Og svo allt hitt á #utís2019

Í því sem ég hef áður tekið saman um Utís2019 segir frá fyrirlestrum og vinnustofum. En Utís er miklu meira en það því þar eru aðrir dagskrárliðir sem gera þennan viðburð öðruvísi en önnur starfsþróunartilboð sem ég hef tekið þátt í. Í þeim hluta dagskrárinnar er gert ráð fyrir að þeir sem mæta taki þátt og eigi frumkvæði að því sem er í boði. Þannig koma gróskan og auðurinn í hópnum auðveldlega í ljós. Í þessum viðburðum sést líka hvernig gróskan getur vaxið þegar þátttakendur deila reynslu sinni og þekkingu hver með öðrum. Þessir dagskrárliðir eru:

  • Menntabúðir
  • Apphraðstefnumót
  • Appsmakk
  • Hópefli
  • Skólaheimsókn í Árskóla

Menntabúðir

Á Utís2019 var ein 40 mínútna lota með menntabúðum. Það var ánægjulegt að sjá að alls voru búðirnar tuttugu. Þeim var öllum stjórnað af þátttakendum. Í kynningu á þeim er skýrt tekið fram að þær séu ekki endilega tilbúin kynning heldur miklu fremur vettvangur þar sem hægt er að koma saman til að ræða spurningu, álitamál eða prófa sig áfram með eitthvað kennsluefni eða verkfæri. Á framboðinu mátti sjá að fólk hafði tekið mark á því vegna þess að innihald menntabúðanna var nokkuð fjölbreytt; allt frá opnum stundatöflum og bókasöfnum framtíðarinnar til kynninga á öppum eða vefverkfærum eins og Seesaw og G Suite og allt þar á milli. Vegna þess að ég átti í fórum mínum verkefni um rafræna starfsþróun og þar er meðal annars fjallað um menntablogg þá bauð ég fram menntabúð um menntablogg. Ég gerði það líka vegna þess að ég veit að margir í hópi þátttakenda eru að velta fyrir sér leiðum til að miðla verkefnum og reynslu sinni úr kennslu og/eða kennsluráðgjöf og menntastjórnun. Úr verkefnagerðinni í vor átti ég reynslusögur fjögurra menntabloggara sem hægt er að nýta til að hvetja kennara og aðra sem starfa að menntamálum til að byrja að menntablogga. Fyrir menntabúðina gerði ég örstutta kynningu og ætlaði svo að nýta tækifærið til að spjalla um kostina og hvert þau sem mættu væru komin með hugmyndir sínar. Það gekk eftir; til mín mættu tveir áhugasamir þátttakendur í blogg-hugleiðingum og ræddum við um kosti þess að menntablogga og skoðuðum nokkur menntablogg.

Það verður gaman að fylgjast með því hvort einhver uppskera verður á menntabúðinni um menntablogg.

Apphraðstefnumót

Á apphraðstefnumótinu voru tvær umferðir. Önnur umferðin var með 12 kynningum og á hinni voru 11 kynningar. Fyrir þá sem vita ekki hvernig apphraðstefnumót ganga fyrir sig er hægt að lesa um þau með því að smella hérna. Á Utís2019 voru kynnt alls kyns öpp, viðbætur og vefsvæði sem hafa gagnast vel. Af Twitter að dæma þá hafa nokkrar kynninganna orðið til þess að þátttakendur hafa strax daginn eftir prófað einhver þeirra. Ég kynnti appið Adobe Spark Post. Mér finnst skemmtilegt að nota það til að búa til kynningar og vefauglýsingar. Appið er úr Adobe fjölskyldunni og vel hægt að komast af með að nota ókeypis útgáfuna af því. Helsti kostur þess finnst mér vera að það virkar best á snjalltækjum eins og Ipad og síma.

Björn Gunnlaugs kynnti hreyfiappið Lazy Monster sem hann kallaði Valda.

