewson stýrði. Ásamt tveimur öðrum, Lornu Hewson og Jim Parsons hefur hann skrifað bókina Envisionaring A Collaborative Response Model: Beliefs, Structures and Processes to Transfrom how we Respond to the Needs of Students. Í henni er fjallað um og kenndar aðferðir til að gera samvinnufundi starfsmanna skóla skilvirka þannig að þeir bæti námsaðstæður nemenda. Í fundaforminu er einnig gert ráð fyrir að þeir sem taka þátt í fundinum deili þekkingu sinni og reynslu. Litið er svo á að þannig nýtist mannauður hvers skóla betur en ella.

Kaþólsku skólarnir í Elk Island skólaumdæminu höfðu í fyrra tekið sig saman um að innleiða fundaform Hewson. Í St. André Bessette höfðu kennarar hist reglulega til að bera saman bækur sínar varðandi námsaðstæður einstakra nemenda og til að styðja hvern annan við að koma til móts við þarfir nemenda sinna. Skólinn hafði skipulagt fundina þannig að þeir voru haldnir á skólatíma og þá var helmingur kennara á fundi og hinn helmingurinn við kennslu. Stjórnendur höfðu ákveðið að skipta kennarahópnum í fjögur teymi og fékk hvert þeirra samvinnufund einu sinni í mánuði. Í hverju fundateymi voru því 5-7 kennarar. Við nýlegt mat á verklaginu hafði komið í ljós að kennurum fannst tíma sínum ekki vel varið og að teymin ræddu helst einstaka nemendur og þá oftast þá sömu. Einnig nefndu kennarar að þeim fyndust teymin hafa verið sett saman af handahófi. Þeir óskuðu eftir því að í teymunum væru kennarar sem t.d. kenndu sömu fög eða sama árgangi.

Á sýnifundinn voru boðaðir allir kennarar 9. og 10. bekkjanna í skólanum. Fimm sátu fundinn með Kurtis, einn skráði fundargerð og aðrir fylgdust með. Eftir fundinn voru umræður um lærdóminn af sýnisfundinum.

Til þess að bæta innleiðingarferlið báru stjórnendur St. André Bessette sig umm við Kurtis Hewson og hann kom í skólann. Fyrst hélt hann fund með stjórnendum og síðan hélt hann „sýnisfund“ með kennurum og stjórnendum. Það fyrsta sem hann nefndi var að það þyrfti að fækka í teymunum í skólanum; helst ekki að hafa í þeim fleiri en fimm; best væri að þau væru þriggja til fjögurra manna. Hann nefndi líka að við samsetningu á þessum teymum þyrfti að hafa í huga fjölbreytni í kennslugreinum og/eða reynslu þeirra sem sitja í teyminu. Hann sagði að fleiri en kennararnir í St. André Bessette skólanum hefðu fallið í þá gryfju að nýta tímann til að tala um nemendur en ekki hvað væri hægt að gera til að bæta námsaðstæður þeirra. Það væri alvanalegt. Það væri því aldrei nógu oft brýnt fyrir fundarfólki að halda sig við efni fundarins sem er að finna lausnir sem nýtast nemendum við nám þeirra. Á sýnifundinum fór hann yfir það hvernig þau sem sitja fundinn geta hjápast að við að finna lausnir við hæfi. Á fundinum var skráð fundargerð í tilbúið fundarform þannig að auðvelt var að halda fundarfólki við efnið. Á meðan á fundinum stóð var fundargerðinni varpað á vegg svo allir gætu fylgst með. Sýnifundurinn gekk fyrir sig á eftirfarandi hátt:

