Á hraðstefnumóti

keep-calm-and-speed-date-14

Í vetur hef ég tekið þátt í fjórum hraðstefnumótum. Þau hafa verið um öpp eða vefsvæði sem hafa gagnast í leik og starfi. Nú síðast á föstudaginn með kollegum mínum á fundi þar sem við ræddum m.a. mögulegar leiðir í eigin starfsþróun og annarra starfsmanna skóla. Hin hraðstefnumótin hafa verið á menntabúðum #eymennt og á #Utís2017.

Hópurinn á föstudaginn var ekki stór, 20 manns en það sem gerðist á hraðstefnumótinu sýndi mér aftur að hraðstefnumót er einföld og öflug leið til að virkja þátttakendur og vekja þá til að miðla því sem þeir hafa gert og hefur reynst þeim vel. Á föstudaginn varð t.d. að gefa a.m.k. 20 mínútur í dagskránni til að gefa fundarmönnum færi á að klára að ræða málin. Hjá mjög mörgum hafði kviknað hugmynd sem þurfti annað hvort að miðla eða ræða. Það sýndi mér að hraðstefnumót er fyrirtaks aðferð til að kveikja virkni þátttakenda og miðlun reynslu þeirra á milli.

Hraðstefnumótið gengur þannig fyrir sig að einhverjir úr hópnum taka að sér að vera með tveggja mínútna kynningu á appi sem hefur gagnast þeim vel. Hver og einn þeirra kemur sér fyrir aftan við borð sem búið er að raða í hring (það er líka hægt að hafa þau í einni röð ef plássið leyfir ekki hring). Aðrir þátttakendur skipta sér í hópa og hver hópur kemur sér fyrir framan við eitt af borðunum. Svo hefst leikurinn. Hver kynnir heldur sína tveggja mínútna kynningu og þegar mínúturnar tvær eru liðnar færa hóparnir sig á næsta borð og þannig koll af kolli þar til allir hóparnir hafa komið við á öllum borðunum.

Það er gott að vita fyrirfram hvaða öpp verða kynnt svo hægt sé að prenta út blað með nafninu á appinu og mynd af því. Það auðveldar þeim sem eru á kynningunni að „glósa“ með því að taka mynd af blaðinu. Það þarf líka að hafa tímavörð, annað hvort að varpa tímavaka úr appi upp á tjald eða að einhver í hópnum tekur að sér að fylgjast með tímanum og láta hópinn vita hvenær á að færa sig á milli borða.

Hraðstefnumót eru að mínu mati fljótvirk og árangursrík leið til að kynnast því sem aðrir hafa nýtt sér. Hraðstefnumótið þarf ekki endilega að vera um öpp, það má þess vegna vera um kennsluaðferð eða eitthvað enn afmarkaðra og hæglega er hægt að nýta kennarafund í hraðstefnumót.

1 thought on “Á hraðstefnumóti

  1. Bakvísun: Og svo allt hitt á #utís2019 | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.