Er almenn menntun menntun til framtíðar?

Í upphafi ársins tók ég saman hugleiðingu fyrir skólaþing Setbergsskóla. Í hugleiðingunni fór ég yfir það hvort og þá hvernig almenn menntun eins og hún er skilgreind í stefnuplöggum grunnskólans getur talist menntun til framtíðar.

Og af því ég gat ekki verið á staðnum til að flytja hugleiðinguna þá fengu þau hana í skjáupptöku. Ég notaði viðbót við Chrome vafranna minn sem heitir Screencastify til þess að gera upptökuna.

Hagnýt og nærandi fræðsla á menntabúðum #Eymennt

Í gær voru menntabúðir #Eymennt haldnar í fimmta sinn í vetur. Að þessu sinni voru þær haldnar í Þelamerkurskóla. Að vanda var dagskráin fjölbreytt. Það var hægt að kynnast:

Ég náði að fara á menntabúð í báðum lotum. Í þeirri fyrri fór ég til Bergmanns Guðmundssonar verkefnisstjóra í Giljaskóla og rifjaði upp og bætti við mig nokkrum Google viðbótum og kynntist tengslakönnunarvefnum Sometics. Einnig sýndi hann okkur vefsíðu sem hann hefur gert í Google Sites og inniheldur öll Orðarúnar prófin. Prófin hefur hann sett upp í Google Forms og bætt svarlykli við þannig að um leið og nemendur hafa svarað könnuninni er búið að vinna úr henni. Þetta framtak Bergmanns sparar kennurum bæði tíma og fyrirhöfn við að leggja prófin fyrir og að vinna úr þeim. Svo ekki sé minnst á pappírssparnaðinn.

Við yfirferð á Google viðbótunum var umræða um hve mikinn tíma þær geta sparað kennurum. Margar af viðbótunum eru þróaðar með kennurum svo að þær taki mið af því hvað kennarar eru að fást við frá degi til dags og hvað tekur mestan tíma frá öðrum undirbúningi. Eins og einn kennarinn á menntabúðinni orðaði það: „ein örlítil viðbót getur sparað mér það sem áður tók mig marga klukkutíma að vinna“. Bergmann hefur einmitt sett saman vef þar sem hann heldur utan um viðbæturnar sem hafa gagnast honum í starfi.

Í seinni lotunni fór ég og lærði á Seesaw hjá Bergþóru Þórhallsdóttur. Hún „mætti“ á menntabúðirnar í gegnum Zoom símafundakerfið af því hún var stödd á skrifstofunni sinni í Kópavogsskóla. Hennar menntabúð sýndi að lærdómur er alls ekki bundinn við að sá eða það sem kennir og nemandinn þurfi endilega að vera í sama rýminu.

Sem fyrr sýndi það sig að menntabúðir geta verið hagnýt starfsþróun þar sem fer fram fræðsla á jafningjagrunni og það sem þátttakendur læra geta þeir að öllu jöfnu prófað og innleitt með nemendum sínum strax morguninn eftir. Að hitta hóp áhugsamra kennara er líka alltaf nærandi, að ógleymdu spjallinu yfir góðum veitingum. Já, áfram #Eymennt!

Myndirnar í færslunni eru fengnar að láni frá Margréti Þóru Einarsdóttur.

Starfsþróun skólastjórnenda

Á makerý í september 2018

Samkvæmt skilgreiningu á starfsþróun sem Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda hefur birt er hún meðvitað og mótað ferli [ …. ] beintengd daglegu starfi kennara með nemendum og skipulögð í kringum raunveruleg viðfangsefni starfsins. Hún hefur skýran tilgang og markmið og miðar að því að efla færni og þekkingu starfsfólks skóla og auka gæði í starfi. Hún á sér stað í faglegu lærdómssamfélagi, er augljós og samofin hluti daglegs starfs fagfólks skóla og ber einkenni af menningu samfélags í þróun. Í skilgreiningunni eru skólastjórnendur ekki nefndir sérstaklega enda teljast þeir vera hluti af faglegu starfsfólki skóla og ekkert sem bendir til þess í skilgreiningunni að við uppbyggingu lærdómssamfélags hafi skólastjórnendur einhverja sérstöðu umfram annað fagfólk skóla.

