Nýja bananabrauðið

mjolÍ jólaleyfinu fór ég í verslunina Kost í Kópavogi til að verða mér úti um glútenlaust bökunarmjöl. Ég hafði séð uppskrift að brauði hjá Guðrúnu Bergmann þar sem það mjöl var notað. Mér lék forvitni á að vita hvernig þetta virkaði. Ég keypti m.a. All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill og sá að í hillunum var til margt sem ég hafði ekki heyrt um áður og myndi vilja kynna mér betur.

Þegar heim var komið leitaði ég á netinu að nothæfum uppskriftum þar sem hægt væri að nota mjölið. Þá komst ég að því að Bob´s Red Mill heldur úti uppskriftavef. Þar fann ég uppskriftir að glútenlausu bananabrauði en í þeim uppskriftum voru líka súkkulaði eða sykur. Fram til þessa hefur mér þótt það óþarfi í bananabrauðum.

Eftir hlaupatúrinn í gær var tilvalið að baka sér bananabrauð og þess vegna dró ég fram bæði uppskriftina hans Bob´s og mína eigin og hrærði í fyrsta glútenlausa bananabrauðið á Mörkinni. Afraksturinn varð svo góður að ég veit að þetta brauð verður bakað oftar.

img_2048

Það var girnilegt bananabrauðið og líktist því sem áður hafði verið bakað og var með glúteni.

3 þroskaðir bananar stappaðir

2 tsk lyftiduft

2 tsk matarsódi

1 tsk kanill

2 bollar (kúfaðir) All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill

2 tsk Xanthan Gum frá Now

salt milli fingra

1 dl sólblómafræ

2 egg (þessi voru smá því þau voru úr hænum skólans, þær eru enn að æfa sig í varpinu)

2-3 msk góð matarolía eða kókosolía

1 lúka glútenlaust haframjöl og örlítið til að strá yfir brauðið áður en það fer í ofninn (það fæst nú á tilboði í Nettó)

Bananarnir eru stappaðir og settir í skál og eggjunum er bætt saman við. Því næst er þurrefnunum bætt útí einu af öðru og að lokum er olíunni hrært saman við. Hrært varlega með sleif og sett í brauðform og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 45-50 mínútur.

Borið fram með osti, smjöri og sultu eða marmelaði.

Hrákaka Höllu með volgri aðalbláberjasósu

img_2326

Í berjamó undir Hraundranganum.

Ég hef áður sagt frá því að á kennarastofum skiptast kennarar ekki bara á upplýsingum um nám og kennslu heldur líka og ekki síður á uppskriftum. Þessa uppskrift fékk ég á kennarastofunni fyrir nokkrum árum og hef gert hana all nokkrum sinnum með góðum árangri. Síðast gerði ég hana í gær þegar saumaklúbburinn minn kom í síðdegiskaffi og spjall. Þá bar ég í fyrsta skiptið fram með henni volga bláberjasósu úr frosnum aðalbláberjum sem tínd voru undir Hraundranganum í Öxnadal. Svo var auðvitað líka með henni þeyttur rjómi. Aðalbláberjasósan var algert fyrirtak með þessari köku og framvegis verður kakan ekki borin öðruvísi fram.

1 bolli döðlur

1 bolli sveskjur

1/2 bolli valhnetur

1/2 bolli pekanhnetur

(eða bara einn bolli af annarri hvorri sortinni)

1 banani

1 bolli (ekki endilega það allra fínasta) kókosmjöl

Safi úr hálfri sítrónu (eða límónu)

1 tsk vanilluduft

1/3 tsk salt

2 msk kókosolía (fljótandi, ég velgi hana í örbylgjuofninum)

1 msk góð matarolía

1 msk vatn

Ofan á kökuna: 150 g gott dökkt brætt súkkulaði og 1 msk matarolía. Súkkulaðið bræði ég yfir vatnsbaði og bæti olíunni svo saman við.

Döðlur, sveskjur og hnetur eru saxaðar smátt og bananinn er stappaður og öllu er hrært saman í skál. Kókosmjölinu er bætt saman við. Síðan er öðru hráefni blandað saman við. Þetta er sett í ca 22 cm kökuform með bökunarpappír og þappað vel. Geymt í kæliskáp þar til hún er orðin köld í gegn (ca 2 tíma). Þá er hún losuð úr forminu, sett á kökudisk og súkkulaðið sett yfir hana. Sett aftur inn í ísskáp þar til súkkulaðið hefur stirðnað.

Borin fram með þeyttum rjóma og volgri aðalbláberjasósu sem gerð er með því að hita frosin aðalbláber.

Fræþynnur

Í haust fylgdi ég ráðleggingum frá Guðrúnu Bergmann um hreint mataræði. Hluti af þeim ráðleggingum var að taka glúten af matseðlinum. Fyrir mig sem hef gaman að því að baka brauð (eiginlega hef ég unun af því) og svo ekki sé minnst á að borða nýbakað brauð, þá var þetta nokkur áskorun.

Guðrún var dugleg að benda okkur á kosti sem við gátum keypt okkur í búðum. En þar sem ég nenni ekki alltaf að fara að heiman og inn á Akureyri í búðir leitaði ég á netinu að uppskrift að einhverju sem gæti komið í staðinn fyrir brauð og hrökkkex og myndi jafnframt geta verið nasl í kaffitímum í vinnunni og heima. Ég rakst þá á uppskrift að því sem ég hef eftir það kallað fræþynnur. Og nú er það orðið svo að ég get ekki verið án þess að eiga þær í bauk heima í eldhúsi og fer varla úr húsi nema með nokkrar fræþynnur í boxi í veskinu.

Uppskriftin sem ég styðst við er um það vil á þennan veg

180 g af hörfræjum. Þau eru lögð í bleyti í 8 til 12 tíma. Vatnið á rétt að fljóta yfir fræin. Þau eru fljót að drekka það í sig. Eftir að þau hafa verið í bleyti er öðrum fræjum hrært saman við.

80-100 g af öðrum fræjum. Ég set oftast blöndu af sesamfræjum, graskersfræjum og sólblómafræjum. Ég hef líka sett í blönduna chia-fræ. Þessi mega liggja í bleyti í 1-2 klst. en það er ekki nauðsynlegt.

Salt á milli fingra.

Til tilbreytingar er hægt að setja hvaða krydd sem er saman við blönduna. Ég hef sett graslauk, karrý, kúmen, steinselju beint úr garðinum, paprikuduft og nú fyrir jólin setti ég kanil í hluta af uppskriftinni. Það hefur allt komið vel út.

Þegar hörfræin hafa legið í bleyti blanda ég hinum fræjunum saman við svo úr verði góður frægrautur. Ég skipti grautnum á tvær bökunarplötur sem ég er búin að setja bökunarpappír á. Ég dreifi úr grautnum yfir plötunar þar til hann þekur næstum pappírinn á bökunarplötunum. Eftir því sem tekst betur að dreifa úr grautnum því hraðar bakast hann. Til að auðvelda mér að brjóta þynnurnar niður í hæfilega bita eftir bakstur marka ég í grautinn för með hnífi áður en ég set plöturnar í ofninn.

Ég baka þetta svo á blæstri við 150-160 gráður þar til grauturinn er orðinn þurr og þá orðinn að fræþynnum. Það tekur 40 til 60 mínútur eftir því hvað grautnum var smurt þunnt á plöturnar.

Þynnurnar geymast vel í lokuðu íláti og bragðast vel með pestói, ostum, hummus, ávöxtum eða bara einar og sér.

fraethynnur-m-algeggi

Verði ykkur að góðu