Hugmyndasprengjan á Snæfellsnesinu I

IMG_7373

Þátttakendur á Makerý gerðu orðaský með því að skrifa orð sem lýstu helginni. Á því er ljóst að helgin var bæði fróðleg og skemmtileg.

Um síðustu helgi var ég svo lánsöm að fá að vera þátttakandi í viðburðinum Makery á Snæfellsnesi. Viðburðurinn byggði á kynningu á Makery hugmyndafræðinni. Kynningin samanstóð af skólaheimsóknum, fyrirlestrum, verkefnum og vinnusmiðjum. Hún stóð yfir frá föstudegsmorgni til hádegis á sunnudegi. Að kynningunni stóðu konur sem kenna sig við Vexahópinn. Þær eru:

 • Anna María Þorkelsdóttir, Kennsluráðgjafi Hörðuvallaskóla
 • Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, UT kennslufulltrúi Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar
 • Erla Stefáns, verkefnastjóri Mixtúru margmiðlunarvers Reykjavíkurborgar
 • Hildur Rudolfsdóttir, UT kennsluráðgjafi Garðaskóla Garðabæ
 • Hugrún Elísdóttir, UT verkefnastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar
 • Rósa Harðardóttir, skólasafnskennari og UT Verkefnastjóri Selásskóla
 • Þorbjörg Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar

Föstudagurinn 28. september

Snillismiðjan hennar Hullu

Dagurinn hófst kaffispjalli á kennarastofu Grunnskóla Grundarfjarðar áður en haldið var í rútuferð til Ólafsvíkur. Þar heimsóttum við snillismiðjuna sem Hugrún (Hulla) hefur sett upp. Smiðjan er í skúr á skólalóðinni og hún varð þannig til að það átti að rífa skúrinn en Hulla fékk að halda honum með það að markmiði að setja þar upp snillismiðju.

Hulla hefur komið sér og snillinni vel fyrir í skúrnum. Þar er alls kyns efniviður ásamt nokkuð af tækni sem nýtast í starfi smiðjunnar. Hulla sýndi okkur dæmi um verkefni sem nemendur hafa og geta unnið í smiðjunni. Þar á meðal voru þrívíð verkefni sem voru senur í ritunarverkefnum nemenda. Eitt þeirra var meira að segja með möguleikum til að hreyfa fígúrurnar í senunni. Einnig sagði hún okkur frá verkefni sem var unnið í samstarfi við samtökin Sole Hope. Í því tóku nemendur þátt í að safna gallabuxum sem voru klipptar niður í snið af skóm sem voru svo saumaðir handa börnum í Uganda. þar borast lirfur í iljar barnanna ef þau ganga berfætt. Sem þau að öllu jöfnu gera vegna þess að þau eða foreldrar þeirra hafa ekki efni á því að kaupa skó eða þá að skór eru ekki aðgengilegir í nágrenni þeirra.

 

This slideshow requires JavaScript.

Í snillismiðjunni er augljóst að þar fær sköpunargleði bæði nemenda og kennara að  njóta sín og þar er hugvitið líka virkjað. Það verður gaman að fylgjast með notkun smiðjunnar og þróun hennar í framtíðinni.

Áður en við yfirgáfum snillismiðju Hullu sýndi Hildur okkur tvö myndbönd sem skýrðu tengsl hugmyndafræði Makerý og hugarfars vaxtar. Því næst var hópnum skipt í þriggja manna hópa sem fengu það verkefni að búa til brú úr spaghettílengjum og sykurpúðum. Brúin átti að geta haldið pleymókarli og staðið á milli tveggja borða. Í þessu verkefni fékk hugvit og sköpunargleði þátttakenda að njóta sín ásamt keppnisskapinu því kosið var um vinningshafa.