7. gr. grunnskólalaga kveður á um að við grunnskóla skuli vera skólastjóri sem sé forstöðumaður hans, stjórnar honum, veitir faglega forystu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn (91/2008). Í samkomulagi á milli launanefndar sveitarfélaga (LNS) og samninganefndar Skólastjórafélags Íslands (SÍ) er upptalning á verkefnum skólastjóra samkvæmt grunnskólalögum, reglugerðum og aðalnámskrá grunnskóla. Í upptalningunni er fagleg forysta skólastjórnenda stærri þáttur en það sem flokkast undir stjórnun. Í nýlegri rannsókn Trausta Þorsteinssonar og Amalíu Björnsdóttur (2016) kemur fram að skólastjórnendur telja sig lítið geta sinnt verkefnum faglegrar forystu vegna annarra verkefna sem heyra undir stjórnun. Það hefur í för með sér að efling kennslufræðilegrar forystu í grunnskólum miðar hægt. Ef þessar niðurstöður eru skoðaðar í ljósi samkomulags LNS og SÍ má velta fyrir sér hvort skólastjórnendur þurfi annars konar starfsþróun og stuðning í starfi en aðrir starfsmenn skólanna.

Ljóst er að öflug kennslufræðileg forysta skólastjórnenda er sá þáttur í starfi þeirra sem hefur mest jákvæð áhrif á námsárangur nemenda (Robinson, 2011). Hluti af því verkefni er að skólastjóri er kennurum til leiðsagnar og stuðnings svo að skapa megi skólamenningu sem ber einkenni lærdómssamfélags. Hið sama kemur fram í rannsókn Birnu Maríu Svanbjörnsdóttur, Allyson Macdonald og Guðmundar Heiðars Frímanssonar (2013). Þar má greina að skráning og ígrundun skólastjóra ásamt samtölum við rannsakanda hvöttu skólastjórann til að spegla störf sín með kennurum þannig að hann væri betur undir það búinn að styðja við þeirra starfsþróun og uppbyggingu lærdómssamfélags í skólanum.

Af ofangreindu má því vera skýrt að skólastjórnendur þurfa að hafa frumkvæði að því að byggja upp lærdómssamfélag. Það vekur upp spurninguna um hvort og hvernig skólastjórnendur sækja sér leiðsögn, hvatningu og stuðning til að þróast í starfi?

Sigríður Margrét Sigurðardóttir (2018) birti grein s.l. haust þar sem hún greinir frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á stuðningi við skólastjóra í námi og starfi. Rannsóknin byggir á viðtölum við 14 skólastjóra í jafnmörgum sveitarfélögum. Skólastjórarnir voru ýmist skólastjórar í leik- eða grunnskóla. Niðurstöður Sigríðar Margrétar benda til þess að raunverulegt stuðningsnet, sem nær til starfsumhverfis skólastjóra sé sjaldan fyrir hendi. Þegar kom að stuðningi sveitarfélaga eða fræðsluyfirvalda við formlegt nám skólastjóranna var litið fremur á að námið væri einkamál skólastjóranna en að það væri starfi þeirra eða skólanum til hagsbóta. Það kemur skýrt fram hjá  skólastjórunum að þeir kalla á mun öflugra, sérsniðnara og skipulagðara stuðningsnet en þeir hafa aðgang að nú.

Ef ég spegla reynslu mína í því sem hefur komið fram hér fyrir ofan get ég undirstrikað að orðræðan um starfsþróun og almennt umhverfi hennar virðast ekki taka tillit til þess að í starfsþróun og við uppbyggingu lærdómssamfélags er staða skólastjóra önnur en annarra fagmanna skólanna. Það á einkum við um ábyrgð þeirra og frumkvæði í þeim efnum. Formlega og af hendi menntayfirvalda er lítið framboð á starfsþróun sem er sérsniðin að skólastjórum. Það er helst að það sé í boði þegar yfirvöld vilja að einhverjar nýjungar verði innleiddar. Þá eru þær eins og fram kemur í rannsókn Sigríðar Margrétar (2018) frekar íþyngjandi en styðjandi. Sem dæmi um það er nýleg fundarröð með fræðslu um innleiðingu á GDPR, nýja persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins. Að þeirri fundarröð og fræðslu stóðu aðilar sem allir eiga fulltrúa í Samstarfsráði um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og birtu skilgreininguna á starfsþróun. Í fræðslunni og  innleiðingu á GDPR er lítið sem bendir til þess að fræðslan sé samofin daglegu starfi  svo ekki sé talað um stuðning við að festa vinnubrögð nýrrar persónuverndarlöggjafar í sessi með starfsmönnum, foreldrum og nemendum.

