Vefumræður og umræðutímar

Á flestum námskeiðum sem ég hef komið að við Menntavísindasvið Háskóla Íslands eru vefumræður og á mörgum þeirra eru líka umræðutímar eða málstofur um lesefni námskeiðsins. Vefumræðunum og umræðutímunum eru misjafnlega mikið stýrt af kennurum og þátttaka og virkni nemenda er einnig mismikil.

Við undirbúning á einu námskeiða næsta hausts datt mér í hug að reyna að tengja þessa tvo þætti námskeiðsins saman og gefa þar með nemendum færi á að nýta valda hluta þess sem þau ræða (skriflega) í netumræðunum í litlum hópi á lokuðu svæði þegar þau mæta í umræðutíma. Ég vildi líka auka möguleika nemenda á því að hafa áhrif á það sem rætt er í umræðutímunum. Námskeiðið er á meistarastigi og fer að mestu leyti fram sem netkennsla.

Myndin er fengin frá Unsplash Photos og er eftir Mimi Thian

Til að gera ofangreint þá valdi ég þrjár af fjórum lotum námskeiðsins þar sem nemendur fá það verkefni í umræðuhópunum að setja inn á Padlet-vegg tvær spurningar, pælingar eða álitamál sem þau vilja leggja fram í næsta umræðutíma. Þannig verður til safn pælinga úr öllum hópunum.

Á Padlet-veggnum á hver lota einn dálk þannig að spurningar allra hópa úr öllum lotunum eru á einum stað. Í einum umræðutímanum er einnig til umræðu efni úr fyrirlestri sem nemendum er boðið á. Til að safna saman pælingum nemenda jafnóðum á þeim fyrirlestri er ætlunin að þau nýti símana sína til skráningar á efni sem þau sjá fyrir sér að hægt sé að taka fyrir í umræðutímanum. Til þess stofnaði ég umræðusvæði á Sli.do. Það svæði er líka aðgengilegt á Padlet-veggnum.

Þegar nemendur koma svo í umræðutímana er ætlunin að í upphafi skoði kennari og nemendur saman það sem hóparnir hafa sett inn á Padlet-vegginn. Eftir það verður nemendahópnum skipt í smærri hópa (break-out rooms). Í hópastarfinu velja hóparnir sér efni af Padlet-veggnum til að ræða um og skrá niðurstöðuna svo á annan Padlet-vegg. Þannig verða til samantektir úr umræðunum sem verða öllum nemendum aðgengilegar. Það safn verður svo grundvöllur umræðu með öllum nemendum áður en umræðutímanum lýkur. Til að auðvelda aðgengi nemenda að seinni Padlet-veggnum er hann líka að finna á þeim fyrri. Nemendur fá því aðeins einn hlekk til að halda sig við. Á honum finna þau efni, verkefnalýsingar og skil sem á að nýta í öllum umræðutímum námskeiðsins.

Með þessu fyrirkomulagi vil ég:

  • Styrkja og tengja saman einstaka þætti námskeiðsins sem áður geta virst án samhengis.
  • Virkja nemendur til að hafa áhrif á hvað rætt er í umræðutímum.
  • Gefa vefumræðum á lokuðum svæðum innan vefumsjónarkerfisins Canvas líf með því að færa valda hluta úr henni til fleiri nemenda; úr skrifuðu máli í lifandi umræður í fleiri hópum.
  • Að nemendur þjálfist í að deila með öðrum pælingum sínum (skriflega og munnlega) um viðfangsefni námskeiðsins og að þannig verði til vísir að námssamfélagi innan nemendahópsins.

Það verður svo spennandi að sjá hvort ég muni ná markmiðunum með þessu fyrirkomulagi.

Einn smellur og allt er á einum stað

Í netnámi vetrarins hef ég lagt mig fram um að námsefnið og annað sem skiptir máli sé sem aðgengilegast fyrir nemendur þannig að þau eigi auðvelt með að fá yfirsýn og viti án mikillar fyrirhafnar hvað sé efst á baugi eða næst á döfinni innan námskeiðanna sem ég hef haft umsjón með.

Háskóli Íslands hefur í vetur innleitt námsumsjónarkerfið Canvas og að mínu mati er óhætt að segja að það hafi verið gert þannig að kennarar eigi alltaf aðgang að stuðningi og leiðbeiningum, ýmist innan kerfisins með því að skoða myndbönd eða með því að biðja um aðstoð á hefðbundinn máta með tölvupóstum eða netfundum.

Canvas hefur marga möguleika í netnámi sem hægt er að nýta til samstarfs nemenda og miðlunar á efni en á meðan verið er að læra á það allra nauðsynlegasta eins og að setja upp námskeið, miðla fyrirlestrum, koma skilaboðum til nemenda og að stilla verkefnin af er varla hægt að kynna sér möguleikana á því að tengja það við önnur forrit eða vefsvæði. Ég hlakka til næsta vetrar og að fá þá tíma og tækifæri til að kanna fleira sem Canvas hefur upp á að bjóða.

