ESHA 2018 – kynning á #Eymennt

Í síðustu viku héldu evrópusamtök skólastjórnenda ráðstefnu í Tallinn í Eistlandi. Á ráðstefnunni voru nokkur aðalerindi sem öll fjölluðu um notkun tölvu og tækni í skólastarfi. Einnig var boðið upp á níu málstofur þar sem skólastjórnendur sögðu frá því hvað og hvernig tölvum og tækni væri nýtt í skólum þeirra.

Fjórir stjórnendur af þeim sex skólum sem standa að menntabúðum #Eymennt sóttu ráðstefnu og kynntu samvinnuverkefnið #Eymennt um menntabúðir fyrir kennara og aðra áhugasama um notkun upplýsingatækni í skólastarfi:

ESHA

Eftir kynninguna. Spurningum úr sal svarað.

Hrund Hlöðversdóttir skólastjóri Hrafnagilsskóla

Ingileif Ástvaldsdóttir skólastjóri Þelamerkurskóla

Katrín Fjóla Guðmundsdóttir deildarstjóri við Dalvíkurskóla

Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri Oddeyrarskóla

Glærur kynningarinnar eru hérna fyrir neðan:

Einnig er hægt að horfa á kynninguna á myndbandi með því að smella hérna.

Að taka þátt í þessu verkefni með stöllum mínum í #Eymennt var mjög lærdómsríkt. Við nýttum okkur Google umhverfið til að vinna saman að kynningunni, gerðum könnun meðal kennara í Google Forms, bjuggum til myndband í Adobe Sparks og IMovie ásamt því að standa á stóru sviði og kynna verkefnið á ensku.

Með góðri samvinnu er lítill vandi að sigrast á áskorunum eins og þessari.

Taka upp, geyma og dreifa hljóðskrám

Ég hef áður skráð hvernig hægt er að taka upp hljóðskrár, vista þær og deila þeim. Í þeirri færslu er notast við símann eða Ipadinn og app til að taka upp. Hljóðskrárnar eru síðan vistaðar á Google Drive og dreift þaðan t.d. með QR kóðum.

Á menntabúðum á Ólafsfirði í fyrra var mér bent á vefsvæðið Vocaroo þar sem hægt er að taka upp, geyma og dreifa hljóðskrám. Kennarinn sem sýndi okkur þetta sagðist nota það  í tungumálakennslu þegar nemendur  væru að æfa samtöl. Kennarinn sagði að kosturinn væri að nemendur sendu henni slóð á hljóðupptökuna eða deildu henni með samnemendum t.d. í gegnum hóp á Facebook eða Google Classroom. Kennarar geta auðvitað líka notað Vocaroo til að senda nemendum eða öðrum munnleg fyrirmæli eða skilaboð.

Það sem þarf að hafa í huga er, að Vocaroo er ekki varanleg geymsla á hljóðupptökum. Á hjálparsíðu vefsvæðisins segir að það megi búast við því að upptakan sé horfin eftir nokkra mánuði. Ef á að geyma upptökuna er mælt með því að upptökunni sé hlaðið niður á tölvuna eða annað svæði til varanlegrar geymslu.

Ég prófaði Vocaroo í vikunni og það er mjög einfalt. Hérna fyrir neðan er myndband sem sýnir hversu einfalt það er í notkun.

Halda áfram að lesa

Á hraðstefnumóti

keep-calm-and-speed-date-14

Í vetur hef ég tekið þátt í fjórum hraðstefnumótum. Þau hafa verið um öpp eða vefsvæði sem hafa gagnast í leik og starfi. Nú síðast á föstudaginn með kollegum mínum á fundi þar sem við ræddum m.a. mögulegar leiðir í eigin starfsþróun og annarra starfsmanna skóla. Hin hraðstefnumótin hafa verið á menntabúðum #eymennt og á #Utís2017.

Hópurinn á föstudaginn var ekki stór, 20 manns en það sem gerðist á hraðstefnumótinu sýndi mér aftur að hraðstefnumót er einföld og öflug leið til að virkja þátttakendur og vekja þá til að miðla því sem þeir hafa gert og hefur reynst þeim vel. Á föstudaginn varð t.d. að gefa a.m.k. 20 mínútur í dagskránni til að gefa fundarmönnum færi á að klára að ræða málin. Hjá mjög mörgum hafði kviknað hugmynd sem þurfti annað hvort að miðla eða ræða. Það sýndi mér að hraðstefnumót er fyrirtaks aðferð til að kveikja virkni þátttakenda og miðlun reynslu þeirra á milli.

Halda áfram að lesa