Hvað aðra starfsþróun varðar hef ég á eigin spýtur sett upp áætlun og búið mér til stuðningsnet með öðrum skólastjórum eða fagfólki sem hafa sömu áhugamál eða markmið í starfsþróun. Eins og Anna Kristín Sigurðardóttir (2013) nefnir þá eru það lærdómssamfélög þar sem jafningjar tengjast í gegnum áhugasvið og aðstoða hvern annan á jafningjagrunni; bæði í netheimum og raunheimi. Dæmi um þetta eru leshópar á vegum Skólastjórafélags Íslands, námstefnur félagsins sem oftast fjalla um menntastjórnun frá ýmsum hliðum og samstarfshópur um notkun upplýsingatækni í skólastarfi sem gengur undir heitinu #Eymennt. Hópurinn stendur fyrir menntabúðum um upplýsingatækni í skólastarfi.

Hvað kostnað við starfsþróun skólastjórnenda varðar þá er það svo í rekstri skólanna að litlir sem engir fjármunir eru settir sérstaklega í það að þróa eða styrkja skólastjórnendur í starfi umfram aðra fagmenn skóla. Kostnaður sem til fellur vegna starfsþróunar skólastjórnenda er talinn með framlögum og kostnaði vegna starfsþróunar annarra starfsmanna skólanna. Það er reynsla mín að skólastjórnendur, sem oftast sjá sjálfir um að skipta rekstrarfjármagni skólanna niður á liði, forgangsraða öðrum verkefnum á undan eigin starfsþróun. Þeir nýta sér frekar aðra utanaðkomandi styrki eða eigið vinnuframlag til að fjármagna starfsþróun sína. Dæmi um það eru styrkir úr Vonarsjóði FG og SÍ og greiðslur fyrir að halda málstofur á ráðstefnum til að standa straum af ráðstefnugjaldi, eigin ferðakostnaði og uppihaldi.

Það er því niðurstaða mín að það sé ekki nóg að skólastjórnendur sjái sjálfir um að finna starfsþróun sinni farveg og að byggja upp eigið stuðningsnet. Eins og kemur fram í rannsókn Sigríðar Margrétar (2018) þarf frumkvæði fræðsluyfirvalda til að byggja upp öflugt, sérsniðið og skipulagt stuðningsnet fyrir skólastjórnendur. Þannig verður komist nær því en áður að koma til móts við síðustu málsgrein í skilgreiningu Samráðshóps um starfsþróun kennara og skólastjórnenda: Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að aukinni starfsánægju og hefur áhrif á árangur í starfi.

Heimildaskrá

Anna Kristín Sigurðardóttir. (2013). Skóli sem lærdómssamfélag. Í Rúnar Sigþórsson, Rósa Eggertsdóttir og Guðmundur Heiðar Frímannsson (ritstjórar), Fagmennska í skólastarfi (bls. 35–53). Reykjavík: Háskólinn á Akureyri og Háskólaútgáfan.

Birna María Svanbjörnsdóttir, Allyson MacDonald og Guðmundur Heiðar Frímansson. (2013). Einstaklingsmiðun sem markmið lærdómssamfélags. Reynsla af starfendarannsókn í einum grunnskóla. Í Rúnar Sigþórsson, Rósa Eggertsdóttir og Guðmundur Heiðar Frímannsson (ritstjórar), Fagmennska í skólastarfi (bls. 55–76). Reykjavík: Háskólinn á Akureyri og Háskólaútgáfan.

Hlutverk stjórnenda grunnskóla. Sótt á vef Kennarasambands Íslands. http://ki.is/images/Skrar/Kjaramal/SI/SI_hlutverk_skolastjornenda_grunnskola_110315_uppfaert_skjal.pdf

Hugtakið starfsþróun. Sótt á vef Samstarfsráðs um starfsþróun kennara og skólastjórnenda. http://starfsthrounkennara.is/hugtakid-starfsthroun/

Lög um grunnskóla nr. 91/2008

Robinson, Viviane (2011). Student-Centered Leadership. San Francisco: Jossey-Bass.

