Fræþynnur

Í haust fylgdi ég ráðleggingum frá Guðrúnu Bergmann um hreint mataræði. Hluti af þeim ráðleggingum var að taka glúten af matseðlinum. Fyrir mig sem hef gaman að því að baka brauð (eiginlega hef ég unun af því) og svo ekki sé minnst á að borða nýbakað brauð, þá var þetta nokkur áskorun.

Guðrún var dugleg að benda okkur á kosti sem við gátum keypt okkur í búðum. En þar sem ég nenni ekki alltaf að fara að heiman og inn á Akureyri í búðir leitaði ég á netinu að uppskrift að einhverju sem gæti komið í staðinn fyrir brauð og hrökkkex og myndi jafnframt geta verið nasl í kaffitímum í vinnunni og heima. Ég rakst þá á uppskrift að því sem ég hef eftir það kallað fræþynnur. Og nú er það orðið svo að ég get ekki verið án þess að eiga þær í bauk heima í eldhúsi og fer varla úr húsi nema með nokkrar fræþynnur í boxi í veskinu.

Uppskriftin sem ég styðst við er um það vil á þennan veg

180 g af hörfræjum. Þau eru lögð í bleyti í 8 til 12 tíma. Vatnið á rétt að fljóta yfir fræin. Þau eru fljót að drekka það í sig. Eftir að þau hafa verið í bleyti er öðrum fræjum hrært saman við.

80-100 g af öðrum fræjum. Ég set oftast blöndu af sesamfræjum, graskersfræjum og sólblómafræjum. Ég hef líka sett í blönduna chia-fræ. Þessi mega liggja í bleyti í 1-2 klst. en það er ekki nauðsynlegt.

Salt á milli fingra.

Til tilbreytingar er hægt að setja hvaða krydd sem er saman við blönduna. Ég hef sett graslauk, karrý, kúmen, steinselju beint úr garðinum, paprikuduft og nú fyrir jólin setti ég kanil í hluta af uppskriftinni. Það hefur allt komið vel út.

Þegar hörfræin hafa legið í bleyti blanda ég hinum fræjunum saman við svo úr verði góður frægrautur. Ég skipti grautnum á tvær bökunarplötur sem ég er búin að setja bökunarpappír á. Ég dreifi úr grautnum yfir plötunar þar til hann þekur næstum pappírinn á bökunarplötunum. Eftir því sem tekst betur að dreifa úr grautnum því hraðar bakast hann. Til að auðvelda mér að brjóta þynnurnar niður í hæfilega bita eftir bakstur marka ég í grautinn för með hnífi áður en ég set plöturnar í ofninn.

Ég baka þetta svo á blæstri við 150-160 gráður þar til grauturinn er orðinn þurr og þá orðinn að fræþynnum. Það tekur 40 til 60 mínútur eftir því hvað grautnum var smurt þunnt á plöturnar.

Þynnurnar geymast vel í lokuðu íláti og bragðast vel með pestói, ostum, hummus, ávöxtum eða bara einar og sér.

fraethynnur-m-algeggi

Verði ykkur að góðu