Fræþynnur

Í haust fylgdi ég ráðleggingum frá Guðrúnu Bergmann um hreint mataræði. Hluti af þeim ráðleggingum var að taka glúten af matseðlinum. Fyrir mig sem hef gaman að því að baka brauð (eiginlega hef ég unun af því) og svo ekki sé minnst á að borða nýbakað brauð, þá var þetta nokkur áskorun.

Guðrún var dugleg að benda okkur á kosti sem við gátum keypt okkur í búðum. En þar sem ég nenni ekki alltaf að fara að heiman og inn á Akureyri í búðir leitaði ég á netinu að uppskrift að einhverju sem gæti komið í staðinn fyrir brauð og hrökkkex og myndi jafnframt geta verið nasl í kaffitímum í vinnunni og heima. Ég rakst þá á uppskrift að því sem ég hef eftir það kallað fræþynnur. Og nú er það orðið svo að ég get ekki verið án þess að eiga þær í bauk heima í eldhúsi og fer varla úr húsi nema með nokkrar fræþynnur í boxi í veskinu.

Uppskriftin sem ég styðst við er um það vil á þennan veg

180 g af hörfræjum. Þau eru lögð í bleyti í 8 til 12 tíma. Vatnið á rétt að fljóta yfir fræin. Þau eru fljót að drekka það í sig. Eftir að þau hafa verið í bleyti er öðrum fræjum hrært saman við.

80-100 g af öðrum fræjum. Ég set oftast blöndu af sesamfræjum, graskersfræjum og sólblómafræjum. Ég hef líka sett í blönduna chia-fræ. Þessi mega liggja í bleyti í 1-2 klst. en það er ekki nauðsynlegt.

Salt á milli fingra.

Til tilbreytingar er hægt að setja hvaða krydd sem er saman við blönduna. Ég hef sett graslauk, karrý, kúmen, steinselju beint úr garðinum, paprikuduft og nú fyrir jólin setti ég kanil í hluta af uppskriftinni. Það hefur allt komið vel út.

Þegar hörfræin hafa legið í bleyti blanda ég hinum fræjunum saman við svo úr verði góður frægrautur. Ég skipti grautnum á tvær bökunarplötur sem ég er búin að setja bökunarpappír á. Ég dreifi úr grautnum yfir plötunar þar til hann þekur næstum pappírinn á bökunarplötunum. Eftir því sem tekst betur að dreifa úr grautnum því hraðar bakast hann. Til að auðvelda mér að brjóta þynnurnar niður í hæfilega bita eftir bakstur marka ég í grautinn för með hnífi áður en ég set plöturnar í ofninn.

Ég baka þetta svo á blæstri við 150-160 gráður þar til grauturinn er orðinn þurr og þá orðinn að fræþynnum. Það tekur 40 til 60 mínútur eftir því hvað grautnum var smurt þunnt á plöturnar.

Þynnurnar geymast vel í lokuðu íláti og bragðast vel með pestói, ostum, hummus, ávöxtum eða bara einar og sér.

fraethynnur-m-algeggi

Verði ykkur að góðu

Ekki bara kökur og konfekt!

Um jól og áramót er vaninn að gera vel við sig í mat og drykk. Fyrir mér þýðir það samt ekki að allur venjulegur og hollur matur þurfi að víkja af matseðlinum. Ég hef verið svo heppin að læra að samtímis er hægt að gera vel sig í mat og hugsa um hollustuna. Í mörgum uppskriftum má t.d. minnka eða hreinlega sleppa hvíta sykrinum eða nota eitthvað annað í staðinn.

Hér fyrir neðan eru uppskriftir af tvenns konar brauðum sem ég baka fyrir jólin og eru góð tilbreyting. Annað þeirra er döðlubrauð sem er án gers og hvíts sykurs og hitt er gerbrauð með eplum og kanel.

Döðlubrauðið (upphaflega úr bókinni Af bestu lyst en aðlöguð að kenjum mínum)

20131226-185832.jpg

Döðlubrauð

5 dl döðlur og 5 dl vatn látið í pott og suðan látin koma upp og látið krauma þar til döðlurnar er orðnar lausar í sér. Kælt niður að stofuhita.

10 dl mjöl. Því getur verið skipt á ýmsa vegu eftir smekk og því sem til er í skápunum. 5+5 dl gróft/fínt speltmjöl eða 7+3, 8+2 heilhveiti/rúgmjöl og allt þar á milli.

4 dl gróft saxaðar valhnetur (má sleppa)

4 tsk vínsteinslyftiduft

1 tsk salt frá Saltverki

2 tsk vanilludropar

2-3 egg og safi úr hálfri sítrónu

1 1/2 dl matarolía

léttmjólk þar til deigið er eins og það á að vera. Það á að vera þykkt og þungt.

Öllu blandað saman í skál og hrært saman. Deigið er sett í 2 stór eða 3 lítil smurð brauð/jólakökuform.

Bakað við 180°C í 45-55 mínútur. Borið fram með osti og smjöri og má frysta.

