Mennska á netráðstefnu

Mynd Tim Marshall fengin af Unsplash Photos

Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með umræðu um menntamál á samfélagsmiðlum að í gær og fyrradag fór fram netráðstefnan UtísOnline og að þátttakendur hennar voru himinlifiandi með skipulag hennar og innihald. Svo viðbrögð þeirra séu sett í eitt orð.

Mér fannst magnað að vera þátttakandi í þessari netráðstefnu um innihaldsríka menntun; ráðstefnu þar sem vel var gætt að hverju smáatriði sem þó gera heildina og upplifunina af henni einstaka. Að setja ráðstefnu eða aðra viðburði um menntun á netið og að takast að halda í bjartsýni, jákvæðni og glaðværa samveru er afrek út af fyrir sig. Til að geta það þarf bæði tæknilega færni og ekki síst meðvitaða og skýra sýn á meginmarkmið skólastarfs; framfarir og velferð.

UtísOnline er viðbót við Utís-viðburðina sem hafa verið haldnir i nokkur ár. Þar hafa komið saman rétt rúmlega hundrað kennarar og aðrir sem starfa að menntamálum til að hlusta, prófa, ræða og leika sér með hugmyndir og tæki sem nýtast í skólastarfi sem vill kenna sig við fjölbreytta menntun til framtíðar. Þar hefur samvera, samtal og samstarf byggt upp samfélag fagfólks með brennandi áhuga á eigin starfsþróun svo þau geti bætt námsumhverfi nemenda sinna og annarra. Þannig hefur nánast orðið til áþreifanlegt breytingaafl sem hefur hríslast um skólasamfélag þátttakenda. Alltaf hef ég farið heim af Utís-viðburðum full bjartsýni og löngunar til að halda áfram við að leggja mitt af mörkum svo skólastarf geti þróast nemendum til heilla. Þannig veit ég að er um marga ef ekki flesta sem hafa sótt Utís-viðburðina á Sauðárkróki.

Af ummælum þátttakenda UtísOnline á samfélagsmiðlum að dæma tókst að halda í þessi element Utís. Ég fæ ekki betur séð en að þeir sem hafa tjáð sig geti ekki beðið eftir því að hagnýta lærdóm helgarinnar með nemendum sínum og samstarfsfélögum. Takist það hefur virði fagauður kennarastéttarinnar aukist svo um munar.

Innihaldsrík og fjölbreytt menntun til framtíðar sem eflir hæfni nemenda til að vera skapandi, forvitnir og umhyggjusamir samborgarar ætti að vera markmið hvers samfélags fyrir skólakerfi sitt. Á UtísOnline tókst að mínu mati með verkfærum netsins og tækninnar ásamt þekkingu á tilgangi hvoru tveggja að koma þeim skilaboðum vel til þátttakenda.

Á námstefnu Skólastjórafélags Íslands árið 2016 um menntun til framtíðar brýndi Jón Torfi Jónasson prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands það fyrir námstefnugestum að því meiri sem tæknin verður því meira þarf að huga að mennskunni. Án hennar verður tæknin og notkun hennar vélræn, tilgangs- og innihaldslítil.

Á UtísOnline skein í gegn áhugi skipuleggjenda, fyrirlesara og þátttakenda á að skapa námsumhverfi sem einkennist af umhyggju fyrir velferð og framförum nemenda.

Grein í Kjarnanum – Ég hef séð það á You Tube

Í gær birti Kjarninn grein sem ég skrifaði á páskadagsmorgunn. Í greininni velti ég fyrir mér hvað skólakerfið muni geta lært af aðstæðunum sem Covid19 þvingaði okkur í.

Ef þú smellir á hnappinn hérna fyrir neðan þá kemstu beint inn á greinina á Kjarnanum.

Þegar rútínan rofnar

Í dag tók ég ásamt Jakobi Frímanni Þorsteinssyni þátt fræðslufundi á vegum Heimilis og skóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Fundurinn var sá fjórði í röðinni fyrir páska. Eftir páska verða fleiri fræðslufundir. Allir fundirnir hafa verið teknir upp og hægt er að nálgast upptökurnar á heimasíðu fræðslunnar Heimilin og háskólinn.

Í dag fjölluðum við Jakob um nám og frístundastarf ásamt því að tala um hvað hægt væri að gera um páskana með fjölskyldunni þegar ferðast á innandyra. Dóttir Jakobs, Dísa Jakbos kom með heilræði og hugmyndir fyrir foreldra um hvað væri hægt að gera með ungmennunum í fjölskyldunni. Hérna er glærurnar hans Jakobs og hérna er hægt að smella til að komast inn á vefinn Innihaldsríkt fjölskyldulíf á tímum samkomubanns og sóttkvíar sem hann og fleiri foreldrar í Laugarneshverfinu hafa tekið saman. Á fræðslufundinum var ennig rætt um það hvernig ný rútína gæti litið út þegar sú gamla skyndilega rofnar.

Funda- og fræðsluaðstaða dagsins.

Í lok fræðslufundarins brugðum við okkur út í garð. Heima hjá Jakobi beið fjölskyldan úti í garði og þar var búið að kveikja eld, hnoða í snúbrauð og byrjað að poppa við opinn eld. Ég kom mér fyrir á pallinum í skógarjaðrinum sem er upp við garðinn í Hjallatröð 1 og fékk mér heitt súkkulaði með þeyttum rjóma og eplabrauð.

Í fræðslunni kom fram að nám getur farið fram alls staðar; heimurinn er eiginlega skólastofan. Það er okkar að nýta umhverfið til að leika okkur, vaxa og þroskast; jafnt úti sem inni. Einnig komum við inná að það er heilmikil lífsleikni fólgin í því að laga sig að nýjum aðstæðum. Aðstæðurnar undanfarnar vikur, um páskana og eftir að páskaleyfi lýkur kalla á að við þurfum að búa okkur til nýja rútínu af því að utanaðkomandi aðstæður hafa rofið gömlu rútínuna.

Þetta var skemmtilegt og fróðlegt. Sérstaklega fannst mér gaman að skoða og velta fyrir mér hvað og hvernig er hægt að nýta nærumhverfið til að vera saman, leika sér og læra saman og hvernig er hægt að flétta lífsleikni og lýðræði inn í þá pælingu. Glærurnar sem ég notaði eru svo hérna fyrir neðan. Samantekt og upptöku frá fræðslu dagsins er hægt að skoða með því að smella hérna. Á glærunum eru líka hlekkir á tvær síður þar sem hægt er að nálgast spilareglur spila með 52 spilum Það þarf nefnilega ekki alltaf að eiga stór eða dýr borðspil til að spila saman.

Ég hvet fólk til að fylgjast með þessu skemmtilega og fróðlega framtaki Heimilis og skóla og Menntavísindasviðs Háskóla Íslans. Það er meðal annars hægt á heimasíðu samstarfsins og heimasíðu Heimilis og skóla.