
Í berjamó undir Hraundranganum.
Ég hef áður sagt frá því að á kennarastofum skiptast kennarar ekki bara á upplýsingum um nám og kennslu heldur líka og ekki síður á uppskriftum. Þessa uppskrift fékk ég á kennarastofunni fyrir nokkrum árum og hef gert hana all nokkrum sinnum með góðum árangri. Síðast gerði ég hana í gær þegar saumaklúbburinn minn kom í síðdegiskaffi og spjall. Þá bar ég í fyrsta skiptið fram með henni volga bláberjasósu úr frosnum aðalbláberjum sem tínd voru undir Hraundranganum í Öxnadal. Svo var auðvitað líka með henni þeyttur rjómi. Aðalbláberjasósan var algert fyrirtak með þessari köku og framvegis verður kakan ekki borin öðruvísi fram.
1 bolli döðlur
1 bolli sveskjur
1/2 bolli valhnetur
1/2 bolli pekanhnetur
(eða bara einn bolli af annarri hvorri sortinni)
1 banani
1 bolli (ekki endilega það allra fínasta) kókosmjöl
Safi úr hálfri sítrónu (eða límónu)
1 tsk vanilluduft
1/3 tsk salt
2 msk kókosolía (fljótandi, ég velgi hana í örbylgjuofninum)
1 msk góð matarolía
1 msk vatn
Ofan á kökuna: 150 g gott dökkt brætt súkkulaði og 1 msk matarolía. Súkkulaðið bræði ég yfir vatnsbaði og bæti olíunni svo saman við.
Döðlur, sveskjur og hnetur eru saxaðar smátt og bananinn er stappaður og öllu er hrært saman í skál. Kókosmjölinu er bætt saman við. Síðan er öðru hráefni blandað saman við. Þetta er sett í ca 22 cm kökuform með bökunarpappír og þappað vel. Geymt í kæliskáp þar til hún er orðin köld í gegn (ca 2 tíma). Þá er hún losuð úr forminu, sett á kökudisk og súkkulaðið sett yfir hana. Sett aftur inn í ísskáp þar til súkkulaðið hefur stirðnað.
Borin fram með þeyttum rjóma og volgri aðalbláberjasósu sem gerð er með því að hita frosin aðalbláber.
Viltu deila færslunni með öðrum?
Like this:
Like Loading...