Vínarbrauðin volg þar fást…

Hjá Hérastubbi bakara í Hálsaskógi er meðal annars hægt að fá volg vínarbrauð og þannig var það líka í dag á Þelamörkinni af því að um þessar mundir breiðir rabbabarinn úr sér og í dag er haustveður þó það teljist vera mitt sumar. Þess vegna fannst mér tilvalið að draga fram uppskriftir að bakkelsi með rabbabara og lífga þannig uppá daginn. Ég hef áður skrifað um það að uppskriftir berast manna á milli með ýmsum leiðum. Í þessari færslu skráði ég þrjár uppskriftir sem ég hef fengið hjá tveimur vinkonum mínum og einni frænku. Allar uppskriftirnar eru fljótlegar. auðveldar og ljúffengar og oftast á maður allt í þær ef baksturlöngunin gerir vart við sig án fyrirvara.

FullSizeRender (5)

Það er notalegt að hreiðra um sig í sófanum með sumarbakkelsi og bók þegar rignir og blæs úti.

Halda áfram að lesa

Smáskonsur

img_2261Þegar legið er í kvefpest verður að gera vel við sig og þess vegna prófaði ég að hræra í glútenlausar smáskonsur.

1 dl glútenlaust haframjöl

2dl All purpose baking flour frá Bobs Red mill

2 tsk lyftiduft

1 tsk Xanthan Gum frá Now

1 msk góð olía

1 -2 egg

Salt milli fingra

Mjólk þar til deigið er eins og þykkur grautur. Ég notaði afgang af haframjólk síðan litli Ívar Helgi var hérna um síðustu helgi.

Ég hitaði pönnu og setti á hana 1 msk af kókosolíu sem ég bætti svo í deigið. Hver skonsa er ein matskeið af deigi og steikt á pönnunni við vægan hita. Snúið við þegar skonsan er farin að þorna örlítið á hliðinni sem snýr upp.

Borið fram með hvaða áleggi sem er og líka hægt að nota þær í staðinn fyrir pönnukökur með beikoninu og egginu.

Verði ykkur að góðu.

Hrákaka Höllu með volgri aðalbláberjasósu

img_2326

Í berjamó undir Hraundranganum.

Ég hef áður sagt frá því að á kennarastofum skiptast kennarar ekki bara á upplýsingum um nám og kennslu heldur líka og ekki síður á uppskriftum. Þessa uppskrift fékk ég á kennarastofunni fyrir nokkrum árum og hef gert hana all nokkrum sinnum með góðum árangri. Síðast gerði ég hana í gær þegar saumaklúbburinn minn kom í síðdegiskaffi og spjall. Þá bar ég í fyrsta skiptið fram með henni volga bláberjasósu úr frosnum aðalbláberjum sem tínd voru undir Hraundranganum í Öxnadal. Svo var auðvitað líka með henni þeyttur rjómi. Aðalbláberjasósan var algert fyrirtak með þessari köku og framvegis verður kakan ekki borin öðruvísi fram.

1 bolli döðlur

1 bolli sveskjur

1/2 bolli valhnetur

1/2 bolli pekanhnetur

(eða bara einn bolli af annarri hvorri sortinni)

1 banani

1 bolli (ekki endilega það allra fínasta) kókosmjöl

Safi úr hálfri sítrónu (eða límónu)

1 tsk vanilluduft

1/3 tsk salt

2 msk kókosolía (fljótandi, ég velgi hana í örbylgjuofninum)

1 msk góð matarolía

1 msk vatn

Ofan á kökuna: 150 g gott dökkt brætt súkkulaði og 1 msk matarolía. Súkkulaðið bræði ég yfir vatnsbaði og bæti olíunni svo saman við.

Döðlur, sveskjur og hnetur eru saxaðar smátt og bananinn er stappaður og öllu er hrært saman í skál. Kókosmjölinu er bætt saman við. Síðan er öðru hráefni blandað saman við. Þetta er sett í ca 22 cm kökuform með bökunarpappír og þappað vel. Geymt í kæliskáp þar til hún er orðin köld í gegn (ca 2 tíma). Þá er hún losuð úr forminu, sett á kökudisk og súkkulaðið sett yfir hana. Sett aftur inn í ísskáp þar til súkkulaðið hefur stirðnað.

Borin fram með þeyttum rjóma og volgri aðalbláberjasósu sem gerð er með því að hita frosin aðalbláber.