Einn smellur og allt er á einum stað

Í netnámi vetrarins hef ég lagt mig fram um að námsefnið og annað sem skiptir máli sé sem aðgengilegast fyrir nemendur þannig að þau eigi auðvelt með að fá yfirsýn og viti án mikillar fyrirhafnar hvað sé efst á baugi eða næst á döfinni innan námskeiðanna sem ég hef haft umsjón með.

Háskóli Íslands hefur í vetur innleitt námsumsjónarkerfið Canvas og að mínu mati er óhætt að segja að það hafi verið gert þannig að kennarar eigi alltaf aðgang að stuðningi og leiðbeiningum, ýmist innan kerfisins með því að skoða myndbönd eða með því að biðja um aðstoð á hefðbundinn máta með tölvupóstum eða netfundum.

Canvas hefur marga möguleika í netnámi sem hægt er að nýta til samstarfs nemenda og miðlunar á efni en á meðan verið er að læra á það allra nauðsynlegasta eins og að setja upp námskeið, miðla fyrirlestrum, koma skilaboðum til nemenda og að stilla verkefnin af er varla hægt að kynna sér möguleikana á því að tengja það við önnur forrit eða vefsvæði. Ég hlakka til næsta vetrar og að fá þá tíma og tækifæri til að kanna fleira sem Canvas hefur upp á að bjóða.

Haustið 2019 kynntist ég vefsvæðinu og smáforritinu Wakelet þegar ég var að safna saman tístum með ákveðnu myllumerki. Í vetur fór ég svo að skoða það betur og möguleikana á að nota það í skipulagi á kennslu og hvernig það væri hægt að tengja það við Canvas. Ég sá að það hefur ótal skemmtilega möguleika; ekki bara vegna þess hversu aðgengilegt það er heldur líka hve auðvelt er að nota það í samstarfi og verkefnavinnu nemenda.

Hvað er Wakelet?

Wakelet er oft líkt við Pinterrest. Bæði verkfærin eru eins konar korktafla þar sem hægt er að safna saman efni héðan og þaðan og gera aðgengilegt undir einum hlekk. Wakelet er til bæði sem vefsvæði og smáforrit. Eitt af því góða við Wakelet er að það er eiginlega eins og Bakkakötturinn, það étur allt. Þar er hægt að safna saman hlekkjum af vefnum, textaskjölum, myndböndum, myndum og textaútskýringum. Það sem mér finnst handhægt fyrir kennara og nemendur er að það hefur möguleika á samvinnu og það er sáraeinfalt að deila efninu til annarra. Svo finnst mér ekki verra að Wakelet lítur alltaf vel út á öllum miðlum og í öllum tækjum.

Til þess að læra enn betur á verkfærið þá prófaði ég að nýta það fyrir eina kennslulotu þar sem ég kenndi sem gestakennari. Þá safnaði ég efninu sem nemendur áttu að kynna sér fyrir tímann á Wakelet svæði og dreifði til þeirra. Einnig setti ég þangað glærurnar sem ég studdist við og hlekk á Padlet-vegg þar sem nemendur gátu nálgast verkefnalýsingar tímans og skilað inn niðurstöðum úr hópastarfi tímans. Ég dreifði svo hlekknum að svæðinu til nemenda með því að gera tilkynningu á Canvas og prófaði að fella Wakelet svæðið fallega inn í tilkynninguna og það kom vel út; bæði fyrir skipulag og yfirsýn nemenda og einnig fyrir augað.

Í síðustu viku hélt ég kynningu á fjarmenntabúðum kennsluþróunarstjóra og Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands. Þar fór ég einmitt yfir það hvernig Wakelet hefur gagnast mér og hvað væri hægt að gera meira. Inn í kynninguna setti ég stutt myndbönd sem útskýrðu notkunina. Þannig slapp ég við að flækjast á milli flipa í vafranaum í tölvunni á meðan ég var að kynna verkfærið. Það er mikið hagræði í netkynningum og einnig fyrir þau sem koma á kynninguna. Þá geta þau skoðað myndböndin í rólegheitum ef þau vilja sjálf prófa eitthvað úr kynningunni þegar heim er komið. Hérna fyrir neðan er glærusýningin og inni í henni eru myndböndin. Inni á glærunum eru líka emoji-kallar. Þá setti ég inn fyrir forvitna þátttakendur sem vilja kynnast fleiru en því sem nefnt var í kynningunni. Það geta þau gert með því að smella á kallinn og fengið forvitni sinni kannski svalað og lært meira. Trix sem ég mun örugglega nota aftur með nemendum mínum.

Fyrir kynninguna þá setti ég líka saman Wakelet safn um notkun þess í kennslu. Þannig gátu þau sem komu á kynninguna tekið eitthvað með sér heim til að skoða betur upp á eigin spýtur. Þar eru meðal annars tvær samantektir á möguleikum Wakelet með nemendum. Önnur fyrir háskólakennara og hin er tekin saman af kennaranemum. Hvoru tveggja ætti að nýtast kennurum á öllum skólastigum.

Það er oft sagt að tæknin og verkfærin sem hún færir kennurum séu ekki aðalatriðið þegar kemur að notkun upplýsingatækni í skólastarfi það séu uppeldis- og kennslufræðin sem mestu máli skipta. Ég tek vissulega undir það en sum verkfæri eru bara þannig gerð að þau sameina of marga kosti upplýsingatækninar og uppeldis- og kennslufræðinnar sem leggur áherslu á menntun til framtíðar að það væri synd að láta þau verkfæri fram hjá sér fara. Eftir reynsluna í vor þá met ég það svo, að Wakelet sé eitt þeirra verkfæra sem vert er að kennarar kynni sér og helst nýti í starfi.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.