Auglýsingasnepill verður vefsvæði

maelingar

Fyrir nokkru tók ég þátt í því að undirbúa ráðstefnuna Vegur til farsældar? Mat og mælingar á árangri skólastarfs. Þar sem nokkrar stofnanir komu að skipulaginu þótti vænlegt að finna leið til að búa til eina auglýsingu sem allar stofnanirnar gætu dreift á miðlum sínum og að án lítillar fyrirhafnar væri hægt að uppfæra auglýsinguna jafnóðum og upplýsingar um ráðstefnuna bærust undirbúningshópnum.

Þar sem ég hef kynnst Smore nokkuð vel til að búa til rafrænar auglýsingar stakk ég uppá því að hópurinn nýtti sér það kerfi. Það er skemmst frá því að segja að eftir því sem á undirbúninginn leið þróaðist litli rafræni snepillinn sem átti að vera auglýsing, yfir í að verða vefsvæði ráðstefnunnar með því að nýta með honum það sem Google Drive, Twitter og bein útsending hafa uppá að bjóða:

 • Upplýsingaskjöl ráðstefnunnar voru vistuð á Google Drive og hlekkjuð inn á auglýsinguna.
 • Skráning ráðstefnunnar fór fram í gegnum Google Forms og hlekkjað inn á hnapp á auglýsingunni.
 • Spurningar til umræðna í hópunum voru settar upp í Google Forms og hlekkjaðar inn á auglýsinguna. Skráningar hópanna voru svo gerðar öllum aðgengilegar að lokinni ráðstefnunni.
 • Búið var til myllumerki fyrir ráðstefnuna til að auðvelda fólki að tísta glósum sínum eða leggja fram spurningar til umræðu. Eftir ráðstefnuna var þeim safnað saman í eina „sögu„.
 • Ráðstefnunni var streymt í gegnum netið og upptakan síðan gerð aðgengileg á vefsvæði að henni lokinni.

Fyrir utan að þetta ferli staðfesti fyrir mér að rafræna umhverfið auðveldar samvinnu og styttir vegalengdir lærði ég:

 1. Að möguleikar rafræns umhverfis eru fleiri en augljóst er við fyrstu sýn.
 2. Að „ókeypis“ kerfi á netinu hafa líka fleiri möguleika en augljóst er við fyrstu skoðun.
 3. Að rafræna umhverfið gefur möguleika á að fleiri en þeir sem staddir eru á viðburðum eins og þessari ráðstefnu, séu þátttakendur á rauntíma.
 4. Að rafræna umhverfið víkkar út hugtakið ráðstefnugestir, bæði á meðan á ráðstefnunni stendur og líka eftir að henni lýkur.
 5. Að rafræna kerfið gefur fleiri tækifæri en áður til að koma umræðum og niðurstöðum til skila og getur auðgað hana og haldið umræðunni lengur lifandi en áður var mögulegt.

Þetta ferli staðfesti fyrir mér enn og aftur að rafræna umhverfinu eru litlar skorður settar, helst að þær séu mannlegar. Ennfremur sannfærðist ég enn betur um að í skólastarfi þarf að fjölga stundum og verkefnum þar sem kostir þessa umhverfis eru nýttir.

Hérna er svo litli snepillinn sem varð vefsvæði og hefur verið skoðaður meira en 1200 sinnum.

1 thought on “Auglýsingasnepill verður vefsvæði

 1. Bakvísun: Rafræn fréttabréf | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.