Umræða og lokaorð

Fagmennska, frumkvæði og virkni

Í þessu verkefni var lagt upp með rannsóknarspurninguna: Hvernig og af hverju nýta kennarar og stjórnendur blogg og samfélagsmiðla til þróunar og nýsköpunar í starfi?

Ljóst er að þróun og nýsköpun í skólastarfi hefst á frumkvæði hvers og eins kennara; hvernig hver kennari velur að verja starfsþróunartíma sínum og á hvaða hátt afrakstur hans skilar sér inn í kennslustofuna til nemenda. Í gögnum þessa verkefnis hefur komið fram að kennarar og stjórnendur velja sér margar og mismunandi leiðir til rafrænnar starfsþróunar. Það virðist fara eftir því hvaða miðill er þeim handgenginn og hvernig þeim hefur tekist að nýta hann til að ná tengslum við samstarfsfólk sitt víða um land og hvar sem er í heiminum. Þeir laga notkun sína á samfélagsmiðlum og menntabloggi að eigin áhuga og þörf fyrir leiðbeiningar og stuðning hverju sinni.

Flestir þátttakenda velja sér rafræna starfsþróun til þess að deila þekkingu sinni og reynslu í bloggi eða á samfélagsmiðlum svo að miðlun þeirra geti komið öðrum kennurum að notum. Þeir hafa reynslu af því sjálfir að blogg, tíst og frásagnir annarra kennara gefi þeim nýjar hugmyndir sem þeir hafa sjálfir þróað í eigin starfi. Menntabloggararnir nýta bloggið til að halda utan um vinnu sína og setja hana í samhengi við eigin starfskenningu. Þátttakendur nýta blogg og samfélagsmiðla til að efla tengsl við aðra kennara, til að hrósa þeim og hvetja áfram til starfsþróunar og nýsköpunar. Það á sér samhljóm í fræðilega hluta verkefnisins um kosti rafrænnar starfsþróunar. Í þeim hluta kemur fram að rafræn starfsþróun sé gagnvirk og byggi á samvinnu kennara sem séu drifnir áfram af áhuga þeirra til að bæta sig í starfi. Rafræn starfsþróun getur farið fram hvenær sem er og eftir áhuga og þörfum kennara hverju sinni (Sheningar, 2014; Wheeler, 2015; Whitaker o.fl., 2015).

Af gögnum verkefnisins má sjá að blogg og samfélagsmiðlar geta nýst öllum þremur tímabilum í starfsþróun kennara; við upphafið, í kynningu og starfi (Smith, 2018). Segja má að á netinu hafi myndast samstarfsmenning fagmanna þar sem þeir ýta og toga hvern annan í átt að bættu starfi með því að miðla efni sínu og hvetja hvern annan áfram til starfsþróunar og nýsköpunar (Wheeler, 2015; Fullan og Hargreaves, 2016). Leiðarljós framtíðarfagmennskunnar (Guðmundur Heiðar Frímannsson o.fl., 2013), hinnar nýju fagmennsku (Sigurður Kristinssin, 2013) og leiðbeininga Hargreaves og Fullan til kennara sem vilja kenna eins og fagmenn (2012) er frumkvæði og virk þátttaka, jafnt í eigin starfsþróun sem annarra. Orð Sigurðar Kristinssonar (2013, bls. 250) um að með því að rækta meðvitaða sýn á starfið og samfélagslegt hlutverk sitt  styrki kennarar sig sem fagsétt og þannig sýni þeir fram á að þeir verðskulda traust samfélagsins, eiga samhljóm með sjö stoðum rafrænnar forystu Sheninger, (2014). Í þeim stoðum er grunnstefið að gera starfið sýnilegt til þess að styrkja jákvæða ímynd þess og að horfa alltaf á möguleikana sem netið og rafræni heimurinn getur gefið til að styrkja skólastarfið og menntun til framtíðar.

Það þarf áræðni til að fara óhefðbundnar leiðir í eigin starfsþróun og að opinbera starf sitt og pælingar fyrir samstarfsfólki á netinu (Sheningar, 2014; Whitaker, 2015). Þátttakendum í þessu verkefni ber saman um að sú áræðni borgi sig margfalt í nýjum hugmyndum og stærra tengslaneti þar sem hægt er að leita eftir ráðum og hvatningu. Þannig hafa þeir komið sér upp sínu eigin og persónulega námsumhverfi (e. Personal Learning Environment) sem þeir sérsníða að eigin þörfum (Wheeler, 2015). Rafrænu verkfærin hafa þátttakendur þegar lært að nýta sér til náms þegar þeim hentar. Þeir hafa því tileinkað sér sjöundu stoðina í rafrænni forystu; að sjá möguleikana sem rafræni heimurinn getur boðið til starfsþróunar og nýsköpunar (Sheningar, 2014).

Við yfirfærslu á niðurstöðum verkefnisins verður að hafa í huga að þátttakendur í gagnasöfnun þess voru fáir og þeir voru valdir vegna reynslu sinnar og áhuga á viðfangsefninu. Niðurstöðurnar gefa samt sem áður til kynna að samstarfsnet kennara á samfélagsmðlum og á netinu er fjölbreytt og sívirkt. Þess vegna er vert að huga að því að gefa rafrænni starfsþróun meiri gaum og formlegri sess við gerð starfsþróunaráætlana kennara og stjórnenda þar sem þeir velja sjálfir leiðina og miðilinn. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að þannig sé hægt að komast nær því að sérsníða starfsþróunina að áhuga og þörfum hvers og eins kennara með það að markmiði að þróa kennsluhætti sem þjóna markmiðum menntunar til framtíðar.