Tvær snjallar

Nýlega birtu tvær snjallar konur, Fjóla Þorvaldsdóttir og Helena Sigurðardóttir, meistaraverkefni sín á vefnum. Verkefnin eiga það sameiginlegt að fjalla um upplýsingatækni í skólastarfi.

fjola

Fjóla Þorvaldsdóttir fiktari, leikskólasérkennari og höfundur Fikts.

Fjóla Þorvaldsdóttir leikskólasérkennari í leikskólanum Álfaheiði í Kópavogi birti námsvefninn sinn Fikt. Hann er vefur um upplýsingatækni fyrir kennara í leikskóla og á yngsta stigi grunnskóla. Vefnum fylgir greinargerð sem er fræðilegi hluti meistaraverkefnis hennar. Í kynningu á vefnum segir Fjóla að megintilgangur hans sé að stuðla að aukinni notkun á upplýsingatækni í skólastarfi, koma fræðslu og upplýsingum um möguleika því tengdu á framfæri með skipulegu móti og opna augu kennara fyrir því að vinna má með upplýsingatækni og snjalltæki á skapandi hátt.

Vefurinn Fikt og innihald hans eru fagmannlega unnin. Innihaldið er vandað og vefurinn er skipulega settur upp svo auðvelt er að finna leiðbeiningar og umfjöllanir um t.d. smáforrit, vefsvæði og annað sem þjónar tilgangi vefsins. Fjóla hefur langa reynslu af notkun upplýsingatækni í leikskólastarfi og er óþreytandi að miðla af henni til annarra kennara og áhugasamra. Það var aðdáunarvert að hlusta á hana segja frá starfi sínu með nemendum í Menntavarpi Ingva Hrannars í vetur. Ég hvet alla þá sem telja sig ekki geta byrjað að prófa sig áfram með upplýsingatækni í skólastarfi til að hlusta á það viðtal. Það er undravert hvað Fjóla getur gert með ekki fleiri tækjum en hún hefur úr að moða. Í viðtalinu kom skýrt fram að það eru ekki tækin sem breyta kennsluháttunum heldur fagmennska, frumkvæði og sköpun kennarans sem skiptir máli.

helena

Helena Sigurðardóttir grúskari,  kennsluráðgjafi við Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri og höfundur Snjallvefjunnar.

Helena Sigurðardóttir, grunnskólakennari og kennsluráðgjafi við kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri birti á dögunum vefinn Snjallvefjan. Snjallvefjan er sjálfshjálparvefsíða sem á að auðvelda einstaklingum sem glíma við námsörðugleika, kennurum þeirra og foreldrum að læra á ýmis forrit sem geta veitt stuðning við nám og daglegt líf. Óhætt er að segja að Helena sé trú málstaðnum í efnistökum og framsetningu á efni Snjallvefjunnar því að á henni eru myndbönd sem kenna á forritin sem hún fjallar um og einnig eru á Snjallvefjunni hljóðskrár með textum hennar. Snjallvefjan er vel hönuð, efni hennar er vel aðgengilegt og hún er í alla staði kærkomið þarfaþing. Í síðasta Menntavarpi Ingva Hrannars er viðtal við Helenu um m.a. Snjallvefjuna, kveikju hennar og tilurð.

Það er rík ástæða til þess að óska Fjólu, Helenu og eiginlega líka skólafólki öllu til hamingju með þessa tvo vefi sem vonandi eiga eftir að auðvelda kennurum og öðrum áhugasömum að innleiða og festa í sessi notkun tækninnar í skólastarfi.

 

Alltaf gagn og gaman

UTÍS2017 Mentimeter

Frá kynningu á Mentimeter á hraðstefnumóti á UTís2017

Nú er þriðja UTÍS atburðinum lokið,  UTÍs2017, og eins og tvö fyrri skipti var lítill vandi að hafa bæði gagn og gaman af því sem var á dagskránni. Það var líka gaman að hitta kunningja og að sjá ný andlit í hópnum. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá að það fjölgaði í hópi skólastjórnenda sem sækja UTís.

Dagskráin var fjölbreytt; vinnustofur, fyrirlestur, kynningar, örverkjur, menntabúðir og hraðstefnumót að ógleymdum samverustundunum með nýjum og gömlum vinum. Segja má að á UTís kraumi grasrótin og þar fari fram starfsþróun í hverju skoti allan sólarhringinn á meðan á viðburðinum stendur, því þarna kemur saman fólk sem brennur fyrir viðfangsefninu og hefur mörgu að miðla. Margir af þeim sem sækja UTís eru einyrkjar í starfi sínu og draga vagninn á eigin vinnustað þess vegna er UTís því næring bæði fyrir þá persónulega og einnig fyrir skólana sem þeir starfa við, vegna þess að þeir koma til baka faglega endurnærðir og hafa stækkað tengslanet sitt svo um munar.