 1. Fyrst var farið yfir hvað hefur gengið vel síðan á síðasta fundi. Þá benti Kurtis á að fundarfólk héldi sig við að segja frá því hvaða nálgun eða aðferð sem rædd var á síðasta fundi hefði nýst til að bæta námsumhverfi og árangur nemenda. Kurtis lagði líka áherslu á að fundarfólk segði frá eða legði fram gögn sem bent til þess að það sem reynt var hefði borið árangur.
 2. Einum fundarmanni var svo falið að segja frá nemanda sem hann hefur áhyggjur af að nái ekki að nýta tíma sinn til náms. Fundarmenn aðstoða hvern annan svo við að setja orð á og skilgreina hvað gæti verið að trufla viðkomandi nemanda.
 3. Þegar skilgreiningin var komin þá fengu hinir fundarmennirnir stund til að kanna hvort þeir hafi einhverja nemendur sem gætu fallið undir sömu eða svipaða skilgreiningu. Nöfn nemenda voru skráð í fundarformið.
 4. Kurtis bað svo fundarmenn um að einbeita sér að skilgreiningunni og nýta kennslufræðilega þekkingu sína og reynslu til að finna lausnir sem bættu námsaðstæður. Hann sagði að í þessum lið fundarins skipti mestu máli að leyfa öllum hugmyndum að koma fram og skrá þær skilmerkilega. Þegar þær væru bornar fram bað hann fundarfólk um að byrja setningarnar á: Hvað ef við prófuðum að ……. Allar hugmyndirnar voru skráðar í fundarformið.
 5. Kurtis bað svo fundarfólk að velja aðferðir/nálganir sem þau teldu að gæti hentað þeim nemendum sem höfðu verið nefndir fyrr á fundinum. Val hvers og eins fundarmanns var skráð í fundargerðina og það tímasett svo hægt væri að taka það aftur til umfjöllunar á fundi.
 6. Áður en fundinum var slitið var svo rætt hvort fundarfólk teldi að einhverjir nemendur væru „undir radarnum“ og fengju ekki umfjöllun. Eftir þá umræðu var ákveðið í hvaða farveg málefni hvers nemanda færi. Kurtis lagði áherslu á að á þessum samvinnu- og teymisfundum væri ekki verið að ræða nemendur eða málefni nemenda sem væru til umræðu eða meðferðar annars staðar.
 7. Fundinum var slitið og fundarfólk skipti með sér verkum og ákvað hvenær og hvað yrði tekið fyrir á næsta fundi. Ráðlegging Kurtis var eftirfarandi:

Mér fannst mjög fróðlegt að sjá hve fundurinn reyndist skilvirkur. Það var ótrúlegt að sjá allar lausnirnar sem röðuðust inn í fundargerðina undir lið fjögur í fundargerðinni. Þá sást hve mikil þekking og reynsla sat fundinn og hvernig fundarfólk gat sýnt, kennt og stutt hvert annað í að finna leiðir sem gátu bætt námsaðstæður nemenda og árangur þeirra. Á svona fundum sést vel hvernig hægt er að deila fagþekkingu innan skóla og auka hana enn frekar með því að færa fókusinn af nemendum sem persónum og setja hann á að finna kennslufræðilegar lausnir sem kæmu fleirum en einum nemanda til góða. Það var mér magnaður lærdómur þennan dag.

Aoife Cahill skólastýra í Sharewood Park

Í fjórða þætti hlaðvarps Bara byrja ræði ég við Aoife Cahill skólastýru St. Luke Catholic School. Hún er félagi minn í verkefninu Skólastjóraskipti sem er samstarfsverkefni Skólastjórafélags Íslands og Kennarasambandsins í Alberta í Kanada. Áður en við hittumst á flugvellinum í Edmonton fyrir 10 dögum höfðum við verið í sambandi á Twitter, Instagram og í gegnum tölvupóst. Þar skiptumst við á frásögnum af áherslum og áhuga í leik og starfi.

Aoife Cahill skólastýra St. Luke Catholic School

Gæti ekki verið betra

Fyrri helgin hérna í Sherwood Park leið hratt og nýttist vel til að kynnast Aoife og fjölskyldu hennar. Á laugardeginum fórum við og dætur Aoife, Kathleen (5 ára) and Eileen (3 ára) í göngutúr í fyrsta snjó vetrarins í Elk Island Park. Þar náðum við að sjá bjór spóka sig í ísköldu vatninu, bison-uxa næra sig á sinunni og öðru sem bauðst í haustgróðrinum og leika okkur í hálkunni og sprengja örþunna ísskán af pollum. Það er greinilegt að hérna er haustið liðið og veturinn er mættur. Eins og heima talar fólk um að það sé sjaldan viðbúið því að veturinn sé kominn; á hverju ári komi hann of snemma og sé kaldari í ár en í fyrra.

Bjórinn sýndi okkur sundkúnstir.

Á meðan við gæddum okkur á kakóbolla og kanilsnúð var Poul, eiginmaður Aoife heima að útbúa fimm rétta kvöldverð fyrir okkur, foreldra Aoife, systur hennar, mág og þeirra börn. Kvöldið var ánægjulegt með yndislegum mat og góðum veigum. Fjölskylda Aoife kemur frá Írlandi og þau flutti hingað þegar hún var barn vegna þess að á þeim tíma sá faðir hennar, sem er læknir, fleiri tækifæri fyrir sig og fjölskylduna utan Írlands. Við gátum spjallað um Írland, Kanada, Ísland, pólitík, mat, vín og ferðalög.

Í gær (sunnudag) bauð Aoife mér á íshokkýleik í borginni, Edmonton. Það var til að kynnast „þjóðarsál“ Kanadabúa enn betur. Sem það sannarlega gerði. Leikurinn var á Rogers Place leikvanginum sem einnig þjónar sem tónlistarhús. Ég sá að á næsta ári eiga þau t.d. von á Ozzy Ossbourne og Celine Dion. Hokký-leikurinn var á milli Oilers (sem er heimalið Edmonton) og Florida Panthers sem unnu leikinn. Og að mér sýndist naumlega.

