Um þessar mundir stendur Sif Sindradóttir fyrir viðburðinum #12dagaTwitter á mikróblogginu og samfélagsmiðlinum Twitter. Með framtakinu hvetur hún þau sem starfa við menntastofnanir og sem vilja að deila með öðrum ákveðnu efni, pælingum, áformum og fleiru úr skólastarfi. Um er að ræða eitt tíst á dag í tólf daga og er þetta í þriðja sinn sem hún stendur fyrir þessu framtaki. Mér sýnist á öllu að í ár ætli óvenju margir að vera með.
Þó að framtak af þessu tagi láti lítið yfir sér þá gætir áhrifa þess víða og er hvatning til skólafólks til að skoða hvað það er í starfi sínu sem það vill deila með öðrum. Ég held líka að það séu ekki bara þeir sem tísta sem séu að fylgjast með samtalinu á #12dagaTwitter heldur eigi framtakið sér marga „þögla“ þátttakendur sem lesa og vonandi nýta sér eitthvað af því sem þarna er deilt.
Ég hef áður skrifað um það hverju Twitter getur skilað til starfsþróunar þeim sem þar eru virkir til. Á Twitter er lifandi umræða um skólamál og margt af því sem þar er sagt frá geta kennarar og aðrir sem fylgjast með prófað sjálfir strax með nemendum sínum og deilt svo áfram með öðrum. Þannig getur umræðan á Twitter haft áhrif bæði á einstaklinga og hópa. Á Twitter fylgi ég mörgum kennurum og öðrum menntafrömuðum sem ég hef kannski aldrei hitt en hef spjallað við og spurt ráða; bæði á umræðuþráðum og í skilaboðum.
Á #12dagaTwitter verða til langir listar af hugmyndum og ábendingum sem auðveldlega geta týnst eftir að búið er að „skrolla“ niður fréttaveituna á Twitter og margsegja við sjálfan sig: hmm þetta er góð hugmynd sem ég gæti vel nýtt mér! Í þetta skiptið ákvað ég að reyna að halda til haga á einum stað því sem mér finnst áhugavert. Og helst á stað þar sem fleiri en þeir sem fylgjast með á Twitter geta skoðað og líka fengið að þróa hugmyndirnar með nemendum og samstarfsfélögum. Í þetta skiptið ætla ég að prófa að nota verkfærið Wakelet. Það er bæði til sem vefverkfæri og app ásamt því að hægt er að setja það sem viðbót við Chrome-vafrann. Vibótin auðveldar enn frekar söfnun slóða af vefnum, því að með einum smelli er hægt að færa vefslóðir á viðeigandi stað á Wakelet svæðiinu þínu.
Með Wakelet getur notandi auðveldlega safnað saman og flokkað alls konar efni af vef og einnig hlaðið upp pdf skjölum á einn stað á aðgengilegan og snjallan hátt. Svo spillir ekki fyrir að útlitið er einfalt og mér finnst það fallegt. Fyrir nú utan að aðgangur að því er ókeypis.
Kennarar eiga að geta til dæmis nýtt Wakelet til að miðla lista af efni af netinu til nemenda með einum hlekk og nemendur geta nýtt Wakelet á ótal vegu til að safna, skrá og miðla efni sínu, bæði einir og í samstarfsverkefnum. Á Wakelet for Educators er urmull hugmynda um notkun þess.
Í þetta skiptið ákvað ég að nota Wakelet til að safna saman hugmyndum dagsins á #12dagaTwitter um kvikmyndir eða myndbönd sem hægt er að nýta í skólastarfi. Ef þú vilt skoða safnið þá er það aðgengilegt hérna fyrir neðan:
Breytt 24. nóv. 2020: Ég nýtti Wakelet líka til að safna saman tístunum frá þátttakendum í #tólfdagaTwitter á degi nr 6. Þá sögðu þátttakendur frá smáforritum og vefsvæðum sem nýttust þeim í kennslu. Það safn er hægt að skoða hérna.