 

Heimsókn í Lýsuhólsskóla

Eftir hádegisverð á veitingastað í Ólafsvík var okkur ekið í Lýsuhólsskóla. Á Lýsuhóli er löng hefð fyrir samþættingu námsgreina og verkefnavinnu sem tengist nærumhverfi nemenda. Það var Haukur Þórðason kennari við skólann sem tók á móti hópnum. Hann sagði t.d. frá verkefninu Stubbalækjarvirkjun sem er virkjun á skólalóðinni. Þar er líka gróðurhús sem nýtur góðs af virkjuninni. Þegar við vorum í heimsókninni voru spínatplöntur í gróðurhúsinu. Þeim var sáð í ágúst og voru um það bil að verða tilbúnar í salat í skólanum.

Haukur sýndi okkur líka verkefni sem nemendur hafa unnið í átthagafræði. Þá söfnuðu nemendur m.a. örnefnum, þjóðsögum og munnmælasögum sem tengjast átthögum þeirra. Eitt verkefnið var líka að búa til líkön af þremur mismunandi fjárréttum í sveitinni. Hægt er að kynnast átthagafræðinni í Grunnskóla Snæfellsbæjar betur með því að skoða heimasíðu þess.

Að lokum fengum við að kynnast því hvernig Haukur vinnur aðrar minni uppfinningar með nemendum eins og hönnun á lömpum og forritun á diskóljósum sem eru í notkun á samkomum nemenda.

Á því sem við sáum í heimsókninni í Lýsuhólsskóla er það ljóst að það er ekki fjölmennið sem skapar fjölbreytnina heldur hugarfar þeirra sem starfa við skólann til starfsins. Verkefni nemenda bera þess merki að þeir fá merkingarbært nám sem er vel tengt við nærumhverfi þeirra og gerir gagn í daglegu starfi skólans og nemenda.

Þessum viðburðaríka degi lauk svo með sameiginlegri máltíð þátttakenda. Í næsta pistli verður svo greint frá því sem eftir var af dagskrá helgarinnar.

Meira um Maker Space

Fleiri en 60 hugmyndir að Maker Space verkefnum

Frétt frá skóla í Edmonton þar sem hugmyndafræðin er nýtt í starfi skólans

 

Google í skráningu og dreifingu á hekli

IMG_6746

Ég hafði lofað saumaklúbbssystrum mínum að skrá niður hvernig ég heklaði grænmetis- og ávaxtapoka til að taka með í innkaupin svo ég geti fækkað plastpokum í notkun á heimilinu.

 

Þegar ég var að byrja á skráningunni fannst mér upplagt að gera það með Google verkfærunum svo að auðvelt væri að dreifa henni. Í miðju kafi ákvað ég að nýta þessa skráningu til að læra eitthvað meira á Google verkfærin en það sem ég þegar kann svo að ég gerði eftirfarandi:

 • Í stað hefðbundins Google Docs skjals notaði ég sniðmát úr Google Docs sem heitir fréttabréf (Newsletter Lively). Það er falleg uppsetning á fréttabréfi sem auðvelt er að fylla í með eigin texta og myndum. Kosturinn við þetta er að uppsetningin verður ekki formleg og „ferköntuð“ eins og ritgerð, hún er falleg og það var fljótlegt fyrir mig að setja inn eigin texta og myndir í stað þess að nota tímann til að finna út úr því hvernig ég vildi að þetta liti út. Með því að birta skráninguna í Google docs skjal er nýjasta útgáfa skjalsins alltaf aðgengileg í stað þess að þurfa að skipta út pdf-skjali ef eitthvað breytist eða þarf að leiðrétta.
 • Þegar ég hafði lokið við skráninguna þá valdi ég að deila henni með því að birta hana á vefnum í stað þess að dreifa hlekk á hefðbundinn hátt. Með þessu móti mun skjalið líta út eins og vefsíða þegar smellt er á hlekkinn sem dreift verður. Á sínum tíma lærði ég þetta trix með myndbandi á You Tube eins og því sem er hérna fyrir neðan.

Þetta er fídus sem hægt er að nota í flestum Google verkfærunum eins og til dæmis Google Sheets og Google Slides og gerir t.d. dreifingu og birtingu skjala en ef hlekknum er dreift með hefðbundnum hætti.

