
Mynd fengin af heimasíðu http://big-change.org/growth-mindset/
Það er ekki langt síðan ég kynntist hugmyndum Carol Dweck um festuhugarfar og hugarfar vaxtar. En þær fjalla í stuttu máli um hvernig við hugsum um möguleika okkar til að bæta við okkur færni og hæfni í því sem tökum okkur fyrir hendur. Skólafólk sem tekur mið af kenningum hennar setur sig í þær stellingar að allir geti bætt við sig þekkingu og færni; það sé bara spurning um hvernig námsumhverfið hvetur til þess, bæði nemendur og kennara.
Ég fæ seint leið á því að prísa þann hluta í kjarasamningum grunn- og framhaldskólakennara sem gerir ráð fyrir því að tekinn sé frá tími í vinnutíma þeirra til að bæta við sig þekkingu og vaxa í starfi. Í daglegu tali meðal fólks í grunnskólanum ganga þessir tímar undir nafninu „150 tímarnir“. Bara það eitt og sér að gert sé ráð fyrir tíma í vinnutímaskilgreinu kennara til vaxtar er viðurkenning á því að eðli starfsins krefst þess að kennarar séu stöðugt að bæta við sig þekkingu og færni; bæði í daglegu starfi og utan þess.
Eins og annars staðar skipar stafræna veröldin og verkfæri hennar æ stærri sess í skólastarfi. Oftar en ekki heyri ég kennara og aðra samstarfsmenn segja: Æ, ég og tölvur eigum litla samleið eða ég og tölvur náum ekki saman. Þá spyr ég gjarnan til baka: Og ætlar þú að hafa það þannig? Eða Og hvað ætlar þú að gera í því? Eins hröð og þróun tækninnar hefur verið og mun verða, þá er það svo að skólar geta ekki sleppt því að innleiða rafræna starfshætti. Með þessu er ég samt ekki að segja að þeir komi í staðinn fyrir eða ýti úr vegi því sem vel hefur verið gert fram til þessa, alls ekki. Rafrænir starfshættir geta bætt og eflt það sem fyrir er eins og til dæmis sköpun, samvinnu og leik. Því má ekki gleyma. En forsenda þess að svo verði er að skólafólk trúi því að það geti bætt þekkingu sína og leikni í notkun rafrænna kennsluhátta og nýti sér til dæmis rafrænar leiðir, samvinnu og stuðning hvers annars.
Ég er enginn sérstakur tölvunörd af guðs náð; ég bara ákvað það fyrir nokkrum árum að það þýddi ekkert að láta eins og tölvur og tækni væru ekki til og að ég ætlaði að nota tækin mín í meira en að lesa tölvupóst, fara á Facebook og spila Candy Crush. Ég hef farið ýmsar leiðir til þess og er þetta blogg ein af þeim leiðum. Önnur var að nýta verkfæri Google í starfinu. Google (eins og fleiri fyrirtæki) bjóða skólafólki vettvang til fræðslu og þjálfunar. Þjálfunin felst í að nota verkfærin í skólastarfinu en ein gjöfulasta starfsþróunin er einmitt að geta nýtt nýja þekkingu í starfinu með nemendum sínum og starfsmönnum. Þess vegna eru t.d. menntabúðir og jafningjastuðningur á vettvangi öflug og hraðvirk þróun í starfi.
Í gær tók ég grunnpróf hjá Google til að fá viðurkenningu á að ég gæti nýtt mér verkfæri þeirra í skólastarfi. Á meðan ég sat í prófinu rann upp fyrir mér að með því að hafa ákveðið að sækja mér þekkinguna og að hafa nýtt hana í starfinu hafði ég lært svo miklu meira en mig hafði órað fyrir þegar lagt var af stað í upphafi. Og með því að velja hugarfar vaxtar hafði ég grætt færni sem bæði auðveldar mér starf mitt ásamt því að auðga það. Því verður það áfram mottóið: Kyrrstaða er ekki í boði!