Halda áfram að lesa

Það merkilegasta

Það varð eins og mig grunaði. Í síðustu skráningu gleymdi ég að minnast á það sem sennilega er það merkilegasta af því sem kom fram í fyrirlestrum Zachary Walker í síðustu viku. Þegar ég fletti í gegnum myndirnar af glærum hans með samstarfsfólki mínu voru þar nokkrar glærur þar sem hann bendir á og ræðir hvað hafi breyst með tilkomu tækninnar og samfélagsmiðlanna og hvaða áhrif þessar breytingar hafi á skólastarf. Það er auðvitað það merkilegasta.

Í fyrsta lagi gefa nýir miðlar og  ný tækni okkur fleiri möguleika en áður til skráningar og miðlunar. Í öðru lagi auðvelda þau aðgengi að meiri upplýsingum en nokkurn tímann áður. Hvoru tveggja hafa áhrif á skólastarf og þarf að taka tillit til við skipulag náms og kennslu.

Halda áfram að lesa

My takeaways

Eins og víða hefur komið fram hélt Dr. Zachary Walker erindi og vinnustofur í Reykjavík í síðustu viku. Ég var svo lánsöm að hafa tækifæri til að taka þátt í hvoru tveggja. Fyrirlestrar hans voru tveir og einnig voru tvær vinnustofur. Of yfirgripsmikið yrði að segja frá öllu því nýja sem hann sýndi og kenndi þessa daga. Í þessum pistli skrái ég það sem mér finnst standa uppúr nú þegar ég hef náð að melta áhrifin í tvo daga.

Byrja ekki bíða!

Vertu fyrirmynd

Zachary sagði að ef kennarar og skólastjórnendur vildu einhverjar breytingar þyrftu þeir ekki bíða eftir því að annað í umhverfinu breyttist til að hefjast handa við að breyta umgjörð skólastarfs eða kennsluháttum. Hver og einn stjórnandi eða kennari eiga að geta byrjað hjá sjálfum sér vegna þess að skólastjórnendur og kennarar hafa meira vald til breytinga en þeir halda eða vilja kannast við.

Sjálfur sýndi Zachary hvernig hann hefur innleitt hugmyndir sínar með því að byggja fyrirlestrana og vinnustofurnar upp eins og kennslustundir sínar í skólanum.

Halda áfram að lesa

Leyfir þú snilldina?

Á næsta fimmtudag, 5. október er Alþjóðadagur kennara. Þá standa Kennarasamband Íslands og Skólameistarafélag Íslands fyrir skólamálaþingi. Aðalfyrirlesari skólamálaþingsins er dr. Zachary Walker. Hann var einnig einn af aðalfyrirlesurum á ráðstefnu ESHA í Maastricht fyrir ári síðan. Þá talaði hann út frá 12 spurningum sem ég tel að skólafólki sé hollt að velta fyrir sér:

mass-flourishing

Halda áfram að lesa

Gagnvirkni í glærusýningum

Ég hef áður skrifað um mögluleika á gagnvirkni í kynningum, m.a. með Nearpod og með því að virkja spjallsvæðið á Google Sildes. Um daginn rakst ég á umfjöllun um viðbót við Google Slides sem heitir Poll Everywhere. Það borgar sig nefnilega stundum að þvælast um á Twitter og fylgjast með myllumerkjum sem eiga hugann hverju sinni. Þar sem ég hafði nýlega virkjað spjallsvæði í Google Slides sýningu fannst mér þetta áhugavert og hlóð viðbótinni niður og stofnaði mér ókeypis aðgang á vefsvæði Poll Everywhere.  Um leið og það hefur verið gert bætist flipi sem heitir Poll Everywhre við skipanaröðina efst þegar Google Slides er opnað. Til þess að setja könnun, spurningu eða annað sem viðbótin býður uppá þarf ekki annað en að smella á þennan flipa og velja hvað á að setja inn í glærusýninguna.

Svo virðist sem hægt sé að gera sér safn af spurningum og könnunum inni á vefsvæðinu hjá Poll Everywhere og geyma þær þar og sækja þær og setja inn í glærusýningar þegar hentar. Einnig er hægt að búa til nýjar spurningar sem henta hverju tilefni fyrir sig og þá að gera það beint úr Google Slides og setja inn í sýninguna.

Halda áfram að lesa