Fyrir skömmu dreifði Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari, frumkvöðull og tækniþjálfari í Skagafirði þýðingu á tveimur myndum um innleiðingu á tækni í skólastarfi. Önnur var blýanturinn sem sýnir mismunandi nálgun og viðhorf skólafólks á innleiðingu tækni í starfi sínu. Hin myndin var þýðing á SAMR líkaninu sem sýnir fjögur stig innleiðingar á tækni í skólastarfi.
Á kennarafundi í Þelamerkurskóla í gær skoðuðu kennarar þessar myndir og staðsettu sig í líkönunum sem þær sýna. Í umræðum á eftir kom fram að fæstir töldu sig geta tilheyrt oddunum eða hinum beittu á myndinni af blýantinum. En flestir voru sammála um að á viðnum hlyti að vera hægt að setja skala; menn væru mislangt frá festingunum eða hinum beittu. Í umræðum mátti greina að löngun var til þess að vera meðal þeirra beittu og jafnvel að komast innan um oddana.