Taka upp, geyma og dreifa hljóðskrám

Ég hef áður skráð hvernig hægt er að taka upp hljóðskrár, vista þær og deila þeim. Í þeirri færslu er notast við símann eða Ipadinn og app til að taka upp. Hljóðskrárnar eru síðan vistaðar á Google Drive og dreift þaðan t.d. með QR kóðum.

Á menntabúðum á Ólafsfirði í fyrra var mér bent á vefsvæðið Vocaroo þar sem hægt er að taka upp, geyma og dreifa hljóðskrám. Kennarinn sem sýndi okkur þetta sagðist nota það  í tungumálakennslu þegar nemendur  væru að æfa samtöl. Kennarinn sagði að kosturinn væri að nemendur sendu henni slóð á hljóðupptökuna eða deildu henni með samnemendum t.d. í gegnum hóp á Facebook eða Google Classroom. Kennarar geta auðvitað líka notað Vocaroo til að senda nemendum eða öðrum munnleg fyrirmæli eða skilaboð.

Það sem þarf að hafa í huga er, að Vocaroo er ekki varanleg geymsla á hljóðupptökum. Á hjálparsíðu vefsvæðisins segir að það megi búast við því að upptakan sé horfin eftir nokkra mánuði. Ef á að geyma upptökuna er mælt með því að upptökunni sé hlaðið niður á tölvuna eða annað svæði til varanlegrar geymslu.

Ég prófaði Vocaroo í vikunni og það er mjög einfalt. Hérna fyrir neðan er myndband sem sýnir hversu einfalt það er í notkun.

Halda áfram að lesa

Elska enn QR kóða og líka Google

Á menntabúðum #Eymenntar í Brekkuskóla um daginn var Stella deildarstjóri í Brekkuskóla með menntabúð þar sem hún sýndi hvernig hún býr til hljóðskrár með textum úr könnunum og lesskilningi þannig að nemendur geti unnið sjálfstætt að þessum verkefnum. Hún sagðist vista skrárnar á Sound Cloud og dreifði hlekknum að skránum til nemenda með Qr-kóðum. Ég komst því miður ekki á menntabúðina hennar því ég var sjálf með eina á sama tíma svo ég veit ekki almennilega hvernig hún gerir þetta. En hugmyndin var komin á sinn stað í kollinum og ég vissi að hún kæmi einhvern tímann að góðum notum. Þannig eru nefnilega menntabúðir!

Um þessar mundir svara nemendur könnunum frá Rannsókn og greiningu. Nemendur 5. og 6. bekkjar svara 50 spurninga lista á 18 blaðsíðum. Nokkrir í okkar skóla ráða ekki fyllilega við að lesa svo mikinn texta á þeim tíma sem gefinn er til verksins. Þá mundi ég eftir hugmyndinni hennar Stellu. Þar sem ég hafði ekki hlustað á hana varð ég að finna mér leið til að koma þessari góðu hugmynd í framkvæmd.

Halda áfram að lesa