Rabbabarinn út um allt

img_6694Árlega fæ ég, eins og aðrir, meiri uppskeru af rabbabara en ég get nýtt mér. Í fyrrasumar prófaði ég tvisvar sinnum að setja hann í snyrtileg 1 kg. knippi og bjóða þau sundgestum í Jónasarlaug á Þelamörk. Á síðasta mánudag gerði ég þetta aftur. Í öll skiptin hefur rabbabarinn gengið út og vonandi komið öðrum að góðum notum í stað þess að flæða um grænmetisbeðið hjá mér eða þorna upp í frystikistunni.

Í ár fékk ég góða aðstoð frá vinnukonum sem voru í heimsókn í sveitinni. Þær undu sér vel úti við það að skera blöðkuna af rabbabaranum og skera stönglana í tvennt ef þeir voru of stórir.

Lesið fyrir ömmu á Flipgrid

Af reynslunni, bæði sem kennari og móðir, veit ég að það getur verið erfitt að koma heimalestri fyrir svo hann verði að yndisstund bæði fyrir þann sem hlustar og þann sem les. Ég á barnabörn sem ekki búa í nálægð við mig. Tvö þeirra eru byrjuð í skóla og eru því með heimalestur. Þau ganga í sitt hvorn skólann og fyrir ömmu sem hefur áhuga á kennslu og skipulagi hennar hef ég gaman af því að fylgjast með skipulaginu í skólunum í kringum þessi tvö og hvernig það hefur áhrif á áhuga þeirra og elju við lærdóminn.

lesid fyrir ommu

Árni Heiðar les á meðan amma fær sér skyr eftir æfingu.

Ég hef verið svo lánsöm að fá að fylgjast með heimalestrinum. Við höfum mikið notað myndsímtöl eins og Facetime. Þá hringja krakkarnir í mig og lesa fyrir mig og svo falsa þau undirskrift ömmu á kvittanablaðið í lestrardagbókinni.

Þessi leið er skemmtileg því að við erum í samskiptum á rauntíma og getum rætt um lesturinn og innihald textans jafnóðum og lesturinn fer fram. En þessi aðferð krefst þess að ég sé tiltæk þegar þau eru reiðubúin til að lesa og það er nú ekki alltaf þannig svo ég hef farið á mis við nokkur góð lestrartilboð. Ég fann þá út að við þyrftum að finna annað fyrirkomulag sem hentaði okkur betur.

Á menntabúðum #Eymennt hafði ég kynnst Flipgrid en skildi ekki fullkomlega hvernig það virkaði eða hver galdurinn væri eiginlega við það umfram það að taka bara upp myndbönd og senda sín á milli. En Flipgrid er miklu meira en það. Flipgrid er vefsvæði og líka smáforrit þar sem hægt er að taka upp stutt myndbönd um efni eða efnisþætti sem fjallað er um hverju sinni. Það sameinar kosti samfélagsmiðla við nám og kennslu. Það er áskorun fyrir kennarann að hugsa upp hvernig hann setur efnið fram á skipulegan hátt þannig að auðvelt sé fyrir nemendur að rata um Flipgrid-ið og líka einfalt fyrir kennarann sjálfan í úrvinnslu. Hægt er að stilla verkefni og skilum nemenda þannig að nemendur geti svarað hver öðrum og gefið hver öðrum endurgjafir eða spurt spurninga.

Halda áfram að lesa

Takk sóðar!

20140509-155620.jpg

Nú um stundir þegar snjóa leysir meðfram vegum eru góðir tímar hjá þeim sem hafa vanið sig á tína upp flöskur og dósir. Verðmætin koma undan snjónum og glampar á þau á meðan sólin er lágt á lofti. Verst hvað verðmætin eru á víð og dreif og hvað kostar mikla fyrirhöfn að safna þeim saman.

Á meðan ég ek eftir vegum landsins hef ég ofan af fyrir mér með því að skipuleggja alls kyns hjólatúra og gönguferðir sem allar hafa það að markmiði að tína saman verðmætin í vegaköntunum. Þessi verðmæti lenda svo í sjóðnum okkar á Þeló sem heitir Komandi kynslóðir. Smælkið í fjölskyldunni fær úthlutað úr honum í hluti og verkefni sem víkka sjóndeildarhring þeirra, m.a. í ferðalög og hreyfingu. Sjóðurinn kom sér vel í vetur þegar þurfti að kaupa búnað svo að Skíðaskóli ömmu gæti starfað.

Sjóðurinn væri minni ef ekki væru til sóðar sem henda flöskum og dósum í vegakanta. Í gær þegar ég ók yfir Láxárdalsheiðina blasti við mér hrúga af gos- og bjórflöskum í vegarkantinum. Einhver sóðinn hefur sennilega fundið hjá sér þörf fyrir að taka til í bílnum sínum uppi á miðri heiði og tæmt úr bílnum á einum stað. Ég snarhemlaði auðvitað og vatt mér út úr bílnum og tíndi saman á einum örlitlum bletti töluvert mikil verðmæti í sjóðinn góða.

Það myndi einfalda söfnun mína ef allir sóðar gætu tekið snyrtimennsku sóðans sem skyldi þessa hrúgu eftir uppi á heiði sér til fyrirmyndar.

Takk sóðar, snyrtilegir sem sóðalegir, fyrir framlag ykkar í sjóðinn, Komandi kynslóðir.

Sumargjafir

Á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti og allt útlit fyrir að veðrið muni minna á vorið og sumarið.

