Fræðileg umfjöllun

Starfsþróun og fagmennska

Í febrúar í fyrra hélt Menntavísindasvið Háskóla Íslands ráðstefnuna Starfsþróun kennara – forysta og ánægja í starfi. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Kennarasamband Íslands. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Kari Smith. Í máli hennar kom fram að almennt er viðurkennt að kennarastarfið sé ævilangt nám. Í áðurnefndum fyrirlestri skipti Smith (2018) starfsþróun kennara í þrjú tímabil (sjá mynd 1). Það fyrsta fer fram í formlegu námi kennara þar sem þeir afla sér réttinda til að starfa sem kennarar. Á öðru tímabilinu eru kennarar að fóta sig í umhverfinu og finna starfskenningu sína. Á því þriðja hafa þeir fundið öryggi í starfinu og þróa eigin starfshæfni. Kari áréttaði að til þess að starfsþróun gagnaðist kennurum þyrfti hún að taka mið af því á hvaða tímabili hver og einn þeirra er staddur í starfsferli sínum.

Mynd 1: Þróun í starfi (Smith, 2018).

Ljóst er að starfsþróun einstaklinga og þróun skólastarfs sprettur vart fram að sjálfu sér. Fullan og Hargreaves (2016, bls. 3–6) segja starfsþróun (e. professional learning development) vera setta saman annars vegar af faglegum lærdómi (e. professional learning) og hins vegar af starfsþroska (e. professional development). Sjá mynd 2.

Mynd 2: Myndræn framsetning Fullan og Hargreaves (2016, bls. 3) á starfsþróun.

Fullan og Hargreaves (2016) halda því fram að til þess að hægt sé að tala um starfsþróun þurfi bæði að fara fram faglegur lærdómur og starfsþroski að aukast. Öðruvísi breytast ekki kennsluhættir né verði nýsköpun í skólastarfi. Þeir nefna sem dæmi að það sé hægt að taka þátt í innleiðingu þróunarverkefnis og læra tæknileg og kennslufræðileg atriði án þess að þroskast við það faglega eða að innleiða nýlega lærð atriði í daglegu starfi. Það er líka hægt að taka þátt í umræðum, námskeiðum og ráðstefnum og þroska innsæi sitt og skilning á tilteknum vanda eða vöntun án þess að læra og innleiða tæknilega hvernig eigi að bregðast við vandanum eða vöntuninni. Samkvæmt þessu er það aðeins þegar kennarar bæta við faglegan lærdóm og starfsþroska og til viðbótar þegar þeim tekst að bæta starfshætti sína og árangur nemenda sem hægt sé að tala um starfsþróun.

Í skólamenningu sem hvetur til og fóstrar samstarf um þróun starfshátta verður til það sem Fullan og Hargreaves (2016, bls. 6) kalla samstarfsmenningu fagmanna (e. culture of collaborative professionalism).

Í slíkri samstarfsmenningu hefur orðið til samkomulag um að starfsmenn, hvaða stöðum sem þeir gegna, styðja og hvetja hvern annan til að vera sífellt að bæta sig í starfi og þannig að auka gæði starfsins í heild. Hargreaves og Fullan (2012) ræða í þessu sambandi um það hvernig starfsmenn bæði ýta og toga (e. push and pull) hvern annan, bæði hver og einn og hópurinn sem heild, í átt að bættu starfi. Það gera starfsmennirnir með því til dæmis að rýna í eigið starf og annarra og að vera viljugir til deila eigin þekkingu og reynslu. Það er mat Hargreaves og Fullan að þannig nýtist mannauður skólans betur en ella.

Trausti Þorsteinsson (Guðmundur Heiðar Frímannsson, Rósa Eggertsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 2013) hefur fjallað um fagmennsku kennara. Hann nefnir fjögur tímaskeið eða snið fagmennskunnar og vitnar þar til Andy Hargreaves. Þeir félagar segja að tímaskeiðin eða sviðin séu ekki þannig að þegar eitt þeirra komi þá kveðji hin. Þau eru öll til staðar í skólum með einum eða öðrum hætti. Segja má að þrjú þeirra séu nú þegar í skólastarfi en hið fjórða sé í þróun í skólum. Sniðin eru: ósjálfstæð fagmennska, sjálfstæð fagmennska, samvirk fagmennska og síðan framtíðarfagmennska.

Trausti (Guðmundur Heiðar Frímannsson o.fl., 2013) bendir á að það sé eftirsóknarvert fyrir skólastarf að vinna að samvirkri fagmennsku vegna þess að hún byggir á lýðræðislegum gildum þar sem kennarar og skólastjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á skólastarfinu og taka fúsir forystu og verkefnin sem þarf að leysa svo skólastarfið nái markmiðum sínum. Í samvirkri fagmennsku er starfsþróun sjálfsagður þáttur í skólastarfinu og er þess vegna samofin daglegu starfi. Þar er samvinna allra sem að skólastarfinu koma lykillinn að farsælu starfi.

Í skólastarfi með samvirka fagmennsku er unnið að framtíðarfagmennsku þar sem starfsmenn hafa skilning á því að skólastarf í fjölbreyttu samfélagi nútímans nái vart árangri nema í nánu samstarfi við umhverfi sitt, nemendur, foreldra, nærsamfélag og hópa af ýmsu tagi. Framtíðarforystan kallar líka á að kennarar hlusti eftir nýjustu rannsóknum á sviði menntamála og tileinki sér nýjungar sem skipta menntun nemenda þeirra máli.

