Orðaský í netkennslu

Í síðustu „staðlotuviku“ Háskóla Íslands sem aftur fór öll fram á netinu, notaði ég orðaský tvisvar sinnum í kennslustund. Þegar ég var að setja saman kennslustundina og datt í hug að nota orðaský velti ég fyrir mér hvort það væri nokkuð fyrir fullorðna. Eftir örstutta umhugsun lét ég slag standa og hugsaði með mér að það kæmi bara í ljós. Ég hefði sjálf gaman að þeim og þau sýna á auðveldan og lifandi hátt það sem nemendur eða þátttakendur í viðburði vilja segja svo þetta gæti varla tekist illa.

Hérna fyrir neðan er dæmi þar sem þátttakendur í Makerý-helgi Vexa hópsins hafði um þá upplifun að segja. Flest forrit sem nýtt eru til að búa til orðaský gefa möguleika á að orðin sem oftast eru nefnd eru stærst í orðaskýinu.

Halda áfram að lesa

Deila verkefnum inn í hópherbergi í netkennslu

Í netkennslu nýta kennarar hópherbergi (e. breakout rooms) fyrir hópaumræður. Þá vaknar spurningin hvernig eigi að deila verkefnum eða fyrirmælum til nemenda þannig að verkefnin fylgi þeim inn í hópherbergin.

Í kennslunni í vetur hef ég að mestu nýtt Google slides og Zoom. Ég hef notað tvær leiðir til að deila fyrirmælum með nemendum sem þau segja að nýtist vel.

Dæmi um glæru með hópaverkefni frá því í kennslustund í gær.

1. Ég geri glærusýningu sem inniheldur bara glæruna með fyrirmælunum og deili slóðinni svo í spjallinu á Zoom þá geta nemendur opnað slóðina og séð glæruna með verkefninu og fyrirmælum þess. Ég hef slóðina í minnispunktum fyrirlesara svo ég sé fljót að sækja hana og deila til nemenda. Það er líka hægt að hlaða glærunni með fyrirmælunum niður sem ljósmynd og deila þeirri skrá með nemendum. Mér finnst það aðeins seinlegri leið.

2. Ég set líka Qr kóða á slóðina inn á glæruna sem nemendur sjá á meðan ég gef fyrirmælin. Þá geta þau sem vilja komist inn á glæruna með fyrirmælunum með því að skanna Qr kóðann með myndavél símans og haft fyrirmælin á símaskjánum sínum á meðan þau eru í hópastarfinu. Ég nota QRQode Monkey til að búa til kóðana.

Hvað hefur gagnast þér? Hérna er umræða úr Facabook hópnum Upplýsingatækni í skólastarfi þar sem nokkrir kennarar segja svara þessari spurningu.

Leiðsagnarnám og lifandi netkennslustundir

Halldór Björgvin Ívarsson í viðtali við blaðamann Kjarnans. Myndin er fengin að láni úr viðtalinu sem birtist í Kjarnanum í maí 2020.

Í lok nóvember sl. hlustaði ég á kynningu hjá Halldóri Björgvin Ívarssyni kennara við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Þar sagði hann frá því hvernig hann nálgast leiðsagnarnám og hvernig honum tókst að færa það skipulag og áherslur yfir í netkennslu.

Af kynningu Halldórs Björgvins var ljóst að hann hafði ástríðu fyrir því að kennslan vekti áhuga nemenda og hann lagði sig fram um að finna leiðir til að virkja nemendur þannig að þeir hafi áhrif á eigið nám ásamt því að gefa þeim tækifæri til þess að eiga hlutdeild í því hvernig verkefni þeirra eru metin. Eftir kynninguna hafði ég samband við Halldór Björgvin til að fá hann í viðtal í Hlaðvarp Bara byrja. Hann varð við bóninni og hérna fyrir neðan getur þú hlustað á viðtalið við hann og kennslu-kisuna Töru. Þar segir hann frá verkfærunum sem hann notar og skipulaginu sem hann styðst við; m.a. skammtaaðferðinni og nálgun hans á leiðsagnarnámið.

Hlusta á Spotify eða Apple Podcasts.