Ígrundun og miðlun
Eric Sheninger (2014) telur upp verkfæri á netinu sem nýtast til starfsþróunar. Blogg er ofarlega á listanum hans og segir hann þetta vera algengan vettvang þar sem kennarar og stjórnendur ígrunda starfið, deila hugmyndum og ræða saman.
Að mati Steve Wheeler (2015) er blogg öflugasti miðillinn sem kennarar og skólastjórnendur geta nýtt til starfsþróunar með því að segja frá starfi sínu og þekkingu. Hann telur upp fimm ástæður fyrir mati sínu:
- Sá sem skráir reynslu sína ígrundar hana.
- Að blogga eigin hugsanir og skoðanir eflir sjálfstraust. Þú kemst að því að þú hefur frá mörgu að segja.
- Að blogga er skapandi. Þú finnur nýjar aðferðir til að miðla því sem þú vilt segja frá.
- Að blogga stækkar og eflir tengslanetið. Það kemur þér í samband við kennara og stjórnendur víðs vegar um heiminn með sömu áhugamál og áherslur og þú.
- Að blogga hvetur aðra til þróunar í starfi. Þú býður lesendum að skoða starfið þitt og það getur kveikt löngun hjá einhverjum til að útfæra og prófa það sem þú hefur gert. Þannig geta góðar hugmyndir og aðferðir orðið fleiri og enn betri.
Wheeler (2015) segist hafa reynslu af því að það efli hann til dáða í bloggskrifunum þegar lesendur hafa samband við hann og þakka honum fyrir bloggið hans. Hann segir að yfirlit yfir mikla umferð lesenda á blogginu hans hafi sömu áhrif. Rannsókn sem Wheeler gerði á verkefni þar sem nemendur hans héldu úti „wiki“ svæði sýndi að nemendur lögðu sig meira fram við innihald og framsetningu verkefna ef þau voru opinberlega birt á wiki-svæðinu en ef verkefnin voru aðeins birt kennara eða samnemendum. Wheeler kallar þetta áhrif leyndu áhorfendanna. Í umfjöllun sinni um þau segir hann að hægt sé með góðu móti að yfirfæra þau á nemendablogg og vefútvarpsþætti nemenda. Það er auðvelt að sjá að leyndir lesendur geti haft sömu áhrif á kennara og stjórnendur sem blogga um skólastarf.