MAKVISE

Í morgun var #menntaspjall á Twitter um samskipti vettvangs við nema í menntunarfræðum. Ég fylgdist með og reyndi að taka þátt eftir því sem netsamband og aðstæður leyfðu en ég var í bíl á leiðinni heim úr Mývatnssveit.

Í þessum umræðum bar vettvangsnám menntunarfræðinema auðvitað á góma. Ég sagðist enn búa að því vettvangsnámi sem ég fékk í kennaranámi mínu við Kristiansand Lærerhöyskole í Noregi. Á tveimur árum sem ég var þar við nám var ég lengur í vettvangsnámi en þriggja ára Bed-námið gerði ráð fyrir við þáverandi Kennaraháskóla Íslands. Lengd náms, í skóla eða á vettvangi, segir samt ekki allt um gæði þess. Það gerir miklu fremur skipulag og innihald þess. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið vel skipulagt og innihaldsríkt vettvangsnám í grunnnámi mínu.

Titill þessarar færslu vísar til “lykilorðs” sem við kennaranemarinir fengum frá kennurum okkar í háskólanum áður en við héldum í vettvangsnámið. Þetta orð áttum við að hafa í huga þegar við skipulögðum lotuna og einnig á meðan við settum saman og framkvæmdum hverja kennslustund með nemendum.

Þegar við komum á vettvang var orðið notað til að rökstyðja hvernig við völdum að haga kennslu okkar. Við þurftum bæði að nota það fyrir og eftir hverja kennslustund. Í vettvangsnáminu var gert ráð fyrir því að við ræddum saman um skipulag og framkvæmd kennslunnar, bæði við samnemendur okkar (við vorum fjórir nemar hjá einum kennara) og vettvangskennarann. Einnig komu bæði fagkennari og ped-kennari (sá sem kenndi okkur uppeldis- og kennslufræðina) í heimsókn á vettvang og tóku þátt í umræðum. Eftir á að hyggja man ég afar vel hvernig þessar umræður um námið og kennsluna voru lærdómsríkar. Í þeim lærði ég hvernig fræðin og hugtökin sem ég nam í háskólanum gátu orðið að veruleika á vettvangi. Þarna var sannarlega á ferðinni starfsþróun með sterkri faglegri handleiðslu og ígrundun. Eins konar námssamfélag akademíunnar, nemanna og vettvangs.

WordItOut-word-cloud-687033 (1)MAKVISE stendur fyrir sjö lykilatriði sem okkur bar að hafa í huga við skipulag og framkvæmd kennslustunda:

M = motivering. Hvernig ætluðum við að kveikja áhuga nemenda á viðfangsefninu?

A = aktivisering. Hvernig ætluðum við að hvetja nemendur til að hefjast handa við verkefnið? Hvað og hvernig áttu nemendur að læra?

K = kreativitet/konkretisering. Okkur skólasystrunum ber ekki saman um hvort hér eigi að standa kreativitet eða konkretisering. Hvernig ætluðum við að koma sköpun nemenda fyrir í kennslustundinni? Hvernig eiga nemendur að tengja sig við viðfangsefnið? Hvernig tengist viðfangsefnið reynsluheimi nemenda?

V = variasjon/visualisering. Hvernig verður viðfangsefnið kynnt að nálgast á mismunandi vegu? Hvernig er viðfangsefnið og úrvinnsla þess sýnilegt, nemendum og/eða öðrum sem koma að skólastarfinu?

I = individualisering. Tekur viðfangsefnið mið af mismunandi getu og þörfum allra nemenda?

S = samarbeid. Hvernig er gert ráð fyrir samvinnu nemenda eða annarra við vinnslu þessa verkefnis?

E = evaluering. Hvernig á að meta þessa vinnu? Bæði hluta kennarans, nemanna og nemenda? Og hvernig átti að bregðast við matinu?

Þetta lykilorð er eins og greypt í minni mitt og rifjast reglulega upp fyrir mér. Enda hef ég stundum haft að orði að uppeldis- og kennslufræðin sem við fengum við KLH á þessum árum hafi verið eins konar heilaþvottur. Það hvarflar ekki að mér að skipta því út fyrir eitthvað annað nýrra og sem telst betra. Hvort það telst afturhaldssemi eða ekki er svo efni í annan pistil.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.