Þegar pistill um los á vordögum birtist á Krítinni í gær rifjaðist upp fyrir mér að á hverju vori gýs upp umræðan um tilgansleysi uppbrots á skólastarfi. Þelamerkurskóli er ekki undanskilinn þeirri umræðu frekar en aðrir skólar. Á skólaslitum í fyrra var þetta efni umræðuefni. Þegar ég renndi yfir það í morgunsárið sá ég að það á jafnvel við á þessu vori og í fyrravor:
Haft er eftir Nelson Mandela að meta megi ríkidæmi sérhvers samfélags í því hvers konar menntun það býður börnum sínum og ungmennum.
Eins og við vitum flest var Mandela einn af merkustu baráttumönnum fyrir mannréttindum sem uppi hefur verið. Í baráttu sinni lagði hann ríka áherslu á fræðslu og menntun því mismunun og fordómar eru fylgifiskar fáfræðinnar. Sá sem þykir menntaður er sá sem meðal annars virðir fjölbreytileikann og veit að hann er nauðsynlegur. Hann veit líka að sé fjölbreytileikinn ræktaður auðgar hann umhverfi sitt og samfélag.
Sérhver samtími lítur sínum augum á innihald og gildi menntunar. Í okkar máli eigum við málsháttinn bókvitið verður ekki í askana látið. Merking hans ber með sér að hann hafi orðið til í samfélagi sem lagði áherslu á verkþekkingu. Nú á dögum vitum við að fjölbreytt þekking og hæfni til að nýta sér hana kemur einstaklingum og samfélögum til góða.
Einkunnarorð Þelamerkurskóla eru þroski, menntun og samkennd. Í þeim orðum og leiðarljósi skólans má greina að með starfi sínu leggur skólinn sig fram um að leggja rækt við fjölbreytileikann. Ein birtingarmynd þess er hvers kyns uppbrot á skólastarfinu og áhersla á list- og verkgreinar. Við lítum svo á að það sé nemendum okkar og skólastarfinu jafnmikilvægt og hefðbundið bóknám. Ég vil í þessu samhengi nefna nýliðna vordaga sem einkennast af óhefðbundnu skólastarfi og uppbroti á stundaskrá og jafnframt almenna umræðu í fjölmiðlum og annars staðar um vordaga í skólum. Sú umræða einkennist af alhæfingum um að ekkert sé verið að gera, aðeins sé verið að leika sér og að þessir dagar skipti litlu sem engu máli og þess vegna geti nemendur allt eins farið bara strax í sumarleyfi.
Við í Þelamerkurskóla erum þessu alls endis ósammála því við vitum að þessir dagar eru nemendum og skólastarfinu jafn mikilvægir og aðrir hefðbundnir dagar. Enda leggjum við alúð og metnað í innihald vordaganna okkar og skipulag þeirra. Það er þess vegna mikilvægt að samfélagið sem að skólanum stendur aðstoði okkur við að kveða niður umræðuna um lítið gildi þessa skólastarfs með því að tala fyrir því með okkur hvar sem það ber á góma ásamt því að ræða þessa daga og námið sem þá fer fram við börn sín og aðra.
Ég er þess fullviss að þegar fram í sækir munum við eiga eftir að sjá uppskeru þessara daga enn betur. Það er nefnilega eðli og einkenni fræðslu og uppeldis að maður sér sjaldnast fyrir hver afraksturinn verður. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og eina konan sem gengt hefur því embætti, var dugleg að minna okkur á þetta ásamt því að halda á lofti mikilvægi þess við að látum lærdóm fortíðarinnar lita sérhvern samtíma. Á þann hátt bætum við framtíðina. Í þessum efnum eru hún og Nelson Mandela sammála.