Haustið 2019 kynntist ég vefsvæðinu og smáforritinu Wakelet þegar ég var að safna saman tístum með ákveðnu myllumerki. Í vetur fór ég svo að skoða það betur og möguleikana á að nota það í skipulagi á kennslu og hvernig það væri hægt að tengja það við Canvas. Ég sá að það hefur ótal skemmtilega möguleika; ekki bara vegna þess hversu aðgengilegt það er heldur líka hve auðvelt er að nota það í samstarfi og verkefnavinnu nemenda.

Hvað er Wakelet?

Wakelet er oft líkt við Pinterrest. Bæði verkfærin eru eins konar korktafla þar sem hægt er að safna saman efni héðan og þaðan og gera aðgengilegt undir einum hlekk. Wakelet er til bæði sem vefsvæði og smáforrit. Eitt af því góða við Wakelet er að það er eiginlega eins og Bakkakötturinn, það étur allt. Þar er hægt að safna saman hlekkjum af vefnum, textaskjölum, myndböndum, myndum og textaútskýringum. Það sem mér finnst handhægt fyrir kennara og nemendur er að það hefur möguleika á samvinnu og það er sáraeinfalt að deila efninu til annarra. Svo finnst mér ekki verra að Wakelet lítur alltaf vel út á öllum miðlum og í öllum tækjum.

Til þess að læra enn betur á verkfærið þá prófaði ég að nýta það fyrir eina kennslulotu þar sem ég kenndi sem gestakennari. Þá safnaði ég efninu sem nemendur áttu að kynna sér fyrir tímann á Wakelet svæði og dreifði til þeirra. Einnig setti ég þangað glærurnar sem ég studdist við og hlekk á Padlet-vegg þar sem nemendur gátu nálgast verkefnalýsingar tímans og skilað inn niðurstöðum úr hópastarfi tímans. Ég dreifði svo hlekknum að svæðinu til nemenda með því að gera tilkynningu á Canvas og prófaði að fella Wakelet svæðið fallega inn í tilkynninguna og það kom vel út; bæði fyrir skipulag og yfirsýn nemenda og einnig fyrir augað.

Í síðustu viku hélt ég kynningu á fjarmenntabúðum kennsluþróunarstjóra og Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands. Þar fór ég einmitt yfir það hvernig Wakelet hefur gagnast mér og hvað væri hægt að gera meira. Inn í kynninguna setti ég stutt myndbönd sem útskýrðu notkunina. Þannig slapp ég við að flækjast á milli flipa í vafranaum í tölvunni á meðan ég var að kynna verkfærið. Það er mikið hagræði í netkynningum og einnig fyrir þau sem koma á kynninguna. Þá geta þau skoðað myndböndin í rólegheitum ef þau vilja sjálf prófa eitthvað úr kynningunni þegar heim er komið. Hérna fyrir neðan er glærusýningin og inni í henni eru myndböndin. Inni á glærunum eru líka emoji-kallar. Þá setti ég inn fyrir forvitna þátttakendur sem vilja kynnast fleiru en því sem nefnt var í kynningunni. Það geta þau gert með því að smella á kallinn og fengið forvitni sinni kannski svalað og lært meira. Trix sem ég mun örugglega nota aftur með nemendum mínum.

Fyrir kynninguna þá setti ég líka saman Wakelet safn um notkun þess í kennslu. Þannig gátu þau sem komu á kynninguna tekið eitthvað með sér heim til að skoða betur upp á eigin spýtur. Þar eru meðal annars tvær samantektir á möguleikum Wakelet með nemendum. Önnur fyrir háskólakennara og hin er tekin saman af kennaranemum. Hvoru tveggja ætti að nýtast kennurum á öllum skólastigum.

Það er oft sagt að tæknin og verkfærin sem hún færir kennurum séu ekki aðalatriðið þegar kemur að notkun upplýsingatækni í skólastarfi það séu uppeldis- og kennslufræðin sem mestu máli skipta. Ég tek vissulega undir það en sum verkfæri eru bara þannig gerð að þau sameina of marga kosti upplýsingatækninar og uppeldis- og kennslufræðinnar sem leggur áherslu á menntun til framtíðar að það væri synd að láta þau verkfæri fram hjá sér fara. Eftir reynsluna í vor þá met ég það svo, að Wakelet sé eitt þeirra verkfæra sem vert er að kennarar kynni sér og helst nýti í starfi.

Orðaský í netkennslu

Í síðustu „staðlotuviku“ Háskóla Íslands sem aftur fór öll fram á netinu, notaði ég orðaský tvisvar sinnum í kennslustund. Þegar ég var að setja saman kennslustundina og datt í hug að nota orðaský velti ég fyrir mér hvort það væri nokkuð fyrir fullorðna. Eftir örstutta umhugsun lét ég slag standa og hugsaði með mér að það kæmi bara í ljós. Ég hefði sjálf gaman að þeim og þau sýna á auðveldan og lifandi hátt það sem nemendur eða þátttakendur í viðburði vilja segja svo þetta gæti varla tekist illa.

Hérna fyrir neðan er dæmi þar sem þátttakendur í Makerý-helgi Vexa hópsins hafði um þá upplifun að segja. Flest forrit sem nýtt eru til að búa til orðaský gefa möguleika á að orðin sem oftast eru nefnd eru stærst í orðaskýinu.

Halda áfram að lesa