Vefumræður og umræðutímar

Á flestum námskeiðum sem ég hef komið að við Menntavísindasvið Háskóla Íslands eru vefumræður og á mörgum þeirra eru líka umræðutímar eða málstofur um lesefni námskeiðsins. Vefumræðunum og umræðutímunum eru misjafnlega mikið stýrt af kennurum og þátttaka og virkni nemenda er einnig mismikil.

Við undirbúning á einu námskeiða næsta hausts datt mér í hug að reyna að tengja þessa tvo þætti námskeiðsins saman og gefa þar með nemendum færi á að nýta valda hluta þess sem þau ræða (skriflega) í netumræðunum í litlum hópi á lokuðu svæði þegar þau mæta í umræðutíma. Ég vildi líka auka möguleika nemenda á því að hafa áhrif á það sem rætt er í umræðutímunum. Námskeiðið er á meistarastigi og fer að mestu leyti fram sem netkennsla.

Myndin er fengin frá Unsplash Photos og er eftir Mimi Thian

Til að gera ofangreint þá valdi ég þrjár af fjórum lotum námskeiðsins þar sem nemendur fá það verkefni í umræðuhópunum að setja inn á Padlet-vegg tvær spurningar, pælingar eða álitamál sem þau vilja leggja fram í næsta umræðutíma. Þannig verður til safn pælinga úr öllum hópunum.

Á Padlet-veggnum á hver lota einn dálk þannig að spurningar allra hópa úr öllum lotunum eru á einum stað. Í einum umræðutímanum er einnig til umræðu efni úr fyrirlestri sem nemendum er boðið á. Til að safna saman pælingum nemenda jafnóðum á þeim fyrirlestri er ætlunin að þau nýti símana sína til skráningar á efni sem þau sjá fyrir sér að hægt sé að taka fyrir í umræðutímanum. Til þess stofnaði ég umræðusvæði á Sli.do. Það svæði er líka aðgengilegt á Padlet-veggnum.

Þegar nemendur koma svo í umræðutímana er ætlunin að í upphafi skoði kennari og nemendur saman það sem hóparnir hafa sett inn á Padlet-vegginn. Eftir það verður nemendahópnum skipt í smærri hópa (break-out rooms). Í hópastarfinu velja hóparnir sér efni af Padlet-veggnum til að ræða um og skrá niðurstöðuna svo á annan Padlet-vegg. Þannig verða til samantektir úr umræðunum sem verða öllum nemendum aðgengilegar. Það safn verður svo grundvöllur umræðu með öllum nemendum áður en umræðutímanum lýkur. Til að auðvelda aðgengi nemenda að seinni Padlet-veggnum er hann líka að finna á þeim fyrri. Nemendur fá því aðeins einn hlekk til að halda sig við. Á honum finna þau efni, verkefnalýsingar og skil sem á að nýta í öllum umræðutímum námskeiðsins.

Með þessu fyrirkomulagi vil ég:

  • Styrkja og tengja saman einstaka þætti námskeiðsins sem áður geta virst án samhengis.
  • Virkja nemendur til að hafa áhrif á hvað rætt er í umræðutímum.
  • Gefa vefumræðum á lokuðum svæðum innan vefumsjónarkerfisins Canvas líf með því að færa valda hluta úr henni til fleiri nemenda; úr skrifuðu máli í lifandi umræður í fleiri hópum.
  • Að nemendur þjálfist í að deila með öðrum pælingum sínum (skriflega og munnlega) um viðfangsefni námskeiðsins og að þannig verði til vísir að námssamfélagi innan nemendahópsins.

Það verður svo spennandi að sjá hvort ég muni ná markmiðunum með þessu fyrirkomulagi.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.