Hópefli

Á milli atriða strýrði Ingvi Hrannar hópeflisleikjum þar sem reyndi á samvinnu og hugmyndaflug. Ég man nafnið á tveimur þeirra og hvernig þeir gengu fyrir sig. Annar heitir Ég er tré og hinn heitir Þetta er blýantur. (Ef einhver þátttakenda man fleiri leiki væri gaman ef hann gæti bætt honum við í athugasemdir hérna fyrir neðan færsluna – Uppfært 18/11 Ingvi Hrannar er búinn að bæta við þeim tveimur sem vantaði. Þeir eru í athugasemdum við færsluna ). Í fyrri leiknum sem ég man eru 5-6 í hverjum hópi og einn úr hópnum fer í miðjuna og segir Ég er tré. Síðan bætist annar við hjá trénu og segist vera eitthvað sem getur passað hjá trénu eins og t.d. sólskin. Sá þriðji bætist við og segist vera t.d. rigning og sjá fjórði segist t.d. vera ormur. Sá næsti sem bætist í hópinn þarf svo að pikka í einhvern þeirra sem þegar eru komnir inn í hringinn og „leysa hann af“ með því að segjast vera eitthvað annað sem passar við myndina (eða ekki) eins og til dæmis regnbogi. Hver sem er í hópnum getur svo farið inn í hringinn og bætt við myndina. Skemmtilegast er þegar leikurinn flæðir án hiks. Og þannig gengur þetta þangað til stjórnandinn segir stopp.

Í seinni leiknum, Þetta er blýantur geta verið 10 eða fleiri í hverjum hópi (líka færri). Hver hópur fær blýant (penna eða annað sem getur gengið á milli þeirra sem eru í hópnum) og einn úr hópnum heldur á honum og segir Þetta er blýantur. Sá næsti tekur við honum og segir t.d. þetta er greiða. Sá þar næsti tekur svo við og segir, þetta er stafur. Þannig gengur „blýanturinn“ hringinn og allir segja að hann sé eitthvað annað en hann er. Einnig má útfæra leikinn þannig að það eigi líka að sýna hvernig „blýanturinn“ er notaður; t.d. að bera hann upp að hárinu ef hann er greiða o.s.frv.

Á fimmtudagskvöldinu var boðið uppá Breakout Edu í Sýndaveruleika 1238. Þar kepptu þátttakendur í liðum og í búningum í að leysa þrautir. Ég missti af því af því ég komst ekki á Krókinn fyrir en eftir klukkan 23:00.

Allir leikirnir léttu stemmninguna og þátttakendur kynntust fleirum en þeir sátu hjá á meðan þeir voru í hefðbundnum liðum dagskrárninnar. Þannig var ísinn brotinn og auðveldara var en ella að taka upp þráiðinn í ófomlegu spjalli um eitthvað sem tengdist Utís eða skólastarfi.

Appsmakk

Appsmakkið var skemmtiatriði á sameignlega kvöldverðinum á föstudagskvöldinu. Það er fyrir þá sem kalla má lengra-komna tækninörda. Appsmakkið er útsláttarkeppni þar sem tveir og tveir etja kappi með því að sýna veislugestum snjallt forrit eða snjalla notkun á tölvu eða snjalltæki. Ég skráði hjá mér þau öpp sem mér fannst vera smart og gætu komið að notum:

Veislugestir nýttu Mentimeter til að velja þann sem þeir vildu að sýndi meira eða fleiri öpp og í lokin stóð Erla Stefánsdóttir forstöðukona Mixtúru uppi sem sigurvegari appsmakksins.

Skólaheimsóknin

Í skólaheimsókninni kíkti ég inn hjá litlu krökkunum og sá vel útfærðar smiðjur í læsi og hreifst af sjálfstæði nemenda og verkum sem héngu á veggjum skólans.

Eins og sést á þessari færslu er Utís miklu meira en fyrirlestrar og vinnustofur. Á Utís er reiknað með því að þeir þátttakendur sem það vilja leggi eitthvað af mörkum til dagskrárinnar. Einnig má ekki gleyma því að líka er gert ráð fyrir því í dagskránni að fólk kynnist svo það geti spurt hvert annað um ráð eða hjálp við tiltekin viðfangsefni. Þannig styrkist og stækkar tengslanet þeirra sem koma á Utís ásamt því að safna í reynslubankann sinn hugmyndum og verkfærum sem hægt er að nýta í kennslu t.d. bara strax í vikunni eftir Utís-helgina. Já, ég vona sannarlega að Utís-formið lifi og breiði sem víðast úr sér. Það hefur sýnt sig að það er öflugt form til starfsþróunar.

Vinnustofurnar á Utís2019

Á utís2019 þótti mér erfitt að velja mér vinnustofur af því úrvalið var mikið og gott. 16 vinnustofur voru í boði í tveimur lotum. Í þeirri fyrri valdi ég að fara til Mari Venturino og læra af henni hvernig hún nýtir Google Slides með nemendum til að þjálfa þá í að skoða fleiri en eina hlið á málefnum sem þeir skoða í skólanum og annars staðar.

