Nýja bananabrauðið

mjolÍ jólaleyfinu fór ég í verslunina Kost í Kópavogi til að verða mér úti um glútenlaust bökunarmjöl. Ég hafði séð uppskrift að brauði hjá Guðrúnu Bergmann þar sem það mjöl var notað. Mér lék forvitni á að vita hvernig þetta virkaði. Ég keypti m.a. All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill og sá að í hillunum var til margt sem ég hafði ekki heyrt um áður og myndi vilja kynna mér betur.

Þegar heim var komið leitaði ég á netinu að nothæfum uppskriftum þar sem hægt væri að nota mjölið. Þá komst ég að því að Bob´s Red Mill heldur úti uppskriftavef. Þar fann ég uppskriftir að glútenlausu bananabrauði en í þeim uppskriftum voru líka súkkulaði eða sykur. Fram til þessa hefur mér þótt það óþarfi í bananabrauðum.

Eftir hlaupatúrinn í gær var tilvalið að baka sér bananabrauð og þess vegna dró ég fram bæði uppskriftina hans Bob´s og mína eigin og hrærði í fyrsta glútenlausa bananabrauðið á Mörkinni. Afraksturinn varð svo góður að ég veit að þetta brauð verður bakað oftar.

img_2048

Það var girnilegt bananabrauðið og líktist því sem áður hafði verið bakað og var með glúteni.

3 þroskaðir bananar stappaðir

2 tsk lyftiduft

2 tsk matarsódi

1 tsk kanill

2 bollar (kúfaðir) All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill

2 tsk Xanthan Gum frá Now

salt milli fingra

1 dl sólblómafræ

2 egg (þessi voru smá því þau voru úr hænum skólans, þær eru enn að æfa sig í varpinu)

2-3 msk góð matarolía eða kókosolía

1 lúka glútenlaust haframjöl og örlítið til að strá yfir brauðið áður en það fer í ofninn (það fæst nú á tilboði í Nettó)

Bananarnir eru stappaðir og settir í skál og eggjunum er bætt saman við. Því næst er þurrefnunum bætt útí einu af öðru og að lokum er olíunni hrært saman við. Hrært varlega með sleif og sett í brauðform og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 45-50 mínútur.

Borið fram með osti, smjöri og sultu eða marmelaði.

Hitt bananabrauðið

Image

Fyrr á árinu setti ég inn uppskrift að bananabrauði sem ég baka mjög oft. Í þessari færslu er svo uppskrift að bananabrauði sem ég geri sjaldnar. Það má segja að þetta sé hálfgert sparibrauð því það er aðeins meira maus við þetta brauð og svo er það líka sætara en hitt. Í dag var það bakað í tilefni af verslunarmannahelginni og í von um að hægt verði að narta í gæðabrauð úti á palli um helgina.

Þessa uppskrift tók ég uppúr Skíðablaðinu sem gefið er út fyrir vestan um hverja páska. Ég held að þetta hafi verið í blaðinu fyrir tveimur árum og þar heitir það Banana- og engiferbrauð.

275 g spelti (ég blanda grófu og fínu eða læt fínt spelti og íslenskt byggmjöl)

2 tsk vínsteinslyftiduft

1 msk fersk engifer, saxað smátt

3 tsk engiferduft

1 tsk kanill

0,5 tsk múskat

0,25 tsk negull

80 g hrásykur (ég set aldrei nema helminginn af þessu)

2 egg

4 mjög vel þroskaðir bananar

1 tsk vanilludropar

1 msk kókosolía (eða önnur góð olía)

115 g rúsínur

Aðferð

  • Sigtið saman í stóra skál spelti, vínsteinslyftiduft, engiferduftið, kanil, negul og múskat. Hrærið mjög vel.
  • Afhýðið engiferið og saxið (eða rífið) mjög smátt. Þið þurfið eina matskeið af engiferi. Setjið útí stóru skálina og hrærið vel.
  • Afhýðið bananana og stappið vel. Setjið í aðra skál ásamt vanilludropum, hrásykri, olíu og eggjum. Hrærið mjög vel.
  • Hellið bananablöndunni út í stóru skálina og veltið deiginu aðeins til. Ekki hræra mikið því þá verður brauðið seigt.
  • Bætið rúsínum út í deigið og veltið því varlega.
  • Deigið á að vera frekar blautt (á að leka af sleifinni í stórum klessum) og ef það er of þurrt bætið þá svolitlu vatni, mjólk eða appelsínusafa út í.
  • Klæðið brauðformið með bökunarpappír (eða notið yndislega sílikonformið) og hellið deiginu út í. Gætið þess að fari vel í hornin.
  • Bakið við 180°C í 45-50 mín. Stingið í brauðið og þegar prjónninn kemur þurr úr brauðinu er það tilbúið.
  • Kælið brauðið aðeins og skerið í sneiðar.
  • Gott með osti og smjöri.

Óveðursbakstur

Í dag, 4. mars 2013, er óveður víða á landinu og þurfti ég að fresta skóla vegna þess. Að venju kallaði óveðrið og inniveran á bakstur svo ég hræðri í bananabrauð. Þessi uppskrift er sett saman úr nokkrum uppskriftum sem ég safnaði einhvern tímann saman af netinu og fannst engin þeirra nógu góð. Svo úr varð þessi og hún bregst aldrei. Í hana þarf 3-4 vel þroskaða banana. Stundum er meira að segja hægt að fá poka með nokkrum ofþroskuðum bönunum í Bónus á innan við 100 kr.

2 dl fínt speltmjöl

2 dl gróft speltmjöl (öðrum þeirra má skipta út fyrir íslenskt byggmjöl)

2-3 tsk vínsteinslyftiduft

1 dl sólblómafræ

3-4 þroskaðir bananar

2 egg

2 msk olía eða kókosolía

1 lúka haframjöl og önnur til að strá yfir brauðið

1 msk sítrónusafi

Stappið bananana og blandið eggjunum saman við. Blandið svo restinni af innihaldinu saman við. Speltbrauð á helst ekki að hræra mikið. Deigið er frekar blautt. Þetta passar í eitt stórt kökuform. Er bakað í 45-50 mínútur við 200°C á undir og yfirhita neðarlega í ofni.

Best volgt með osti og smjöri. Image