Epla og kanilbrauð (úr uppskriftabæklingi frá Bjargi, líkamsrækt á Akureyri)

3 dl volgt vatn

1 tsk gott salt (frá Saltverki auðvitað)

1/2 tsk vanilludropar

1/2 tsk kanill

1 rifið epli

2 msk góð olía

2 msk hunang eða 1 msk agave sýróp

5 dl heilhveiti og 5 dl spelt

4 msk þurrger (1 1/2 bréf)

Epla og kanilbrauð

Epla og kanilbrauð

Setjið vatnið og sætuefnið í skál. Leysið því næst gerið upp í blöndunni. Rífið eplið yfir og setjið annað efni í skálina og hnoðið þar til sleppir borði. Látið hefast í 20-30 mín, hnoðið aftur og skiptið í tvo hluta. Hægt er að gera fléttubrauð úr hvorum hluta. Setjið svo í tvö form og látið hefast aftur í um það bil 20 mín. Penslið með eggi og stráið kanil og hrásykri yfir. Bakað við 180°C í 30-35 mín. Gott með osti, smjöri og jólasultu eða marmelaði. Má frysta.

Ég hef líka látið deigið hefast í ísskáp á jólanóttina og bakað það svo á jóladagsmorgunn. Það er fátt notalegra en nýbakað brauð í morgunmat eða þá kanelilmurinn sem berst um húsið á meðan lagst er aftur uppí rúmið og haldið áfram að lesa jólabókina.

Af muffins-um

Ég á nokkrar uppskriftir af muffins, nokkrar eru það sem ég kalla vesenis-lausar og við aðrar þarf að vesenast svolítið í bakstrinum.

ImageAllra fyrsta uppskriftin sem ég fékk af muffins er skrifuð aftan á SÍBS happdrættismiða og svo límd inn í uppskriftabókina mína. Uppskriftina fékk ég þegar krakkarnir voru smælki og hún er skrifuð með rithönd vinkonu minnar sem stundum skrautskrifar á bækur fyrir fólk. Á þessari uppskrift ber rithöndin öll þess merki.

Þessi muffinsuppskrift flokkast í vesenis-lausu uppskriftirnar. Það er nánast hægt að baka eftir henni blindandi og ég held að það hafi stundum verið gert samhliða öðrum verkum þegar krakkarnir voru smælki.

Í morgun var hún bökuð vegna þess að á morgun er réttað í Tungurétt í Svarfaðardal og að venju sér Kvenfélagið Tilraun um réttarkaffið. Í ár kom það í minn hlut að skaffa muffins. Ég ákvað að hafa þær eins hefðbundnar og hægt er; enga stæla með spelti, hrásykri eða öðru sem getur „eyðilagt“ gott kaffibrauð.

2,5 bollar hveiti

1 bolli sykur (upphaflega voru 1,5 bolli sykur í uppskriftinni, ég minnkaði hann fyrir löngu og enginn tók eftir því)

3 egg

220 g brætt smjörlíki

1 tsk natron

1 tsk salt

1 tsk vanilludropar

200 g saxað suðusúkkulaði

1 dós kaffijógúrt (líka hægt að nota súrmjólk og kaffi)

Þeyta egg og sykur þar til létt og ljóst. Bæta þurrefnum, smjörlíki og jógúrt saman við, til skiptis. Bæta súkkulaðinu síðast út í. Setja með teskeiðum í lítil form (bréf- eða sílikonform). Nóg að hálffylla þau. Bakað í 180°C heitum ofni í 15-20 mínútur. Úr þessari uppskrift fást 30-40 kökur.

Nanna Rögnvaldsdóttir hefur gefið út bók um muffins. Bókin heitir Múffur í hvert mál og í inngangi hennar fer Nanna skilmerkilega yfir það hvað múffa sé eiginlega og hvernig hægt sé að þekkja hana frá bollaköku. Hún segir eina skilgreininguna vera að ef maður „geti hugsað sér að borða það með morgunkaffinu þá sé það múffa“. Hún segir bollakökur yfirleitt vera dísætar og oftast með kremi, gjarnan þykku lagi en múffur eru bragðbættar á ýmsan hátt og oft stútfullar af ávöxtum og öðru góðgæti. Svo rekur Nanna að múffur og bollakökur séu gerðar á mismunandi hátt og að henni finnist bollakökugerðin oft snúast um útlitið en múffurnar um bragðið.

Ég veit ekki alveg í hvorn flokkinn hefbundnu muffinskökurnar hér að ofan flokkast (þær eru dísætar en ekki með kremi) en bláberjamúffurnar sem ég bakaði svo á eftir þeim myndu samkvæmt skilgreiningu Nönnu aldrei geta talist bollakökur.

Image

1 bolli sykur

2 egg

1 bolli matarolía

1 tsk salt

1 tsk vanilludropar

4 bollar hveiti

2 bollar haframjöl

4 tsk lyftiduft

1 tsk matarsódi

3 bollar bláber (mega vera frosin. En af því nú er berjatíminn og í ár hefur hér verið tínt ógrynni af aðalbláberjum voru þau ófrosin).

1,5 bolli appelsínusafi

Hræra egg, sykur, olíu, appelsínusafa, salt og vanilludropa vel saman með þeytara. Blanda þurrefnum saman í annarri skál og bæta þeim svo varlega saman við eggjahræruna. Síðast er berjunum blandað saman við. Sett í muffinsform og bakað í 20-25 mínútur við 180°C heitan ofn. Ég notaði sílikonformin og þau eru aðeins stærri en venjulegu pappírsformin og úr þessu urðu 36 vænar múffur.