Að læra saman og hvert af öðru

Í síðustu viku sat ég málþing verkefnisins Gerum gott betra í Hofi á Akureyri. Á málþinginu sögðu þrír iðjuþjálfar og einn þroskaþjálfi, sem allar starfa við stoðþjónustu í þremur grunnskólum við Eyjafjörð, frá reynslu sinni og þekkingu af því að rýna í eigin starfshætti á síðasta skólaári. Á þær hlustuðu tæplega 90 manns. Þær miðluðu svo glærunum sínum einnig á vefsvæði málþingsins. Þannig deildu þær hugmyndum sínum, þekkingu og reynslu með enn fleirum en þeirra sem hlustuðu á þær í Hofi þennan eftirmiðdag.

Fræðimaðurinn og fyrirlesarinn Andy Hargreaves var aðalfyrirlesarinn á nýafstaðinni námstefnu Skólastjórafélags Íslands. Á vinnustofunni sem hann hélt benti hann gestum hennar á notagildi samfélagsmiðla í starfsþróun og nefndi Twitter sérstaklega. Fyrir námstefnu SÍ sagðist hann hafa sett færslu inn á Twitter reikninginn sinn og lagt spurningu fyrir fygljendur sína og ávarpað sérstaklega þá sem hann vissi að höfðu nokkra vitneskju vegna rannsókna sinna og skrifa um málefnið:

Á aðeins 4 dögum fékk hann meira en 40 svör og úr þeim spann hann svo erindi sitt og umræðuefni sem hann lagði fyrir gesti vinnustofunnar. Með þessu móti safnaði hann og nýtti raungögn úr daglegu lífi skólastjórnenda víðs vegar úr heiminum. Þannig varð auðveldara en ella fyrir gesti vinnustofunnar að taka þátt í umræðum, setja sig í spor kollega, segja frá eigin starfi og læra af reynsu þeirra.

Ég tek undir með Andy Hargreaves að Twitter er öflugur miðill til starfsþróunar. Þar er mjög auðvelt að að læra með öðrum og af öðrum. Ég hef reynt að miða við að Twitter aðganginn minn noti ég aðeins til að fylgjast með og miðla efni sem fjalla um menntamál. Það geri ég með því að fylgja kennurum og öðrum sem láta sig menntamál varða og einnig fylgi ég ákveðnum myllumerkjum sem segja frá einstökum viðburðum eða málefnum. Myllumerkið #menntaspjall er eitt þeirra. Það nota kennarar til að deila efni og reynslu í skólastarfi og einnig til að spjalla um álitamál.

Á áðurnefndri námstefnu Skólastjórafélags Íslands voru námstefnugestir hvattir til að nota myllumerkið #skólastjórnun til að tísta frá námstefnunni. En skólastjórnendur hafa tíst frá námstefnum sínum frá árinu 2013 og með hverju árinu bætast fleiri tístarar í hópinn. Með því er búinn til vettvangur þar sem gestir námstefnanna glósa saman og á rauntíma deila þeir lærdómi sínum einnig með þeim sem ekki eru staðnum. Ég verð seint leið á að benda á þessa mikilvægu kosti Twitter og myllumerkja.

Í gegnum tíðina hafa verið til nokkur verkfæri sem halda utan um myllumerki og annað efni á vefnum. Storify var eitt þeirra en í maí í fyrra var það tekið af markaðnum. Wakelet er nú það verkfæri sem flestir nýta sér m.a. til gera samantektir byggðar á myllumerkjum og öðrum færslum um viðburði og málefni. Ég notaði þetta verkfæri í fyrsta skiptið eftir námstefnu SÍ um daginn og sé ekki betur en að það sé einfalt og þægilegt í notkun.

Einnig sýnist mér að Wakelet hafi fleiri möguleika en Storify hafði. Það er fljótlegt að setja það þannig upp að hægt sé að búa sér til eigin glósubók eða geymslustað fyrir hlekki, myndir og fleira um málefni eða viðburði. Þannig ætti það að geta líka nýst í skólastarfi – enda er í deilingarmöguleikum Wakelet gert ráð fyrir að hægt sé að deila efni þaðan beint á Google Classroom.

Rafræn starfsþróun, hvort sem hún er á samfélagsmiðlum eða annars staðar á netinu, er kærkomin viðbót við aðra möguleika til starfsþróunar. Helstu kostir hennar eru að hana er hægt að stunda hvar sem er, hvenær sem er, einn eða með öðrum og út frá áhuga og þörfum hvers og eins hverju sinni. Og umfram allt stækkar hún tengslanet þeirra sem hana stunda og með þátttöku í henni leggur hver og einn sitt af mörkum bæði til eigin starfsþróunar og annarra. Það er sannarlega starfsþróun sem jöfnum höndum tekur mið af menntun sem nýtist í samtímanum og einnig til framtíðar.