Uppskriftir þeytast á milli manna á marga vegu. Allmargar er hægt að finna á netinu, sumar fær maður í saumaklúbbum og vinahópum, að ógleymdum öllum uppskriftunum sem deilt er á kennarstofunni. Stundum þykir körlunum þar nóg um og á bóndadaginn þegar þeir „ráða“ umræðuefninu hafa þeir óskað eftir því að þann dag sé ekki talað um prjónaskap, uppskriftir og megrun.
Hér fyrir neðan er uppskrift að hrökkbrauði og hana fékk ég einmitt á kennarastofunni en ekki á bóndadaginn. Það góða við hana er að hún er einföld og fljótleg og hægt er að setja margs konar bragðefni og krydd saman við deigið til að fá fjölbreytni í bragðið. Einnig er hægt að strá kryddi, salti eða osti yfir hrökkbrauðið. Í morgun reif ég niður ostaafgangana sem voru farnir að pirra mig í ísskápnum og dreifði yfir hrökkbrauðið þegar 10 mínútur voru eftir af bakstrinum.
Hrökkbrauð
1 dl hörfræ
1 dl graskersfræ
1 dl sesamfræ
1 dl sólblómafræ
2 dl heilhveiti
1 dl íslenskt byggmjöl
1 dl tröllahafrar
1 dl olífuolía
2 dl vatn
1 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 tsk salt frá Saltverkinu
Allt er sett í hrærivélina og hrært saman. Deiginu er síðan skipt í tvo hluta og sett á bökunarpappír á borðið. Síðan setur maður bökunarpappír ofan á deigið og fletur það út eins og pönnuköku með kökukefli. Svo er efri pappírinn tekinn ofan af áður en deigið er sett á bökunarplötu og inn í 180°C heitan ofn. Ég sker deigið niður í hæfilega bita áður en ég set það inn í ofninn. Hrökkbrauðið er bakað í um það bil 20-30 mínútur.
Bakvísun: Hrákaka Höllu með volgri aðalbláberjasósu | Bara byrja
Bakvísun: Vínarbrauðin volg þar fást… | Bara byrja