Það vakti athygli mína að næstum allir sem komu á leikinn voru klæddir í búning leikmanna og merktir með nafni og númeri einhvers liðsmanna. Á meðan á leiknum stóð voru alls kyns uppákomur og leikir fyrir áhorfendur. Í a.m.k. tveimur þeirra gátum við notað símana okkar. Í einum þeirra kveiktum við á verkfæri sem heitir Flash Mob og þá blikkaði síminn í takti við tónlistana. Í hinum leiknum loggaði maður sig inn á kappaksturleik og valdi sér bíl til að aka eftir braut. Eftir leikinn var dreginn út einn áhorfandi og hann fékk gjafakort í verðlaun. Í einu leikhléinu var pizzum dreift til þeirra sem stóðu sig vel í því að hvetja heimaliðið. Einnig var pizzukössum sleppt yfir leikvanginn í fallhlífum. Einnig var hægt að taka þátt happdrætti þar sem helmingur vinningsins fór til góðgerðamála og hinn féll í hlut þess sem var dreginn úr pottinum.

Þetta fannst mér bæði skemmtilegt og svalt.

Eftir leikinn gengum við aðeins um miðbæinn og fengum okkur svo hressingu á Fairmont hótelinu. Það var notaleg upprifjun frá því á Ulead ráðstefnunni í Banff í maí.

Mér er óhætt að segja að fyrsta helgin hefði ekki getað verið betri og Aoife og fjölskylda hennar hafa undirbúið dvölina af kostgæfni. Ég hlakka til þess að hitta nemendur og kennara St. Lukes skóla á morgun.

Fæ að vera skiptinemi

Hvenær hefði ég trúað því að ég fengi tækifæri til að verða skiptinemi í útlöndum þegar ég væri orðin sex barna amma? En þannig er það núna því á morgun held ég til Edmonton í Alberta fylki í Kanada. Þar mun ég dvelja næstu tíu dagana og búa hjá og fylgja eftir skólastýrunni Aoife Cahill. Hún er skólastýra í St. Luke Catholic School. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni Skólastjórafélags Íslands og Kennarasambands Alberta fylkis. Verkefnið er tveggja ára hér á landi. Í fyrravetur fóru þrjár skólastýrur frá Íslandi til Kanada og hver um sig dvaldi hjá skólastýrum þar. Og á vorönninni komu svo þær kanadísku í heimsókn til Íslands. Í ár erum við fjórar sem tökum þátt í verkefninu. Í fyrra blogguðu þær sem þá tóku þátt. Bloggið þeirra er hægt að lesa með því að smella hérna.

Skólinn sem ég heimsæki er í þéttbýlinu South Cooking Lake sem er um það bil 35 km. suðaustur af Edmonton. Nemendur St. Luke Catholic School koma í skólann með skólabílum og þeir sem ferðast um lengstan veg eru í skólabílnum í 75 mínútur. Aoife lýsir samfélaginu sem þéttu, vingjarnlegu og samhentu. Í skólanum eru 176 nemendur á aldrinum 4 til 14 ára. Í skólanum starfa 16 kennarar. Í starfi sínu leggur skólinn áherslu á heilbrigða lífshætti og því til stuðnings eru hann hluti af verkefni sem heitir APPLE Schools. Skólinn leggur sig fram að bjóða nemendum hollan og næringaríkan mat og hreyfistundir á hverjum degi, eins og jóga og hjólaskauta.

Frá því í haust höfum við Aoife verið í tölvupóstssambandi og við fylgjumst líka að á Twitter og Instagram. Í google skjali sem við bjuggum okkur til veltum fyrir okkur hvaða væntingar við hefðum til þessa verkefnis. Mig langar að kynnast því:

 • hvernig skólayfirvöld styðja við skólastjórnendur
 • hvernig starfsþróun kennara er háttað
 • hvernig áherslur aðalnámskrár sjást í daglegu starfi skólans
 • einnig hlakka ég til að sjá og heyra það sem Aoife og kennararnir við St. Luke Catholic School eru stoltastir af í starfi skólans

Í gær fékk ég dagskrá næstu viku. Mér þykir hún spennandi; sérstaklega þar sem ég næ því að vera í Kanada á hrekkjarvökunni. Það verður skemmtilegt að fá að fylgjast með henni bæði heima hjá Aoife og einnig í skólanum. Ég fæ líka að heimsækja tvo aðra skóla, hitta fleiri skiptinema og heimsækja skólaskrifstofu umdæmisins.

En þangað til á morgun ætla ég að njóta haustblíðunnar hjá bróður mínum og fjölskyldu í Portland í Oregon.