Twitter

Whitaker og félagar (2015, bls. 6-13) fullyrða að Twitter sé öflugasti miðillinn til að tengjast kennurum um allan heim sem vilja deila þekkingu sinni og reynslu. Þeir segja að á Twitter séu kennarar sem séu viljugir til að nýta tíma sinn og krafta til að taka þátt í opinberu spjalli um menntamál. Í sama streng taka Sheninger (2014) og Wheeler (2015). Wheeler bætir við að það sé vegna þess hversu aðgengilegt það sé og auðvelt í notkun. Hann segir að í gegnum Twitter fái hann upplýsingar um menntamál á rauntíma og það sé einmitt vegna virkni kennaranna sem nota miðilinn.

Það er auðvelt að fylgja ákveðnum myllumerkjum sem hafa verið merkt annað hvort málefnum eða viðburðum. Íslenskir kennarar og skólastjórnendur á Twitter tísta helst undir myllumerkinu #menntaspjall. Þannig koma þeir áhugaverðum hugmyndum og nýjungum úr starfi sínu á framfæri við þá sem fylgjast með myllumerkinu. Af og til er formlegt spjall á ákveðnum tíma undir myllumerkinu #menntaspjall. Þá hittist fólk á Twitter og ræðir ákveðin málefni. Spjallið er oftast undir stjórn einhvers sem hefur samið spurningar sem þátttakendur ræða.

Eiginleikar Twitter sem mikróbloggs gera það að verkum að það er auðvelt fylgjast með, deila nýjum hugmyndum og að taka þátt í umræðum um menntamál. Þannig verður til tengslanet áhugasamra fagmanna drifið áfram af áhuga þeirra til að bæta sig í starfi í þágu menntunar til framtíðar.

Hérna fyrir neðan segja nokkrir kennarar frá því hvernig Twitter hefur nýst þeim til starfsþróunar og til að byggja upp og viðhalda tengslaneti sínu.


Guðný Ólafsdóttir og Katrín Fjóla Guðmundsdóttir segja frá því hvernig þær nýta Twitter til starfsþróunar.

Margrét Þóra Einarsdóttir segir frá því hvernig hún notar myllumerkin á Twitter til að fylgjast með ráðstefnum. Og hvernig Twitter nýtist líka til að fylgjast með samstarfsfélögum um allt land.

Sigurður Haukur Gíslason segir frá notkun sinni og reynslu af Twitter.