Samfélagsmiðlar

Tengslanet, þróun og miðlun

Í bók sinni Digital Leadership fjallar Sheninger (2014) um það sem hann kallar Sjö stoðir rafrænnar forystu. Hann segir stoðirnar vera viðmið til breytinga á síbreytilegum tímum. Stoðirnar eiga stjórnendur að geta nýtt sér til að skoða vel hvernig þeir geta gert það sem þeir gera í dag á annan og skilvirkari hátt með aðstoð tækninnar og rafrænna miðla. Stoðirnar eru:

  • Samskipti (e. communication). Stjórnendur hafa núna möguleika til að koma upplýsingum um skólastarfið frá sér á fjölbreyttari hátt en áður. Tæknin og samfélagsmiðlar gera rafræn og gagnvirk samskipti auðveldari en fyrr.
  • Almannatengsl (e. public relations). Að segja rafrænar sögur af skólastarfinu skapar gegnsæi um starfið og byggir upp jákvæða ímynd almennings að starfinu í skólanum. Það er skoðun Sheninger það sé eitt af hlutverkum stjórnenda að hvetja til fréttamiðlunar af starfinu. Það sé ein af leiðunum til að vinna gegn neikvæðri umfjöllun um skólastarf.
  • Að búa til vörumerki (e. branding). Sheninger bendir á að viðskiptaheimurinn hafi lengi vitað hvaða áhrif vörumerki hafi á núverandi og ekki síst framtíðarneytendur. Hann segir þessi áhrif vera vanmetin í skólastarfi og skólar ættu að nýta sér samfélagsmiðla til að „markaðsetja“ vörumerkið menntun.
  • Skuldbinding við nám (e. student engagement/learing). Sheninger segir að vart sé hægt að búast við bættum námsárangri nemenda ef skólastarfið taki ekki mið af veruleika nemenda og þróun samfélagsins eins og tækniþróun þar sem nemendur eru virkir þátttakendur.
  • Starfsþróun (e. professional growth/development). Með tilkomu netsins og verkfæra þess fjölgar stöðunum þar sem hægt er að læra allt lífið. Kennarar og stjórnendur hafa fleiri staði til að vera í sambandi við félaga sína í fagstéttinni en nokkru sinni fyrr.
  • Endurskoðun námsumhverfis (e. reenvisioning learning spaces and enviroments). Rafrænir kennsluhættir og nám sem tekur mið af menntun til framtíðar krefjast endurskoðunar á öllu námsumhverfinu; í kennslustofum og með aðgengi að netsambandi og óhefðbundnum kennslugögnum.
  • Möguleikar (e. opportunity). Sheninger bendir á að fyrri stoðirnar sex sameinist í þeirri sjöundu. Í henni er áréttað mikilvægi þess fyrir menntun til framtíðar að skólastjórnendur séu ávallt vakandi fyrir möguleikunum sem tæknin gefur til að bæta nám og kennslu allra sem að skólastarfinu koma.

Það er auðvelt að sjá að meginstef stoða rafrænnar forystu eru tengslanet, þróun og miðlun. Að sama skapi er auðvelt að koma auga á að þau meginstef eigi samhljóm með umfjöllun Trausta Þorsteinssonar (Guðmundur Heiðar Frímannsson o.fl., 2013) og Sigurðar Kristinssonar (2013) um fagmennsku kennara og einnig PLN-líkani Wheeler (2015). Umfjöllun þeirra hverfist um frumkvæði og þátttöku í samfélagi fagmanna með umræðum, hagnýtum rannsóknum og miðlun þekkingar. Sömu áherslur má finna í ráðleggingum Hargreaves og Fullan (2012, bls. 22-23) til kennara og stjórnenda sem vilja kenna eins og fagmenn (e. teach like a pro!). Orð Steve Wheeler (2015, bls. 141) um að „margmiðlunin hafi fært heiminn inn í skólastofurnar og samfélagsmiðlarnir flytji kennslustofuna út í heiminn“ hafa sama grunntón; menntun til framtíðar verður vart að veruleika nema kennarar og stjórnendur næri og styrki fagmennsku sína í samfélagi fagmanna sem vilja leggja sitt af mörkum til að styðja við menntun hvar sem er og hvenær sem er. Eðli og kostir samfélagsmiðla auðvelda það verkefni.