Enn fagna skátarnir sumrinu með skátamessu í Hallgrímskirkju en ekki veit ég hvort það er líka ennþá gert á Ísafirði. Ég man eftir því að sem yrðlingur og skáti hafi ég ásamt öðrum krökkum á Ísafirði mætt í skrúðgöngu sem þrammaði í hvaða veðri sem var frá Skátaheimilinu að kirkjunni til að fagna komu sumarsins.

Þennan dag fengum við líka sumargjafir. Það var venjulega eitthvað sem minnti á sumarið; bolti, sippuband eða ný sumarföt.

Sumargjafir smælkisinsÉg ákvað fyrir páskana að gefa smælkinu ekki páskaegg, heldur að halda mig við að gefa þeim sumargjafir. Í ár voru þær flestar heimagerðar. Kallavettlingar sem mamma prjónaði fyrir Freyju Ösp og hún heklaði líka Hello Kitty tösku fyrir Karen Sif. Á meðan heklaði ég smekki fyrir litla Hjörvar Húna sem er þriggja mánaða í dag. Árni Heiðar fær almennileg sundgleraugu fyrir börn svo hann geti kafað án þess að gleraugun fyllist af vatni.

Sjálf fékk ég mér nýjan hlaupajakka.

Gleðilegt sumar.

Nei, það er ekki pláss

Þegar ég hitti Karen Sif í fyrrakvöld átti hún, sem fyrr, svör við öllu sem við mamma hennar sögðum við hana. Hún sagði nokkuð oft það sama við beiðnum okkar: Nei, það er ekki pláss. Koddu, bíddu, sjáðu, heyrðu og sko voru líka vinsæl orð þetta kvöld.

Í sumum tilfellum fannst mér nei, það er ekki pláss alls ekki passa við og velti fyrir mér af hverju hún notaði þetta svar. Gat mér þess til að hún væri nýlega búin að uppgötva þetta svar og að það hefði þá verið endanlegt svar einhvers við beiðni frá henni. Lokasvar, án umræðu. Og nú væri um að gera að prófa frasann í sem flestum aðstæðum og kanna mátt hans.

Ég man ekki eftir að hafa fylgst jafn nákvæmlega og af eins mikilli aðdáun með málþroska barna minna eins og ég fylgist með framförunum hjá smælkinu. Og um þessar mundir þegar ég hitti þau sjaldnar verða framfarirnar mér augljósari og ekki minnkar aðdáunin. En það er víst náttúrulegt hlutverk ömmunnar og auðvitað líka afans.

Í gær og í morgun hef ég svo gert tilraunir með þetta svar og komist að því að það hentar við ansi mörgu; fleiru en ég átti von á:

Er búið að fara út með ruslið? Nei, það er ekki pláss.
Geturu lækkað í sjónvarpinu? Nei, það er ekki pláss.
Ætlaru með mér út að hlaupa? Nei, það er ekki pláss.
Eigum við að hittast á kaffihúsinu? Nei, það er ekki pláss.
Við viljum launahækkun. Nei, það er ekki pláss.
Það þarf að hagræða í ríkisrekstrinum. Nei, það er ekki pláss.
Það þarf að kaupa ný tæki á Landsspítalann. Nei, það er ekki pláss.

Eins og áður veit smælkið hvað það syngur. Prófaðu bara!

Muffins með smælkinu

Banana- og bláberjamuffins

Banana- og bláberjamuffins

Í morgun heyrði ég fram í þvottahús að Árni Heiðar sagði í spurnartón við afa sinn: Kex? Afi hans svaraði eins og öfum ber: Já, fáðu þér kex. Ég heyrði svo að kexskúffan opnaðist og að gramsað var í henni. Stuttu seinna heyrði ég afa segja: Nei, ekki þetta. Þetta er ekki kex, þetta er Prins póló.

Svo hér verði nú ekki bara borðað sætt kex og annað sem smælkið velur sjálft úr skúffum og skápum um helgina (þá var Karen Sif líka komin og von var á Freyju Ösp), ákvað ég að baka muffins sem þykja í hollari kantinum. Það er líka mesta skemmtun fyrir smælkið að fá að baka á Þeló.

5 msk smjör eða kókosolía (við notuðum kókosolíu)

1/4 b hrásykur

1 stórt egg

1/2 b mjólk

2 1/2 b fínt spelt

1 tsk lyftiduft

2 vel þroskaðir bananar, stappaðir

1 b bláber (við áttum bara frosin, smælkið hafði úðað öllum nýtíndu berjunum í sig í morgunkaffinu)

Ofninn er hitaður í 200° C. Hræra saman kókosolíu og hrásykri þar til það er létt. Við settum þetta í hrærivélina og skiptumst á að setja hana í gang og slökkva á henni. Svo var egginu bætt við og síðan mjólkinni, mjölinu og lyftiduftinu. Að lokum er stöppuðum bönönum hrært saman við og síðast blárberjunum. Það er ágætt að miða við að hræra ekki mikið í deiginu eftir að mjölið er komið í og alls ekki mikið eftir að bláberin hafa verið sett í deigið.

Svo skipti smælkið á milli sín að raða formum á plötu og við settum deig með teskeiðum í formin. Það borgar sig að spara ekki deigið í hvert form. Kökurnar eru bakaðar í 20-25 mínútur.

Þetta smakkaðist vel og hefði smakkast betur ef við hefðum sett örlítið af salti útí deigið. Þess þarf sennilega ekki ef maður notar smjör.