Mandela, Vigdís Finnboga og vordagar

Þegar pistill um los á vordögum birtist á Krítinni í gær rifjaðist upp fyrir mér að á hverju vori gýs upp umræðan um tilgansleysi uppbrots á skólastarfi. Þelamerkurskóli er ekki undanskilinn þeirri umræðu frekar en aðrir skólar. Á skólaslitum í fyrra var þetta efni umræðuefni. Þegar ég renndi yfir það í morgunsárið sá ég að það á jafnvel við á þessu vori og í fyrravor:

Haft er eftir Nelson Mandela að meta megi ríkidæmi sérhvers samfélags í því hvers konar menntun það býður börnum sínum og ungmennum.

Eins og við vitum flest var Mandela einn af merkustu baráttumönnum fyrir mannréttindum sem uppi hefur verið. Í baráttu sinni lagði hann ríka áherslu á fræðslu og menntun því mismunun og fordómar eru fylgifiskar fáfræðinnar. Sá sem þykir menntaður er sá sem meðal annars virðir fjölbreytileikann og veit að hann er nauðsynlegur. Hann veit líka að sé fjölbreytileikinn ræktaður auðgar hann umhverfi sitt og samfélag.

Sérhver samtími lítur sínum augum á innihald og gildi menntunar. Í okkar máli eigum við málsháttinn bókvitið verður ekki í askana látið. Merking hans ber með sér að hann hafi orðið til í samfélagi sem lagði áherslu á verkþekkingu. Nú á dögum vitum við að fjölbreytt þekking og hæfni til að nýta sér hana kemur einstaklingum og samfélögum til góða.

Mynd fundin á vefnum . Hún er afrakstur þemavinnu um vorið.

Mynd fundin á vefnum . Hún er afrakstur þemavinnu um vorið.

Einkunnarorð Þelamerkurskóla eru þroski, menntun og samkennd. Í þeim orðum og leiðarljósi skólans má greina að með starfi sínu leggur skólinn sig fram um að leggja rækt við fjölbreytileikann. Ein birtingarmynd þess er hvers kyns uppbrot á skólastarfinu og áhersla á list- og verkgreinar. Við lítum svo á að það sé nemendum okkar og skólastarfinu jafnmikilvægt og hefðbundið bóknám. Ég vil í þessu samhengi nefna nýliðna vordaga sem einkennast af óhefðbundnu skólastarfi og uppbroti á stundaskrá og jafnframt almenna umræðu í fjölmiðlum og annars staðar um vordaga í skólum. Sú umræða einkennist af alhæfingum um að ekkert sé verið að gera, aðeins sé verið að leika sér og að þessir dagar skipti litlu sem engu máli og þess vegna geti nemendur allt eins farið bara strax í sumarleyfi.

Halda áfram að lesa

Hvers konar þekking skiptir máli?

Fyrir skömmu dreifði Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari, frumkvöðull og tækniþjálfari í Skagafirði þýðingu á tveimur myndum um innleiðingu á tækni í skólastarfi. Önnur var blýanturinn sem sýnir mismunandi nálgun og viðhorf skólafólks á innleiðingu tækni í starfi sínu. Hin myndin var þýðing á SAMR líkaninu sem sýnir fjögur stig innleiðingar á tækni í skólastarfi.

Á kennarafundi í Þelamerkurskóla í gær skoðuðu kennarar þessar myndir og staðsettu sig í líkönunum sem þær sýna. Í umræðum á eftir kom fram að fæstir töldu sig geta tilheyrt oddunum eða hinum beittu á myndinni af blýantinum. En flestir voru sammála um að á viðnum hlyti að vera hægt að setja skala; menn væru mislangt frá festingunum eða hinum beittu. Í umræðum mátti greina að löngun var til þess að vera meðal þeirra beittu og jafnvel að komast innan um oddana.

Líkanið fengið að láni frá Ingva Hrannari Ómarssyndi og birt með hans leyfi.

Birt með leyfi Ingva Hrannars Ómarssonar.

Halda áfram að lesa

MAKVISE

Í morgun var #menntaspjall á Twitter um samskipti vettvangs við nema í menntunarfræðum. Ég fylgdist með og reyndi að taka þátt eftir því sem netsamband og aðstæður leyfðu en ég var í bíl á leiðinni heim úr Mývatnssveit.

Í þessum umræðum bar vettvangsnám menntunarfræðinema auðvitað á góma. Ég sagðist enn búa að því vettvangsnámi sem ég fékk í kennaranámi mínu við Kristiansand Lærerhöyskole í Noregi. Á tveimur árum sem ég var þar við nám var ég lengur í vettvangsnámi en þriggja ára Bed-námið gerði ráð fyrir við þáverandi Kennaraháskóla Íslands. Lengd náms, í skóla eða á vettvangi, segir samt ekki allt um gæði þess. Það gerir miklu fremur skipulag og innihald þess. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið vel skipulagt og innihaldsríkt vettvangsnám í grunnnámi mínu.

Titill þessarar færslu vísar til “lykilorðs” sem við kennaranemarinir fengum frá kennurum okkar í háskólanum áður en við héldum í vettvangsnámið. Þetta orð áttum við að hafa í huga þegar við skipulögðum lotuna og einnig á meðan við settum saman og framkvæmdum hverja kennslustund með nemendum.

Halda áfram að lesa