Púslaðferðin fyrir stóran hóp og í netnámi

Mynd fengin af Unsplash Photos. Höfundur er Markus Spiske.

Á milli hátíðanna sátum við hjón yfir kennsluskipulagi næstu annar. Bæði vorum við að skoða skipulag námskeiða sem áður höfðu verið kennd en ekki með þeim fjölda nemenda sem skráður er á komandi önn. Því til viðbótar er ljóst að námið mun að mestum hluta fara fram á netinu. Þegar þannig háttar er óhjákvæmilegt að þurfa að fara vel yfir skipulag námskeiðanna og kanna hvernig það hentar þessum aðstæðum, m.a. verkefnin sem nemendum er ætlað að vinna. Í báðum námskeiðunum sem við vorum að skoða hafði nemendum áður verið sett fyrir að halda lestrardagbækur sem kennari las yfir og gaf einkunnir og umsagnir fyrir. Okkur þótti báðum ástæða til að endurskoða það fyrirkomulag; bæði vegna fjölda nemenda og einnig vegna þess að það eru einstaklingsverkefni og þegar um netnám er að ræða er það trú okkar að fækka þurfi einstaklingsverkefnum eins og kostur er.

Fyrr í desember hafði ein af samstarfskonum mínum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands deilt með mér skjali sem sýndi hvernig hún skipulagði púslaðferðina góðu með nemendum í fjarnámi og á netinu. Einnig hafði ég í sama mánuði rekist á skipulag á Twitter sem sýndi hvernig hægt er að setja upp skjal í Google Slides fyrir nemendur þannig að úr verði ein kynning sem allir hópurinn vinnur að og hefur aðgang að þegar verkefninu er lokið. Mér fannst það skipulag snjallt og aðgengilegt og setti það í sarpinn til seinni tíma nota.

Eftir að hafa einnig reynslu af því að búa til skipulag að netmálstofum í Google Sites sem reyndist vel m.a. til að halda utan um og miðla til nemenda á einum stað verkefnalýsingu og öðru sem tengdist vinnslu verkefnisins fannst mér upplagt að reyna að setja þessar þrjár hugmyndir saman í eitt skipulag að verkefni þar sem púslaðferðin er nýtt með það að markmiði að efla samvinnu nemenda og skilvirkni, bæði fyrir nemendur og kennara við yfirferð verkefnanna.

Úr varð að ég notaði Google verkfærin til að búa til sniðmát með skipulagi þar sem púslaðferðin er nýtt með nemendahópi sem telur allt að 75 nemendur. Þetta skipulag er hægt að heimfæra á önnur verkefni eða aðrar hópastærðir. Nú eigum við þetta sniðmát og getum aðlagað það aðstæðum í kennslu hverju sinni. Ég notaði:

  • Google Sheets til að halda utan um hópaskipulagið. Fyrir þau sem ekki telja þörf á því að gera vefsíðu með öllu skipulaginu dugar þetta skjal nokkuð langt. Ef þú smellir hérna getur þú hlaðið afriti af skjalinu niður á Google-drifið þitt. Í því eru líka hlekkir á sem gefa þér afrit af glærupökkunum og skjölunum þar sem skráð eru gögnin sem nemendur eiga að kynna sér.
  • Í skjölum á Google Docs eru gögnin sem nemendur eiga að nýta í sérfræðingahópunum. Það er líka hægt að setja þau í undirsíður á vefsíðu verkefnsins.
  • Nemendur nýta svo Google Slides til að gera kynningarnar. Úr 90 nemenda hópi verða til þrjár kynningar með öllu innihaldi námsefnisins sem er til umfjöllunar. Nemendur hafa aðgang að kynningunum eftir að hópastarfinu lýkur og þurfa ekki að leita að efni í 15 kynningum (jafn margir og þverfræðilegu hóparnir).
  • Google Sites til að halda utan um allt skipulagið. Þá er hægt að deila einni vefslóð til nemenda svo þeir hafi aðgang að gögnunum sem fylgja verkefninu á einum stað.
  • Svo er í vinnslu að nýta Google Forms fyrir sjálfsmat hópsins á starfinu í sérfræðingahópunum og jafningjamat á kynningunum í þverfræðilegu hópunum.

Fyrir þau sem vilja rifja upp eða glöggva sig á því hvernig púslaðferðin er byggð upp er hægt að skoða myndbandið hérna fyrir neðan.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun.

Kynning á aðferðinni á einu námskeiði

Á fjarmenntabúðum á vegum starfsfólks við HÍ og HA í febrúar 2021 kynnti ég hvernig þetta fyrirkomulag gekk á einu námskeiði. Hérna fyrir neðan eru glærurnar sem ég notaði á þeirri kynningu og upptaka af kynningunni.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.