Hvers konar þekking skiptir máli?

Fyrir skömmu dreifði Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari, frumkvöðull og tækniþjálfari í Skagafirði þýðingu á tveimur myndum um innleiðingu á tækni í skólastarfi. Önnur var blýanturinn sem sýnir mismunandi nálgun og viðhorf skólafólks á innleiðingu tækni í starfi sínu. Hin myndin var þýðing á SAMR líkaninu sem sýnir fjögur stig innleiðingar á tækni í skólastarfi.

Á kennarafundi í Þelamerkurskóla í gær skoðuðu kennarar þessar myndir og staðsettu sig í líkönunum sem þær sýna. Í umræðum á eftir kom fram að fæstir töldu sig geta tilheyrt oddunum eða hinum beittu á myndinni af blýantinum. En flestir voru sammála um að á viðnum hlyti að vera hægt að setja skala; menn væru mislangt frá festingunum eða hinum beittu. Í umræðum mátti greina að löngun var til þess að vera meðal þeirra beittu og jafnvel að komast innan um oddana.

Líkanið fengið að láni frá Ingva Hrannari Ómarssyndi og birt með hans leyfi.

Birt með leyfi Ingva Hrannars Ómarssonar.

Þegar kom að umræðum um SVAN líkanið var niðurstaðan sú að flestir flökkuðu á milli fyrsta, annars eða þriðja stigs. Staðsetninguna á líkaninu sögðu kennarar ráðast af því hvaða nemendur og viðfangsefni ættu í hlut. Einn kennari nefndi dæmi um verkefni þar sem nemendur höfðu val um hver afurð verkefnisins yrði. Kennarinn sagði að afurðirnar mætti staðsetja á öllum stigum líkansins. Kennarinn sagði að sjálfur hefði hann ekki gert kröfu um að nemendur skiluðu verkefninu á fjórða stigi. Þeir sem skiluðu verkefnum á því stigi hefðu sjálfir ákveðið að vinna verkefnið á þann veg og birta það eins og þeir gerðu. Þessi kennari mat það svo, að þess vegna gæti hann ekki staðsett sjálfan sig á fjórða stigi líkansins.

Módelið fengið að láni af heimasíðu Ingva Hrannars, ingvihrannar.com  og birt með hans leyfi.

Módelið fengið að láni af heimasíðu Ingva Hrannars, ingvihrannar.com og birt með hans leyfi.

Af þessum umræðum og niðurstöðum þeirra velti ég fyrir mér hvort þekking og reynsla kennara á tækninni skipti meira máli við innleiðingu hennar í skólastarfi en þekking hans á námi og kennslu ásamt vitneskju um stöðu og þarfir nemenda hans? Það er mat mitt að þekking kennarans á því að búa nemendum verkefni og aðstæður sem ögra þeim á öllum stigum líkansins vegi þyngra en tæknileg þekking hans og reynsla. Með þessu á ég samt ekki við að kennarinn sé fríaður þeirri ábyrgð að fylgjast með framförum á þessu sviði og hugsanlegum áhrifum þeirra á framtíð nemenda sinna. Og hann getur heldur ekki horft fram hjá eigin viðhorfum til tækninnar og áhrifum þeirra á námsumhverfi nemenda. Síður en svo.

Það er því niðurstaða mín eftir þennan kennarafund að mikilvægt sé að við missum ekki sjónar á því að fagmennska kennarans byggir á þekkingu hans á hvers konar viðfangsefni og námsaðstæður, með eða án tækninnar, hæfa nemendum hans svo þeir taki framförum sem munu nýtast þeim til framtíðar.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.