Rafræn starfsþróun

Viðurkennt er að skólastarf í takti við samfélagsþróun nútímans og framtíðarinnar verður vart að veruleika nema með virkri þátttöku kennara og stjórnenda í eigin starfsþróun. Með tilkomu tækninnar og framboðs á kennslu á netinu hefur leiðum kennara og skólastjórnenda til starfsþróunar fjölgað. Steve Wheeler (2015, bls. 141) fjallar um hnattrænu kennarana (e. global educators) og segir „að margmiðlunin hafi fært heiminn inn í kennslustofurnar en að samfélagsmiðlarnir muni fara með kennslustofurnar út í heim“. Þessi fullyrðing hans á vel við þegar rafræn starfsþróun er til umfjöllunar vegna þess að samfélagsmiðlar hafa opnað kennurum og skólastjórnendum nýjar leiðir til að deila efni sínu og vangaveltum ásamt því að leita ráða og gefa þau.

Þessi vefur er verkefni á námskeiðinu Þróun náms og kennslu og upplýsingatækni við Háskólann á Akureyri vorið 2019. Í verkefninu er leitað svara við rannsóknarspurningunni:

Hvernig og af hverju nýta kennarar og stjórnendur blogg og samfélagsmiðla til þróunar og nýsköpunar í starfi?

Tilgangur þessa verkefnis er að draga upp mynd af því hvernig kennarar og stjórnendur nýta blogg og samfélagsmiðla til starfsþróunar ásamt því að skoða hvaða þættir hvetja þá til að nýta þessar leiðir til að efla sig í starfi. Það er mat mitt að með því að safna þessum upplýsingum og að birta þær gæti það orðið fleiri kennurum og stjórnendum hvatning til að verða virkir þátttakendur í notkun þessara verkfæra til starfsþróunar.

Til að leita eftir svörum við spurningunni skoðaði ég lesefni námskeiðsins sem snerti efni rannsóknarspurningarinnar ásamt því að leita eftir efni sem fjallaði viðfangsefni verkefnisins. Til að fá gögn um menntablogg tók ég viðtal við kennara sem bloggar um vinnu sína og fékk þrjá menntabloggara til að segja frá ástæðum þess að þeir blogga. Þeir skiluðu svörum sínum á myndböndum og hljóðskrá. Því til viðbótar leitaði ég til kennara og stjórnenda sem nýta samfélagsmiðla til að miðla vinnu sinnu ásamt því að leita eftir frásögnum frá kennurum sem nýta sér samfélagsmiðla til starfsþróunar. Þeir skiluðu svörum sínum annað hvort sem hljóðskrám eða myndböndum.

Allir þátttakendur verkefnisins voru valdir út frá virkni þeirra í notkun samfélagsmiðla og menntabloggs við miðlun á eigin þekkingu og reynslu í starfi.  Þátttakendur eru því markmiðabundið úrtak þar sem ætla má að þátttakendur séu handgengnir viðfangsefninu og hafi reynslu til að segja frá því (Katrín Blöndal og Sigríður Halldórsdóttir, 2013; Þórólfur Þórlindsson og Þorlákur Karlsson, 2013). Í viðtalinu við menntabloggarann var stuðst við viðtalsramma (fylgiskjal 1). Viðtalið telst vera hálf opið viðtal (e. semi-structured) og gefur viðfangsefnið tilefni til að ætla að um frásagnarviðtal (e. narrative interview) sé að ræða (Flick 2006; Helga Jónsdóttir 2013).

Verkefnið er unnið sem vefsíða á svæði menntabloggsins Bara byrja. Í þessum hluta er gerð grein fyrir fræðilegum grunni verkefnisins. Á hverri síðu vefsins er síðan fjallað um einstaka hluta þess. Í fyrsta hlutanum er menntabloggurunum gerð skil og síðan notkun samfélagsmiðla til að miðla þekkingu og reynslu í starfi. Að lokum er kafli þar sem reynsa þátttakenda er spegluð í fræðilega hluta verkefnisins.