Púslaðferðin fyrir stóran hóp og í netnámi

Mynd fengin af Unsplash Photos. Höfundur er Markus Spiske.

Á milli hátíðanna sátum við hjón yfir kennsluskipulagi næstu annar. Bæði vorum við að skoða skipulag námskeiða sem áður höfðu verið kennd en ekki með þeim fjölda nemenda sem skráður er á komandi önn. Því til viðbótar er ljóst að námið mun að mestum hluta fara fram á netinu. Þegar þannig háttar er óhjákvæmilegt að þurfa að fara vel yfir skipulag námskeiðanna og kanna hvernig það hentar þessum aðstæðum, m.a. verkefnin sem nemendum er ætlað að vinna. Í báðum námskeiðunum sem við vorum að skoða hafði nemendum áður verið sett fyrir að halda lestrardagbækur sem kennari las yfir og gaf einkunnir og umsagnir fyrir. Okkur þótti báðum ástæða til að endurskoða það fyrirkomulag; bæði vegna fjölda nemenda og einnig vegna þess að það eru einstaklingsverkefni og þegar um netnám er að ræða er það trú okkar að fækka þurfi einstaklingsverkefnum eins og kostur er.

Halda áfram að lesa

Netmálstofur á tímum Covid19

Í haust hef ég ásamt Önnu Kristínu Sigurðardóttur haft umsjón með námskeiðinu Þróun í menntastofnunum í deild kennslu- og menntunarfræða við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Námskeiðið er á meistarastigi og flestir nemanna eru fólk sem stundar námið með vinnu. Hópurinn er fjölbreyttur; nemarnir koma af öllum skólastigum og víða að úr menntageiranum. Eins og önnur námskeið við HÍ þetta misserið fór námskeiðið fram á netinu. Það var áskorun fyrir okkur að setja námskeiðið upp þannig að hópastarf, umræður og vinna í staðlotum myndu nýtast nemendum eins og þegar þau mæta í húsnæði skólans. Venjulega hefur verið boðið upp á tvær hálfs dag staðlotur ásamt tæplega tveggja tíma málstofum með kennurum í um það bil hverjum mánuði. Þessu til viðbótar voru fyrirlestrar og umræður inni á vefsvæði námskeiðsins sem í gegnum tíðina hefur verið Moodle-kerfið. Í haust tók HÍ upp námsumsjónarkerfð Canvas. Í haust var það líka nokkur áskorun, bæði fyrir kennara og nemendur HÍ að venja sig bæði við nýtt námsumsjónarkerfi og að aðlaga námskeiðin að því þau færu fram á netinu.

Halda áfram að lesa

Við keyrum yfir Ísland – samþætting námsgreina

Íslandskortið fallega

Á dögunum rakst ég á mynd á Facebook af Íslandskorti. Kortið vakti athygli mína vegna þess að það þakti heilan vegg. Ég vissi líka að þarna væri eitthvað áhugavert á ferðinni af því að myndinni var deilt af kennara sem ég veit að er hugmyndaríkur í verkefnavali fyrir nemendur sína. Ég hafði samband við þennan kennara. Hún ásamt samstarfskonu sinni féllust á að koma í fyrsta viðtalið á Bara byrja hlaðvarpi og að leyfa mér líka að tala við nemendur þeirra um verkefnið. Þessar samstarfskonur eru Berglind Hauksdóttir og Anna Rósa Friðriksdóttir. Þær starfa saman sem umsjónarkennarar nemenda í 8.-10. bekk Þelamerkurskóla og af starfsreynslu minni með þeim veit ég að þær hafa nokkuð oft farið ótroðnar slóðir og út fyrir eigin þægindaramma í verkefnavinnu nemenda. Þetta verkefni er sannarlega engin undantekning frá því.

Í þessu fyrsta þætti Bara byrja vefvarps lýsa Berglind og Anna Rósa verkefninu og nemendur segja frá reynslu sinni. Í verkefninu eru námsgreinar samþættar og nemendur nota margs konar aðferðir við vinnslu þess og afraksturinn er í myndböndum, kynningum, texta og glærum. Það er eftirtektarvert hve fjölbreytt verkefnin eru og einnig verkfærin sem nemendur nýttu til að vinna þau. Notast var við mörg verkfæra Google, Imovie og smáforritið HP-Reveal.

Í þættinum benda Berglind og Anna Rósa á skjöl með verkefnalýsingu og matskvörðum. Þær voru svo vinsamlegar að deila þeim með hlustendum.

Hérna er verkefnalýsingin og hérna eru matskvarðarnir.

Hlusta á Spotify eða Apple Podcasts.