Taka upp, geyma og dreifa hljóðskrám

Ég hef áður skráð hvernig hægt er að taka upp hljóðskrár, vista þær og deila þeim. Í þeirri færslu er notast við símann eða Ipadinn og app til að taka upp. Hljóðskrárnar eru síðan vistaðar á Google Drive og dreift þaðan t.d. með QR kóðum.

Á menntabúðum á Ólafsfirði í fyrra var mér bent á vefsvæðið Vocaroo þar sem hægt er að taka upp, geyma og dreifa hljóðskrám. Kennarinn sem sýndi okkur þetta sagðist nota það  í tungumálakennslu þegar nemendur  væru að æfa samtöl. Kennarinn sagði að kosturinn væri að nemendur sendu henni slóð á hljóðupptökuna eða deildu henni með samnemendum t.d. í gegnum hóp á Facebook eða Google Classroom. Kennarar geta auðvitað líka notað Vocaroo til að senda nemendum eða öðrum munnleg fyrirmæli eða skilaboð.

Það sem þarf að hafa í huga er, að Vocaroo er ekki varanleg geymsla á hljóðupptökum. Á hjálparsíðu vefsvæðisins segir að það megi búast við því að upptakan sé horfin eftir nokkra mánuði. Ef á að geyma upptökuna er mælt með því að upptökunni sé hlaðið niður á tölvuna eða annað svæði til varanlegrar geymslu.

Ég prófaði Vocaroo í vikunni og það er mjög einfalt. Hérna fyrir neðan er myndband sem sýnir hversu einfalt það er í notkun.

Halda áfram að lesa