Á alþjóðadegi kennara í gær hélt Kennarasamband Íslands skólamálaþing og fékk til landsins Dr. David Frost prófessor við Háskólann í Cambirdge. Hann sagði frá vinnu sinni að starfsþróun kennara þar sem forysta þeirra er efld til breytinga á skólastarfi. Hægt er að fá stutta kynningu á verkefni hans á þessu myndbandi. Einnig var efni um verkefnið safnað saman á vefsíðu Kennarasambands Íslands.
Fyrir hönd Skólastjóra Íslands tók ég saman hugleiðingu um fyrirlestur hans í ljósi aðstæðna á Íslandi:
Það er varla hægt að tala um að efla forystu kennara án þess að gera fagmennsku einhver skil. Það hefur reynst mér vel að skoða fagmennsku kennara og skólastjórnenda út frá myndinni hér að ofan. Á henni hvílir fagmennskan á tveimur stólpum, annar þeirra er frelsi kennarans til að velja þá kennsluaðferð sem hann telur henta hverju sinni og hinn eru ábyrgð kennarans og skylda hans til að geta fært kennslufræðileg rök fyrir vali sínu og sýninni sem stýrir því vali. Líkan Frost og áætlun hans eflir að mínu mati þann þátt fagmennskunnar þar sem kennarar ígrunda starf sitt í samfélagi við aðra kennara; þar er búinn til samtalsvettangur þar sem þeir færa rök fyrir vali sínu á aðferðum og sýn.