Lykilorðin sem drógu mig á þessa vinnustofu voru samskipti, gagnrýnin hugsun og Google Slides.

Í vinnustofunni sýndi Mari okkur hvernig hún hefur nýtt Google Slides þannig að nemendur vinna allir í sama skjalinu án þess að vera „allir á sama stað“ og rugla í færslum hvers annars. Hver og einn nemandi hefur eina glæru í skjalinu til umráða og fær eitt málefni til að kynna sér vel og setja fram staðhæfingu um málefnið. Inn á glæruna setja nemendur svo rök með og á móti staðhæfingunni. Samhliða þessu verkefni æfa nemendur einnig færni sína í notkun verkfæra Google Slides. Í stað þess að nýta tímann í að nemendur kynni hverja glæruna á fætur annarri og hún meti svo hvern og einn hefur Mari beðið nemendur um að meta hver um sig einn bekkjarfélaga. Hún lét okkur prófa þetta með því að við hoppuðum upp um eina glæru frá þeirri glæru sem við vorum að vinna í og mátum þá glæru út frá ramma sem Mari deildi með okkur.

Halda áfram að lesa

Fyrirlestrar Utís2019 – lærdómur og áform

Eftir hvern utís-viðburð hef ég tekið saman lærdóminn minn og áform um hvað ég ætla að gera við þann lærdóm. Í gegnum tíðina hef ég fundið út að eigin starfsþróun verði ekki að veruleika fyrr en nýi lærdómurinn er þróaður í daglegu starfi og þá helst með öðrum.

Sameiginlegir fyrirlestrar voru fleiri á Utís2019 en á þeim Utís-viðburðum sem ég hef áður tekið þátt í. Það er í sjálfu sér í lagi þar sem mér sýnist þeim ætlað að ydda boðskap viðburðarins; að kennsluhættir sem taka mið af samfélagi 20. (eða jafnvel 19.) aldarinnar duga ekki lengur ef búa á nemendur skólanna undir „líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun“. Aðalsmerki Utís hefur fram til þessa verið að fólk kemur saman til að deila hvert með öðru, prófa ný verkfæri og aðferðir og fikta sig áfram. Það hefur fram til þessa verið mér dýrmætur tími. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort þeir sem á annað borð sækja um á Utís og komast að, þurfi á því að halda að heyra boðskapinn oftar en einu sinni. Allir fyrirlestrarinir sem ég hlustaði á voru vel settir fram; áheyrilegir og þeim fylgdu fallegar glærur. Og mér finnst oftast bæði skemmtilegt og fróðlegt að heyra boðskapinn settan í annað samhengi en ég hef áður heyrt eða lesið. En ég er ekki tilbúin til þess að það gerist mikið oftar en þrisvar sinnum á kostnað tímans sem ég gæti öðru leyti nýtt með kollegum í verklegar æfingar og aðrar pælingar. Þess vegna fundust mér þessir þrír fyrirlestrar alveg mátulega langir, áheyrilegir og fallega fram settir.

Halda áfram að lesa

Gárur á tjörninni

Reglulega rifjast upp fyrir mér myndlíking sem dr. Sigrún Júlísdóttir sagði mér af fyrir löngu. Myndlíkingin varðaði breytingastjórnun. Hún sagði að ef fólk vildi breyta einhverju þá mætti velta fyrir sér hvort væri betra að kasta mörgum smáum steinum í lygna tjörn eða að kasta einum stórum steini til að fá fram breytingu. Þeir smáu eru fleiri og gárur þeirra snertast og eru lengur á leiðinni að landi. Út frá þeim stóra gusast og slettist hratt í allar áttir. Þó að litlu steinarnir séu margir og smáir þá snertast gárur þeirra og þótt gárurnar þeirra fari hægt yfir þá ná þær líka landi eins og þær sem eru stærri og fara hraðar. Munurinn er að þær stærri hafa ekki hitt aðrar gárur á leiðinni að landi og þess vegna ekki orðið fyrir áhrifum annarra.

Falleg og lygn tjörn í bænum Celebration á Florída en þar dvaldi ég í fyrra þegar #Utís2018 fór fram. Þá lofaði ég mér að ef hægt væri kæmi það ekki fyrir aftur.

Báðar aðferðirnar hafa hreyft við lygnunni hvor á sinn hátt og það má svo velta fyrir sér hvor þeirra muni geta skilað vænlegum árangri þegar til lengri tíma er litið.

