Hugleiðingar um faglega forystu kennara

Á alþjóðadegi kennara í gær hélt Kennarasamband Íslands skólamálaþing og fékk til landsins Dr. David Frost prófessor við Háskólann í Cambirdge. Hann sagði frá vinnu sinni að starfsþróun kennara þar sem forysta þeirra er efld til breytinga á skólastarfi. Hægt er að fá stutta kynningu á verkefni hans á þessu myndbandi. Einnig var efni um verkefnið safnað saman á vefsíðu Kennarasambands Íslands.

Fyrir hönd Skólastjóra Íslands tók ég saman hugleiðingu um fyrirlestur hans í ljósi aðstæðna á Íslandi:

david-frost_hugleiding

Það er varla hægt að tala um að efla forystu kennara án þess að gera fagmennsku einhver skil. Það hefur reynst mér vel að skoða fagmennsku kennara og skólastjórnenda út frá myndinni hér að ofan. Á henni hvílir fagmennskan á tveimur stólpum, annar þeirra er frelsi kennarans til að velja þá kennsluaðferð sem hann telur henta hverju sinni og hinn eru ábyrgð kennarans og skylda hans til að geta fært kennslufræðileg rök fyrir vali sínu og sýninni sem stýrir því vali. Líkan Frost og áætlun hans eflir að mínu mati þann þátt fagmennskunnar þar sem kennarar ígrunda starf sitt í samfélagi við aðra kennara; þar er búinn til samtalsvettangur þar sem þeir færa rök fyrir vali sínu á aðferðum og sýn.

Halda áfram að lesa

Gæðastarf og fagmennska

Um þessar mundir lesa þau sem sitja í framkvæmdastjórn skólamálaráðs KÍ bókina Flip the system, changing education from the ground up. Bókin er greinasafn sem er ritstýrt af Jelmer Evers og René Kneyber. Í hana skrifa kennarar og aðrir sérfræðingar í menntamálum um áhrif miðstýrðra breytinga stjórnvalda út frá hugmyndafræði GERM (e. Global Education Reform Movement) á menntakerfi. Pasi Sahlberg kynnti hugmyndafræði GERM á ráðstefnunni Kennarar framtíðarinnar sem haldin var í Reykjavík í ágúst 2014. Þar kom fram að þegar menntastefnu er breytt í anda GERM þá bera breytingarnar keim af áherslum frjálshyggjunnar um mælingar á afköstum og skilvirkni. Þegar stjórnvöld og önnur öfl hafa viðmið GERM til hliðsjónar við umbætur á menntakerfinu má rödd kennarastéttarinnar um gildi og gæði menntunar sín lítis. Þá er fremur litið á kennara sem tannhjól í gangvirki menntakerfisins sem er ætlað að fylgja sannreyndum kennsluaðferðum til að ná mælanlegum markmiðum sem aðrir en þeir sem starfa innan menntakerfisins hafa sett.

flip the system

Líkan Flip the system (ísl. hvolfum kerfinu)

Greinasafninu er ætlað að vekja kennararstéttina til umhugsunar um þessar aðstæður og að valdefla hana til breytinga. Rauði þráður bókarinnar (Flip the system) er að kennarar verði sér meðvitaðir um stöðu sína í þessum breytingum og sameinist sem fagstétt um að láta rödd sína heyrast og að fagmennskan verði uppspretta og hreyfiafl breytinganna í stað viðbragða við ytri áreitum.

Halda áfram að lesa

Víddir fagmennskunnar

Það er ekki bara á litla Íslandi sem fram fer menntapólitísk umræða. Um þessar mundir ræða Norðmenn um plagg sem fjallar um skóla framtíðarinnar. Nefnd, Ludvigsen-utvalget, sem var skipuð breiðum hópi fólks, hefur unnið að því að ræða og gera samantekt sem fjallar um skóla framtíðarinnar. Á meðan á vinnu hópsins stóð hélt hann úti heimasíðu með kynningu á vinnunni og fréttum af framgangi hennar.

Norsku kennarasamtökin hafa nú krufið samantektina og gefið út hefti með spurningum og umræðupunktum sem félagsmenn þeirra geta nýtt sér til að ræða faglega sín á milli og við aðra um innihald, áhrif og framkvæmd vinnu Ludvigsen nefndarinnar. Í heftinu er gengið út frá því að fagmennska kennara standi á tveimur stólpum: frelsinu til að velja þá kennsluaðferð sem hentar hverju sinni (n. metodefrihet) og ábyrgð hvers kennara á vali sínu á kennsluaðferð (n. metodeansvar). Með útgáfu norsku kennarasamtakanna á heftinu sýna þau að kennarar eru tilbúnir til að ræða stefnur og strauma sem eru gefin út af menntayfirvöldum. Enda er það auðvelt þar sem vinnan hefur verið skýrt afmörkuð og upplýsingum um hana verið komið á framfæri jafnóðum og hún hefur verið unnin.

Í umræðunni undanfarið um árangur eða ekki árangur af lestrarkennsluaðferðinni Byrjendalæsi og þjóðarsáttmála menntamálaráðherra um eflingu læsis hefur margt komið fram. Í upphafi hennar þótti skólafólki vegið að fagmennsku sinni þar sem gefið var í skyn að skólar hefðu án athugunar og umræðulaust innleitt nýja kennsluaðferð og að lítt væri fylgst með því hvort settum markmiðum væri náð.

Halda áfram að lesa