 • Ég vildi gera skráninguna aðgengilega fleirum en saumklúbbnum en samt ekki þannig að það væri fyrirhafnalaust að sækja hana. Ég hafði aldrei rekist á það í Google Docs hvernig maður læsti skjölum þar með lykilorðum. Þegar ég spurði Google leitarvafrann að því hvernig það væri gert þá rakst ég á að það er hægt að gera könnun með Google Forms og dreifa hlekknum að henni. Þar sem ég er einlægur aðdáandi Google Formsog þess að tengja verkfæri Google saman varð ég að prófa þessa leið. Og auðvitað nýtti ég nýju útgáfu Google Forms og prófaði t.d. að setja mína eigin mynd efst á könnunina. Þegar ég gerði könnunin um lykilorðið fór ég eftir leiðbeiningunum á myndbandinu sem er hérna fyrir neðan:

Ég sé fyrir mér það væri gaman að nýta þennan fídus í ratleikjum eða EduBreakOut jafnt sem vinnslu verkefna. Þegar búið er að finna lykilorð eða önnur svör eru þau slegin inn og í svarinu er svo hlekkurinn á næsta þraut eða verkefni.

 • Þegar ég setti þetta svo inn í bloggfærsluna þá varð ég að finna út úr því hvernig þau sem vilja fá aðgang að skráningunni myndu nálgast lykilorðið. Ég ákvað að þau myndu senda mér tölvupóst með því að nota síðuna á blogginu sem heitir Hafa samband og ég myndi svo senda þeim lykilorðið til baka. Til þess að ég þurfi ekki að búa til nýja tölvupóst í hvert skipti sem ég svara beiðni um lykilorð bjó ég til það sem GMail kallar Canned response. Þá býr maður til staðlað svar sem geymist í tölvupóstinum og getur kallað fram í hvert skipti sem maður svarar tölvupósti með sömu spurningu. Ég fylgdi leiðbeiningum sem eru á myndbandinu hérna fyrir neðan.

Það er auðvelt að sjá fyrir sér hvernig þetta er nýtt þegar oft þarf að svara sömu spurningunni eða gefa leiðbeiningar í tölvupósti. Þá er gott að eiga staðlað svar í tölvupóstinum sínum.

Enn og aftur sýndi það sig að það er auðvelt að nota verkfæri Google bæði í leik og starfi. Það er bara spurning um að koma auga á notagildið og prófa sig áfram með það sem maður finnur af leiðbeiningum. Gangi ykkur vel.

Lesið fyrir ömmu á Flipgrid

Af reynslunni, bæði sem kennari og móðir, veit ég að það getur verið erfitt að koma heimalestri fyrir svo hann verði að yndisstund bæði fyrir þann sem hlustar og þann sem les. Ég á barnabörn sem ekki búa í nálægð við mig. Tvö þeirra eru byrjuð í skóla og eru því með heimalestur. Þau ganga í sitt hvorn skólann og fyrir ömmu sem hefur áhuga á kennslu og skipulagi hennar hef ég gaman af því að fylgjast með skipulaginu í skólunum í kringum þessi tvö og hvernig það hefur áhrif á áhuga þeirra og elju við lærdóminn.

lesid fyrir ommu

Árni Heiðar les á meðan amma fær sér skyr eftir æfingu.

Ég hef verið svo lánsöm að fá að fylgjast með heimalestrinum. Við höfum mikið notað myndsímtöl eins og Facetime. Þá hringja krakkarnir í mig og lesa fyrir mig og svo falsa þau undirskrift ömmu á kvittanablaðið í lestrardagbókinni.

Þessi leið er skemmtileg því að við erum í samskiptum á rauntíma og getum rætt um lesturinn og innihald textans jafnóðum og lesturinn fer fram. En þessi aðferð krefst þess að ég sé tiltæk þegar þau eru reiðubúin til að lesa og það er nú ekki alltaf þannig svo ég hef farið á mis við nokkur góð lestrartilboð. Ég fann þá út að við þyrftum að finna annað fyrirkomulag sem hentaði okkur betur.