Eftir að hafa tekið þátt í #Utís2019 um helgina fannst mér myndlíking Sigrúnar eiga vel við Utís-viðburðina sem ég hef tekið þátt í. Þar safnar Ingvi Hrannar Ómarsson frumkvöðull saman mörgum steinum sem hann kallar, landsliðið í menntun. Þeir sem þangað koma eru tilbúnir til að deila þekkingu sinni og reynslu hver með öðrum og einnig eftir viðburðinn. Þannig tekst Utís á hverju ári að gára mennta-tjörnina á Íslandi svo enn fleiri fái að njóta þess sem þar fer fram.


Þó að lygnan og stillan séu oftast bæði þægilegar og fallegar þá gagnast hvorug þeirra til breytinga. Af fyrirlestrunum og vinnustofum á #Utís2019 og fleiri viðburðum sem fjalla um menntun til framtíðar er ljóst að mennta-tjörnin á Íslandi og víðar þurfa að gárast til að þær geti veitt nemendum menntun sem dugar þeim sjálfum og samfélagi þeirra til framtíðar. Og til þess þarf sannarlega marga steina. Þess vegna finnst mér gott að Utís skuli á hverju ári stækka. Hver smásteinn sem Ingvi Hrannar velur til þátttöku er þyngdar sinnar virði í gulli þegar kemur að því breyta kennsluháttum þannig að þeir nýtist við skólastarf sem á að gagnast til að breyta nútíðinni og einnig bæði nemendur og samfélaginu til framtíðar.

Skilvirkir samvinnufundir

Í einni skólaheimsókninni í Kanada (í St. André Bessette Catholic School) fékk ég tækifæri til að sitja fund og fræðslu sem Kurtis Hewson stýrði. Ásamt tveimur öðrum, Lornu Hewson og Jim Parsons hefur hann skrifað bókina Envisionaring A Collaborative Response Model: Beliefs, Structures and Processes to Transfrom how we Respond to the Needs of Students. Í henni er fjallað um og kenndar aðferðir til að gera samvinnufundi starfsmanna skóla skilvirka þannig að þeir bæti námsaðstæður nemenda. Í fundaforminu er einnig gert ráð fyrir að þeir sem taka þátt í fundinum deili þekkingu sinni og reynslu. Litið er svo á að þannig nýtist mannauður hvers skóla betur en ella.

Kaþólsku skólarnir í Elk Island skólaumdæminu höfðu í fyrra tekið sig saman um að innleiða fundaform Hewson. Í St. André Bessette höfðu kennarar hist reglulega til að bera saman bækur sínar varðandi námsaðstæður einstakra nemenda og til að styðja hvern annan við að koma til móts við þarfir nemenda sinna. Skólinn hafði skipulagt fundina þannig að þeir voru haldnir á skólatíma og þá var helmingur kennara á fundi og hinn helmingurinn við kennslu. Stjórnendur höfðu ákveðið að skipta kennarahópnum í fjögur teymi og fékk hvert þeirra samvinnufund einu sinni í mánuði. Í hverju fundateymi voru því 5-7 kennarar. Við nýlegt mat á verklaginu hafði komið í ljós að kennurum fannst tíma sínum ekki vel varið og að teymin ræddu helst einstaka nemendur og þá oftast þá sömu. Einnig nefndu kennarar að þeim fyndust teymin hafa verið sett saman af handahófi. Þeir óskuðu eftir því að í teymunum væru kennarar sem t.d. kenndu sömu fög eða sama árgangi.

Á sýnifundinn voru boðaðir allir kennarar 9. og 10. bekkjanna í skólanum. Fimm sátu fundinn með Kurtis, einn skráði fundargerð og aðrir fylgdust með. Eftir fundinn voru umræður um lærdóminn af sýnisfundinum.
Halda áfram að lesa

Aoife Cahill skólastýra í Sharewood Park

Í fjórða þætti hlaðvarps Bara byrja ræði ég við Aoife Cahill skólastýru St. Luke Catholic School. Hún er félagi minn í verkefninu Skólastjóraskipti sem er samstarfsverkefni Skólastjórafélags Íslands og Kennarasambandsins í Alberta í Kanada. Áður en við hittumst á flugvellinum í Edmonton fyrir 10 dögum höfðum við verið í sambandi á Twitter, Instagram og í gegnum tölvupóst. Þar skiptumst við á frásögnum af áherslum og áhuga í leik og starfi.

Aoife Cahill skólastýra St. Luke Catholic School