Sigríður Margrét Sigurðardóttir. (2018, 14.september). Stuðningur við skólastjóra í námi og starfi. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt af http://netla.hi.is/?p=4287 Trausti Þorsteinsson, Amalía Björnsdóttir. (2016). Stjórnun og fagleg forysta í grunnskólum. Stjórnmál og stjórnsýsla, 12(2), 487-490. doi:10.13177/irpa.a.2016.12.2.14

Trausti Þorsteinsson, Amalía Björnsdóttir. (2016). Stjórnun og fagleg forysta í grunnskólum. Stjórnmál og stjórnsýsla, 12(2), 487-490. doi:10.13177/irpa.a.2016.12.2.14

Nýjungar sem leiða til breytinga

Þó að um þessar mundir margar færslur í mánuði fari ekki inn á Bara byrja þá er ekki þar með sagt að lítið eða ekkert sé verið að skrá. Skráningin fer helst fram í formi verkefna sem skilað er inn til kennara við Háskólann á Akureyri. Í vikunni fékk ég eitt þeirra til baka frá kennaranum og get því birt það hérna. Þetta var verkefni á námskeiðinu Menntun og upplýsingatækni og þar reyni ég að svara spurningunni: Hvaða nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt hafa, að mati kennara, haft mest áhrif á skipulag kennslu þeirra?

Inngangur

Almennt er rætt um að 20. öldin og sú 21. séu aldir hinna mörgu nýjunga og hröðu breytinga. Meðal nýjunganna eru tækniframfarir sem má reikna með að hafi áhrif á skólastarf. Í þessu verkefni skoða ég hvernig nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt hafa haft áhrif á skipulag kennslu. Rannsóknarspurningin sem leitað var svara við er:

Hvaða nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt hafa, að mati kennara, haft mest áhrif á skipulag kennslu þeirra?

Tilgangur þessa verkefnis er að auka eigin skilning á því hvaða nýjungar í upplýsinga- og tæknimennt kennarar telja að hafi haft áhrif á skipulag kennslu þeirra. Sá skilningur ætti að gefa mér mynd af því hvað kennarar telja að gagnist þeim í kennslu og þá jafnframt nemendum þeirra í námi. Ég tel að meiri skilningur á viðfangsefninu auðveldi mér að stýra og styðja við skólastarf sem nýtir upplýsinga- og tæknimennt í námi.  

Til að leita eftir svörum við spurningunni skoðaði ég lesefni námskeiðsins sem snerti efni rannsóknarspurningarinnar ásamt öðru lesefni sem ég átti í fórum mínum. Einnig ég tók viðtal við kennara í upplýsinga- og tæknimennt. Sá kennari hefur langa og víðtæka reynslu og áhuga á notkun upplýsingatækni í skólastarfi.  Til viðbótar gerði ég stutta netkönnun meðal kennara í Facebook hópnum Upplýsingatækni í skólastarfi.

Halda áfram að lesa

ESHA 2018 – kynning á #Eymennt

Í síðustu viku héldu evrópusamtök skólastjórnenda ráðstefnu í Tallinn í Eistlandi. Á ráðstefnunni voru nokkur aðalerindi sem öll fjölluðu um notkun tölvu og tækni í skólastarfi. Einnig var boðið upp á níu málstofur þar sem skólastjórnendur sögðu frá því hvað og hvernig tölvum og tækni væri nýtt í skólum þeirra.

Fjórir stjórnendur af þeim sex skólum sem standa að menntabúðum #Eymennt sóttu ráðstefnu og kynntu samvinnuverkefnið #Eymennt um menntabúðir fyrir kennara og aðra áhugasama um notkun upplýsingatækni í skólastarfi:

ESHA

Eftir kynninguna. Spurningum úr sal svarað.

 

 

Hrund Hlöðversdóttir skólastjóri Hrafnagilsskóla

Ingileif Ástvaldsdóttir skólastjóri Þelamerkurskóla

Katrín Fjóla Guðmundsdóttir deildarstjóri við Dalvíkurskóla

Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri Oddeyrarskóla

 

 

 

Glærur kynningarinnar eru hérna fyrir neðan:

 

Einnig er hægt að horfa á kynninguna á myndbandi með því að smella hérna. Kynningin á #Eymennt byrjar þegar 1 klst. og fimm mínútur eru liðnar af myndbandinu.

Að taka þátt í þessu verkefni með stöllum mínum í #Eymennt var mjög lærdómsríkt. Við nýttum okkur Google umhverfið til að vinna saman að kynningunni, gerðum könnun meðal kennara í Google Forms, bjuggum til myndband í Adobe Sparks og IMovie ásamt því að standa á stóru sviði og kynna verkefnið á ensku.

Með góðri samvinnu er lítill vandi að sigrast á áskorunum eins og þessari.

 

Gerum gott betra

Úr kynnisferðinni til De Wijnberg

Ég skrifaði grein sem birtist í Skólaþráðum tímariti Samtaka áhugafólks um skólaþróun.

Greinin er um það hvernig skólaheimsókn varð að kynnisferð og síðan að Sprotasjóðsverkefninu Gerum gott betra.

Greinina er hægt að lesa hérna.