Verkfæri í netkennslu

Í janúar 2020 hóf ég störf við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ég mætti í eina staðlotu í janúar, fór heim í Hjallatröð og hef að mestu síðan haldið kennslunni úti þaðan. Netkennsla er áskorun og ég hef haft ánægju af því að finna leiðir til að glæða hana lífi þannig að nemendur geti verið virkir, skapandi og unnið saman.

Margt bendir til þess að kennslan á komandi vikum þurfi í einhverju mæli að fara fram á netinu. Þá fannst mér gott að skoða safn vefverkfæra sem hefur orðið til hjá mér síðan í janúar í fyrra. Þar hef ég sett inn slóðir og einhverjar leiðbeiningar um verkfæri sem hægt er að nýta til að búa til „líflegar“ kynningar og halda utan um umræður og efni frá nemendum.

Ég hef deilt þessari Padlettu með nemendum þegar þau hafa sjálf þurft að vera með kynningar á netinu. Það er tilbreyting fyrir þau að hafa aðgang að einhverju fleiru en hefðbundum glærusýningum. Einnig hef ég sjálf nýtt nokkuð af verkfærunum sem á henni eru.

Í netkennslu sem annarri kennslu eru það ekki endilega rafrænu verkfærin sem skipta öllu máli í skipulagi kennslunnur heldur hvernig verkfærin sem nýtt eru styðja við innihaldsríkt og merkingarbært nám.

Ég tek gjarnan við ábendingum um fleiri verkfæri sem gætu bæði nýst kennurum og nemendum. Sendu mér endilega ábendingu með því að smella hérna.

Fjölbreytni og fjöldi tækja skipta máli

Annar þáttur Bara byrja hlaðvarps er viðtal við Hans Rúnar Snorrason kennara í upplýsingatækni við Hrafnagilsskóla. Í viðtalinu ræddum við um breytingarnar sem hafa orðið í tækni og tækjakosti skólanna frá því að Hans Rúnar hóf kennslu. Við ræddum einnig um hvað það er sem heldur Hans Rúnari við efnið í starfsþróun. Hans Rúnar fylgist vel með þróuninni, bæði í tækninni og hvernig hún nýtist í kennslunni svo það er vel þess virði að gefa sér tíma til að hlusta á hann segja frá starfi sínu og ígrundaðrar afstöðu til notkunar á tækninni í skólanum.

Hans Rúnar miðlar starfsþróun sinni á blogginu sínu http://hansrunar.krummi.is/ og líka á Twitter @hansrunar

Hlusta á Spotify eða Apple Podcasts.

Góða skemmtun.

Við keyrum yfir Ísland – samþætting námsgreina

Íslandskortið fallega

Á dögunum rakst ég á mynd á Facebook af Íslandskorti. Kortið vakti athygli mína vegna þess að það þakti heilan vegg. Ég vissi líka að þarna væri eitthvað áhugavert á ferðinni af því að myndinni var deilt af kennara sem ég veit að er hugmyndaríkur í verkefnavali fyrir nemendur sína. Ég hafði samband við þennan kennara. Hún ásamt samstarfskonu sinni féllust á að koma í fyrsta viðtalið á Bara byrja hlaðvarpi og að leyfa mér líka að tala við nemendur þeirra um verkefnið. Þessar samstarfskonur eru Berglind Hauksdóttir og Anna Rósa Friðriksdóttir. Þær starfa saman sem umsjónarkennarar nemenda í 8.-10. bekk Þelamerkurskóla og af starfsreynslu minni með þeim veit ég að þær hafa nokkuð oft farið ótroðnar slóðir og út fyrir eigin þægindaramma í verkefnavinnu nemenda. Þetta verkefni er sannarlega engin undantekning frá því.

Í þessu fyrsta þætti Bara byrja vefvarps lýsa Berglind og Anna Rósa verkefninu og nemendur segja frá reynslu sinni. Í verkefninu eru námsgreinar samþættar og nemendur nota margs konar aðferðir við vinnslu þess og afraksturinn er í myndböndum, kynningum, texta og glærum. Það er eftirtektarvert hve fjölbreytt verkefnin eru og einnig verkfærin sem nemendur nýttu til að vinna þau. Notast var við mörg verkfæra Google, Imovie og smáforritið HP-Reveal.

Í þættinum benda Berglind og Anna Rósa á skjöl með verkefnalýsingu og matskvörðum. Þær voru svo vinsamlegar að deila þeim með hlustendum.

Hérna er verkefnalýsingin og hérna eru matskvarðarnir.

Hlusta á Spotify eða Apple Podcasts.