Hjá Hérastubbi bakara í Hálsaskógi er meðal annars hægt að fá volg vínarbrauð og þannig var það líka í dag á Þelamörkinni af því að um þessar mundir breiðir rabbabarinn úr sér og í dag er haustveður þó það teljist vera mitt sumar. Þess vegna fannst mér tilvalið að draga fram uppskriftir að bakkelsi með rabbabara og lífga þannig uppá daginn. Ég hef áður skrifað um það að uppskriftir berast manna á milli með ýmsum leiðum. Í þessari færslu skráði ég þrjár uppskriftir sem ég hef fengið hjá tveimur vinkonum mínum og einni frænku. Allar uppskriftirnar eru fljótlegar. auðveldar og ljúffengar og oftast á maður allt í þær ef baksturlöngunin gerir vart við sig án fyrirvara.

Það er notalegt að hreiðra um sig í sófanum með sumarbakkelsi og bók þegar rignir og blæs úti.
Fyrstu uppskriftina, vínabrauðin, fékk ég hjá nöfnu minni og frænku, Ingileif Auðuns á Selfossi. Þá næstu, hjónabandssæluna, fékk ég hjá Önnu Rósu Bjarnadóttur, vinkonu minni og þá síðustu, Fljótlegu rabbabarpæjuna, fékk ég hjá Þóru Rósu Geirsdóttur sem bæði er samstarfskona mín og vinkona.
Gamaldags vínarbrauð

Þessi eru best ef kardimommufræin eru nýsteytt
500 g hveiti
250 g heilhveiti
250 g smjör (eða smjörlíki fyrir þá sem vilja)
225 g sykur, ég set yfirleitt 100 g af hrásykri
3 tsk lyftiduft
1 1/2 tsk hjartarsalt
2 egg
3,75 dl mjólk
3 tsk steyttar kardimommur (eða kardimommuduft, ég átti nýtt og ilmandi sem ég keypti á matarmarkaðnum Torvehallerne í Kaupmannahöfn í maí)
Allt sett í skál og hnoðað saman. Mér finnst best að setja það svo á borð og hnoða á borðinu þar til deigið „sleppir borði“. Deiginu er skipt í sex jafna hluta. Hver hluti er flattur út í lengju og rabbabarasulta sett í miðju lengjunnar, snyrt til með kleinujárni og lengjunni svo lokað. Lengjurnar eru settar á plötu (það komast þrjár á hverja plötu), þær pensla ég með eggi og stundum strái ég hentuflögum eða hökkuðum möndlum yfir þær. Síðan er lengjurnar bakaðar í 15-20 mínútur við 170-180 gráður.
Hjónabandssælan 300 g af öllu!

Þessi er algjört sælgæti! Alveg mátulega sæt og seig.
300 g hveiti (í dag notaði ég 100 g af hveiti og 200 g af heilhveiti)
300 g sykur (ég notaði 100 g af hrásykri)
300 g gróft haframjöl
300 g smjör (eða smjörlíki fyrir þá sem vilja)
2 tsk natron
rabbabarasulta að smekk hvers og eins
Öllu blandað saman í skál. Þremur fjórðu hlutum deigsins er þrýst í botninn á ofnskúffu (uppskriftin passar í ofnskúffu sem ég á úr gamalli Rafha-eldavél) og afgangurinn af deiginu er mulinn yfir sultuna. Kakan er bökuð í 30-40 mín við 180 gráður. Á uppskriftarsíðunni Albert eldar kemur fram að sælan verður seigari eftir því sem hún er bökuð lengur.
Fljótlega rabbabarapæjan
4-6 rabbabarar
2-3 msk af sykri
Rabbabarinn er skorinn í smáa bita og dreift í eldfast mót. Sykrinum er stráð yfir.
Svunta pæjunnar
2 dl hveiti
2 dl sykur (ég nota 1 dl af hrásykri)
2 egg
100 g brætt smjör (eða smjörlíki fyrir þá sem vilja)
Þessa „svuntu“ má nota ofan á hvaða berja eða ávaxtablöndu sem er, eins og bláber, epli, jarðaber eða perur.
Egg og sykur eru þeytt saman. Hveitið er sigtað saman við og bræddu smjörinu er að lokum hrært varlega saman við „soffuna“. Deiginu er síðan hellt yfir rabbabarann. Það er hægt er að strá kókosmjöli eða hnetu- eða möndluflögum yfir pæjuna áður en hún er bökuð í 180 gráðu heitum ofni þar til hún orðin gyllt. Pæjan er borin fram volg með þeyttum rjóma eða vanilluís. Eða bara bæði.

Í fyrrasumar aðstoðaði vinnukonan og rabbabarapæjan Freyja Ösp mig við að taka upp rabbabarann.