Segja má að samvirka fagmennskan og framtíðarfagmennskan tilheyri því sem Sigurður Kristinsson (2013) nefnir hina nýju fagmennsku. Í henni er gert ráð fyrir að í starfi fagmanna sé réttur skjólstæðinga þeirra til sjálfræðis og upplýsinga virtur. Það er m.a. gert með gagnsæi þar sem fagmennirnir geri grein fyrir starfsemi sinni á opinberan hátt. Í hinni nýju fagmennsku er líka lögð áhersla á starfsþróun, hagnýtar rannsóknir og miðlun þekkingar. Trausti Þorsteinsson (Guðmundur Heiðar Frímannsson o.fl., 2013) tekur undir með Sigurði þegar hann áréttar að með virkri þátttöku í eigin starfsþróun og annarra ásamt þátttöku í rannsóknum og mótun umræðu um skólastarf efli kennarastéttin sjálfsvirðingu sína og einnig virðingu annarra fyrir fagmennsku stéttarinnar. Sigurður Kristinsson (2013, bls. 250) bætir við: „Með því að rækta meðvitaða sýn á starf sitt og samfélagslegt hlutverk styrkja kennarar sig […] sem fagstétt og sýna fram á að þeir verðskulda traust samfélagsins.“

Í bók sinni Professional Capital. Transforming Teaching in Every School gera Hargreaves og Fullan (2012, bls. 22–23) nálgunina að kennslu kenndu eins og fagmaður (e. teach like a pro!) að umræðuefni. Þeir segja að þeir kennarar sem vilja kenna eins og fagmenn þurfi að skuldbinda sig til:

 1. Að vera stöðugt að meta, ígrunda og þróa eigin kennsluhætti. Það er mat þeirra að forsenda þess að skólastarf samtímans nýtist nemendum til framtíðar sé að skólafólk séu framúrskarandi fagmenn fyrir alla nemendur.
 2. Að meta, ígrunda og þróa eigin kennsluhætti; ekki bara hver fyrir sig heldur og sér í lagi, í samstarfi við aðra innan skólans. Með þeim hætti deila kennarar reynslu sinni og þekkingu hver með öðrum og starfa líka í samráði við nemendur og foreldra. Hargreaves og Fullan árétta að menntun er ekki einkamál einstakra kennara heldur er hún sameiginleg ábyrgð þeirra sem að henni koma í sem víðustum skilningi.
 3. Að skynja sig sem hluta af fagstétt og vera tilbúnir til að taka þátt í þróun skólastarfs, hvar sem er. Í samstarfi skóla og skólahverfa breiðist reynsla og fagþekking kennara út og kemur fleiri nemendum og kennurum til góða en þeim sem kennararnir starfa með í heimaskóla sínum.  

Hargreaves og Fullan (2012, bls. 154–186) telja líka upp hagnýt ráð sem kennarar og stjórnendur geta farið eftir vilji þeir styrkja eigið fagafl og annarra kennara og skóla. Eftirfarandi eru ráðleggingar þeirra til kennara:

 1. Stefndu að því að kenna eins og sannur fagmaður.
 2. Byrjaðu á sjálfum þér með því að ígrunda eigið starf.
 3. Veldu af kostgæfni það sem hefur áhrif á kennslu þína og nám nemenda þinna.
 4. Styrktu eigin fagmennsku og annarra með því að taka þátt í samfélagi fagmanna.
 5. Finndu leiðir til að ýta og toga samstarfsmenn þína í átt að bættu skólastarfi.
 6. Styrktu eigin getu til að velja tilhögun kennslu þinnar með því að styðjast við gögn í ígrundun á eigin starfi.
 7. Sýndu stjórnendum og öðrum leiðtogum stuðning í verki svo þeir geti sem best sinnt starfi sínu sem kennslufræðilegir leiðtogar.
 8. Sýndu gott fordæmi með því að byrja á eigin starfsþróun og að segja öðrum frá starfi þínu.
 9. Komdu sjálfum þér á óvart með því að fara nýjar leiðir í starfinu.
 10. Hafðu hag nemenda þinna og framfarir þeirra að leiðarljósi í eigin starfsþróun.

Í ráðleggingum Hargreaves og Fullan (2012) til skólastjórnenda segja þeir að það sama gildi um þá eins og kennara en til viðbótar komi:

 1. Sýndu áræðni í að byggja upp fagauð skólasamfélagsins.
 2. Leggðu þig fram um að kynnast kennurum skólans og menningu stofnunarinnar.
 3. Tryggðu stöðugleika og sjálfbærni í forystu meðal kennaranna.
 4. Forðastu að stofna til þvingaðrar samvinnu sem er án tilgangs.
 5. Myndaðu gagnkvæm fagleg og uppbyggileg tengsl við aðra skóla.
 6. Nýttu gögn til að fá upplýsingar um skólastarfið án þess að öflun þeirra og niðurstöður stjórni framvindu skólastarfsins.

Með þessu móti telja Hargreaves og Fullan að starfsþróun hvers kennara og skólaþróun hvers skóla geti orðið að umbreytandi fagafli í framþróun menntakerfis. Þannig muni skólastarf geta boðið nemendum merkingarbært nám sem nýtist þeim í nútíð og til framtíðar.