Verkfæri í netkennslu

Í janúar 2020 hóf ég störf við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ég mætti í eina staðlotu í janúar, fór heim í Hjallatröð og hef að mestu síðan haldið kennslunni úti þaðan. Netkennsla er áskorun og ég hef haft ánægju af því að finna leiðir til að glæða hana lífi þannig að nemendur geti verið virkir, skapandi og unnið saman.

Margt bendir til þess að kennslan á komandi vikum þurfi í einhverju mæli að fara fram á netinu. Þá fannst mér gott að skoða safn vefverkfæra sem hefur orðið til hjá mér síðan í janúar í fyrra. Þar hef ég sett inn slóðir og einhverjar leiðbeiningar um verkfæri sem hægt er að nýta til að búa til „líflegar“ kynningar og halda utan um umræður og efni frá nemendum.

Ég hef deilt þessari Padlettu með nemendum þegar þau hafa sjálf þurft að vera með kynningar á netinu. Það er tilbreyting fyrir þau að hafa aðgang að einhverju fleiru en hefðbundum glærusýningum. Einnig hef ég sjálf nýtt nokkuð af verkfærunum sem á henni eru.

Í netkennslu sem annarri kennslu eru það ekki endilega rafrænu verkfærin sem skipta öllu máli í skipulagi kennslunnur heldur hvernig verkfærin sem nýtt eru styðja við innihaldsríkt og merkingarbært nám.

Ég tek gjarnan við ábendingum um fleiri verkfæri sem gætu bæði nýst kennurum og nemendum. Sendu mér endilega ábendingu með því að smella hérna.

Vefumræður og umræðutímar

Á flestum námskeiðum sem ég hef komið að við Menntavísindasvið Háskóla Íslands eru vefumræður og á mörgum þeirra eru líka umræðutímar eða málstofur um lesefni námskeiðsins. Vefumræðunum og umræðutímunum eru misjafnlega mikið stýrt af kennurum og þátttaka og virkni nemenda er einnig mismikil.

Við undirbúning á einu námskeiða næsta hausts datt mér í hug að reyna að tengja þessa tvo þætti námskeiðsins saman og gefa þar með nemendum færi á að nýta valda hluta þess sem þau ræða (skriflega) í netumræðunum í litlum hópi á lokuðu svæði þegar þau mæta í umræðutíma. Ég vildi líka auka möguleika nemenda á því að hafa áhrif á það sem rætt er í umræðutímunum. Námskeiðið er á meistarastigi og fer að mestu leyti fram sem netkennsla.

Halda áfram að lesa

Netmálstofur á tímum Covid19

Í haust hef ég ásamt Önnu Kristínu Sigurðardóttur haft umsjón með námskeiðinu Þróun í menntastofnunum í deild kennslu- og menntunarfræða við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Námskeiðið er á meistarastigi og flestir nemanna eru fólk sem stundar námið með vinnu. Hópurinn er fjölbreyttur; nemarnir koma af öllum skólastigum og víða að úr menntageiranum. Eins og önnur námskeið við HÍ þetta misserið fór námskeiðið fram á netinu. Það var áskorun fyrir okkur að setja námskeiðið upp þannig að hópastarf, umræður og vinna í staðlotum myndu nýtast nemendum eins og þegar þau mæta í húsnæði skólans. Venjulega hefur verið boðið upp á tvær hálfs dag staðlotur ásamt tæplega tveggja tíma málstofum með kennurum í um það bil hverjum mánuði. Þessu til viðbótar voru fyrirlestrar og umræður inni á vefsvæði námskeiðsins sem í gegnum tíðina hefur verið Moodle-kerfið. Í haust tók HÍ upp námsumsjónarkerfð Canvas. Í haust var það líka nokkur áskorun, bæði fyrir kennara og nemendur HÍ að venja sig bæði við nýtt námsumsjónarkerfi og að aðlaga námskeiðin að því þau færu fram á netinu.

Halda áfram að lesa