Ég fylgist með bloggi sem heitir Connected Principals og á dögunum var þar verið að fjalla um hvernig skólastjórnendur gætu miðlað reynslu sinni og þekkingu með því að blogga um starf sitt. Þar rak ég augun í setninguna:
You think you have nothing to say but you have a story to tell!
Þessi setning hefur minnt á sig að undanförnu þar sem ég hef fylgst með stjórnendum reyna sig á því að tísta saman á ESHA ráðstefnunni og einnig á meðan ég hlustaði á fyrirlesara á málstofum ráðstefnunnar hvetja þátttakendur til að segja frá öllu því góða sem um er að vera í skólastarfi og hvernig kennarar og skólastjórnendur læra daglega af starfi sínu. Þannig fræðast aðrir um starfið og þeir sem skrá og miðla, ígrunda starf sitt með því að koma því í orð og deila ígrundun sinni. Og til viðbótar megi segja að starfsþróun stéttarinnar breiðist hraðar út en hún hefur nokkurn tímann haft möguleika á að gera vegna þess að einnig er hægt að miðla lærdómi sínum í starfi með því að segja frá honum í sérstökum hópum á Facebook eða tísta um einstök hugðarefni í starfinu og fylgjast líka með öðrum á Twitter í svipuðum pælingum.