Elska enn QR kóða og líka Google

Á menntabúðum #Eymenntar í Brekkuskóla um daginn var Stella deildarstjóri í Brekkuskóla með menntabúð þar sem hún sýndi hvernig hún býr til hljóðskrár með textum úr könnunum og lesskilningi þannig að nemendur geti unnið sjálfstætt að þessum verkefnum. Hún sagðist vista skrárnar á Sound Cloud og dreifði hlekknum að skránum til nemenda með Qr-kóðum. Ég komst því miður ekki á menntabúðina hennar því ég var sjálf með eina á sama tíma svo ég veit ekki almennilega hvernig hún gerir þetta. En hugmyndin var komin á sinn stað í kollinum og ég vissi að hún kæmi einhvern tímann að góðum notum. Þannig eru nefnilega menntabúðir!

Um þessar mundir svara nemendur könnunum frá Rannsókn og greiningu. Nemendur 5. og 6. bekkjar svara 50 spurninga lista á 18 blaðsíðum. Nokkrir í okkar skóla ráða ekki fyllilega við að lesa svo mikinn texta á þeim tíma sem gefinn er til verksins. Þá mundi ég eftir hugmyndinni hennar Stellu. Þar sem ég hafði ekki hlustað á hana varð ég að finna mér leið til að koma þessari góðu hugmynd í framkvæmd.

audiomemoÉg hef ekki mikla reynslu af hljóðupptökum eða upplestri svo eina ferðina enn var það aðferðin „að fikra sig áfram“. Ég leitaði á netinu að smáforritum fyrir hljóðupptökur og rakst á smáforrit sem heitir AudioMemos og virtist vera frítt. Það er auðvelt að taka upp með því en ég fann fljótlega út að hljóðupptökum úr því er aðeins hægt að dreifa með tölvupósti. En ef ég keypti mér það fyrir 0.99$ þá gat ég dreift því á nokkra vegu, m.a. komið þeim fyrir á Google Drive.
Það er einfalt að læra á forritið, það segir sig nánast sjálft hvernig maður byrjar upptöku, hvernig hún er stöðvuð eða lokið og hvernig henni er svo dreift úr Ipadinum. Þegar ég hafði fundið út úr því þurfti ég bara að finna mér hljóðlátan stað og byrja upplesturinn. Ég las um það bil eina opnu í einu og bjó því til hljóðskrá úr hverri opnu. Úr þessari 18 blaðsíðna könnun urðu átta hljóðskrár. Þær setti ég allar í eina möppu á Google Drive og nefndi þannig að þær raðast þar í rétta röð svo það er auðvelt fyrir nemendur að finna út hvaða blaðsíður hver þeirra inniheldur.

img_2076

Í hljóðveri. Að þessu sinni var kennarastofan hljóðlátasta rýmið.

Til að auðvelda nemendum að nálgast möppuna bjó ég til Qr kóða með slóðinni inn á möppuna. Og þar sem ég hafði nýlega rekist á það á Twitter hvernig auðvelt er að gera Qr kóða fyrir Google slóðir um leið og maður styttir þær á Google URL Shortener notaði ég auðvitað þá aðferð.

Þegar því var lokið prentaði ég út Qr kóðana og prófaði hvort allt virkaði, sem það gerði. Þá var ekkert annað eftir að en fjölfalda Qr kóðana fyrir nemendur og dreifa þeim með könnunum, heyrnatólum og Ipödum. Þannig geta nemendur verið sjálfbjarga þegar þeir svara könnuninni, þökk sé Ipödum, Qr kóðum, Google og upptökuappi sem kostar 100 kall. Svo er bara eftir að sjá hvernig óæfði upplesturinn virkar.

chart

Upplesturinn óæfði sem vonandi dugar nemendum á morgun

2 thoughts on “Elska enn QR kóða og líka Google

  1. Bakvísun: Taka upp, geyma og dreifa hljóðskrám | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.