Janúarsúpa

IMG_5286

Jannúarsúpan góða

Um þessar mundir eru margir að skoða hvað þeir láta ofan í sig og sumir eru alltaf í þeim pælingum. Ég er þar á meðal enda hef ég komist að því að ekki á allur matur vel við skrokkinn. Um síðustu helgi gerði ég grænmetissúpu sem er það sem kallað er í þessu húsi súpa „án alls“. Súpuna gerði ég úr grænmetinu sem til var til í ísskápnum og til að geta endurtekið leikinn fannst mér rétt að skrá hana hérna og jafnframt að leyfa öðrum að prófa. Og af því magnið er skráð eftir minni er auðvelt að þróa þessa uppskrift í hvaða átt sem hentar.

Súpan hefði dugað fyrir sex manns og af því við erum bara tvö í húsi þá á ég súpuskammta í fyrsti sem ég get tekið með mér í nesti.

  • 2 msk kókosolía
  • 1-2 tsk gott karrý
  • 5-6 stönglar af brokkolí, skornir í hæfilega bita
  • Hálf sæt kartafla, skorin í litla teninga
  • 5 gulrætur, skornar í bita
  • 1 laukur saxaður
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 4-5 þurrkaðar chiliflögur
  • 2 vænar tsk af góðum grænmetiskrafti sem er án gers
  • 0,5 lítri vatn
  • 1 ds kókosmjólk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Saxað ferskt kóriander til að dreifa ofan á súpuna þegar hún er borin fram

Hitið kókosolíuna í potti og hitið karrýið í olíunni. Mýkið svo grænmetið í olínunni og bætið hvítlauknum og chiliflögunum útí. Setjið svo vatnið og grænmetiskraftinn útí og látið sjóða í 10-15 mínútur. Bætið þá kókostmjólkinni útí, saltið og piprið að smekkt. Hitið að suðumörkum. Berið fram með söxuðum kóriander.

Þeir sem vilja geta sett súpuna í blandarann og maukað hana. Daginn sem ég eldaði súpuna borðaði ég hana með öllum bitunum en áður en ég frysti hana setti ég hana í blandarann. Hún er alls ekki verri þannig.

Verði ykkur að góðu.

Hrákaka Höllu með volgri aðalbláberjasósu

img_2326

Í berjamó undir Hraundranganum.

Ég hef áður sagt frá því að á kennarastofum skiptast kennarar ekki bara á upplýsingum um nám og kennslu heldur líka og ekki síður á uppskriftum. Þessa uppskrift fékk ég á kennarastofunni fyrir nokkrum árum og hef gert hana all nokkrum sinnum með góðum árangri. Síðast gerði ég hana í gær þegar saumaklúbburinn minn kom í síðdegiskaffi og spjall. Þá bar ég í fyrsta skiptið fram með henni volga bláberjasósu úr frosnum aðalbláberjum sem tínd voru undir Hraundranganum í Öxnadal. Svo var auðvitað líka með henni þeyttur rjómi. Aðalbláberjasósan var algert fyrirtak með þessari köku og framvegis verður kakan ekki borin öðruvísi fram.

1 bolli döðlur

1 bolli sveskjur

1/2 bolli valhnetur

1/2 bolli pekanhnetur

(eða bara einn bolli af annarri hvorri sortinni)

1 banani

1 bolli (ekki endilega það allra fínasta) kókosmjöl

Safi úr hálfri sítrónu (eða límónu)

1 tsk vanilluduft

1/3 tsk salt

2 msk kókosolía (fljótandi, ég velgi hana í örbylgjuofninum)

1 msk góð matarolía

1 msk vatn

Ofan á kökuna: 150 g gott dökkt brætt súkkulaði og 1 msk matarolía. Súkkulaðið bræði ég yfir vatnsbaði og bæti olíunni svo saman við.

Döðlur, sveskjur og hnetur eru saxaðar smátt og bananinn er stappaður og öllu er hrært saman í skál. Kókosmjölinu er bætt saman við. Síðan er öðru hráefni blandað saman við. Þetta er sett í ca 22 cm kökuform með bökunarpappír og þappað vel. Geymt í kæliskáp þar til hún er orðin köld í gegn (ca 2 tíma). Þá er hún losuð úr forminu, sett á kökudisk og súkkulaðið sett yfir hana. Sett aftur inn í ísskáp þar til súkkulaðið hefur stirðnað.

Borin fram með þeyttum rjóma og volgri aðalbláberjasósu sem gerð er með því að hita frosin aðalbláber.