Á menntabúðum #Eymennt hafði ég kynnst Flipgrid en skildi ekki fullkomlega hvernig það virkaði eða hver galdurinn væri eiginlega við það umfram það að taka bara upp myndbönd og senda sín á milli. En Flipgrid er miklu meira en það. Flipgrid er vefsvæði og líka smáforrit þar sem hægt er að taka upp stutt myndbönd um efni eða efnisþætti sem fjallað er um hverju sinni. Það sameinar kosti samfélagsmiðla við nám og kennslu. Það er áskorun fyrir kennarann að hugsa upp hvernig hann setur efnið fram á skipulegan hátt þannig að auðvelt sé fyrir nemendur að rata um Flipgrid-ið og líka einfalt fyrir kennarann sjálfan í úrvinnslu. Hægt er að stilla verkefni og skilum nemenda þannig að nemendur geti svarað hver öðrum og gefið hver öðrum endurgjafir eða spurt spurninga.

Halda áfram að lesa

Tvær snjallar

Nýlega birtu tvær snjallar konur, Fjóla Þorvaldsdóttir og Helena Sigurðardóttir, meistaraverkefni sín á vefnum. Verkefnin eiga það sameiginlegt að fjalla um upplýsingatækni í skólastarfi. Annað þeirra er vefurinn Fikt eftir Fjólu og hinn er Snjallvefjan eftir Helenu.

Halda áfram að lesa

Kennarar eru skapandi frumkvöðlar

Á vorönninni sem senn er á enda hef ég sótt tíma í Háskólanum á Akureyri í náminu Upplýsingatækni í námi og kennslu.  Námskeiðið sem ég hef sótt heitir Upplýsingatækni og starfsþróun til framtíðar. Hluti af því hefur verið að læra á Phyton forritun og æfa sig í notkun hennar. Fyrir mig var það heilaleikfimi sem tók á þolinmæðina og fékk mig nokkrum sinnum til að efast um getu mína sem námsmaður. En sem sem betur fer mátti „hringja í vin“ og hin stafræna veröld hefur heldur betur aðstoðað við það sem komið er. Enn á ég þó eftir að vinna lokaverkefnið í þeim hluta námskeiðsins og á þessum vettvangi verður ekki sagt frá „afrekunum“ í þessum hluta námskeiðsins.

Hinn hluti námskeiðsins fjallaði um „skóla framtíðarinnar“ og pælingum um hvaða áhrif nútíma- og möguleg framtíðartækni geta haft á nám og kennslu. Eins og gefur að skilja var þessi hluti námskeiðsins nokkuð frjáls og lestur og verkefnavinna komin undir nemendum. Við unnum t.d. verkefni þar sem við reyndum að gera okkur í hugarlund hvernig skólastofan liti út eftir 50 ár og skiluðum líka ígrundunardagbók. Lokaverkefnið í þessum hluta urðum við svo að búa til sjálf og áttum þar að hagnýta það sem við höfðum numið. Þar sem í þessum hópi eru starfandi kennarar sem allir eru með brennandi áhuga á viðfangsefninu má reikna með því að verkefnin verði fjölbreytt og sýni svo ekki verði um villst að kennarar eru skapandi frumkvöðlar sem eru ósínkir á tíma sinn við að gera nám og kennslu áhugaverða, fjölbreytta og krefjandi fyrir nemendur sína.

Halda áfram að lesa

Búa til kvikmynd í Google Photos

1200x630bb

Það getur verið gaman að miðla myndum úr verkefni, viðburðum eða deila minningum með stuttri kvikmynd. Það eru til nokkrar leiðir til þess og ein þeirra er að nota Google Photos. Í appinu á símanum eða Ipadinum er það gert á mjög einfaldan hátt. Og það besta er að það er mjög fljótlegt og skemmtilegt. Til viðbótar kemur að eins og í öðrum verkfærum Google getur kvikmyndagerðin verði samvinnuverkefni eins margra og velja að vinna saman.

Halda áfram að lesa