Þegar rútínan rofnar

Í dag tók ég ásamt Jakobi Frímanni Þorsteinssyni þátt fræðslufundi á vegum Heimilis og skóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Fundurinn var sá fjórði í röðinni fyrir páska. Eftir páska verða fleiri fræðslufundir. Allir fundirnir hafa verið teknir upp og hægt er að nálgast upptökurnar á heimasíðu fræðslunnar Heimilin og háskólinn.

Í dag fjölluðum við Jakob um nám og frístundastarf ásamt því að tala um hvað hægt væri að gera um páskana með fjölskyldunni þegar ferðast á innandyra. Dóttir Jakobs, Dísa Jakbos kom með heilræði og hugmyndir fyrir foreldra um hvað væri hægt að gera með ungmennunum í fjölskyldunni. Hérna er glærurnar hans Jakobs og hérna er hægt að smella til að komast inn á vefinn Innihaldsríkt fjölskyldulíf á tímum samkomubanns og sóttkvíar sem hann og fleiri foreldrar í Laugarneshverfinu hafa tekið saman. Á fræðslufundinum var ennig rætt um það hvernig ný rútína gæti litið út þegar sú gamla skyndilega rofnar.

Funda- og fræðsluaðstaða dagsins.

Í lok fræðslufundarins brugðum við okkur út í garð. Heima hjá Jakobi beið fjölskyldan úti í garði og þar var búið að kveikja eld, hnoða í snúbrauð og byrjað að poppa við opinn eld. Ég kom mér fyrir á pallinum í skógarjaðrinum sem er upp við garðinn í Hjallatröð 1 og fékk mér heitt súkkulaði með þeyttum rjóma og eplabrauð.

Í fræðslunni kom fram að nám getur farið fram alls staðar; heimurinn er eiginlega skólastofan. Það er okkar að nýta umhverfið til að leika okkur, vaxa og þroskast; jafnt úti sem inni. Einnig komum við inná að það er heilmikil lífsleikni fólgin í því að laga sig að nýjum aðstæðum. Aðstæðurnar undanfarnar vikur, um páskana og eftir að páskaleyfi lýkur kalla á að við þurfum að búa okkur til nýja rútínu af því að utanaðkomandi aðstæður hafa rofið gömlu rútínuna.

Þetta var skemmtilegt og fróðlegt. Sérstaklega fannst mér gaman að skoða og velta fyrir mér hvað og hvernig er hægt að nýta nærumhverfið til að vera saman, leika sér og læra saman og hvernig er hægt að flétta lífsleikni og lýðræði inn í þá pælingu. Glærurnar sem ég notaði eru svo hérna fyrir neðan. Samantekt og upptöku frá fræðslu dagsins er hægt að skoða með því að smella hérna. Á glærunum eru líka hlekkir á tvær síður þar sem hægt er að nálgast spilareglur spila með 52 spilum Það þarf nefnilega ekki alltaf að eiga stór eða dýr borðspil til að spila saman.

Ég hvet fólk til að fylgjast með þessu skemmtilega og fróðlega framtaki Heimilis og skóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslans. Það er meðal annars hægt á heimasíðu samstarfsins og heimasíðu Heimilis og skóla.

Og svo allt hitt á #utís2019

Í því sem ég hef áður tekið saman um Utís2019 segir frá fyrirlestrum og vinnustofum. En Utís er miklu meira en það því þar eru aðrir dagskrárliðir sem gera þennan viðburð öðruvísi en önnur starfsþróunartilboð sem ég hef tekið þátt í. Í þeim hluta dagskrárinnar er gert ráð fyrir að þeir sem mæta taki þátt og eigi frumkvæði að því sem er í boði. Þannig koma gróskan og auðurinn í hópnum auðveldlega í ljós. Í þessum viðburðum sést líka hvernig gróskan getur vaxið þegar þátttakendur deila reynslu sinni og þekkingu hver með öðrum. Þessir dagskrárliðir eru:

  • Menntabúðir
  • Apphraðstefnumót
  • Appsmakk
  • Hópefli
  • Skólaheimsókn í Árskóla
Halda áfram að lesa

Vinnustofurnar á Utís2019

Á utís2019 þótti mér erfitt að velja mér vinnustofur af því úrvalið var mikið og gott. 16 vinnustofur voru í boði í tveimur lotum. Í þeirri fyrri valdi ég að fara til Mari Venturino og læra af henni hvernig hún nýtir Google Slides með nemendum til að þjálfa þá í að skoða fleiri en eina hlið á málefnum sem þeir skoða í skólanum og annars staðar.

Lykilorðin sem drógu mig á þessa vinnustofu voru samskipti, gagnrýnin hugsun og Google Slides.

Í vinnustofunni sýndi Mari okkur hvernig hún hefur nýtt Google Slides þannig að nemendur vinna allir í sama skjalinu án þess að vera „allir á sama stað“ og rugla í færslum hvers annars. Hver og einn nemandi hefur eina glæru í skjalinu til umráða og fær eitt málefni til að kynna sér vel og setja fram staðhæfingu um málefnið. Inn á glæruna setja nemendur svo rök með og á móti staðhæfingunni. Samhliða þessu verkefni æfa nemendur einnig færni sína í notkun verkfæra Google Slides. Í stað þess að nýta tímann í að nemendur kynni hverja glæruna á fætur annarri og hún meti svo hvern og einn hefur Mari beðið nemendur um að meta hver um sig einn bekkjarfélaga. Hún lét okkur prófa þetta með því að við hoppuðum upp um eina glæru frá þeirri glæru sem við vorum að vinna í og mátum þá glæru út frá ramma sem Mari deildi með okkur.

Halda áfram að lesa