Facebook

Facebook er sennilega sá samfélagsmiðill sem flestir kennarar þekkja vel. Wheeler (2015) segir að Facebook sé að öllum líkindum sá samfélagsmiðill sem hafi átt stærstan þátt í breytingunum sem hafa orðið á því hvernig við höldum tengslum við samferðafólk okkar. Sheninger (2014) bendir á að Facebook nýtist ekki aðeins til að halda tengslum við fjölskyldu og vini heldur og ekki síður við samstarfsfólk um allan heim. Hann bendir á að nokkuð margar stofnanir sem bjóða starfsþróun hafi búið til síður á Facebook þar sem kennarar geta sótt sér fræðslu, hvernær sem er og hvar sem þeir eru staddir.

Á Facebook er hægt að búa til hópa um málefni. Hóparnir geta bæði verið lokaðir eða opnir. Á Facebook er líka hægt að búa til síður til að koma málefnum á framfæri. Sheninger (2014) bendir á að það sé góð leið fyrir skóla og kennarahópa til að búa til og miðla jákvæðri ímynd af menntun og skólastarfi. Það sé ekki einungis gert fyrir þá sem fagmenn heldur og ekki síður fyrir núverandi nemendur og þá nemendur sem eiga eftir að koma í skólann. Á Facebook eru líka margs konar tól sem auðvelda umræður og skipulag viðburða. Má í því sambandi nefna hve auðvelt er að setja upp kosningu og hve auðvelt er fyrir alla að sjá niðurstöðuna á rauntíma. Á Facebook er líka hægt að vera með beinar útsendingar sem annað hvort eru opinberar eða ná einungis til valins hóps. Sá möguleiki fjölgar leiðunum sem kennarar og skólar hafa til að gera starf sitt gegnsætt og opinbert fyrir þá sem vilja fylgjast með starfinu. Á þessari litlu upptalningu sést að möguleikar Facebook til miðlunar og tengslamyndunar eru nánast óteljandi. Það ætti því að vera auðvelt fyrir kennara að nýta Facebook til að sníða starfsþróun sína að áhuga og þörfum hverju sinni.

Hérna fyrir neðan eru dæmi um leiðir sem kennarar hafa farið við að miðla efni sínu og líka hvernig efni á Facebook nýtist til starfsþróunar.


Hlín Njarðvík segir frá því hvernig hún notar síðu á Facebook til að miðla verkefnum sínum og hugmyndum.

Bergþóra Þórhallsdóttir segir frá því hvernig hún notar hópa á Facebook til að miðla verkefnum og hugmyndum sínum úr starfi.

Þormóður Logi Björnsson segir frá því hvernig Facebook nýtist honum við starfsþróun.

Inga Eiríksdóttir segir frá því hvernig Facebook nýtist henni og samstarfsfólki til að fylgjast með nýjungum og að þróa hugmyndir sem nýtast í skólanum.