Sagt frá og miðlað með Clips

Það eru til mörg verkfæri fyrir snjalltæki til að skrá og miðla sögum og frásögnum. Eitt af þeim er smáforritið Clips. Í vikunni var ég á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar. Sá viðburður er í sjálfu sér merkilegur í hvert sinn og vel þess virði að hann sé skráður og sögunni sé miðlað sem best og víðast. Ein leið til þess er að safna myndum og stuttum myndböndum og skeyta saman í smáforritinu Clips. Clips gefur nefnilega möguleika á að setja inn á endanlega myndbandið m.a. texta, tákn, að vinna með myndirnar og myndböndin og setja á myndirnar filtera. Það er líka hægt að setja tónlist við myndbandið bæði úr eigin safni og safni um það bil 70 titla sem fylgja forritinu. Clips er til fyrir Iphone og Ipada.

clips

Clips er til fyrir Iphone og Ipad

Á síðustu lokahátíð Upplestrarkeppninnar hafði ég gleymt að taka myndavél skólans með mér á hátíðina svo ég þurfti að nota símann minn til að taka myndirnar. Þegar ég ætlaði að fara að dæla þeim úr símanum inn á heimasíðu og  þaðan á Facebooksíðu skólans og skrá við hverja mynd nafn og skóla upplesaranna datt mér í hug að það væri kannski skemmtilegra að skoða nokk svo einhæft myndefni í litlu myndbandi þannig að ég setti myndirnar sem ég tók saman í Clips og til að lífga upp á myndbandið bætti ég við myndum með texta sem ég bjó til í smáforritinu Canva og setti í lokin inn tónlist úr tónlistarsafni forritsins.

Halda áfram að lesa

Á hraðstefnumóti

keep-calm-and-speed-date-14

Í vetur hef ég tekið þátt í fjórum hraðstefnumótum. Þau hafa verið um öpp eða vefsvæði sem hafa gagnast í leik og starfi. Nú síðast á föstudaginn með kollegum mínum á fundi þar sem við ræddum m.a. mögulegar leiðir í eigin starfsþróun og annarra starfsmanna skóla. Hin hraðstefnumótin hafa verið á menntabúðum #eymennt og á #Utís2017.

Hópurinn á föstudaginn var ekki stór, 20 manns en það sem gerðist á hraðstefnumótinu sýndi mér aftur að hraðstefnumót er einföld og öflug leið til að virkja þátttakendur og vekja þá til að miðla því sem þeir hafa gert og hefur reynst þeim vel. Á föstudaginn varð t.d. að gefa a.m.k. 20 mínútur í dagskránni til að gefa fundarmönnum færi á að klára að ræða málin. Hjá mjög mörgum hafði kviknað hugmynd sem þurfti annað hvort að miðla eða ræða. Það sýndi mér að hraðstefnumót er fyrirtaks aðferð til að kveikja virkni þátttakenda og miðlun reynslu þeirra á milli.

Halda áfram að lesa