Menntabloggarar segja frá

Menntabloggið hennar Önnu Maríu: Geymslan mín er opin fyrir alla

Menntabloggarinn Anna María Kortsen Þorkelsdóttir hefur starfað í tólf ár við grunnskóla. Um þessar mundir starfar hún sem kennsluráðgjafi í Hörðuvallaskóla. Áður vann hún sem verkefnastjóri og dönskukennari í Hólabrekkuskóla. Verkefni hennar þar voru skólaþróun og notkun tækninnar í skólastofunni. Í Hörðuvallaskóla er verkefni hennar líka skólaþróun. Hennar hlutverk er eins og hún orðar það: „að færa kennurum verkfæri til að breyta hjá sér og að hjálpa nemendum að fá rödd í eigin námi. Í skólanum okkar eru þau breytingaaflið hvað varðar hæfnimiðað nám“.

Anna María heldur úti menntablogginu https://www.kortsen.is. Anna María byrjaði að menntablogga sumarið 2017 af því hún var að hætta í Hólabrekkuskóla og að byrja í Hörðuvallaskóla. Á þeim tímamótum vildi hún miðla efninu sínu til samkennara og sjálf að hafa aðgang að þessu sama efni á nýjum starfsvettvangi. Hún segir að þegar hún setji efnið sitt á vefsíðu þá finnist henni auðveldara að deila efninu sínu til annarra heldur en ef hún væri að vísa í gögn t.d. á sameiginlegu drifi í skólanum eða í færslu í Facebookhópi. Hún segir að þar sem það sé meðal annars vinnan hennar að búa til kennsluáætlanir og efni fyrir kennara þá setji hún efnið á menntabloggið sitt og deili því þaðan til kennaranna og jafnvel nemenda. Og vegna þess að það er geymt á menntablogginu er það líka aðgengilegt kennurum í öðrum skólum.

Anna María segist vera dugleg að segja frá öllu sem hún hafi fyrir stafni í vinnunni og einnig því sem henni liggur á hjarta varðandi menntamál. Hún segir að stærstur hluti skrifanna á menntablogginu hennar sé um verkefni sem hún geri með krökkunum í skólanum. Það er skoðun hennar að ekki þurfi allir að „finna upp hjólið“. Anna María hefur til dæmis deilt kennsluáætlunum af þemavikum á blogginu sínu og segist blogga um þær til þess að útskýra þær og rökstyðja innihald þeirra fyrir lesendum. Hún bloggar líka um ný verkefni sem sé verið að þróa í skólanum; segir frá innihaldi þeirra og hvernig þróunin gangi. Anna María segir að sér finnist t.d. gaman að sjá verkefni sem hún kynnist á ráðstefnum verða að veruleika í skólanum og síðan að segja öðrum frá því á blogginu sínu hvernig til hefur tekist. Að lokum segist hún blogga um bækur eða greinar sem hún les eða sniðuga hluti og verkfæri sem hún rekst á þegar hún flakkar um vefinn. Anna María segist hafa gaman að því að lesa skrif þeirra sem eru í svipuðum pælingum og hún. Þá finnist henni eins og hún hafi fengið „back-up“ fyrir því sem hún er að gera og hugsa. Hún segir að þess vegna vilji hún að á blogginu komi vel fram hverjar hennar áherslur séu í skólaþróun og hún vonar að kennarar sem leiti að efni um þær áherslur rati inn á síðuna hennar. Hún segist auglýsa efnið á menntablogginu sínu á Twitter undir myllumerkinu #menntaspjall. Stundum bendir hún á það inni í fjölmennum Facebookhópum sem fjalla um menntamál. Hún segir að þegar aðrir menntabloggarar vísa í hennar blogg þá fjölgi heimsóknum inn á bloggið hennar.

Eitt af verkefnum Önnu Maríu í Hörðuvallaskóla er að virkja nemendur til þátttöku í hæfnimiðuðu námi. Hún hefur sett öll hæfniviðmið aðalnámskrár inn á menntabloggið sitt þannig að þau séu henni og nemendum aðgengileg þegar hún hittir nemendur. Þess vegna segist hún vera sér meðvituð um að nemendur eru meðal lesenda bloggsins. Annars segir hún að markhópurinn sé fyrst og fremst kennarar og skólastjórnendur.
Anna María segir menntabloggið vera frábært skipulagstæki fyrir sig í vinnunni. Hún segist hafa uppgötvað eftir að hún fór að blogga að menntabloggið hennar sé eins og ferilmappa hennar í starfi; þar sjáist hver hún sé sem fagmaður. Núna finnist henni mun auðveldara en áður að benda öðrum á verkefni sín og að færa rök fyrir áherslum sínum. Hún segist blogga af því henni finnst hún frá heilmiklu að segja. Hún bloggar líka til að deila verkefnum sínum og reynslu til annarra svo þeir geti lært af henni, aðlagað og útfært verkefnin að eigin starfi. Hún segir að henni finnist frábært þegar hún fréttir af því að verkefni sem hún hefur deilt á blogginu sínu hafi gagnast öðrum.

Hún ráðleggur þeim sem vilja byrja að menntablogga að vera ekki feimin og halda að þeir hafi frá litlu að segja. Hún áréttar að allir geti sagt frá einhverju. Hún leggur líka áherslu á að menntabloggarar eigi ekki að vera hræddir um orðalag eða stafsetningu af því að lesendur séu ekki að lesa bloggið af því þeir séu að leita sér að stafsetningarvillum. Þeir séu fyrst og fremst inni á blogginu til að fá nýjar hugmyndir og læra af öðrum. Það sé meginmarkmiðið þegar kennarar deila þekkingu sinni og reynslu með öðrum kennurum.


Fleiri menntabloggarar

Menntabloggararnir Álfhildur Leifsdóttir, Fjóla Þorvaldsdóttir og Ingvi Hrannar Ómarsson sendu mér frásagnir þar sem þau segja frá blogginu sínu og ástæðum þess að þau blogga.

Álfhildur segir frá menntablogginu sínu.

Fjóla Þorvaldsdóttir segir frá menntablogginu sínu.

Ingvi Hrannar Ómarsson segir frá menntablogginu sínu.